Ný stikla er komin út fyrir nýjustu mynd Guy Ritchie, The Man from U.N.C.L.E. Það er óhætt að segja að myndin líti vel út; ævintýri, spenna, grín og njósnir í góðri blöndu, með smá skammti af fegurð og þokka, karla og kvenna, ef eitthvað er að marka stikluna.
Sagan gerist í miðju kalda stríðinu á fyrri hluta sjöunda áratugs síðustu aldar þegar bandaríski leyniþjónustumaðurinn Napoleon Solo, sem enginn annar en Man of Steel leikarinn Henry Cavill leikur, og KGB maðurinn Ilya Kuryakin, í túlkun Lone Ranger leikarans Armie Hammer ( reyndar dálítið einkennilegt að hlusta á Hammer tala með rússneskum hreim! ) vinna saman að því að finna dularfull glæpasamtök sem vinna að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hugh Grant leikur einnig stórt hlutverk.
Myndin er byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum frá sjöunda áratug síðustu aldar, en 105 þættir voru framleiddir á árunum 1964 til 1968.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:
The Man From U.N.C.L.E. kemur í bíó 14. ágúst nk. Myndin er sú fyrsta sem Ritchie gerir síðan Sherlock Holmes: A Game Of Shadows var frumsýnd árið 2011.