Framhaldsmyndin Man of Steel 2 þar sem Ben Affleck leikur Batman er væntanleg í bíó árið 2015.
Áður en tökurnar hefjast næsta sumar mun Affleck einbeita sér að tveimur öðrum myndum.
David Fincher leikstýrir honum í Gone Girl sem er spennumynd, byggð á skáldsögu Gillian Flynn. Mótleikkona hans er Rosamund Pike. Framleiðsla á að hefjast núna í september.
Affleck er einnig að undirbúa sitt fjórða leikstjóraverkefni en síðasta mynd hans, Argo, vann Óskarinn sem besta myndin fyrr á árinu. Nýja myndin heitir Live by Night og skrifaði Affleck handritið sjálfur upp úr skáldsögu eftir Dennis Lehane. Bókin Gone, Baby, Gone, sem var einnig eftir Lehane, var einmitt grunnurinn að fyrsta leikstjóraverkefni Affleck.
Live by Night er dramatísk glæpamynd. Affleck leikur son lögreglumanns sem stundar glæpi á bannárunum á þriðja áratug síðustu aldar. Kvikmyndaverið Warner Bros. hefur staðfest að myndin komi í bíó snemma árið 2014.