Móses orðinn hasarhetja

Móses, úr Biblíunni, hefur hingað til haft þá ímynd úr Hollywoodkvikmyndunum, að vera hvíthærður, með úfið skegg haldandi á löngum göngustaf, og með rautt reipi um sig miðjan, þökk sé meira en hálfrar aldar gamalli túlkun manna eins og Cecil B. DeMille og Charlton Heston.

Nú er hinsvegar að verða breyting þar á ef eitthvað er að marka nýjustu myndina úr Móses myndinni Exodus: Gods and Kings, en þar leikur stórleikarinn Christian Bale Móses í leikstjórn Ridley Scott.

bale

Eins og sést á myndinni, sem birtist fyrst í tímaritinu Entertainment Weekly, þá er þessi nýja útgáfa af Móses meira í ætt við hasarhetjur en hvíthærðan öldung. Móses er þarna í fullum herklæðum, á hestbaki að berja af sér óvinina.

Eins og sést síðan hér fyrir neðan, á fyrstu ljósmyndinni sem birt var úr kvikmyndinni, sem birtist í desember sl., þá á Móses sína rólegu stundir líka:

Exodus_40896

Þessar tvær ljósmyndir eru þær einu sem hafa hingað til sést úr myndinni, en ekkert hefur enn sést til aukaleikaranna, sem eru þó ekki af verri endanum, fólk eins og Aaron Paul, Joel Edgerton, Sigourney Weaver, Ben Kingsley og John Turturro.

Gods and Kings er kvikmyndagerð á biblíusögunni um það þegar Gyðingum var haldið sem þrælum af Faraónum í Egyptalandi, þar til Móses frelsaði þá.

Myndin kemur í bíó 12. desember nk.