Gagnrýni eftir:
Saw: The Final Chapter
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Meinlaus skemmtun sem uppfyllir blóðþörfina Undirritaður er ekki aðdáandi hryllingsmynda. Þess vegna er undarlegt að hann skrifi um lokakafla Saw seríunnar, Saw 3D. Sérstaklega þegar hann hefur ekki séð allar myndirnar sem á undan koma. Hins vegar falla þau rök flatt með einföldu spurningunni: Af hverju ekki?
Saw myndirnar eru þekktar fyrir einn hlut. Þær eru ekki þekktar fyrir afbragðs leikstjórn, gallalausa leikara, tilfinningavekjandi tónlist eða snilldarlega sögu. Það er óþarfi að fara nánar út í þá þætti
myndarinnar. Frumlegir dauðdagar eru einkenni Saw myndanna. Áhorfendur vilja sjá fólk deyja á ótrúlegan hátt. Oftast fá áhorfendur það sem þeir vilja og hér er ekki undantekning á því.
Saw formúlan fyrir dauða fólks er afar skemmtileg. Það á ekki að vera svona gaman að horfa á fólk deyja. Yfirleitt er samt réttlæt drápin á einhvern hátt hvort sem sú réttlæting er langsótt eða ekki.
Það er lykilinn að flestum Saw dauðdögum. Einstaklingur þarf oft að gera eitthvað viðbjóðslegt við sjálfan sig til að bjarga sér eða öðrum. Nánast undantekningalaust tekst það ekki. Áhorfandinn heldur
samt í vonina og vill að einhver komist af. Hér fær áhorfandinn ekki það sem hann vill. Allir þessir þættir í Saw formúlunni eiga það sameiginlegt að halda manni á nálum alla myndina. Þetta rugl er
spennandi og hefur sitt skemmtanagildi. Þrívíddin gerir sitt fyrir myndina en er ekki nauðsynleg.
Þetta er flottur endir á seríunni óháð því hvernig sagan endar. Að mati undirritaðs skiptir hún ekki máli. Fullt af fólki deyr. Margir deyja á vegu sem að erfitt er að ímynda sér. Myndin uppfyllir þessa
skrítnu þörf fyrir blóði sem að kvikmyndagestir hafa. Henni tekst ætlunarverk sitt. JPH
6/10
TRON: Legacy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ekki meira en skemmtileg upplifun Tron Legacy stenst væntingar. Þetta eru væntingar byggðar á glæsilegri ljósasýningu ásamt tónlist Daft Punk í bakgrunninum. Þannig var kvikmyndin auglýst og henni er ætlað að höfða til hóps sem er líklega ekki búinn að sjá myndina á undan, Tron (1982.) Áhorfandinn er ekki að leita eftir gallalausri sögu og sniðugu handriti. Hann vill svala kvikmynd sem er ekki kjánaleg. Þó að Tron Legacy fari stundum nálægt kjánalegu línunni fer myndin aldrei yfir hana. Þess vegna er hún þess virði að sjá.
Saga myndarinnar fer um víðann völl. Ungur maður leitar uppi föður sinn eftir hann hefur verið á brott í um tvo áratugi. Honum að óvörum er faðirinn fastur í eins konar tölvuleikjaheimi. Einu sinni var hann guð í þessum heimi en hans eigin sköpun snerist gegn honum. Saman reyna feðgarnir svo að sleppa úr heiminum. Margt annað blandast inn í þetta en það helsta er ný tegund af lífveru sem gæti bjargað mannkyninu. Hér er augljóslega ekkert frumlegt á ferðinni en myndin klæðist samt nýjum sjónrænum búningi. Þessi búningur er samt ástæða til að sjá myndina.
Jeff Bridges er eini leikarinn sem þarf að nefna. Hann gefur myndinni eitursvalt andrúmsloft sem hún þarf á að halda til að verða ekki kjánaleg. Áhorfandinn fær skipandi rödd, yfirvegaðan svip og stingandi augnaráð frá honum alla myndina. Michael Sheen átti reyndar eftirminnilegt hlutverk líka. Persóna hans minnti smá vegis á The Riddler úr gömlu Batman-myndunum. Besta atriði myndarinnar er honum að þakka. Hinir leikararnir gera svo auðvitað sitt gagn.
Sjónræna upplifunin er lykilinn að gæði myndarinnar. Neon ljós í dökkum bakrgunni líta alltaf vel út. Um þessar mundir er algengt að gefa öllu dökka yfirsýn til þess að gera það svalara og dularfyllra. Það er hægt að sjá með því að bera saman gömlu og nýju Tron. Þetta bragð virkar svo að undirritaður er ekki að kvarta. Þrívíddin er notuð vel og það er nánast synd að blikka augnum.
Daft Punk eru fullkomnir fyrir kvikmynd af þessu tagi. Þeir upplifa sig sem eins konar tölvuhljómsveit og eru meira að segja að þeyta skífum í myndinni! Tónlistin grípur alltaf augnablikið og gerir myndina svalari. Elektróníska dúóið vinnur starf sitt vel.
Það á að horfa á Tron Legacy í bíó. Fáir eru með aðstæður heima fyrir til þess að réttlæta áhorfið þar. Þetta er skemmtileg upplifun, ekki meira og ekki minna. JPH
7/10
Howl's Moving Castle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Skilgreiningin á fegurð? Hayao Miyazaki er göldróttur. Það er eina rökrétta niðurstaðan þegar litið er á kvikmyndir hans. Hvernig væri annars hægt að gera svona margar teiknimyndir sem öllum mætti lýsa með orðinu „gullmoli“? Almenningur sem er yfirleitt illa við japanskar teiknimyndir þarf oft að éta neikvæðu orðin sín yfir Miyazaki mynd. Undirritaður hefur ekki sterka skoðun á japönskum teiknimyndum eða anime eins og það er kallað. Hins vegar leynast gullmolar í þessari tegund kvikmynda og það sama má segja um flestar aðrar kvikmyndategundir. Það ætti ekki að þurfa að segja það augljósa. Howl‘s Moving Castle er einn af þessum gullmolum.
Sagan er nánast ólýsanleg. Hefðbundnu rútínunni er hent í ruslið og áhorfandi veit ekkert hvað er í gangi. Persónur eru fjölbreyttar og fáránlegar. Myndin er svo teiknuð á framúrskarandi hátt sem er einkennandi fyrir myndirnar hans Miyazaki. Sálfræðingar hafa renyt að skilgreina fegurð. Undirritaður er frekar viss um að teiknistílinn í þessari mynd flokkast undir þá skilgreiningu. Þetta þrennt á það sameiginlegt að vera allt frumlegt. Eitthvað sem margir ættu að taka sér til fyrirmyndar en engin nöfn verða nefnd. Tónlistin er samt frekar hefðbundin en hún gerir sitt gagn.
Myndin er fyrir alla aldurshópa. Það er samt mikilvægt að taka af sér raunsæishattinn áður en áhorfið byrjar. Þá ætti hún að skemmta flestum.
8/10
Órói
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bragðgóð vandamálasúpa Órói lýsir sér með tiltlinum. Kvikmyndin er ilmandi súpa bragðbætt með vandamálum unglinga. Þau helstu eru foreldrar, kynlíf og sambönd. Leikstjórinn Baldin Z leikur sér að gefa gömlu klisjunum nýtt líf og hann gerir það vel. Helsta vopnið hans er raunsæið í handriti Ingibjargar Reynisdóttur. Hún skrifaði líka bækurnar sem myndin er byggð á. Hæfni ungu leikaranna skemmir svo ekki fyrir en flestir koma skemmtilega á óvart. Að þessu sinni er útkoman með betri íslensku kvikmyndum í langan tíma.
Það er erfitt að lýsa sögunni. Myndin er margar sögur sem lenda saman. Aðalpersónan Gabríel (Atli Óskar Fjalarson) er í efa með kynhneigð sína eftir að hann kyssir Markús (Haraldur Ari Stefánsson). Á sama tíma eru vinkonur hans að glíma við foreldra og stráka. Áfengi er sterkt þema í myndinni. Það er ekki skrítið þar sem unglingadrykkja er algeng. Dramatík er einkennandi þökk sé því. Böll og partí eru þess vegna helstu hápunktar myndarinnar. Þau atriði eru vel heppnuð og raunsæ. Að sjálfsögðu fylgir hinn alræmdi „þynnkumatur“ meðferðis. Þetta er allt gaman að sjá í kvikmynd.
Myndin hefur tvo galla. Þeir eru byrjunin og endirinn. Hún var lengi að byrja en það er ekki alltaf galli. Atli Óskar Fjalarson og Haraldur Ari Stefánsson eru eitthvað slakir í byrjun og samband þeirra ekki trúverðugt. Þess vegna kemur á óvart hvað Órói er góð miðað við þessa byrjun. Hún var svo örlítið of löng og hefði mátt vera um tíu mínútum styttri. Þessi smáatriði eru samt eins og nál í heystakki og skemma ekki neitt. Íslenskar myndir hafa svo eitt vandamál sem er ekki þeim að kenna. Flestir þekkja eða kannast við leikara persónulega. Það getur haft jákvæð eða neikvæð áhrif sem annars væru ekki til staðar. Þess vegna er erfitt að vera hlutlaus.
Unglingar skulda þessari mynd áhorf. Aðrir aldurshópar ættu að skella sér líka. Hún uppfyllir allar helstu þarfirnar sem við höfum hvað varðar drama, spennu og kímni. Það vantaði ferska íslenska kvikmynd og Órói kemur til bjargar.
9/10 J.P.H
Unforgiven
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Dökkur og óhefðbundinn vestri Eastwood er enginn nýgræðingur þegar það kemur að vestrum. Honum tekst þó engu að síður að gera þær einstaklega ferskar, hvort sem hann leikur eða leikstýrir. Hér gerir hann nefninlega bæði. Með skemmtilega dökku yfirbragði litar hann kvikmynda Unforgiven og skilur eftir sig nokkuð einfalda, en eftirminnilega mynd.
Meistarinn sjálfur leiðir leikarahjörðina eins og svo oft áður. Á bak við sig hefur hann menn á borð við Morgan Freeman, Gene Hackman, Jaimz Woolvett og hinum látna Richard Harris, en allir standa þeir sig frábærlega. Ekki þarf nema að líta á þessi nöfn til þess að kvikmyndin fái ákveðinn gæðastimpil. Clint tekst á við sína klassísku „anti-hero“ persónu sem hinn fyrrverandi morðingi William Munny og þín eigin siðferðiskennd er það eina sem úrskurðar hve mikið þú kannt að meta hann. Freeman gamli er svo æðislegi stuðningskarakterinn Ned Logan sem allir elska (kemur á óvart). Að lokum eru Hackman og Woolvett gaurarnir sem þér mun líka illa við í þessari kvikmynd, en þó eru þeir ekki í sama liðinu.
Söguþráðurinn er í sjálfu sér mjög einfaldur en það eru litlu hlutirnir sem gera hann góðann. Sagan byrjar á því að tveir óþokkar skera hóru í andlitið fyrir lítið sem ekki neitt. Þetta gerist í friðsömum bæ þar sem ókunnum mönnum er ekki heimilt að bera skotvopn svo mennirnir fá væga refsingu. Dömurnar í hóruhúsinu eru alls ekki sáttar með slíkt og setja því fé á haus þeirra. Þar kemur svo Munny (Eastwood) inn í söguna, þar sem hann var eitt sinn grimmur morðingi en er nú aðeins fátækur smábóndi.
Ef þú fílar vestra er þessi algjörlega skylduáhorf. Þó þú gerir það ekki eru samt töluverðar líkur á að engin vonsvikni muni eiga sér stað þar sem ekki er hægt að segja að þessi mynd sé hefðbundin. Við getum öll verið sammála um að kvikmyndir af þessu tagi njóti ekki sömu vinsælda og þær gerðu áður fyrr, en það er alltaf fínt að fá eina svona inn á milli.
8/10
Trainspotting
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hraður, fyndinn og ógeðslegur kókaíntryllir Oft þarf ekki nema smá innsýn inn í heim eiturlyfja til þess að halda fólki frá þeim efnum. Trainspotting í leikstjórn Danny Boyle er einmitt dæmi um slíka innsýn. Með drulluhoraðann Ewan McGregor í fararbroddi gefur hann upp skelfilega, trúðverðuga, og samt súrrealíska mynd af heróínsenunni í Edinborg.
Renton (Ewan) hatar ekki heróín í byrjun myndarinnar. Hann er þó ekki lengi að taka þá skynsamlegu ákvörðun að hætta því sulli, sem reynist honum nokkuð erfitt. Félagar hans, Spud og Sick boy, gera honum þetta verkefni líka enn erfiðara og ekki er sjaldgæft að sjá þá félaga taka þá sameiginlegu ákvörðun að heimsækja heróínið á ný. McGregor kemur hér með skemmtilega frammistöðu sem hinn elskulegi dópisti. Hann er ekki hin týpíska staðalímynd eiturlyfjafíkils, meira svona mjög rólegur yfir þessu öllu saman. Einnig ber að nefna Robert Carlyle sem hin fáránlega netta Begbie. Þú munt hata og elska þennan mann, en staðreyndin er sú að hann stelur senunni oft.
Hröð, ógeðsleg og fyndin. Þessi þrjú orð ættu að lýsa Trainspotting best. Þú munt vera við það að æla yfir ógeðinu og erfiðinu sem fólkið upplifir í þessari mynd. En þrátt fyrir allt þetta ógeðslega tekst þér auðveldlega að hlæja stuttu seinna og verður þá að þakka einstaklega góðum persónum myndarinnar. Hún er í styttri kantinum og þér mun svo sannarlega ekki leiðast. Skylduáhorf.
Kick-Ass
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ljúffeng blanda af gríni og spennu Kvikmynda unnendur hafa ekki frábæra reynslu af kvikmyndum byggðum á myndasögum. Leikstjórinn Matthew Vaughn stefndi greinilega að því að bæta þá reynslu þegar hann tók að sér að gera kvikmynd úr myndasögunni Kick-ass þar sem þessi mynd var hreinn unaður. Með ferska leikara í farabroddi (nema Nicholas Cage karlinn, ekki beint það ferskasta í dag) tekst honum einstaklega vel að gera verk sem virkar vel eitt og sér en gefur á sama tíma myndasögunni líka allt sem hún á skilið.
Dave Lizewski (Aaron Johnson) er undarlega venjulegur unglingur á nánast alla vegu. Í heimi þar sem smáglæpir eru allt of tíðir og þar sem enginn þorir að gera eitthvað gegn þeim, ákveður hann að gera eitthvað í málunum. Þar sem hann er „myndasögunördi“ fer hann að sjálfsögðu rökréttu leiðina... að gerast ofurhetja í þröngum grænum búningi (Kick-ass!). Það gengur alls ekki vel í fyrstu en þökk sé myndbandi af honum að verja mann gegn þremur illmennum verður hann fljótt frægur. Þá kynnist hann tveimur alvöru ofurhetjum, henni dauðlegu Hit-Girl (Chloë Grace Moretz) og pabba hennar, Big Daddy (Cage). Í leiðinni verður hann þó skotmark glæpagengis og gerist hommavinur sætrar stelpu í skólanum. Sem væri gott og blessað, nema maðurinn er ekki hommi.
Hér er á ferðinni fullkomin blanda af gríni og spennu. Virkilegja harðkjarna ofbeldisatriði ná einhvern veginn að vera fyndin líka og má þá aðallega þakka einstöku tónlistarvali. Tónlistin hittir alltaf beint í mark og miðlar alltaf þeim tilfinningum sem marmiðið var að miðla. Leikararnir ýta húmornum svo á annað stig og má þá helst nefna þá snilldar persónu sem Chloë leikur (þessi unga leikkona á sko framtíð fyrir sér). Fílaru spennu, grín, góða söguþræði og meira að segja smá drama? Ekki voga þér að missa af þessari ef svo er.