Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



War of the Worlds
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyrst heyrði ég um War of the Worlds eftir H.G. Welles þegar ég las myndasöguútgáfuna á barnsaldri - ég er afskaplega gleyminn og telst það kraftaverk að ég muni eftir gærdeginum, en samt hefur alltaf þessi mynd af 'the tripods' stígandi upp úr jörðinni festst í mér, eins og það hefur grafið sig inn í hugi allra þeirra kynslóða sem lifað hafa í skugga sögunnar.



En þessi kvikmynd hefur einhvernveginn ekki alveg sömu áhrif; jafnvel þótt tæknivinnslan hafi verið stórfengleg fannst mér myndin aldrei virkilega grafa sig inn í hugann á sama hátt og bókin. Það voru frekar hugmyndirnar að skotunum sem að ég hafði gaman af, en í raun er söguþráður og atburðarrás myndarinnar veikur. Þrátt fyrir allt er það mesta deus ex machina fyrr og síðar sem ræður enda geimveranna. Margir hafa einnig kvartað yfir alltof björtum Spielberg-endi, sem fer reyndar ekki í taugarnar á mér jafn mikið og í taugar félaga minna. Ef að þú þolir væmni undir lokin, sjáðu myndina. Hún er einstaklega spennandi og skemmtileg, þrátt fyrir að ég velji frekar gamla teiknimyndasögurammann til að tengja við innrásina frá Mars heldur en nokkuð sem þessi mynd hefur upp á að bjóða.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fantastic Four
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jessica Alba er ein fallegasta mannvera sem uppi hefur verið. Ef að Michaelangelo hefði ekki tekið upp á þeim ósóma að vera uppi á sextándu öld hefði hann hent styttunni af Davíð ofan í höfn og gert skúlptúr af henni í staðinn, með nektina á sinni stað. Því að það er satt að segja það helsta sem ég sé við þessa mynd.



Þetta er ein af þeim kvikmyndum sem að krefst þess að slökkt sé á heilanum meðan horft er á - hér er nákvæmlega ekki neitt sem krefst þess að þú sért vakandi við áhorf. Það sem hér er um að ræða er gullfallegt fólk í furðulegum búningum og heilmikið af flottum tæknibrellum, svo að ef að þú horfir með nefið upp í loftið á tékkneskt barnaefni frá fyrri heimsstyrjöldinni þér til skemmtunar mun þér líklega finnast þessi kvikmynd plága á heilastarfsemina. Ég persónulega hef stórgaman af henni, enda er þetta skemmtun í fljótandi formi - súptu á og hafðu gaman af ef bragðkirtlarnir eru ekki of fínu vanir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Island
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er fátt sem ég þoli minna en Michael Bay, leikstjóra þessarar myndar. Tilhugsunin um hann fær hjartað til að pumpa blóði hraðar eins og það vilji drekkja honum og öllum líkum leikstjórum í útsprautuðum líkamsvessum; eitthvað sem Bay sjálfur sér líklega fyrir sér sem góðan dauðdaga miðað við blóðflóðið í Bad Boys myndunum. En eitthvað hefur gerst hér, hann hefur í fyrsta sinn á ferlinum fengið gott handrit í hendurnar, og myndin fjallar um afskaplega merkilegt málefni, annað 'first' í ferli hans. Þó trúi ég varla að Bay hafi einverja hugmynd um hvað sé átt við með orðinu 'clonus', og sé aðallega að hugsa um hasarinn og útlitið, sem að er frábærlega gert eins og alltaf í hans myndum. Því færist myndin saman á furðulegan hátt í eitthvað sem hægt er að horfa á án klígju, og verður hin fínasta afþreying með slettu af hugsun á bakvið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fight Club
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ógleymanleg mynd um hversu ömurleg tilvera skrifstofumanns í rútínuvinnu getur orðið. Leikstjórnin er frábær, stíllinn glæsilegur og handritið er með því besta sem maður hefur séð.

Myndin fjallar um ónefndan mann sem notar bardagaklúbb til að fá útrás fyrir reiði sína gangvart samfélaginu, og nær með þessu móti meira valdi en er hollt fyrir hann.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Underworld
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Underworld er mynd sem er erfitt að gefa stjörnur, að mínu áliti, og ég er alls ekki viss um hvort ég ætti að gefa henni 2 og hálfa eða þrjár. Hún svífur þar á milli eins og fallegt fiðrildi með ólæknandi blóðþorsta.


Myndin er gríðarlega flott útlitslega séð. Gotneski stíllinn skilar sér vel, myndatakan er flott og alveg einstaklega góð slow-motion notkun á sér stað. Bardagarnir eru mjög flottir, og leikurinn skilar sér, þrátt fyrir að aðeins einn leikari hafi staðið uppúr, en það er sá sem lék Victor, hver sem hann nú var.


En meira að segja í paradís var skilningstré, og Underworld hefur sína galla. Handritið er alls ekki gott, línurnar eru ekki eftirminnilegar og mér finnst þessi ástarsaga sem var troðið inní augljóslega var þarna bara til að vera þarna, og þjónaði litlum tilgangi. Einnig er mikið af hálftilgangslausum karakterum sem gerðu ekkert nema að deyja, og sumt var aldrei útskýrt til fulls. Þó er það smávægilegt, og fæstir munu taka eftir því.


En til að enda þetta þá er myndin í heildina alveg einstaklega góð skemmtun, og ef þú hefur 800 kall og smá tíma til að sjúga blóðið úr, þá er þetta góður kostur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei