Í september síðastliðnum tilkynntu Universal Pictures að gerðar yrðu þrjár kvikmyndir og sjónvarpssería byggð á Dark Tower bókaseríunni víðfrægu eftir Stephen King. Um svipað leyti kom í ljós að Ron Howard myndi leikstýra og Akiva Goldsman myndi skrifa handritin. Howard hefur leikstýrt myndum á borð við A Beautiful Mind, sem Goldsman skrifaði.
Dark Tower serían samanstendur af sjö bókum, en sú áttunda er væntanleg, og nokkrum myndasögum, en sagan fjallar um byssumanninn og töffarann Roland Deschain og ferðalagi hans að hinum Myrka Turni sem og baráttu hans við The Man in Black. Nú hefur Ron Howard lýst því yfir að nokkrir leikarar eru í viðræðum fyrir hlutverk Rolands og ber þar helst að nefna Viggo Mortensen. Mortensen, sem flestir þekkja sem Aragorn úr Hringadróttinssögu, hefur lengi verið í uppáhaldi aðdáenda bókanna og segist Howard gera sér fyllilega grein fyrir því. Á meðal annarra leikara sem koma til greina eru Daniel Craig, Hugh Jackman og Jon Hamm.
Dark Tower verkefnið hjá Universal verður einstaklega stórt, en eins og áður kom fram mun serían samanstanda af þremur kvikmyndum í fullri lengd, og sjónvarpssería sem verða sýndar á milli útgáfu kvikmyndanna. Munu sjónvarpsþættirnir brúa bilið á milli myndanna og skarta öllum sömu leikurum og persónum. Verður því að segjast að þeir sem ganga til liðs við þá Howard og Goldsman verði uppteknir í náinni framtíð.
– Bjarki Dagur