Neil Marshall hefur verið ráðinn til að endurskrifa handrit og leikstýra endurgerð norsku myndarinnar Troll Hunter, eða Tröllaveiðimaður. Líkur eru á að tökur hefjist á fyrri hluta næsta árs, eða á meðan enn er snjór á væntanlegum tökustöðum myndarinnar, eins og sagt er frá á Deadline vefnum.
Þetta þýðir að Marsall byrjar að vinna við myndina um leið og hann snýr heim frá Írlandi þar sem hann er við tökur á Game of Thrones sjónvarpsþáttunum.
Marshall leikstýrði einnig prufuþætti af Black Sails fyrir framleiðendurna Michael Bay og Starz, en þáttaröðin verður sýnd á næsta ári og Starz sjónvarpstöðin er þegar búin að panta aðra seríu af þeim þáttum.
Upprunalega Troll Hunter myndin er eftir André Øvredal og er frá árinu 2010. Hún fjallaði um hóp af nemendum sem rannsaka dularfull bjarnardráp. Þau elta dularfullan veiðimann inn í skóg, og komast þá að því að hann er tröllaveiðimaður, og að verurnar sem drepa birnina gætu mögulega haft lyst á fólki líka.


