Napoleon og Ilya í köldu stríði – Fyrsta stikla úr The Man from U.N.C.L.E.

Ný stikla er komin út fyrir nýjustu mynd Guy Ritchie, The Man from U.N.C.L.E. Það er óhætt að segja að myndin líti vel út; ævintýri, spenna, grín og njósnir í góðri blöndu, með smá skammti af fegurð og þokka, karla og kvenna, ef eitthvað er að marka stikluna.

2015TheManFromUNCLE_Press2_120215

Sagan gerist í miðju kalda stríðinu á fyrri hluta sjöunda áratugs síðustu aldar þegar bandaríski leyniþjónustumaðurinn Napoleon Solo, sem enginn annar en Man of Steel leikarinn Henry Cavill leikur, og KGB maðurinn Ilya Kuryakin, í túlkun Lone Ranger leikarans Armie Hammer ( reyndar dálítið einkennilegt að hlusta á Hammer tala með rússneskum hreim! ) vinna saman að því að finna dularfull glæpasamtök sem vinna að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hugh Grant leikur einnig stórt hlutverk.

Myndin er byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum frá sjöunda áratug síðustu aldar,  en 105 þættir voru framleiddir á árunum 1964 til 1968.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

The Man From U.N.C.L.E. kemur í bíó 14. ágúst nk. Myndin er sú fyrsta sem Ritchie gerir síðan Sherlock Holmes: A Game Of Shadows var frumsýnd árið 2011.