Í stuttu máli er „Dunkirk“ sjónræn upplifun eins og hún gerist best og fangar veruleika stríðs á frumlegan og áhrifaríkan hátt.
-Taka skal fram að endanum er að hluta ljóstrað upp í lok gagnrýni –
Árið 1940 í seinni heimsstyrjöldinn hefur þýski herinn króað af breska og franska hermenn og neytt um 400.000 þeirra til að koma sér fyrir á strandlengjunni í hafnarbænum Dunkirk í Frakklandi. Þar bíða yfirmenn og fótgönguliðar í örvæntingu eftir björgun en Þjóðverjar eru í kjörstöðu til að senda orrustuvélar í lofti og einfaldlega dæla sprengum á strandlengjuna. Bresk stjórnvöld biðla til venjulegs fólks sem á báta að halda til Dunkirk og aðstoða herinn við að flytja menn yfir Ermasundið.
Leikstjórinn Christopher Nolan skiptir myndinni í þrjá aðskilda kafla sem greina frá hættunum sem nokkrir upplifa. Fyrsti hlutinn („The Mole“) greinir frá fótgönguliðanum Tommy (Fionn Whitehead) sem gerir hvað hann getur til að lauma sér um borð í skip. Ítrekað lendir hann í hættu í tilraunum sínum til að flýja svæðið og fær að kynnast ljóta eiginleikanum sem lífsvilji manna getur falið í sér. Þessi hluti sögunnar tekur viku að gerast.
Annar hlutinn („The Sea“) gerist á einum degi og greinir frá hinum venjulegu skipverjum sem héldu á hættuslóðir til að hjálpa til við flutningana frá frönsku borginni. Fylgst er með Herra Dawson (Mark Rylance), syni hans og öðrum ungum strák sem halda af stað og taka um borð hermann sem þeir finna út á hafi (Cillian Murphy) sem er í greinilegu losti og reynir að hindra áframhaldandi för þeirra að átakasvæðinu.
Þriðji hlutinn („The Air“) greinir frá tilraunum flugmanna breska hersins (Tom Hardy þar á meðal) til að skjóta niður þýskar vélar með það markmið að ráðast á komandi skip og á ströndina. Atburðir þessa hluta gerast á einni klukkustund.
Samþættingur þessara hluta býr til atburðarrás sem heldur dampi allan tímann og varla er dauða mínútu að finna. Úr þessu verður mögnuð sjónræn upplifun sem fer langa leið með að draga áhorfandann inn í þennan hrylling og þökk sé magnaðri kvikmyndatöku og frábærum sjón- og hljóðbrellum tekst Nolan hugsanlega betur en nokkrum öðrum að koma til skila þessari tilfinningu um hræðslu, vonleysi og, á endanum, hreinni alsælu þegar kraftaverk gerðist.
Myndin lætur sig ekki varða neina persónusköpun og það fyrsta sem sló gagnrýnanda var að það væru mistök. Áhorfendur vita ekki hvernig mann Tommy hefur að geyma eða hermaðurinn á sjónum (aldrei nefndur á nafn) né fáum við neitt að vita um afdrif þeirra en þetta er mjög meðvitað. Áherslan er á lífsviljann og aðstæðurnar sem kalla fram það besta í fólki og sýnir einnig slæmu hliðarnar sem það á til þegar hætta steðjar að. Nolan virðist þekkja þennan sögulega viðburð vel og lærdómurinn sem hann sýndi fram á skiptir meira máli en tilbúin saga eins eða tveggja sögumanna. Við nánari umhugsun eru þetta ekki mistök en fyrir vikið verður myndin öðruvísi upplifun sem heldur áhorfandanum í smá tilfinningalegri fjarlægð á sama tíma og hún færir hann nær upplifuninni sem er meira en margar stríðsmyndir ná að afreka.
Kringumstæðurnar bjuggu einnig til margar ósungnar hetjur sem fengu lítið meira en klapp á bakið fyrir. Skipverjarnir sem héldu út í hættuna til þess eins að hjálpa náunga sínum unnu mikið og fórnfúst verk og hetjudáð þeirra er svo sannarlega dæmi um það góða sem í okkur býr. Boðskapurinn kristallast svo í einni línu þegar venjulegur borgari útdeilir mat til hermannanna við heimkomu þeirra. „Það eina sem við gerðum var að komast lífs af,“ segir hermaðurinn. Svarið er þá; „Það er meira en nóg“.