Gagnrýni eftir:
The Passion of the Christ0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The passion of Christ olli mér nokkrum vonbrigðum og að ýmsu leyti má segja að illa hafi verið farið með góða sögu. Píslarganga Krists er auðvitað eitt allra mesta drama kristinnar menningar og saga sem svotil allt vestrænt fólk þekkir en sú ákvörðun Mel Gibsons að byggja handritið að stórum hluta á sýnum þýsku nunnunnar Anne Catherine Emmerich (1774-1824) tel ég að skemmi góðan efnivið. Ég átti von á að finna meira „kjöt á beinum“ í þessari mynd, þe. meira drama, meiri söguþráð, betri tengingar við líf Krists samkvæmt Biblíunni, en í staðinn samanstendur myndin af tveimur klukkustundum af stöðugum pynntingum sem mér var meir en farið að blöskra; því undir lokin var mér hreinlega farið að leiðast.
Mel Gibson og fjölskylda hans tilheyra minnihlutahópi kaþólikka sem líta á rit þýsku nunnunnar sem helgar bækur og virðist markmið myndarinnar vera að boða túlkun hennar á dauða Krists og líklegast tekst sú boðun að einhverju leyti því ég held að kristið fólk hljóti að ganga út af þessari mynd með sektarkennd. Sérstaklega þegar meðlimir hvítasunnusöfnuðanna rétta bíógestum á útleið miða sem á stendur „Jesú dó fyrir syndir þínar“!
Að þessu sögðu er síðan ekki hægt annað en játa listrænt gildi myndarinnar; kvikmyndatakan er glæsileg og að mörgu leyti er myndin eins og lifandi helgimynd. Það sýnir líka metnað að hafa myndina á tungumálunum sem töluð voru landinu á biblíutímum; Arameísku og Latínu (með ítölskum hreimi) og á Mel Gibson hrós skilið fyrir það. En betur má ef duga skal að mínu mati; það vantar mikið upp að the Passion of Christ komist í hálfkvisti við meistaraverk á borð við The Last Temptation of Christ, sem bætti verulega nýrri sýn á líf Jesú.
Bringing Down the House0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Vinnufíkillinn og skattalögfræðingurinn Peter Sanderson (Steve Martin) er ennþá ástfanginn af fyrrverandi konunni sinni og skilur ekkert í því af hverju hún fór frá honum. Til þess að reyna að komast yfir skilnaðinn bókar hann stefnumót við Charlene (Queen Latifah) lögfræðing sem hann kynntist á spjallrás á netinu en þegar til kemur og konan mætir er hún langt frá því að vera sú sem hún hafði gefið í skyn og áður en varir hefur hún snúið öllu lífi hans á hvolf, hrært upp í viðkvæmu sambandi hans við fyrrverandi eiginkonuna og börnin og stefnt milljarða samningum við nýjan viðskiptavin (Joan Plowright) í voða. Steve Martin leikur í þessari mynd samskonar persónu og í svo mörgum fyrri myndum sínum; elskulegan og góðan gaur sem er dálítið seinheppinn og einfaldur og þarf að lenda í töluverðum raunum til þess að ná að breyta lífi sínu til betri vegar. Queen Latifah er sú sem veldur honum þessum raunum; hún leikur hér heljarmikla skap-skessu sem veit hvað skiptir máli í lífinu og er ekki feimin við að stefna að settu marki. Martin og Latifah eru góð saman og bæði eiga þau magnaða spretti þar sem bókstaflega er erfitt að ná andanum fyrir hlátri. Gamanmyndir af þessu tagi þar sem hvítt millistéttarfólk lendir í erfiðleikum vegna félagsskapar við svertingja úr lægri stéttum eru kunnuglegar og er yfirleitt hlegið á kostnað svertingjanna sem túlka þá hálfheimskar en góðhjartaðar skrípapersónur. Í þessari mynd er hinsvegar hlegið á kostnað hvíta fólksins; fordómarnir fá ærlega á baukinn og er það hressandi tilbreyting og vonandi að það sýni merki um aukinn þroska Hollywood í samskiptum kynþáttanna. Á heildina litið er Bringing down the house þétt gamanmynd; brandari aðra hverja mínútu, temmilega mikil trúðslæti, góður stígandi er í myndinni og hún heldur þræði til enda.

