Disney kvikmyndafyrirtækið hyggst gera leikna mynd eftir The Jungle Book, eða Skógarlífi, eins og bókin heitir á íslensku, að því er The Hollywood Reporter greinir frá.
The Jungle Book er eftir rithöfundinn Rudyard Kipling. Justin Marks hefur verið ráðinn til að skrifa handrit myndarinnar.
The Jungle Book er safn smásagna og var fyrst gefið út árið 1894, en flestar sögurnar fjalla um Mowgli, ungan dreng sem er alinn upp af úlfum og á vini eins og björninn Baloo og pardusdýrið Bagheera. Einnig kemur við sögu tígrísdýrið grimma Shere Khan.
Disney gerði fræga teiknimynd eftir bókunum árið 1967, en sú mynd var sú síðasta sem Walt Disney sjálfur framleiddi, en hann lést á meðan á framleiðslu myndarinnar stóð.
Einnig hafa verið gerðar leiknar myndir og ýmsar teiknimyndir aðrar eftir bókunum í gegnum tíðina.
Mynd Disney er enn á frumstigi og verið er að leita að framleiðendum og leikstjóra.
Vinsælt hefur verið á síðustu árum að gera leiknar myndir eftir þekktum ævintýrum og barnasögum. Tim Burton gerði Lísu í Undralandi fyrir nokkrum árum, en sú mynd sló í gegn og þénaði einn milljarð Bandaríkjadala. Maleficent, sem er byggð á ævintýrinu um Mjallhvíti, er í vinnslu, og leikstjórinn Kenneth Branagh er að vinna að mynd sinni um Öskubusku, en tökur hennar hefjast í haust.