Harðsoðin og ræðin séntilmenni

Hasskóngurinn Mickey Pearson (Matthew McConaughey) hefur komið sér upp miklu veldi í London og hefur selt varning sinn og forðast langan arm laganna við góðan orðstír meðal allra í undirheiminum. Nú vill hann selja ríkidæmi sitt hæstbjóðanda og njóta seinni hluta lífs síns í makindum ásamt konu sinni Rosalind (Michelle Dockery). Þá fer af stað allsvakaleg atburðarrás og glæpaforingjar víðsvegar sjá sér leik á borði að sölsa undir sig veldi Mickey‘s með tilheyrandi uppákomum og hasar. Áberandi í þessari framvindu er slúðurblaðamaðurinn Fletcher (Hugh Grant) sem reynir hvað hann getur að færa sér í nyt alla ringulreiðina.

Flott í tauinu.

Leikstjórinn Guy Ritchie hefur komið víða við en hann er mest á heimavelli þegar kemur að undirheimalýðnum í Bretlandi. Tvær af hans dáðustu myndum; „Lock, Stock and Two Smoking Barrels“ og „Snatch“ eru algerlega hans eigin verk og hafa að vissu leyti plantað honum í sérstaka tegund af kvikmyndum. Hann hefur vissulega söðlað um og reynt að setja mark sitt á m.a. Sherlock Holmes, Arthúr konung og Aladdin en helst hlýtur hann lof fyrir glæpamyndir sínar.

Yfirmáta ýktar týpur

The Gentlemen“ býr yfir mörgum af hans sérkennum. Hér eru yfirmáta ýktar týpur af glæponum stórum og smáum sem eru gefnir fyrir einræður og orðaleiki sem erfitt er að sjá fyrir sér að nokkur venjulegur einstaklingur myndi leika eftir. Einnig er að finna harðsoðið ofbeldi sem ýmist er óþægilega raunverulegt eða algerlega ýkt og yfirleitt slúttast það með kómískum stíl og svo má ekki gleyma hreint „absúrd“ sjónrænum stíl, furðulegum stílbrögðum í klippingum og tónlistarnotkun sem skjóta upp kollinum á furðulegustu stöðum.

Ritchie er hinn fínasti sögusmiður og plottið í „The Gentlemen“ er hið ágætasta. Það er ekki ýkja flókið en það þolir illa nærskoðun sérstaklega þegar rýnt er í alla óvæntu framvinduna sem framkallar „twist“ ofan á „twist“ á lokasprettinum. Fyrri hlutinn af myndinni líður dálítið fyrir sérvisku Ritchie‘s með óþarfa stílbrögðum sem draga úr flæðinu og bæta engu við efniviðinn en hún finnur rétta taktinn eftir hlé og viðheldur háu skemmtanagildi allt til loka.

Hugh Grant ræðir málin.

Það er einnig sérlega vel valið í hlutverk og gæðaleikarar minna allverulega á sig. McConaughey er aldrei neitt sérstaklega sannfærandi sem Mickey en engu að síður stendur hann sig með prýði. Persóna hans er verulega vanþróuð og mikið spurningarmerki allan tímann og hefði mátt eyða meira bleki í að raungera hann. Charlie Hunnam („King Arthur: Legend of the Sword“) er virkilega góður í hluverki Ray, aðstoðarmanns Mickey og Henry Golding („Last Christmas“) sýnir góða takta sem Dry Eye, glæpaforingi sem ásælist veldi Mickeys. Colin Farrell er frábær í hlutverki hins heiðvirða Coach (sem vafalaust á sér litríka fortíð) sem dregst óvænt inn í atburðarrásina og reynist betri en enginn. En senuþjófurinn er Grant sem nýtur sín til hins ýtrasta að leika smeðjulega týpu sem reynir að notfæra sér allt og alla til að koma sér vel fyrir fjárhagslega.  

Tikkar í boxin

„The Gentlemen“ tikkar í réttu boxin fyrir unnendur Ritchie‘s og harðsoðinna glæpamynda almennt. Hún tekur sig aldrei of alvarlega og húmorinn er mikill þó hann sé vissulega í dekkri kantinum. Eðal hópur leikara setur punktinn yfir i-ið og sér til þess að markhópurinn gengur sáttur frá.