Vel heppnað áframhald

Í stuttu máli er “Doctor Sleep” vel heppnað áframhald af hinni klassísku “The Shining” og er sannarlega verk leikstjórans Mike Flanagan sem þó tekst vel að sameina ólíkar sýnir Stephen King og Stanley Kubrick.

Danny Torrance (Ewan McGregor) hefur átt erfitt uppdráttar í lífinu eftir upplifun sína í æsku á Overlook hótelinu fyrir tæpum fjórum áratugum síðan. Hann þjáist af þunglyndi, er alkóhólisti og lifir á brúninni.  Danny býr einnig yfir mikilli skyggnigáfu sem hann reynir að bæla niður. Með hjálp frá Billy (Cliff Curtis) kemur hann lífinu á beinu brautina og fær vinnu sem sjúkraliði þar sem hann veitir sjúklingum huggun á dánarbeði sínu.

Abra (Kyliegh Curran) er táningsstúlka með mikla skyggnigáfu sem nær sambandi við Danny en kemst einnig á snoðir um Rose the Hat (Rebecca Ferguson), illan leiðtoga hálfgerðs söfnuðar sem kallast True Knot. Meðlimir söfnuðarins drepa fólk með skyggnigáfu og nærast á „gufu“ þeirra og veitir gufan þeim kraft og mikið langlífi. Abra er nú komin á radar Rose og Danny þarf að skerast í leikinn til að vernda táningsstúlkuna.

Skáldsagan „Doctor Sleep“ (gefin út árið 2013) eftir Stephen King er framhald af „The Shining“ (gefin út árið 1977). Eins og langflestir kvikmyndaunnendur vita var „The Shining“ gefin út sem kvikmynd árið 1980 og var leikstýrt af Stanley Kubrick og er sú mynd afar hátt skrifuð. En King var ekki hrifinn af útfærslu Kubricks sem breytti ýmsu og m.a. var niðurlag myndar og bókar töluvert öðruvísi. „Doctor Sleep“ eftir King tekur mið af skáldsögunni (vitaskuld) en kvikmyndaútfærslan samþættir meginþemað í bókinni og heldur til haga ýmsu úr mynd Kubricks (og er það gert með samþykki rithöfundarins).

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Mike Flanagan („The Haunting of Hill House“) gerir einstaklega vel í að tvinna saman sýn Kings og Kubrick ásamt því að gera nógu margt eftir sínu höfði til að sjá til þess að „Doctor Sleep“ sé hans eigið verk. Öllum helstu persónunum er vel komið til skila og gæðaleikarar standa sig vel. Sérstaklega góðar eru Ferguson sem hin verulega illa Rose og nýstyrnið Curran sem tekst á við krefjandi hlutverk og stendur sig með stakri prýði. Stemningin er góð með hægum en stöðugum stíganda sem nær hápunkti í nokkrum verulega óhugnanlegum og spennuþrungnum atriðum. Flanagan nær að halda dampi allan tímann (myndin er 152 mínútur að lengd) og er ekki yfir það hafinn að fleygja inn smá bregðuatriðum til að halda öllum við efnið.

Pælingar Kings hér eru djúpar og ímyndunaraflið í hámarki. Rauði þráðurinn er bataferli Danny sem á sér fleiri en eina birtingarmynd en rithöfundurinn kafar enn dýpra í skyggnigáfu hans og gefur innsýn í annan eins einstakling sem býr yfir enn meiri hæfileikum í þeim efnum. Einnig er söfnuðurinn True Knot af skrýtnari gerðinni en meðlimum hans mætti helst líkja við vampírur sem nærast á „gufu“ (eða lífskrafti) einstaklinga með skyggnigáfu en án gufunnar visna þeir upp. Sjónrænn stíll er einnig til fyrirmyndar en nokkur atriði gefa innsýn í hvernig skyggnigáfa Danny, Öbru og Rose lítur út og það tekst vel til.

Á heildina litið fór „Doctor Sleep“ fram úr björtustu vonum rýnis. En því miður virðist ekki vera mikill áhugi fyrir myndinni þar sem hún stefnir hraðbyri í að verða eitt af „floppum“ ársins í miðasölu.