Gagnrýni eftir:
Training Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi mynd er án efa ein af bestu myndum ársins. Washington brýst hér fram á sviðið í hlutverki sem er gjörólíkt öllum öðrum sem hann hefur áður fengist við. Hann kemur svo fullkomlega frá sér undirförlu eðli karaktersins, grimmdinni og ósvífninni að ógleymdri síðblindunni að unun er á að horfa. Allir aðrir leikarar, að Hawke meðtöldum, falla hér í skuggann af meistaralegum leik Washington. Hawke skilar sínu hlutverki óaðfinnanlega án þess að vera með einhverja snilldartakta. Alltaf öruggur og klúðrar ekki sínum málum.
Einn af fáum göllum sem maður finnur á þessari mynd er þetta óþolandi eðli hetja kvikmyndanna að geta þolað endalausar barsmíðar, flug ofan af húsum og árekstur við bíla. Þetta er kannski í lagi í veruleikafirrtum Bondmyndum og Batman, en mér finnst passa illa í myndum sem eiga að hafa einhver tengsl við raunveruleikann.
Í hnotskurn er þetta mynd sem er hverrar mínútu virð, einkennist af framúrskarandi leik og góðri tæknilegri vinnu. Án efa ein af betri myndum ársins.
Tillsammans
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi mynd er hrein snilld. Andrúmsloftið og húmorinn sem leikstjórinn nær að skapa með frábærum leikurum er með því betra sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Það er frábært að geta enn farið í kvikmyndahús til að njóta sagna af fólki án þess að slepja Hollývúdd leki af hverju andliti. Þessi mynd er enn ein rós í hnappagat frábærra norrænna leikstjóra sem eru að skjóta amerískum starfsbræðrum sínum ref fyrir rass í hverri myndinni á fætur annarri.