Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Eternal Sunshine of the Spotless Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

En yndislega skrýtin og sniðug lítil mynd. Enda varla við öðru að búast þegar maður að nafni Charlie Kaufman skrifar handritið. Kaufman er áhugaverðasti bandaríski handritshöfundur sem er starfandi í dag og er stöðugt að koma manni á óvart með sínum ótrúlega auðugu og frumlegu hugmyndum sínum. Og hann á enn eftir að slá nokkra feilnótu. Í Eternal Sunshine rannsakar hann ásamt Michel Gondry (en þeir gerðu hina kolklikkuðu Human Nature saman) enn og aftur sambönd eða sambandsleysi nútímamannsins við aðra nútímamenn og notar enn á ný súrrealisma til að koma skilaboðum sínum til skila.

Ath!!!! Þeir sem ekki hafa séð myndina ekki lesa lengra. Þetta er ein af þeim myndum sem þú vilt að komi þér á óvart.

Jim Carrey leikur Joel Barish, lokaðan, óframfærinn og óhamingjusaman mann. Joel er einn af þeim einstaklingum sem eru nógu gáfaðir til að gera sér grein fyrir ástandi sínu en einum of taugaveiklaðir til að gera eitthvað til að breyta því. Einn dag hittir Joel Clementine (Winslet) sem er algjör andstæða hans, frökk, hvatvís og fljót upp. Það hefur oft verið sagt að andstæður heilli og í þeirra tilviki gera þær það. Joel og Clementine byrja saman. En Joel er of lokaður fyrir Clementine og hún einum of hvatvís og skapstór fyrir hann. Það endar því þannig að hún segir honum upp. Í ástarsorg og bitur yfir viðskilnaðinum ákveður Joel að fara í sérstaka aðgerð sem hann hefur heyrt um. Hún felst í því að einhverri ákveðinni persónu er eitt úr mynni viðkomandi. Til að gleyma Clementine endanlega ákveður Joel að fara í þessa aðgerð. Joel er svæfður og aðgerðin byrjar. En inni í sínu eigin heilabúi uppgötvar Joel að hann er enn ástfanginn af Clementine og vill nú stöðva aðgerðina. En það er ekki heiglum hent þar sem hann er meðvitundarlaus. Joel verður því að gera allt sem í hans valdi stendur til að tefja aðgerðina nógu mikið til þess að geta falið sig ásamt Clementine (nota bene: þetta gerist allt inni í hausnum á honum svo Clementine er í rauninni einnig Joel) niðri í undirmeðvitundinni, djúpum minningum og sársaukafullum og/eða vandræðalegum augnablikum úr sínu eigin lífi. Í þessu ástandi reynir hann líka að meta samband sitt við Clementine upp á nýtt og sjá hvort það er ekki þess virði að halda því gangandi.

Það er dálítið flókið að fylgja þessari mynd eftir í byrjun en trúið þið mér, það er vel þess virði. Eins og venjulega er handrit Kaufmans stútfullt af óvæntum atburðum. Til að mynda grunar mann aldrei í byrjun myndarinnar að hún muni breytast í súrrealískt ferðalag um undirmeðvitund Joel. Myndin byrjar þegar Joel og Clementine hittast og virðist ætla að verða dálítið óvenjuleg rómantísk gamanmynd. En síðan tekur heilaferðalagið við.

Þegar það fyrst byrjar fer manni að líða eins og maður sé á eiturlyfjum. Klippingarnar eru hraðar, tónlistin skrítin og ferðin byrjar mjög ruglingslega og súrrealískt. Þessi kafli er geysiskemmtilegur hins vegar og kemur manni oft mjög á óvart. Samt virðist ekki mikill tilgangur eða boðskapur vera með myndinni. En þá tekur þriðji hlutinn við þar sem Joel og Clementine (í rauninni Joel) gera upp samband sitt. Það kemur manni á óvart hversu lokakafli myndarinnar hreyfir mikið við manni. Það minnti mig talsvert á annað undarlegt en aðlaðandi par, Adam Sandler og Emily Watson í Punch-Drunk Love. Skrýtið fólk sem maður hélt samt innilega með.

Það veltur mikið á leikurunum hversu mikið maður vonar að þetta fólk verði hamingjusamt í framtíðinni. Jim Carrey og Kate Winslet skila bæði hlutverkum sínum listavel. Þetta er heilsteyptasta dramatíska frammistaða Carrey á ferlinum. Hvergi bólar lengur á hans villtu, kómísku persónu. Joel er lokaður, taugaveiklaður og óöruggur með sjálfan sig. Hann myndi virðast hreint leiðinlegur ef Carrey glæddi hann ekki með svo mikilli innri fegurð. Hann sýnir frábæra frammistöðu. Winslet er ekki síðri og er þetta hennar besta hlutverk í mörg ár. Clementine er villt, uppstökk, frökk, hvatvís, ja, í rauninni allt sem Joel er ekki. En það er þekkt að fólk sem er svona mikið á velli er oft að setja upp grímu til að fela það hversu óöruggt og einmana það er í raun. Joel er nógu gáfaður og næmur til að sjá í gegnum þessa grímu hennar og það hræðir hana af því það þýðir að hún gæti verið búin að finna þann eina rétta. Winslet nær listavel að sýna okkur báðar hliðarnar á þessari manneskju. Smærri hlutverk eru vel mönnuð, þá sérstaklega af Kirsten Dunst og Tom Wilkinson.

Veikleikarnir felast í leikstjórninni. Eins og sást vel á Human Nature þá er Michel Gondry einfaldlega ekki í sama styrkleikakvarða og Spike Jonze. Myndir Gondry eru oftast nær ruglingslegri og óöruggari í leikstjórn. Hins vegar hefur Gondry mjög gott auga fyrir hinu sjónræna enda er Eternal Sunshine oft hreint augnakonfekt.

Ég get hreinlega ekki beðið eftir að sjá næstu mynd sem Charlie Kaufman skrifar. Hann, Spike Jonze og Michel Gondry hafa endurvakið súrrealismann sem kvikmyndalistform meira en nokkrir aðrir eftir að Luis Buñuel dó. Karakterarnir hans, þó þeir séu skrýtnir eru ávallt áhugaverðir og raunverulegir með þarfir og langanir sem allir geta skilið. Hann býr til frábærar fléttur og frumleg efnistök. Og hann hefur alltaf eitthvað að segja. Er hægt að biðja um það betra. Maður þakkar fyrir að í hinu mikla flóði hæfileikasnauðra og nauðaómerkilegra manna eins og Michael Bay, Stephen Sommers og Roland Emmerich er frábærlega hæfileikaríkt fólk eins og Kaufman að gera góða hluti.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Van Helsing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ef að Van Helsing er ekki dæmigert sumarrusl fyrir Hollywood, þegar það tekur nautheimskar hugmyndir, treður nógu mikið af tæknibrellum inn í þær, og reynir að láta þær líta út eins og góða skemmtun, þá veit ég ekki hvað það er. Van Helsing er versta sumarhasarmynd sem ég hef séð frá því ég sá The League of Extraordinary Gentlemen.

Söguþráðurinn er eins heimskulegur og hann getur hugsanlega orðið en svona hljóðar hann. Van Helsing (Jackman) er nokkurs konar leigumorðingi fyrir Vatíkanið. Starf hans felst í því að berjast við hin illu öfl sem ógna mannkyninu. Eins og augljóst má verða þarf Van Helsing að berjast við mörg af frægustu skrímslum 19. aldar eins og til dæmis Herra Hyde (Coltrane).

Van Helsing er síðan sendur út af örkinni ásamt aðstoðarmanni sínum Carl (Wenham) til Transylvaníu þar sem hann þarf að ráða niðurlögum Drakúla greifa (Roxburgh) og hans hyski. Eini gallinn er að enginn veit hvernig á að drepa Drakúla. Drakúla hefur auk þess á prjónunum djöfulleg áform um að vekja öll börn sín til lífsins í gegnum skrímsli Frankensteins (Hensley) og gera út af við síðasta afkomanda ættarinnar sem hefur barist við hann í margar aldir, Önnu Valerious (Beckinsale). Og nú þurfa Van Helsing og Anna að taka höndum saman við að kveða niður þessi illu öfl.

Þetta hljómar ekki vel, er það nokkuð? Drakúla ætlar að nota skrímsli Frankensteins til að vekja börn sín til lífsins. Auk þess tengjast varúlfar þessu öllu á einhvern hátt. Hljómar eins og út úr gamalli ódýrri Roger Corman mynd frá 6. áratugnum. Það eina sem vantar er Steina og Olla inn í sullið. Því miður er þessi mynd að taka sig óvenjulega alvarlega miðað við hversu mikil della hún er. Það reynist hennar banabiti. Ef að Sommers hefði litið aðeins betur á handrit sitt og séð hversu heimskulegt og hversu mikið rusl það er í alvörunni hefði hann getað leikstýrt eftir því. En nei. Út af þessu verður myndin hundleiðinleg.

Það er ekkert sem kemur manni á óvart. Og það sem á að koma manni á óvart er svo heimskulegt og í rauninni óskiljanlegt að það missir gjörsamlega marks. Og manni stendur á sama hvort eð er. Manni er nákvæmlega skítsama um hvern einasta karakter í þessu rusli. Þetta er engin saga, þetta er ekkert annað en æfing fyrir tæknimenn í tæknibrellum og ágætis tækifæri fyrir nokkra leikara að hirða feita launaávísun. Auk þess er þessi fjári 134 mínútur að lengd. Corman hefði hóstað einni svona upp á 90 mínútum, með sumum tæknibrellum sennilega álíka góðum og hún hefði verið 10 sinnum skemmtilegri.

Svo er ég orðinn svo þreyttur á að sjá vampýrur og aðrar forynjur blóðmjólkaðar til dauða af Hollywood. Sögnin um Drakúla er upphaflega afar rómantísk og harmræn skáldsaga. Sömuleiðis Frankenstein. En það er búið að gera úr þessum karakterum skrípafígúrur fyrir löngu síðan og aldrei meir en núna. Drakúla er nú orðinn eins og hver annar vondi karl í Bond-mynd.

Myndin er þokkalega vel gerð svo sem þótt mér finnist tæknibrellurnar alltaf vera einum of augljósar. Leikurinn er svona fyrir ofan garð og neðan enda lítið hægt að gera með jafn hörmulegt handrit. Jackman tekst að vera ábúðarmikill að vanda en hann ætti í alvörunni að finna sér einhver betri hlutverk og fjölbreyttari. Sem dæmi má nefna að Van Helsing er nánast sama persóna og Wolverine í X-Men. Báðir þjást af minnisleysi, bera flott vopn og svo framvegis. Það sýnir kannski best hverslags strand öll hugmyndavinna hefur lent í í draumverksmiðjunni. Kate Beckinsale er á góðri leið með að verða vondumyndadrottningin. Pearl Harbor, Underworld, Van Helsing, hvar endar þetta eiginlega? Sá eini sem fær prik hjá mér og því stjörnuna er Richard Roxburgh sem Drakúla. Hann er sá eini sem virðist hafa gert sér grein fyrir því hversu mikið drasl þessi mynd er og leikur því eftir því. Hann fer hamförum í ofleik og er sá eini sem virðist vera að skemmta sér pínulítið í allri myndinni.

Van Helsing er dæmi um allt það versta sem kemur frá Hollywood. Hörmungar hugmyndir, hryllilega illa skrifað handrit, brokkgeng leikstjórn og tæknibrellufyllerí. Stephen Sommers má fara að vara sig ef hann vill ekki verða næsti Michael Bay. Vonandi er þetta ekki smjörþefurinn af því sem koma skal.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bad Boys II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd á ekki skilið að fá tvær stjörnur. Í rauninni skil ég ekkert í sjálfum mér að skella tveimur stjörnum á hana. Ætli það sé ekki vegna þess að stjörnurnar tvær, Martin Lawrence (sem alltaf hafði nú takmarkaða hæfileika) og Will Smith (sem hefur hæfileika) reyna eins og þeir lifandi geta að lifta þessu rusli upp. Þeir reyna reyndar svo mikið að stundum tekst það. En hvað eiga aumingja mennirnir að gera með einn versta leikstjóra heims, Michael Bay, við stjórnvölinn og handrit sem virðist ekki vera neitt annað en glósur sem eru dregnar upp í fáránlega lengd.

Sú litla saga sem er (en hún er nánast engin) fjallar um baráttu vinanna Marcus Burnett (Lawrence) og Mike Lowrey (Smith) við óþjóðalýð Miami. Í þetta sinn eiga þeir í höggi við harðskeyttan kúbanskan glæpamann (Jordi Mollà) sem smygglar E-pillum í stórum stíl frá Kúbu til Miami (sögufalsanirnar og ruglið hér er svo mikið að ég vil ekki einu sinni fara út í það). Á meðan á öllu þessu stendur þorir Mike ekki að segja Marcus að hann sé byrjaður með litlu systur hans (Gabrielle Union) sem reynist vera leynilögregla á vegum fíknó og er einnig á höttunum eftir Kúbananum.

Í rauninni er voða lítið hægt að segja um söguna vegna þess að það er í rauninni engin saga. Ron Shelton og Jerry Stahl sem eiga nú að fera færir fagmenn koma hér með einhvern hryllilegan samansoðning og teygja það, ásamt Michael Bay, yfir 147 mínútur sem er gjörsamlega út í hött. Hvernig á mynd, sem gengur ekki út á annað en það að koma sér frá einu hasaratriði yfir í annað, að ganga upp í svo langan tíma. 90 mínútur hefðu verið alveg passlegt en nei, svo er því miður ekki.

Eins og áður sagði, þá álít ég Michael Bay vera einhvern versta leikstjóra sem ég hef séð. Það eina sem hann getur gert rétt er að leikstýra hasaratriðum (þó svo að hann skorti þann frumleika sem einkennir t.d. John Woo eða James Cameron). Hasaratriðin eru svosem sæmileg en verða frekar þreytandi til lengdar. Annað sem einkennir myndina er frekar óþægilegur húmor oft á tíðum. Hann dúkkar oft upp á mjög óvenjulegum og heldur óviðeigandi andartökum svo að maður hlær oft og skammast sín svo fyrir það eftir á.

Aukaleikurum er ekki fyrir að fara. Gabrielle Union er ekki annað en frítt andlit, aðal vondi karlinn er ekki annað en klisja samansett úr fullt af öðrum glæpamönnum, hinn aðal glæpamaðurinn, leikinn af Peter Stormare, er undarlega tilgangslaus og Joe Pantoliano er gjörsamlega sóað í hlutverki hins geðilla yfirmanns strákanna.

Ég vildi óska að kvikmyndaframleiðendur færu að átta sig á því að Michael Bay á hvergi annars staðar heima nema á B-videomarkaði. Þá hættir þessi hryllingur hans vonandi að hellast yfir okkur æ ofan í æ.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Terminator 3: Rise of the Machines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hafði af því verulegar áhyggjur áður en ég sá Terminator 3 að ekkert væri spunnið í hana. James Cameron var ekki að leikstýra, ferill Arnold Schwarzenegger virtist vera á hraðri niðurleið enda hafði hann ekki leikið í verulega góðri mynd síðan 1994.

Schwarzenegger má þakka mjög fumlausri og góðri leikstjórn Jonathan Mostow og snjöllu og vel skrifuðu handriti John D. Brancato og Michael Ferris að hann er ekki kominn niður í sömu holuna og Sylvester Stallone situr fastur í. Terminator 3: Rise of the Machines er hreint virkilega góð og gefur nánast snilldarverkunum númer 1 og 2 lítið eftir.

Best er að segja sem minnst um söguþráðinn nema það að tortímandinn (Schwarzenegger) er aftur falið að vernda John Connor (Nick Stahl), sem nú er orðinn fullorðinn maður ásamt vinkonu hans Kate Brewster (Claire Danes) gagnvart vélunum. Vélarnar senda í þetta skiptið nýjan, ofurfullkominn tortímanda, T-X (Kristanna Loken) sem virðist vera óstöðvandi með öllu. Og síðan byrjar hasarinn.

Myndin er ekki alveg í sama gæðaflokki og númer 1 og 2 enda væri það líka ansi erfitt. En hún er á engan hátt léleg og heldur hún fyllilega sínu og er fullgildur meðlimur þessa þríleiks (enn þá). Hún er dálítið lengi að komast í gang en það er greinilegt að Mostow og handritshöfundarnir hafa verið harðákveðnir í að halda í þann tón sem Cameron hafði því að um leið og hún hrekkur í gang er myndin stanslaus rússibanakeyrsla frá upphafi til enda.

Hasaratriðin eru í einu orði sagt: frábær. Sérstaklega mikill bílaeltingaleikur þar sem fyrir koma risastór kranabíll, slökkviliðsbíll, fullt af löggubílum, sendiferðabíll og mótorhjól. Það er hrein unun að horfa á það atriði. Myndin verður líka bara betri og betri því lengra sem líður á hana. Alls konar áður ófyrirséðar fléttur koma inn í spilið og fær loksins þá skemmtilegu tilfinningu, eftir svo margar formúlumyndir, að vera ekki alveg viss um hvað muni gerast næst. Ætli það sé ekki það mesta hrós sem jafn þekktar myndir og Tortímandamyndirnar geta fengið.

Það eru einnig ákveðnir gallar. Sá stærsti myndi ég segja að væri nærvera Nick Stahl sem John Connor. Stahl er upprennandi leikari og langt í frá að vera hæfileikalaus en hann er einfaldlega ekki rétti maðurinn fyrir rullu John Connor. Hann virðist ekki vera þrúgaður af þeim örlögum að þurfa að vera bjargvættur mannkyns í þeim nýja heimi sem hann vill fyrir alla muni reyna að stoppa að verði að veruleika. Betra hefði verið að fá Edward Furlong aftur sem stóð sig frábærlega í númer 2.

Annar galli er að finna ekki upp á meira að gera fyrir vonda tortímandann. Sérstaklega þar sem það er í fyrsta skipti í kvenmannslíki hefði verið hægt að spila miklu betur með það en hér er gert. Ekki er hægt að kenna Kristönnu Loken mikið um það af því að hún gerir sitt vel. Það eina sem vondi tortímandinn þarf að gera er að vera illilegur og ógnandi en jafnframt svipbrigðalaus á sama tíma. Þessi nýja gerð tortímandans einfaldlega toppar ekki tortímanda Robert Patrick og virðist að mörgu leiti vera hálfgerð afturför (tæknilega séð) miðað við hann.

Þriðji gallinn er að stundum er kannski einum of mikið um fimmaurabrandara á kostnað andrúmslofts og stemningar. Að vísu er frábær brandari varðandi sólgleraugu Schwarzenegger en ég verð að segja að brandararnir voru kannski fullmargir.

Fyrir utan Stahl standa aðrir leikarar sig vel. Loken gerir sitt og lítið meira í sjálfu sér. Claire Danes gerir sinni persónu virkilega vel skil. Hún er örvingluð, veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið og reynir að komast í gegnum atburði sem hún áttar sig ekki almennilega á um hvað eru. Örlög hennar eru samtvinnuð John Connor og því glímir hún við sama vandamál.

En að öðrum ósködduðum er það Arnold sjálfur sem ber myndina uppi á sínum breiðu herðum. Karlinn er einfaldlega í essinu sínu og hefur ekki verið jafn góður síðan í True Lies árið 1994. Líkamlega smellpassar hann enn í hlutverkið og jafnvel þótt að samleikur hans og Nick Stahl jafnist aldrei á við samleik hans og Furlong í nr. 2 þá kemur það talsvert á óvart að það er Schwarzenegger sem leikur oft betur en mótleikarar hans. Sko: segið það sem þið viljið um leikhæfileika Arnolds. En þegar kemur að því að leika tortímandann er enginn betri í því en hann. Ekki nóg með það: enginn annar gæti leikið rulluna þar sem að hún er orðinn svo ríkur partur af kvikmyndapersónu Schwarzenegger.

Endirinn er síðan algjör snilld. Ég ætla ekkert að segja til um hann meira nema að hann er púra snilld.

Ásamt The Matrix Leloaded er Terminator 3: Rise of the Machines besta mynd sumarsins til þessa og gleðilegt er að sjá, miðað við allan þann fjölda sem misheppnast, tvær framhaldsmyndir á sama ári sem ekki bara standa undir væntingum heldur á nokkrum stöðum fara fram úr þeim.

Góða skemmtun!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Phone Booth
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hugmyndin er vissulega góð. Sjálfumglöðum og sjálfselskum manni er haldið í gíslingu í símaklefa af óþekktri leyniskyttu og verður að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart ástvinum sínum ef hann vill ekki verða skotinn. Úrvinnslan er kannski eitthvað sem maður hefur svo sem séð áður í öðruvísi formi en engu að síður er Phone Booth vel gerð og oft hörkuspennandi mynd og blessunarlega ekki of löng.

Colin Farrell leikur hér Stu Shepard, kynningarfulltrúa á Broadway sem lendir í þessari óþægilegu aðstöðu. Leyniskyttan er búin að banna honum að segja einhverjum frá því að honum sé haldið í gíslingu svo að löggan heldur að sjálfsögðu að Stu sé byssumaðurinn eftir að leyniskyttan drepur melludólg sem var að angra Stu. Stu verður einhvern veginn að segja lögregluforingjanum (Forest Whitaker) að hann sé ekki morðinginn og einnig þarf hann að vernda eiginkonu sína (Radha Mitchell) og viðhaldið (Katie Holmes) sem báðar eru mættar á svæðið.

Myndin stendur og fellur mikið með tveimur hlutum. Annar þeirra er trúverðugleiki Colin Farrell í þessari stöðu. Skemmst er frá því að segja að hann stendur sig með stakri prýði og nær vel að túlka þá örvæntingu sem Stu gengur í gegnum í þessari klípu. Hinn hluturinn er að rödd byssumannsins sem aldrei sést (nánast) verður að vera nógu ógnandi. Skemmst er einnig frá því að segja að það er hún. Menn völdu svo sannarlega réttan mann til þess að vera byssumanninn. Ef þið hlustið vel þá getið þið örugglega fattað það en ég ætla ekki að upplýsa um það.

Joel Schumacher hefur að mínu mati alltaf verið mjög mistækur leikstjóri og sjaldan risið upp úr meðalmennskunni. Hann á að baki ágætis myndir eins og Falling Down en einnig hreint afleitar ofurbombur eins og Batman & Robin. Phone Booth er ein af hans betri myndum. Hún er oft hörkuspennandi, heldur manni vel við efnið, mjög fókúseruð (heldur sig við þetta viðfangsefni en fer ekki út í aðra sálma) og vel leikin. Handrit Larry Cohen hefur þar örugglega mikið að segja enda myndin mjög vel upp byggð og skrifuð. Schumacher hefði hugsanlega getað útfært sumt af efninu betur en það kemur svo sem ekki að mikilli sök. En það sem ég er einna hrifnastur af er að myndin er ekki nema 81 mínúta og er því laus við þessa bólgnun á myndum sem mér finnst vera orðin svo algeng í afurðum frá ,,draumaverksmiðjunni.

Phone Booth er spennandi og vel leikin mynd sem mér finnst óhætt að mæla með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Comedian
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi heimildamynd fjallar um tvo uppistandara, hinn heimsfræga Jerry Seinfeld og hinn lítt þekkta Orny Adams. Myndin var tekin upp á einu ári af þeim Christian Charles, leikstjóra myndarinnar og Gary Streiner, framleiðanda. Við sjáum bæði Seinfeld og Adams búa til ýmiskonar stykki fyrir áhorfendur sína, henda þeim í burtu, búa til önnur atriði, tala við aðra grínista eins og Chris Rock eða Ray Romano á börum, sífellt kveljast yfir því að atriðin þeirra séu ómöguleg eða að þeir muni hiksta á þeim þegar komið er að sviðinu, sífelld ferðalög á milli staða, endurbætur á atriðum og svo framvegis og svo framvegis.

Hver er tilgangur þessarar myndar? Enginn að því er mér virðist. Þessi veröld grínistanna og það sem þeir tala um lítur ekki einu sinni út fyrir að vera neitt áhugaverð. Samkvæmt þessari heimildamynd eiða þeir mestum tíma sínum í að vera vansælir með hitt og þetta og þá sérstaklega atriðin. Að vísu er það dálítið athyglisvert hversvegna forríkur og heimsþekktur maður eins og Jerry Seinfeld vilji aftur fara í að túra á milli lítilla klúbba. Skýringin virðist aðallega vera ákveðin spennufíkn, hvort atriðið muni virka eða ekki, kikkið í því að hafa lifandi áhorfendur á sínu valdi og bandi o.s.frv. Það atriði af uppistandinu er athyglisvert og hefði mátt spila betur með það ef að kvikmyndagerðarmennirnir hefðu þorað að grafa aðeins betur í það. En þeir velta ekki upp neinum spurningum sjálfir svo að maður lærir nákvæmlega ekki neitt af því að sjá þessa mynd.

Atriðin með Seinfeld eru að öðru leyti aðeins betri en þau með Adams. Adams þessi finnst mér nefnilega koma út sem einskær leiðindagaur. Fastur í stöðugri sjálfsvorkunn yfir því hvað það er erfitt að vera uppistandsgrínari og að allt hans atriði sé ómögulegt og að hann sé að kasta lífi sínu á glæ. Þetta er eins og að horfa á Woody Allen ef hann væri ekki að gera grín að sér og væri fyndinn á sama tíma. Stundum langar mann einfaldlega til að taka í hnakkadrambið á þessum Adams og öskra: ,,Það er fólk að svelta í Afríku, hættu þessu fjandans sjálfsvorkunarbulli.

Sjálsvorkunarbullið er svo sem líka til staðar í Seinfeld-köflunum en þar sem Seinfeld sjálfur hefur miklu meiri útgeislun og persónutöfra heldur en Adams kemst hann betur upp með það.

Ég einfaldlega skil ekki tilgang þessarar myndar? Hún veltir ekki upp neinum spurningum, hún svarar engum og á þeim 80 mínútum sem að myndin er sýnd gerist í rauninni ekkert, allavega ekki neitt sérstaklega áhugavert. Þeir Charles og Streiner eru eflaust að reyna að sýna okkur fram á að líf uppistandarans sé miklu erfiðara heldur en við höldum en þetta virðist samt mest vera sjálfsvorkun og sjálfsupphafning sem ég hef aldrei verið mjög hrifinn af.

Þetta er ekki góð eða mjög skemmtileg mynd og ég get ekki mælt með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Confessions of a Dangerous Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þvílíkt konfekt sem þessi mynd er. Ekki einungis er hún ótrúlega flott á að líta heldur segir hún afar óvenjulega og áhugaverða sögu Chuck Barris en samkvæmt hans eigin ævisögu lifði hann tvöföldu lífi. Það má vel vera að hann hafi einungis skáldað þetta til að krydda eigin ævisögu en hvort sem það er þá er þetta góð saga.

Chuck Barris (Sam Rockwell) var maðurinn sem bjó til suma frægustu sjónvarpsþætti í Bandaríkjunum fyrr og síðar eins og The Dating Game (á Íslandi væri það Djúpa laugin) og The Gong Show (núna American Idol). En hin hliðin á lífi hans var sú að hann var óopinber starfsmaður CIA og átti að hafa drepið 33 manneskjur fyrir þá.

Við fylgjumst með æviferli Chuck frá ca. 1953 til 1981. Það sem er mest gegnumgangandi í lífi hans og kannski það besta í því er Penny (Drew Barrymore), hippavinkona hans og kærasta. En Chuck er frekar eigingjarn maður og kann ekki að meta hana almennilega. Stuttu eftir að hann hefur slegið í gegn kemur dularfullur maður til hans, Jim Byrd (George Clooney) sem býður honum að gerast CIA maður á næturnar. Chuck þiggur það og hugmyndin er að eftir þætti eins og The Dating Game þá ferðist parið til ýmissa landa eins og segjum Finnlands, Chuck fylgir með og sér um að leysa einhver vandamál CIA á viðkomandi stað í leiðinni. Hin fullkomna fjarvistarsönnun. Engan á eftir að gruna hann. Chuck kynnist á einni ferð sinni hinni dularfullu Patriciu (Julia Roberts) sem reynist ekki öll þar sem hún er séð. En hversu lengi getur Chuck haldið uppi þessum lífstíl án þess að upp um hann komist og hefur hann einhvern áhuga á þessu líferni sínu í rauninni?

Þetta fyrsta leikstjórnarverkefni George Clooney sýnir að þar er kominn fram nýr kvikmyndagerðarmaður sem er óhræddur við að taka áhættur. Myndin á kvað eftir annað á hættu í að sökkva ofan í fen tilgerðar en sleppur alltaf við það með því að vera stöðugt jafn sprenghlægileg og hún er. Snillingurinn Charlie Kaufman (Being John Malkovich, Human Nature, Adaptation.) skrifar handritið eftir bók Barris og hann og Clooney hjálpast að við að gera myndina eina af bestu myndum ársins og þeirri óvæntustu í leiðinni. Kvikmyndataka Newton Thomas Sigel er hreint æðisleg og bilið á milli hins bjarta og litmikla sjónvarpsheims og hins dökka og drungalega njósnaheims er mjög vel sýnt.

Það sem mér fannst alltaf hinsvegar best við myndina er hvað hún kemur manni stöðugt á óvart. Maður heldur að hún sé að fara í einhverja átt en á næstu stundu kúvendir hún og tekur mann á annan stað sem manni hafði aldrei grunað að hún myndi gera. Það er orðið fátítt að myndir komi mér á óvart svo að ég kann alltaf að meta það örlítið extra þegar þær gera það.

Leikararnir fara einnig á kostum. Sam Rockwell er að mínu mati einn af bestu leikurum sinnar kynslóðar og getur brugðið sér í allra kvikinda líki (allt frá brjálaða fanganum í The Green Mile að taugaveiklaða aukaleikaranum í Galaxy Quest). Þetta er umdeilanlega hans besta hlutverk til þessa og hann gerir því skil ekkert eðlilega vel, líka ef maður tekur tillit til þess að persóna Chuck nýtur ekki alltof mikillar samúðar manns. Drew Barrymore er líka með eina af sínum betri rullum og gerir persónu Penny talsvert dýpri en hún hefði annars orðið. George Clooney er talsvert hlægilegur með þetta hræðilega yfirvaraskegg en á sama tíma ansi óhugnanlegur sem hinn endalaust blíðmálgi en jafnframt miskunnarlausi Jim. Og jafnvel Julia Roberts, sem mér finnst jafnan illþolandi, á góðan dag sem hin dularfulla njósnagella. Það mætti segja mér að það væri Roberts vel að vera dálítið dularfull en hún er venjulega ein af ódularfyllstu og mest óspennandi leikkonum í Hollywood. Og gamli Blade Runner snillingurinn Rutger Hauer bregður fyrir í hlutverki vestur-þýsks njósnara og er þetta sennilega eitt af hans betri hlutverkum frá Blade Runner, þó lítið sé. En enginn skýr þó skærar heldur en leikstjórinn George Clooney en þetta er hreint út sagt frábært byrjendaverk hjá honum.

Confessions of a Dangerous Mind er einfaldlega æðisleg mynd sem kemur stöðugt á óvart. Ég hvet alla til að sjá hana. Ein af bestu myndum ársins.

P.s. Reynið að taka eftir Brad Pitt og Matt Damon í hreint óborganlegum gestahlutverkum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bowling for Columbine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Heimildamyndir eru misáhugaverðar. Flestar fjalla þær um áhugavert viðfangsefni enda held ég að fáir myndu horfa á heimildamynd um tilhugalíf brekkusnigla eða eitthvað annað álíka (alls ekki nein sneið til þeirra sem það gera í alvörunni). Ekki er nóg að hafa viðfangsefnið áhugavert, maður þarf að kunna að segja rétt frá því. Enginn gerir meira lifandi, frísklegri og áhugaverðari heimildamyndir heldur en Michael Moore. Hann er gífurlega gagnrýninn á vestrænt og þá sérstaklega bandarískt samfélag og gerir það alltaf á skemmtilega háðskan hátt. Auk þess fjalla myndir hans um eitthvað sem snertir okkur einmitt á þessari stundu. Nýjasta mynd hans, Bowling for Columbine, fjallar um og reynir að útskýra hina gengdarlausu byssueign Bandaríkjamanna. Bowling for Columbine toppar fyrri myndir hans sem þó voru allar frábærar. Hún er hrein og tær snilld, frá upphafi til enda.

Það sem ég hef helst heyrt kvartað yfir er að hinn tveggja stunda sýningartími myndarinnar sé einum af langur. Mér fannst það ekki þar sem að Moore kemur með frábæra punkta, hvern á eftir öðrum svo það er hrein unun að horfa á það á tímabili.

Þrátt fyrir allt eitrað háðið sem Moore dembir bæði yfir því sem gerist ásamt sumum viðmælenda sinna er stutt í alvöruna. Til að undirstrika það fáum við að sjá upptökur öryggismyndavéla af blóðbaðinu í Columbine-háskólanum þar sem tveir skólastrákar myrtu fjölda samnemenda sinna. Það eru ekki ýkja fallegar myndir. Auk þess er mikil sorg út af mörgum öðrum tengdum hlutum og gífurleg reiði í garð þeirra afla sem leynt og ljóst stýra fjölmiðlum og öðrum öflum í landinu til að ala á ótta og þar með ala á byssueign.

Moore talar við ýmsa karaktera og koma þeir misvel út og eru misvel áhugaverðir. Marilyn Manson og Matt Stone (annar South Park gauranna) koma best út. Þetta er dæmi um tvo einstaklinga sem hlutum er venjulega klínt á (bæði í Bandaríkjunum og hér heima einnig) þegar eitthvað hörmulegt gerist, eins og morðin í Columbine-skólanum. Báðir svara þeir að mínu mati framúrskarandi gáfulega fyrir sig og koma með marga góða punkta. Einnig er síðan hreint eitruð athugasemd frá Chris Rock í uppistandsupptöku sem við sjáum.

Þeir sem koma hins vegar illa út, fyrir utan einhverja hálfgeðveika byssuóða rauðhnakka (rednecks) sem Moore talar við, eru menn eins og Charlon Heston, formaður NRA sem stendur fyrir National Rifle Association. Moore gerir hann að algjöru fífli í dýrlegu viðtali undir lok myndarinnar og gegnumlýsist þá algjörlega málflutningur samtaka eins og hans en hann er gjörsamlega innantómur og rangur.

Þetta er mjög mikilvæg mynd fyrir fólk að sjá, sérstaklega unglinga sem eru að fara að pæla í hlutunum. Hér fá þeir að sjá sjónarhorn manns sem er ekki stjórnað af áróðursmaskínu stóru fjölmiðlanna. Að mínu mati besta og mikilvægasta mynd ársins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shanghai Knights
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það litla og næfurþunna plott sem er í Shanghai Knights er eitthvað á þessa leið. Hinu keisaralega innsigli er stolið af hinum illu Lord Rathbone (Aidan Gillen) og Wu Chow (Donnie Yen), sem vonast báðir til þess að verða hæstráðendur landa sinna. Faðir Chon Wang (Jackie Chan) er drepinn í árásinni. Chon verður nú að halda til Englands til að leita hefnda og að sjálfsögðu dregur hann félaga sinn, Roy O'Bannon (Owen Wilson) með sér. Að sjálfsögðu veit það á vandræði. Ekki nóg með að Chon þurfi að hafa Roy á bakinu heldur þarf hann einnig að passa upp á yngri systur sína, Chon Lin (Fann Wong) sem einnig ætlar sér að hefna föður síns. Og ofan á allt saman laðast Chon Lin og Roy hvort að öðru og Chon Wang gerir allt sem hann getur til að afstýra því, enda telur hann Roy ekki beinlínis heppilegt mannsefni handa henni.

Söguþræðirnir verða ekki öllu heimskulegri en í þessari mynd og minnir hún mest á Wild Wild West sett í Englandi í því samhengi. En asskoti er gaman að vitleysunni. Myndin gengur aðallega út á misvel lukkaða fimmaurabrandara í bland við bardagasenur og er ekkert út á það að setja í sjálfu sér. En það sem setur þessa mynd dálítið ofar heldur en flestar aðrar er hinn fíni samleikur Jackie Chan og Owen Wilson, alveg eins og í fyrri myndinni. Vissulega á myndin það til að byrja dáldið hastarlega og fyrrihlutinn er dálítið stirðbusalegur en hún vinnur stöðugt á eftir því sem á líður og það er ekki hægt að viðurkenna annað en að samleikur Chan og Wilson er unun að horfa á. Þeir eru eins og vel samstillt danspar sem veit alltaf nákvæmlega hvað hinn aðilinn ætlar að gera og bregst þá hárrétt við.

Jackie Chan er að vísu farinn að eldast og er kannski hættur að gera þessi fáránlegu bardagaatriði sín en það er engin spurning að hann getur svo sannarlega slegist og gerir það oft, sérstaklega er lokabardaginn eftirminnilegur. Og hin unga Fann Wong er mögnuð í sínum bardagaatriðum. Og Owen Wilson heldur áfram vel sínu. Hann er einn af þeim mönnum sem kemur skemmtilega á óvart. Bak við aulaglottið býr nefnilega einn af skarpari hugsuðum í kvikmyndabransanum í dag, eins og handritin að Rushmore og The Royal Tenenbaums sýna. Og kaldhæðnisleg skot hans eru oftast meinfyndin.

Einn góður brandari í myndinni er að fullt af allskonar frægum karakterum bregður fyrir án þess að maður átti sig endilega á því hverjir það eru. Það er gaman að telja þá upp.

Þetta verður seint talin merkileg mynd en hún er hörkufín skemmtun fyrir aðdáendur Jackie Chan og/eða Owen Wilson og einnig fyrir þá sem hafa ekki fílað þá hingað til.

Góða skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Four Feathers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndin fjallar um píslargöngu Harry Faversham (Heath Ledger). Harry þykir vera efnilegasti ungi hermaðurinn í breska hernum árið sirka 1875. Hann er sonur hershöfðingja og allir líta upp til hans, þar á meðal besti vinur hans Jack Durrance (Wes Bentley) þó að hann einnig öfundi hann á laun og þá sérstaklega yfir því að hann skuli vera trúlofaður Ethne (Kate Hudson) sem Jack elskar einnig. Allt leikur í lyndi fyrir Harry þangað til að breski herinn er kallaður út til að berjast við uppreisnarmenn í Súdan. Harry tekur þá upp á því að skrá sig úr hernum og greinilegt er að hann hefur aldrei kært sig um að vera í hernum eða fara í neitt stríð. Þetta er náttúrulega litið á sem hin grófustu svik og fær Harry sendar fjórar hvítar fjaðrir, sem eru merki um heigulshátt, þar með talið eina frá heitkonu sinni. Staðráðinn í að endurheimta æruna, ásamt því að reyna að vernda vini sína, þá sérstaklega Jack, leggur Harry upp í ferð til Súdans og þar ásamt hjálp aðstoðarmanns síns Abou Fatma (Djimon Hounsou) reynir að bjarga vinum sínum úr miklum ógöngum.

Ja hérna hér!!!! Ég hélt að það væri ekki hægt að réttlæta svona lagað lengur. Það mætti halda að sjálfur Cecil Rhodes hefði leikstýrt þessari. Myndin er ekkert annað heldur en einn stór lofgjörðarsöngur um breska heimsveldið. Það er ekki minnst einu orði á skelfilegar afleiðingar nýlendustefnu Breta á Afríku sem enn eiga sér stað, þvert á móti eru Bretarnir sýndir sem hugrökk og göfug ofurmenni sem standa fastir fyrir á móti snarbrjáluðum villimönnum að nokkrum undanskildum eins og About Fatma sem er dyggur þjónn Harry og fylgir honum hvert fótmál, hvers vegna er hálf óskiljanlegt. Og Shekhar Kapur er Indverji!!! Indland er nú önnur gömul nýlenda Breta. Maður mætti halda að hann reyndi allavegana eitthvað að sýna hlutina frá fleiru en einu sjónarhorni. Og hann sem hefur gert svo ágætar myndir hingað til, eins og Elizabeth.

Það er helst að myndin byrji sæmilega og maður getur líkað við eina og eina senu, þá helst þegar afrísk prinsessa mölbrýtur hausinn á nýlendukúgara sínum sem er Frakki og eina ógeðslega hvíta persónan í allri myndinni. Hann er Frakki!!! Hmmm, eru einhver dulin skilaboð hér!!!!

Aðalleikararnir standa sig reyndar betur heldur en myndin á skilið. Heath Ledger er hreint prýðilegur í titilhlutverkinu þó hann sé enginn Arabíu-Lawrence og ástæður hans og aðgerðir eru fremur óskiljanlegar og lýsa helst hálfgerðum barnaskap. Kate Hudson, sú ágæta leikkona, gerir einnig eins vel og hún getur við sitt hlutverk en hlutverkið er vonlaust. Í rauninni meira en vonlaust, það er blátt áfram móðgandi við konur í heild. Litið er á þær sem hálfgerða kjána sem virðast alltaf vera sammála síðasta ræðumanni. Og West Bentley, sem vakti mikla athygli mína í meistaraverkinu American Beauty, er hálf lánlaus sem litlaus og óspennandi karakter.

Og hvernig stendur á því að Djimon Hounsou, sem var svo firnasterkur í Amistad, skuli aldrei fá neitt annað að gera heldur en að vera hundtryggur þjónn einhvers hvíts fáráðlings sem virðist ekkert vita hvað hann er gera eða hvers vegna.

Jæja, þetta verður þó kannski til þess að opna augu fólks fyrir rasismanum og kvenfyrirlitningunni innan Hollywood-maskínunnar.

Tæknilega lítur myndin mjög vel út, skotin á flottum tökustöðum, með fínni kvikmyndatöku og tónlist og einnig mjög vel gerðri bardagasenu.

Oft flott og vel gerð mynd, en einnig alveg agalega gagnrýni-, átaka- og ádeilulaus og oft hálf móðgandi á köflum.

Ein af slökustu stríðsmyndum í þó nokkurn tíma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Core
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ytri kjarni jarðar er allt í einu hættur að snúast. Þetta veldur því að öll rafsegulsvið umturnast, fuglar vita ekkert lengur hvert þeir eru að fara, fólk með gangræði dettur dautt niður og göt á hjúpi jarðar gera það að verkum að margar borgir eru rústir einar. Á endanum mun það fara svo að geislar sólarinnar munu steikja jörðina og eyða öllu lífi sem er á henni. Til að varna endalokunum velur ríkisstjórn Bandaríkjanna marga af færustu vísindamönnum heims, eins og Josh Keyes (Aaron Eckhart), Serge Leveque (Tchéky Karyo), Conrad Zimsky (Stanley Tucci) og Ed Brazzelton (Delroy Lindo) ásamt færustu flugmönnum heims, Rebecca Childs (Hilary Swank) og Bob Iverson (Bruce Greenwood) ásamt færasta tölvunirði heims, Rat (DJ Qualls) til að yfirtaka netið svo að enginn viti hvað er að gerast. Ætlunin er að fara niður að kjarna jarðar og koma þar fyrir mjög öflugum kjarnorkusprengjum og nota þær til þess að koma kjarnanum aftur á hreyfingu. Dr. Brazzelton hefur einmitt smíðað vél sem á eftir að þola þann ógnarhita og þrýsting sem leynist í iðrum jarðar. Og ferðin er hafin!!!

The Core er eins mikil B-mynd og þær verða. Flestöll samtölin eru hálffáránleg og gætu verið út úr Roger Corman mynd. Staðreyndavillur eru óteljandi. Plottið sjálft og áætlunin fyrir björgun jarðarinnar eru svo heimskuleg að það er vart hlæjandi að því. En ekki er þessi mynd leiðinleg, svo mikið er víst.

Það liggur dálítið á milli hluta hvort þessi mynd tekur sig alvarlega eða ekki. Allavega hefur hún meira gaman af og meiri húmor fyrir sínum eigin fáránleika heldur en hörmungir eins og Deep Impact og Armageddon höfðu. Og við erum blessunarlega laus við langmest af öllu því þjóðrembubulli sem rennur venjulega í stríðum straumum út úr bandarískum stórslysamyndum. Og við erum einnig blessunarlega laus við væmnina og velluna sem rennur venjulega álíka hratt og mikið út úr þeim. Bara fyrir það fær myndin smá extra plús hjá mér.

Leikarar eru svona upp og ofan. Aaron Eckhart hefur einfaldlega ekki það sem tekur til þess að vera aðalleikari tiltölulega stórrar myndar. Persóna hans er líka heldur þurr og óspennandi. Hilary Swank gerir betur en hún virðist ætla að verða ein af þeim leikkonum að eftir að vinna Óskarsverðlaun fær aldrei hlutverk við sitt hæfi. DJ Qualls er jafn óþolandi og venjulega, Richard Jenkins gerir sitt hins vegar ágætlega sem hinn fremur kaldhæðni hershöfðingi sem hefur yfirumsjón með verkinu. En það er Stanley Tucci sem stelur senunni, eins og svo oft áður, með mjög fyndinni túlkun á alveg endalaust hrokafullum og montnum leiðindakurfi.

Tæknibrellurnar eru ekkert til að hrópa húrra fyrir og mætti reyndar segja að þær væru óvenjulélegar núna þegar mest virðist vera lagt í alls konar tæknibrelluskrímsli.

Jæja, hvað sem því nú líður þá má segja að þetta sé alveg ótrúlega heimskuleg en samt dálítið viðkunnanleg mynd. Hún er alls ekkert svo léleg ef þið getið slökkt (og þá meina ég algjörlega slökkt) á heilanum í ykkur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Solaris
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndin segir frá Chris Kelvin (George Clooney) sem er sálfræðingur einhvern tímann í okkar nánustu framtíð. Chris er hálf niðurbrotinn maður eftir að þunglynd eiginkona hans, Rheya (Natascha McElhone) hafði framið sjálfsmorð. Stuttu síðar fær hann boð frá stjórnvöldum um að koma til geimstöðvarinnar sem svífur yfir plánetunni Solaris en þar hafa mjög undarlegir og dularfullir atburðir átt sér stað. Chris kemst að því að einungis tveir áhafnarmeðlimir eru ennþá á lífi, hinn taugaveiklaði Snow (Jeremy Davies) og hin ákveðna Dr. Helen Gordon (Viola Davis). Chris reynir að fá út úr þeim hvað hefur verið að gerast þarna en fær fá svör. Fyrstu nótt sína í geimstöðinni vaknar hann upp við það að hin látna eiginkona hans sefur við hliðina á honum. Hvernig komst hún þangað? Er hún tilbúningur plánetunnar? Og ef svo er, hvað vill plánetan eiginlega? Þrátt fyrir að Chris geri sér grein fyrir því að Rheya er ekki raunveruleg þá ber hann samt sömu tilfinningar til hennar eftir sem áður og einsetur sér að reyna að bjarga henni og koma henni aftur til Jarðar, í mikilli óþökk Gordon.

Það er engin spurning að Solaris er mjög metnaðarfull mynd. Sagan sjálf veltir upp mörgum spurningum um eðli mannsins og einnig lítur myndin mjög vel út og plánetan sjálf Solaris er magnþrungin. Verst að myndin skyldi einnig þurfa að vera svo hrútleiðinleg að ég hef sjaldan orðið vitni að öðru eins.

Það gerist eiginlega ekkert og það litla sem gerist hefði getað verið áhugavert ef að Soderbergh og félagar hefðu nennt að fylgja því eitthvað eftir. Í staðinn eru þær áhugaverðu hugmyndir sem annars eru til staðar í sögunni látnar hanga í lausu lofti og áhorfendur hálfpartinn dregnir á asnaeyrunum að niðurstöðu sem er frekar fyrisjáanleg. Svona dót var gert svo miklu miklu betur í meistaraverkinu 2001: A Space Odyssey. Hérna er þetta bara ekki að virka.

Af leikurunum er George Clooney sá eini sem tekst að halda haus í gegnum þetta. Leikur hans er með miklum ágætum og leitt að myndin sé jafn slök og hún er. McElhone gerir það sem hún getur en getur í rauninni lítið gert með frekar óskiljanlegan og illþolandi karakter. Jeremy Davies verður ansi pirrandi til lengdar með sína taugaveiklunartakta og persónan Gordon er bara enn ein stereótýpan fyrir svarta leikkonu að leika.

Soderbergh finnst mér vera afar mistækur leikstjóri. Hann hefur gert mjög góðar myndir eins og Traffic og Out of Sight, skítsæmilegar myndir eins og Erin Brockovich og Ocean's Eleven og síðan niður í hreint afleitar myndir eins og Solaris. Í rauninni er það mjög leitt að hún skuli vera svona slæm af því að hugmyndirnar sem koma fram í henni eru fínar og áhugaverðar en þetta er einfaldlega gjörsamlega líflaust batterí.

Það hefði verið forvitnilegt að sjá hvað orkuboltinn James Cameron hefði getað gert við myndina ef að hann hefði leikstýrt henni í stað þess að framleiða. Það hefði þá kannski verið örlítill lífsneisti með henni.

Þrátt fyrir þetta langar mig talsvert til þess að sjá upprunalegu myndina frá 1972. En forðist þessa útgáfu, hún er afleit.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Nói albínói
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nói (Tómas Lemarquis) er 17 ára strákur sem hefur búið alla sína ævi í þorpi úti á landi með sérvitri ömmu sinni og drykkfelldum föður. Hann er óvenjulega gáfaður og í rauninni hálfgert undrabarn. Nói hefur einhvern veginn aldrei passað inn í þetta samfélag. Hann hefur engan áhuga á skólanum og tekur stundum upp á því að senda segulbandstæki í tímann í stað þess að mæta sjálfur. Útlitið verður þó ögn bjartara þegar í þorpið kemur stelpa sem heitir Íris (Elín Hansdóttir) sem er að flýja óreglu í Reykjavík. En atburðir gerast sem verða til þess að Nói þarf að ákveða hvað hann vill gera við líf sitt, hvort hann vilji veslast upp í þessum hálfgerða draugabæ sem hefur ekkert að bjóða honum eða hvort hann þurfi ekki að fara þaðan.

Þetta er talsvert óvenjuleg íslensk mynd. Venjulega þegar kemur að svörtum íslenskum gamanmyndum er húmorinn fremur ærslafullur og farsakenndur. Hér er hann miklu meinfyndnari og kaldhæðnari og byggir meira upp á sérvitrum karakterum heldur en undarlegum uppákomum. Hún er uppfull af skringilegheitum eins og að amman vekur Nóa á morgnana með því að skjóta úr riffli út um gluggann hans o.s.frv. Myndin er drepfyndin á köflum og mörg frábær atriði í henni en það er samt sem áður ákveðinn dekkri og dramatískari undirtónn gegnumgangandi í henni sem verður nánast allsráðandi undir lokin.

Tómas Lemarquis er ný stjarna á Íslandi. Hann fer frábærlega með hlutverk Nóa og býr til úr hlutverkinu mjög heilsteyptan og áhugaverðan karakter sem maður gæti vel trúað að væri til í öðru hvoru sjávarplássi á Íslandi. Þröstur Leó Gunnarsson er einnig frábær sem pabbi Nóa. Hans karakter er ekki þessi gamla klisja um ofbeldisfullan drykkjumann. Þvert á móti er persónan vissulega ekki með fasta fætur í lífinu en honum þykir greinilega mjög vænt um Nóa og þetta samband Nóa við föður sinn er að mínu áliti tilfinningakjarni myndarinnar. Aðrir leikarar standa sig einnig vel, þá sérstaklega Pétur Einarsson sem óvenjulegur prestur staðarins og Guðmundur Ólafsson sem langþreyttur kennari Nóa.

Dagur Kári, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, er mjög eftirtektarverður og óvenjulegur nýr leikstjóri og verður gaman að sjá hvað fleira hann mun gera í framtíðinni. Allavega er Nói albinói mjög fín og óvenjuleg svört gamanmynd sem ég mæli með við alla.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Punch-Drunk Love
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Paul Thomas Anderson, þeim snillingi, hefur greinilega verið mikið í mun að sýna að hann gæti gert 90 mínútna mynd um einfaldan hlut, eins og hefðbundið rómantískt samband karls og konu. Að vísu gerir hann það með sínum óhefðbundnu aðferðum. Í aðalhlutverkinu er einn af þeim mönnum sem fyrirfram er einna ólíklegastur allra leikara til að leika aðalhlutverkið í mynd eftir Anderson, Adam Sandler. Og mótleikkona hans er stórleikkonan Emily Watson. Er hægt að ímynda sér ólíklegra par. Útkoman er besta rómantíska gamanmynd ársins.

Sandler leikur Barry Egan, mann sem hefur alla tíð verið undirokaður af systrum sínum sem eru sjö talsins. Barry reynir einnig að reka viðskipti með salernishreinsivörur en sá rekstur er hálfpartinn í klósettinu sjálfur. Á yfirborðinu er Barry pínlega feiminn og óframfærinn en óánægja hans með sjálfan sig og líf sitt brýst oft út í æðisköstum á milli. Það mætti segja að Barry væri fremur óhamingjusamur.

Þangað til að hann hittir Lenu (Emily Watson) sem að systir hans hafði kynnt fyrir honum. Þrátt fyrir alla óframfærnina tekst honum að ná til Lenu og hún til hans. En babbið í bátnum er að hann þarf að hreinsa upp eftir sig afleiðingar þess að hafa hringt í kynlífslínu þegar hann var einmana. Núna er stelpan og dólgurinn hennar (Philip Seymour Hoffman) að kúga út úr honum peninga og senda handrukkara heim til hans þegar hann neitar að borga. Hvernig á honum að takast að losna við hyskið án þess að Lena komist að því?

Í rauninni skiptir söguþráðurinn ekki svo miklu máli ef út í það er farið. Myndin er einfaldlega um karl og konu sem eru hrifin af hvort öðru og sambandi þeirra. Virkar hefðbundið myndu margir halda en ekki í meðförum Andersons. Karakterarnir eru raunverulegir, með alvöru vandamál og hafa ekki þetta glansútlit sem einkennir flesta leikara í rómantískum gamanmyndum. Þeir lenda einnig í skrítnum, oft drepfyndnum en þó fullkomlega trúverðugum uppákomum. Kannski er það bara ég en mér finnst ríkja einhver gleði yfir myndinni og það er eitthvað gott við það að þessir karakterar hafi fundið hvor annan. Ég held allavegana að það sé það sem Anderson er að fara. Hann reynir einnig að sýna það sjónrænt með skotum sem sýna ekki neitt nema alls konar skæra liti. Einnig með mikilli litadýrð þegar karakterarnir eru á Hawaii saman og fleira í þeim dúr.

Mig hefur grunað það, alveg frá því ég sá The Wedding Singer að það væri eitthvað meira spunnið í Adam Sandler heldur en hálfömurlegar myndir sem hann hefur gert, eins og Big Daddy eða Little Nicky, gáfu til kynna. Og hér springur hann út. Hann leikur svipaða persónu og hann hefur oft áður gert, góðláta á yfirborðinu en botnlaus pyttur af uppsafnaðri reiði og pirringi undir niðri. Munurinn er sá að í þetta sinn virkar persónan eins og alvöru manneskja, en ekki bara eins og hver annar karakter í gamanmynd. Sandler hefur sýnt, rétt eins og Jim Carrey gerði með The Truman Show, að hann getur gert fleira heldur en að leika fávitahlutverk í fávitamyndum. Vonandi verður hann ekki jafn væminn og Jim Carrey er orðinn í seinni tíð. Þetta er frábær frammistaða.

Emily Watson, sem mér finnst nánast aldrei fá hlutverk við sitt hæfi, stendur sig einnig mjög vel á móti Sandler og þetta ólíka kvikmyndapar tekst að búa til mjög sterkt aðdráttarafl sín á milli. Philip Seymour Hoffman er einnig mjög skemmtilegur sem hálfgeggjaður melludólgur og smábófi.

Þessi mynd kemst ekki í þann þungavigtarflokk sem nánast meistaraverkið Boogie Nights og meistaraverkið Magnolia eru í en ég segi það og stend við það, ef að allar rómantískar gamanmyndir frá Bandaríkjunum væru eins og Punch-Drunk Love, þá gerði maður ekki annað heldur en að vera í bíói. Frábær mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Pianist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndin The Pianist, eftir Roman Polanski er sennilega ein af hans persónulegustu til þessa. Polanski, sem sjálfur lifði af hörmungar heimsstyrjaldarinnar síðari og dauðabúðirnir í Auschwitz, hefur hér búið til sína bestu mynd síðan Chinatown árið 1974 og eina af þeim myndum sem er skylduáhorf á þessu ári.

Myndin segir frá ótrúlegri þrautargöngu pólska píanóleikarans Wladyslaw Szpilman og hvernig honum, með hjálp pólsku andspyrnuhreyfingarinnar, en ekki síður með útsjónarsemi, tilviljun og mikilli heppni, tókst að leynast í Varsjá í gegnum allt stríðið rétt fyrir framan nefið á nasistunum.

Ég ætla að segja sem minnst um söguþráð myndarinnar af því að hann kemur sífellt á óvart. Það má skipta myndinni upp í tvo hluta. Annar hlutinn fjallar um hernám Póllands og sýnir okkur hvernig farið er með Pólverja og þá sérstaklega pólska gyðinga, eins og Szpilman. Öll þeirra réttindi eru afnumin, niðurlægjandi merkingaraðferðum er komið á, þeir eru lamdir á götum úti og að lokum er þeim öllum holað inn í gettóið og þar mega þeir hýrast á sultarmörkum þar til loksins að nasistarnir færa þá í útrýmingarbúðirnar, þar sem þeir eru látnir vinna eins og skepnur þangað til þeir ganga sér til þurrðar, eða þá einfaldlega settir í gasklefana um leið. Þessi hluti myndarinnar er mjög átakanlegur og oft beinlínis nístandi á að horfa, eins og hann ætti líka að vera. En það er seinni hlutinn sem gerir þessa mynd athyglisverðari heldur en flestar aðrar seinni heimsstyrjaldar- eða helfararmyndir. Szpilman er bjargað af manni í pólsku leppsveitunum og það sem eftir lifir stríðs flækist hann eða er fluttur frá stað til staðar og er oft kominn á ystu nöf með að nást. Hann lifir af en hver er vinningurinn í því þegar nánast allir sem hann þekkti hafa verið myrtir.

Polanski sjálfur slapp úr klóm dauðans fyrir hreina heppni, föður hans tókst að smygla honum í gegnum op á girðingu, þá sirka bát 8 eða 9 ára gömlum. Hann veit að það var tóm heppni og tilviljun að hann fórst ekki ásamt nánast öllum öðrum. Ótrúleg þrekvirki fólks á borð við Oskar Schindler björguðu vissulega mörgum frá útrýmingu en flestir björguðust svipað og Polanski og Szpilman gerðu. Enda reynir Polanski aldrei að gera Szpilman að einhverri hetju. Hann er einungis venjulegur, nánast örvingla maður sem gerir allt sem hann getur til þess að komast lífs af í gegnum þetta helvíti. Hitt sem er óvenjulegt við Szpilman er að hann er áhorfandi að hildarleiknum en ekki þátttakandi í honum. Það atriði er undirstrikað enn betur af þeim stað sem hann býr í, þakíbúð rétt fyrir utan gettóið, þar sem hann fylgist til að mynda með uppreisn þeirra sem enn eru í gettóinu sem er síðan að sjálfsögðu brotin á bak aftur. Hann sér líka hvernig stríðið fer smám saman að snúast Þjóðverjum í óhag og annað þannig háttar.

Szpilman er leikinn af bandaríska leikaranum Adrien Brody sem er hreint út sagt ótrúlegur. Það að hann er langtímum einn í mynd og þarf oft að halda henni uppi gerir frammistöðu hans enn magnaðri. Brody hverfur gjörsamlega inn í karakterinn sinn og leikur af miklu næmni og mikilli dýpt þetta flókna hlutverk. Brody, sem hefur ekki leikið í mörgum merkilegum myndum áður er einn af stórleikurum framtíðarinnar og satt besta að segja er frammistaða hans hér með þeim betri sem ég hef séð, punktur. Hann átti svo sannarlega skilin Óskarsverðlaunin í ár.

En það átti Polanski líka fyrir þetta nánast meistaraverk sitt. Ekki nóg með það að myndin sé jafn átakanleg og mögnuð eins og hún er, heldur er hún einnig óvænt hörkuspennandi, sérstaklega þegar Szpilman flýr frá einum stað í annan og rétt sleppur fyrir horn í hvert skipti. Spennan í þeim atriðum er meiri heldur en í nokkurri hasar- eða spennumynd sem hefur komið út á árinu.

The Pianist er besta myndin af þeim myndum sem tilnefndar voru sem besta mynd ársins 2002 og er bæði snilldarsýn á líf þessa manns og einnig átakanleg allegoría á einhverja þá allra viðurstyggilegustu tíma í sögu mannkynsins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Adaptation.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

En hvað mér finnst gaman að þessir tveir menn, Spike Jonze og Charlie Kaufman eru komnir fram sem kvikmyndagerðarmenn. Þeir eru einfaldlega þeir tveir frumlegustu í dag. Adaptation er þeirra önnur mynd saman og að sumu leyti er hún jafnvel enn þá ruglaðri og súrrealískari heldur en hin frábæra Being John Malkovich. Samt finnst mér hún ekki alveg jafn skemmtileg.

Adaptation fjallar um Charlie Kaufman (já, það er rétt, handritshöfundinn). Charlie (Nicolas Cage) hefur fengið það verkefni, eftir Being John Malkovich, að semja handrit eftir bók Susan Orlean, Orkídeuþjófnum. Charlie lendir í stökustu vandræðum með að gera bókina að kvikmyndahandriti og þjáist af ritstíflu og svefnleysi ásamt almennu óöryggi gagnvart öllum, sérstaklega konum. Hinn sjálfsöryggi en fremur treggáfaði tvíburabróðir hans, Donald (Nicolas Cage aftur) er á sama tíma að gera honum lífið leitt með því að spyrja hann ráða á einhverju afleitu handriti sem Donald er að reyna að böggla út úr sér einmitt þegar Charlie má ekkert vera að því að sinna honum. Á sama tíma fylgjumst við með Susan Orlean sjálfri (Meryl Streep) vera að vinna efni í grein um mann að nafni John Laroche (Chris Cooper), óvenjulegan mann sem stelur orkídeum og ræktar þær og virðist vera sérfræðingur á þessu sviði. Greinin verður að lokum að bókinni sem Charlie er að ströggla við. Líf allra þessara persóna flækist síðan saman, ýmist í handriti eða í alvörunni með óútséðum afleiðingum.

Það er hægt að ímynda sér þessa mynd á tvo vegu. Annarsvegar í hugarheimi persónanna og þá aðallega Charlies eða atburði sem eru að gerast í alvörunni á sama tíma og Charlie skrifar handritið. Hvort sem þið aðhyllist þá er útkoman eitthvað sem þið eigið seint eftir að sjá aftur. Þessi undirfurðulega, súrrealíska, sjálfshæðna, yndislega mynd kemur manni stöðugt á óvart og maður veit aldrei almennilega hvert hún er að fara. Samfara því að vera frumlegasta mynd ársins er þetta sennilega einnig kjarkaðasta mynd ársins.

Bara það eitt að gera jafn skefjalaust grín að sjálfum sér og sinni persónu sem að Charlie Kaufman gerir í handriti sínu er aðdáunarvert. En líka einnig fyrir að leyfa sér að koma fram með allar þessar stórskrítnu, stundum hálfkláruðu hugmyndum og að vera á einum nótum, kúvenda og skipta yfir í eitthvað allt annað. Frábær leikstjórn Jonze og frábært handrit Kaufmans gera þessa mynd að nánast, allt að því meistaraverki. Og leikararnir bregðast afar vel við því að fá loksins eitthvað almennilegt að narta í.

Nicolas Cage hefur ekki verið jafn góður síðan árið 1995 í Leaving Las Vegas. Allt í lagi, hann leikur frekar taugabilaða persónu með lítið sjálfstraust og sjálfsálit. Og hann hefur svo sem gert það áður. En þetta er engin venjuleg steríótýpa. Þetta er alvöru manneskja af holdi og blóði. Og það er einmitt þess vegna sem maður hefur simpatíu með honum af því að maður kannast svo vel við marga af hans vanköntum frá sjálfum sér. Cage leikur einnig bróðir Charlie, Donald (er skáldaður karakter að því er mér skilst) sem er gjörólíkur Charlie og gerir það alveg jafn vel. Og skuggalega góð klipping Eric Zumbrunnen í bland við frábæran leik Cage gerir það að verkum að samleikur Charlie og Donald er alltaf fullkomlega trúverðugur. Meryl Streep er síðan virkilega góð sem Susan Orlean (önnur alvöru persóna) sem verður hugfangin af þessum undarlega manni Laroche sem á yfirborðinu virðist vera algjör sveitadurgur en undir niðri er einstaklega gáfuð og fáguð manneskja. Streep fær frí frá öllum klútamyndunum og sýnir hvers hún er megnug sem leikkona með hugrakkri og mjög góðri frammistöðu. Chris Cooper fer síðan á kostum sem hinn undarlegi Laroche og er þetta hans besta hlutverk síðan hann lék í Octorber Sky. Cooper, sem hefur aðallega leikið harðhausa hingað til sýnir að hann er hinn færasti gamanleikari og leikur sitt hlutverk frábærlega.

Gallinn er að myndin virkar dálítið hálfkláruð. Og síðustu 20 mínútur hennar eru slík kúvending á sögunni að maður veit ekki alveg hvað manni finnst um það. Ef maður tekur það út frá heimspekilegu eða hugarfarslegu sjónarhorni er það snilld. Flest er hálfklárað í lífinu og kannski á það einnig við um handritsgerð. En ef það er partur af eðlilegri framvindu sögu gengur það ekki eins vel upp. Það sem Being John Malkovich hafði hugsanlega fram yfir þessa er að hún var heilsteyptara verk. En þessi mynd er einfaldlega of frumleg, of klikkuð og of djörf til þess að gefa henni ekki toppeinkunn.

Frábær mynd!!!!!!!

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Hours
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Erfið mynd að lýsa!!!


The Hours fjallar um þrjár konur á þremur mismunandi tímum. Þær lifa mismunandi lífum en eiga þó fleira sameiginlegt en ætla mætti.

Virginia Woolf (Nicole Kidman), einn af frægustu rithöfundum 20. aldar, glímir við geðsjúkdóm á sama tíma og hún er að skrifa eina af sínum merkustu skáldsögum, Mrs. Dalloway árið 1929

Árið 1951 í Kaliforníu býr húsmóðirin Laura Brown (Julianne Moore) við velsæld í úthverfi með ástríkum eiginmanni (John C. Reilly) og ungum syni. Hún elskar ekki eiginmann sinn og finnst hún vera gjörsamlega óhæf móðir drengs sem hún skilur ekki hvernig á að umgangast. Í einu skiptin sem hún er frjáls er þegar hún er að lesa skáldsögu Woolfs, Mrs. Dalloway, og þegar hún hittir nágrannakonuna, Kitty (Toni Collette), sem virkar mestmegnis hamingjusamlega fattlaus í sínu úthverfalífi.

Árið 2001 í New York er Clarissa Vaughan (Meryl Streep) ásamt kærustu sinni (Allison Janney) að undirbúa veislu fyrir vin þeirra Richard (Ed Harris) sem er að deyja úr alnæmi. Clarissa hefur annast Richard, sem hún var áður fyrr gift, í mörg ár og hefur alltaf sett upp grímu gagnvart öllum sem þessi sterka, sjálfstæða kona á meðan hún er í alvörunni viðkvæm og óörugg. Það að hún sé að halda veislu og það hvernig hún kemur fyrir og hvernig hún er í alvörunni samsvarar Mrs. Dalloway í bókinni. Bókin tengir þessar þrjár óhamingjusömu konur saman og óvæntir hlutir munu gerast á endanum.

Eins og ég sagði, þetta er erfið mynd að lýsa vegna þess hversu mikið hún er inn á sig svo að ég sjálfur veit ekki almennilega hvað ég var að skrifa núna rétt áðan. En það skiptir ekki máli. Hér kemur það sem mér finnst um hana.

Myndin hefur hæga uppbyggingu. Lengi vel finnst manni ekkert sérstakt vera að gerast. Og ekkert sérstakt gerist kannski á yfirborðinu. En það ríkir sannkallaður fellibylur í höfðum og tilfinningum flestallra persónanna. Fólk er ekki vant að opinbera tilfinningar sínar mikið gagnvart öðrum. Woolf getur ekki tjáð tilfinningar sínar við eiginmann sinn (Stephen Dillane), Brown getur það ekki gagnvart sínum eiginmanni eða gagnvart nágrannakonunni og Vaughan ekki gagnvart Richard eða við kærustu sína og dóttur (Claire Danes). Óhamingjan kraumar alltaf undir niðri og vegna þessa tjáningarleysis brýst hún upp þar sem síst skyldi, til dæmis með sjálfsmorðstilraunum.

Það eru þrjár sjálfsmorðstilraunir sem eiga sér stað í myndinni og tvær af þeim heppnast. Ég ætla ekki að ljóstra upp um það hverjar þær eru eða hvaða fólk á í hlut en hvernig myndin rennur áfram virkar það sem óumflýjanleg örlög persónanna, allavega í þeirra eigin huga.

Á endanum held ég að myndin fjalli um óbærileika þess að geta ekki elskað einhvern í kring um sig.

Þetta er hugsanlega best leikna mynd ársins. Frábært handrit David Hare eftir sögu Michael Cunningham og örugg en látlaus leikstjórn Stephen Daldry ásamt ótrúlega öflugri tónlist Philip Glass, í öllum sínum stórbrotna einfaldleika (einföld píanóstef), renna stoðum undir frammistöður leikaranna sem allir eru í essinu sínu.

Nicole Kidman, sem lengi vel var stöðugt í skugganum af fyrrverandi eiginmanni sínum, Tom Cruise, hefur nú skilið hann eftir í skugganum af sér. Hennar hlutverk, sem Virginia Woolf, er sennilega það erfiðasta í allri myndinni. Hún er sú persóna sem þarf að vera hvað mest inn á sig, hún lifir í sínum eigin heimi, sínum hugarheimi innan sinna eigin bókmennta, svo Kidman verður að tjá tilfinningar þessarar flóknu, marbrotnu konu mestmegnis með svipbrigðum. Hún gerir það hreint út sagt alveg stórkostlega. Á hún skilið Óskarinn fyrir, að mínu mati.

Julianne Moore, sem hefði í rauninni átt að vera búin að fá Óskarinn fyrir löngu síðan á að fá hann núna fyrir aðra snilldarframmistöðu. Laura Brown er sennilega sá karakter myndarinnar sem við finnum mest með. Hún er okkar tilfinningalegi hlekkur við hinar tvær. Moore gerir ótrúlega hluti með hlutverkið.

Og Streep hefur ekki verið jafn góð í ég veit ekki hvað mörg ár sem Clarissa, sem er frjáls gagnvart sínu samfélagi á máta sem að hinar tvær gátu aðeins látið sig dreyma um en hefur samt sem áður fangelsað sjálfa sig með þeirri grímu sem hún setur upp gagnvart öllum. Og Ed Harris er einnig frábær sem hið áður fyrr bóhemíska ljón sem Clarissa og fleiri drógust að sem hefur nú breyst, vegna sjúkdóms, í gamlan mann langt fyrir aldur fram sem þarf nú að lifa meðal sinna eigin minninga. Hann tengir einnig miðkaflann og seinasta kaflann saman á mjög óvæntan og afar sorglegan hátt.

Þetta er erfið mynd að horfa á, hún er lengi að byggjast upp og ekki mjög margt gerist. En fyrir fólk sem er óhrætt að sjá mynd um tilfinningar gefur hún yfrið nóg til baka.

Mynd sem snertir mann afar djúpt, geysilega öflug.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Daredevil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Matthew Murdock blindaðist sem drengur þegar hann fékk eitraðan úrgang yfir andlitið á sér. En það gerði einnig að verkum að öll hin skilningarvitin hans störfuðu á margfaldri getu. Svo öflug voru þau orðin að hann gat ,,séð, nokkurn veginn, með hálfgerðri radarskynjun af hlutum sem heyrn hans endurvarpaði. Við þetta varð hann einnig óttalaus með öllu. Eftir að faðir hans var myrtur fyrir að vilja ekki tapa bardaga viljandi sór Matthew þess eið að berjast fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Nú, mörgum árum seinna starfar Matthew (Ben Affleck) á daginn sem lögfræðingur fyrir fátækt fólk ásamt langþreyttum félaga sínum, Franklin (Jon Favreau). En á næturnar breytist Matthew í Daredevil, ofurhetju sem ber á öllum skúrkunum sem hann nær ekki að klófesta eftir laganna bókstaf. Matthew kynnist síðan Elektru (Jennifer Garner), öðrum bardagasnillingi og tilvonandi ofurhetju.

Vegna alls skaðans sem Daredevil gerir hefur Kingpin (Michael Clarke Duncan), aðalglæpaforingi New York, ákveðið að losa sig við hann í eitt skipti fyrir öll. Svo að Kingpin kallar á hinn stórhættulega og snargeðveika leigumorðingja Bullseye (Colin Farrell) sem er þekktur fyrir að missa aldrei marks. Og nú er við ramman reip að draga fyrir Matthew. Hann verður að berjast á móti Kingpin og glæpahyski hans ásamt Bullseye, vernda Elektru en Kingpin vill einnig losa sig við hana og varna því að Elektra komist að leyndarmáli hans á sama tíma.

Allt í lagi, viðurkennum það nú bara í eitt skipti fyrir öll. Hversu mikið sem að ofurhetjumyndir reyna að leyna því, þá eru sögurnar í þeim öllum næfurþunnar. En það skiptir engu máli í sjálfu sér svo lengi sem að myndin nær að skemmta fólki af því að það er að sjálfsögðu það sem svona myndir eiga að gera, skemmta fólki. Daredevil tekst það prýðilega vel og talsvert betur heldur en Spider-Man að mínu mati.

Á meðan að Spider-Man var einungis unglingur sem öðlaðist ofurkrafta og fannst það ofsalega skemmtilegt er Daredevil miklu flæktari persóna. Hann á í kunnuglegum foreldrakomplexum vegna föður síns (man einhver eftir Batman????), efast um sitt eigið réttmæti o.s.frv. Daredevil er kannski ekki alveg jafn flæktur og Batman en hann er nokkurs konar Dæet-Batman, ef maður gæti orðað það sem svo. Ben Affleck er jafn takmarkaður og alltaf en allavega helminginn af tímanum er hann dulbúinn svo að hann þarf í rauninni lítið að leika, blessunarlega. Jennifer Garner er ekki bara gullfalleg heldur fer hún alveg ágætlega með sitt takmarkaða hlutverk. Verst að það var ekki hægt að finna á hana góðan búning, flott nafn og að láta hana gera eitthvað þegar hún fer að slást. Michael Clarke Duncan er ábúðarmikill að vanda sem aðalvondikarlinn og á eitt frábært bardagaatriði á móti Daredevil þar sem maður skilur hversu sniðugt var að fá þennan risavaxna mann í þetta hlutverk. Og Colin Farrell myndar frábært mótjafnvægi við drungann í kringum hetjuna með sinni brjáluðu, biksvörtu kómísku frammistöðu. Atriðið með honum og gömlu konunni í flugvélinni er alveg yndislegt. Jon Favreau léttir líka andrúmsloftið sem kaldhæðinn samstarfsmaður Matthew. Joe Pantoliano sem árvökull blaðamaður sem grunar ýmislegt fær nákvæmlega ekkert að gera og er illa vannýttur.

Það sem kom mér mest á óvart var hversu dökk og ofbeldisfull myndin er svo að hún hentar sennilega ekki fyrir yngstu áhorfendurna. Bardagaatriðin eru óvenjulega ofbeldisfull miðað við svona myndir svo að oft fer maður að hugsa hvor sé sá góði og hver sá vondi. Sem er vissulega óvenjulegt og athyglisvert. Mark Stuart Johnson heldur vel utan um þetta með öruggri leikstjórn og skemmtilegu handriti hans og Brian Helgeland.

Þetta verður seint talið einhvers konar kvikmyndaþrekvirki en þetta er stórskemmtileg afþreying og mæli ég með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gangs of New York
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gangs of New York fjallar um sögulegt tímabil sem ég veit ekkert um. Svo ég verð bara að treysta Scorsese fyrir því að atburðirnir sem hann greinir frá hafi gerst í alvörunni. Vissulega er skáldað eins og í öllum myndum.

Gangs of New York fjallar um tímabilið frá 1846 til 1863 í New York. New York, eins og aðalpersónan Amsterdam Vallon (Leonardo DiCaprio) lýsir henni, er bræðsluofn helvítis. Fólk flýr unnvörpum frá gamla heiminum og sest að í þeim nýja þar sem allt bullar og kraumar á milli mismunandi hópa þar til allt sýður upp úr.

Myndin byrjar árið 1846. Írsku innflytjendurnir, leiddir af klíkunni dauðu kanínunum og foringja þeirra, Priest Vallon (Liam Neeson) berjast á götunni við hina ,,innfæddu, leidda af Bill the Butcher (Daniel Day-Lewis). Blóðugur bardaginn endar á þá leið að Bill drepur Priest og hinir innfæddu vinna. Ungur sonur Priests, Amsterdam, sér þegar faðir hans er drepinn. 17 árum seinna, snýr Amsterdam aftur úr unglingafangelsi og sver þess eið að hefna föður síns. Til þess að komast nálægt Bill, sem nú ræður nánast allri borginni og er hið raunverulega afl bakvið spillta stjórnmálamenn eins og Boss Tweed (Jim Broadbent), ákveður hann að gerast innanbúðarmaður hjá honum. Amsterdam ávinnur sér traust Bill og verður í leiðinni hugfanginn of Jenny (Cameron Diaz), ,,vinkonu Bills og mjög færum vasaþjófi. Gallinn er að besti vinur Amsterdam, Johnny (Henry Thomas, úr E.T.) er einnig yfir sig ástfanginn af henni. Afbrýði blossar upp sem er mjög hættulegt fyrir Amsterdam. Hann er rétt við það að ná Bill en Bill er einnig rétt við það að komast að leyndarmáli Amsterdam. Og brátt fer allt í háaloft.

Að segja að myndin sé glæsileg á að líta er að fara ansi vægt í sakirnar. Hún er algjör veisla fyrir augað. Myndin hefur verið kvikmynduð svo vel gerð út í minnstu smáatriði að það er ótrúlegt. New York 19. aldar er lýst hér sem borg mikilla andstæðna. Annars vegar er það ömurleg fátæktin þar sem ástandið er eins og slæmt ástand í borg í þriðja heiminum, allt drulluskítugt og í algjörri niðurníðslu. Hins vegar eru það ríkra manna hverfin sem líta óaðfinnanlega út, öll þvegin og glæsileg. Myndin er fullkomin, útlitslega séð.

Martin Scorsese leikstýrir af sínum alkunna fítonskrafti. Myndin er löng en hún virkar ekki löng á mann og manni leiðist ekki eina einustu mínútu. Það er ekkert réttlæti til í heiminum ef Scorsese vinnur ekki Óskarinn sem besti leikstjóri, þó ekki það væri nema bara fyrir það hvað það er svakalega uppsafnað.

Gallar myndarinnar felast í handritinu. Það er stundum ótrúverðugt og ansi yfirgengilegt á dramatískan mælikvarða. Handrit Jay Cocks, Steven Zaillian og Kenneth Lonergan gerir sögunni góð skil, byggir vel upp söguna og er áhugavert í sjálfu sér. Mér leið bara eins og ég væri að horfa á kvikmyndun á Íslendingasögu. Örlög Amsterdam er að drepa Bill í miklu lokauppgjöri, hann getur ekki vikist undan og farið fyrr en það er búið blablablabla... Leikararnir tala stundum eins og hver einasta lína sé mikilvægasta setning sem þeir munu nokkurn tímann segja o.s.frv. Þessi yfirgengilega dramatík við allt jaðrar við það að fara yfir á svið fáránleikans og stundum fer það yfir línuna sem er ekki gott mál því um leið tapar myndin trúverðugleika sínum. Fyrir utan þetta er í sjálfu sér ekki mikil dramatísk dýpt í henni, jafnvel þó myndin sjálf haldi það. En Scorsese og hinir fínu leikarar bjarga þó oft furðumiklu.

Leonardo DiCaprio hefur í alvörunni sjaldan verið betri en hér. Við sjáum veröld New York í gegnum hans augu og DiCaprio nær fínu jafnvægi á milli hins alvörugefna, hefndarsjúka manns og hins óörugga, ráðvillta stráks sem þjáist oft af ansi mikilli minnimáttarkennd gagnvart Bill. Cameron Diaz heldur sínu og gott betur sem rödd skynseminnar í myndinni. Þessi vanmetna leikkona gerir hlutverki sínu mjög vel skil. Ástarsenur hennar og DiCaprio eru til dæmis furðu erótískar miðað við aðstæður jafnvel þó DiCaprio virki alltaf eins og dálítill stráklingur við hliðina á henni. Verst er hvað hlutverkið er takmarkað og Jenny verður á endanum að hinum trúa og trygga lífsförunauti ,,hetjunnar miklu.

Daniel Day-Lewis er síðan kafli alveg út af fyrir sig. Í kraftmestu frammistöðu ársins gerir hann Bill the Butcher ekki bara að kolrugluðum og stórhættulegum ofbeldismanni heldur einnig að óvenjulega margbrotnum karakter sem, þrátt fyrir að vera algjör bjöllusauður hefur ákveðinn móral og siðareglur. Þegar allt kemur til alls, er hann kannski ekki aðalvondikarl myndarinnar heldur meira fórnarlamb aðstæðnanna, eins og allir aðrir. Reiði myndarinnar virðist allavega meira beinast að ríku hrægömmunum eins og Boss Tweed sem halda öllum í heljargreipum fátæktar á meðan þeir spranga um í vellystingum. Day-Lewis er hreint út sagt ótrúlegur og karakter hans held ég að eigi eftir að lifa áfram, jafnvel þó myndin geri það ekki.

Aukaleikararnir eru einnig fínir, þá sérstaklega Jim Broadbent og Brendan Gleeson (sem þverpólitískur góður náungi). Liam Neeson kemur einnig sterkt inn í byrjun þó hlutverkið sé lítið.

Þetta er mynd sem mig dauðlangar að gefa þrjár og hálfa stjörnu en vegna talsvert gallaðs handrits get ég því miður ekki gefið nema þrjár. En myndin er samt sem áður skylduáhorf fyrir þrjá hluti. Hún kynnir okkur fyrir mjög áhugaverðri sögu sem ekki er mikið vitað um, þetta er næstflottasta mynd ársins strax á eftir The Two Towers og fyrir stórkostlega frammistöðu Day-Lewis.

P.s. Reynið að taka eftir Scorsese sjálfum bregða fyrir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1998 kom út japanska hrollvekjan Ringu (eða The Ring, hugsanlega, hef aldrei áttað mig á því). Þetta er næstbesta hrollvekja sem ég hef nokkurn tímann séð, strax á eftir The Shining. Myndin var nánast ekkert ofbeldisfull eða blóðug en andrúmsloftið var svo þrúgandi af einhverri ósýnilegri ógn og myndin svo yfirmáta óhugnanleg alveg frá fyrstu mínútu að maður átti í erfiðleikum með að sofna nokkrar nætur á eftir. Hér er komin bandarísk endurgerð þeirrar frábæru myndar og hún er góð í flesta staði en maður spyr sig að því: hvers vegna í ósköpunum þurftu þeir að endurgera myndina.

The Ring gengur út á það að hver sá sem horfir á dularfullt, skuggalegt myndband, sem er gjörsamlega óskiljanlegt, fær síðan símhringingu strax á eftir þar sem óhugnanleg rödd segir honum/henni að hann/hún muni deyja innan sjö daga. Sjö dögum síðan deyr manneskjan á óskiljanlegan hátt og finnst hroðalega útleikin.

Frænka blaðakonunnar Rachel Keller (Naomi Watts) er nýjasta fórnarlamb myndbandsins. Rachel ákveður að athuga málið nánar. Hún finnur myndbandið og horfir á það. Hún fær einnig símhringinguna og gerir sér þá ljóst að hún er í bráðri lífshættu og í miklu kapphlaupi við tímann. Það versta er að sonur hennar (David Dorfman) horfði óvart einnig á myndbandið svo hún þarf einnig að bjarga lífi hans. Með hjálp fyrrverandi kærasta síns og barnsföður (Martin Henderson) kemst hún á snoðir um fjölskylduharmleik úti á lítilli eyju sem tengist einhvern veginn myndbandinu. Rachel þarf að fara út til eyjarinnar og komast að hinu hryllilega leyndarmáli myndbandsins.

The Ring er augljóslega gerð fyrir talsverðan pening, ólíkt japönsku myndinni. Hún er mjög vel gerð tæknilega séð og einnig getur hún reitt sig á sterka frammistöðu Naomi Watts í aðalhlutverkinu (hún var í Mulholland Dr.). The Ring er áfram virkilega óhugnanleg og óþægileg mynd. En einhvern veginn leyfi ég mér að efast um að það sé beinlínis þessari mynd að þakka. Ég held að það sé meira að þakka ógnvekjandi sögu Kôji Suzuki sjálfri sem var í báðum myndunum. Sagan sjálf var geysilega óhugguleg sérstaklega vegna þess að hún sagði okkur í rauninni svo lítið um það hvað var sem sat um líf aðalkarakteranna. The Ring útskýrir einum of mikið af hlutum í lokin. Því minna af útskýringum, því meira af óhugnaði. Ekkert hræðir fólk jafn mikið og það sem það skilur ekki. Auk þess finnst mér sumt af þeim nýju útfærslum sem koma fram í The Ring hálf heimskulegar. Bandaríkjamenn eiga það til að ofauka allt í myndum sínum. Til dæmis þótti mér það algjör óþarfi að hafa fórnarlömbin afmynduð. Í japönsku myndinni fundust þau einungis stjörf, eins og þau hefðu dáið úr hræðslu. Mér fannst það alltaf miklu betri og trúverðugri útfærsla.

Sagan, eða þær litlu útskýringar, á því hvað myndbandið var og hvað stjórnaði þessum illa krafti fannst mér líka vera mun betur gert í japönsku myndinni. Hún nýtti sér talsvert betur urban legends (fyrirgefið slettuna en man ekki íslenska orðið yfir urban legend) og gamlar japanskar hefðir til að útskýra hlutina. Það vantar dálítið upp á hérna. Auk þess finnst mér slæmt að sjá gæðaleikarann Brian Cox enn einu sinni vannýttan sem dularfulla manninn á eyjunni sem veit meira en hann vill láta uppi.

Það er ekki hægt að neita því að The Ring, þrátt fyrir gallað handrit, er enn ansi óhugnanleg mynd, með sterkri leikstjórn og fínum leik í aðalhlutverkinu. En var nauðsynlegt að endurgera jafn frábæra mynd og Ringu. Hefði ekki verið nær að taka hana til opinna sýninga. Allavega mæli ég með því við kvikmyndaáhugafólk. Ef þið viljið sjá mynd sem hræðir úr ykkur líftóruna, sjáið þið þá Ringu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
About Schmidt
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alexander Payne (sem gerði síðast hina frábæru Election) rær hér á dálítið önnur mið. Mynd hans fjallar um Warren Schmidt (Jack Nicholson), maður sem hefur unnið alla ævi sem varaaðstoðarforstjóri (hvað sem það nú annars er) hjá tryggingafyrirtæki í Nebraska. Hann hefur aldrei tekið neina áhættu í lífinu, hefur alltaf unnið hjá sama fyrirtæki, hefur verið giftur konunni sinni (Hope Davis) í 42 ár og á með henni dóttur (June Squibb) sem vill sem minnst af honum sjá. Það byrjar að renna upp fyrir honum ljós þegar hann neyðist til að fara á eftirlaun vegna aldurs að hann hefur sóað lífi sínu. Hann hefur verið fastur í vinnu sem hver sem er hefði getað gert að því er virðist og hann er giftur konu sem hann uppgötvar allt í einu að hann þekkir ekki neitt. Stuttu eftir að hann hættir í vinnunni deyr konan hans. Hann gerir sér þá grein fyrir að hann sjálfur eigi kannski skammt eftir ólifað og einsetur sér að gera eitthvað merkilegt við líf sitt áður en hann hrekkur upp af. Hann byrjar að styrkja 6 ára munaðarleysingja í Tansaníu og sendir honum bréf þar sem hann loksins hættir að byrgja allt inni og leyfir sér að láta allt flakka. Auk þess, þegar hann fréttir af því að dóttir hans er að fara að giftast, að því er honum finnst, algerum aula (Howard Hesseman). Schmidt einsetur sér að reyna að stoppa brúðkaupið og tekst því á hendur ferðalag á risahúsbílnum (sem konan hans heitin vildi endilega kaupa) til dóttur sinnar.

Allt í lagi, það kemur svo sem ekki neitt nýtt fram í myndinni. Maður hefur ég veit ekki hvað oft séð myndir áður þar sem að manneskja finnur sjálfa sig eftir að hafa verið týnd í fjöldamörg ár. Auk þess er myndin á köflum ansi manipulative (afsakið slettuna). Manni er stýrt talsvert að því hvernig maður eigi tilfinningalega að bregðast við í þetta og þetta skiptið. Þetta eru gallar myndarinnar en kostirnir eru fleiri.

Það er í rauninni mjög velkomið að sjá mynd gerða um þjóðfélagshóp sem venjulega er ekki miklu kastljósi beint að, eldri borgurum. Og að myndin sé gáfuleg og mjög mannleg í þokkabót og auk þess hafa til að bera þá sæmd að sýna þetta fólk ekki sem einhverjar kómískar steríótýpur heldur sem ósköp venjulegt fólk, með öllum sínum kostum og göllum, er orðið mjög sjaldgæft fyrirbæri, því miður.

Leikararnir halda myndinni mjög mikið uppi og er leikurinn magnaður, svo vægt sé til orða tekið. Ber þar fyrst að nefna Nicholson sjálfan. Þetta er einfaldlega ein af hans bestu og um leið óvæntustu frammistöðum á ferlinum. Warren Schmidt er eins ólíkur Nicholson og maður gæti ímyndað sér. Nicholson, sem er þekktur fyrir að hafa alltaf lifað hátt og hratt, og hefur oft leikið karaktera eftir því, er gjörbreyttur hér. Hann leikur þennan lítilfjörlega smáborgara, fullan af reiði og eftirsjá, þá fyrst og fremst út í sjálfan sig, fyrir að hafa alltaf valið auðveldu leiðina, alltaf öruggu leiðina. Þetta er það sem einfeldnin og öryggið hefur skilað honum, gjörsamlega innihaldslausu lífi. Nicholson tekst algjörlega að hverfa inn í þennan karakter og gera hann fullkomlega trúverðugan. Sá átti skilið Óskarstilnefninguna og gott ef hann vinnur hann bara ekki.

Kathy Bates fer síðan á kostum, eins og venjulega, sem móðir brúðgumans og höfuð þessarar undirfurðulegu hillbilly-fjölskyldu sem dóttir Schmidts er að fara að giftast inn í. Hún er fullkomin andstaða Schmidt. Hún er kannski ekki jafn vel stæð en hún hefur þennan takmarkalausa lífsþrótt og lífsgleði, ólíkt Schmidt. Bates, sem alltof sjaldan fær hlutverk við sitt hæfi, gerir eins mikið úr því og hún getur og fer á algjörum kostum. Sama má segja um Howard Hesseman sem mér fannst frábær sem hinn frekar fattlausi og misheppnaði tengdasonur.

Myndin er talsvert meira drama heldur en ég bjóst við. Ég hélt að þetta væri svört kómedía en þetta er í raun tragidía um mann sem á stutt eftir, hatar líf sitt og veit ekki hvernig hann á að brjótast út úr því munstri sem hefur smátt og smátt verið að draga úr honum lífið. Það eru kómískir yfirtónar, eins og með Bates og Hesseman, en undirtónninn er alltaf harmleikur. Það mætti segja að á endanum nái Schmidt að sættast við sjálfan sig, jafnvel þó að það sé ekki á þann hátt sem maður heldur. Kannski er það einum of augljós sannleikur í endann en Nicholson er svo góður að maður lítur framhjá því. Átakanleg mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Chicago
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Já, það má svo sannarlega segja að söngleikurinn er kominn aftur svo um munar í kvikmyndirnar. Hann ruddist inn með hinni frábæru Moulin Rouge! og nú siglir Chicago í kjölfarið. Chicago er söngleikur sem lengi hefur verið sýndur í leikhúsi og er að mörgu leyti allt öðruvísi en Moulin Rouge! Chicago kemst hvergi nálægt þeirri mynd í gæðum en ég mæli samt eindregið með henni sem einni af skemmtilegustu myndum ársins.

Sagan er heldur þunnildisleg oft á tíðum en hún fjallar um Roxie Hart (Renée Zellweger), frekar treggáfaða Chicago-mær sem dreymir um að verða dans- og söngstjarna á sviðinu. Eftir að hún skýtur til bana ástmann sinn sem hafði lofað henni frægð og frama en sveik það allt saman er hún send í fangelsið þar sem hún bíður lífláts. Þar hittir hún fyrir átrúnaðargoð sitt, Velmu Kelly (Catherine Zeta-Jones) sem bíður einnig lífláts fyrir að hafa myrt eiginmann sinn og systur sína þegar hún kom að þeim í rúminu. Velma reynist vera hið mesta skass og vill ekkert með Roxie hafa. Fangelsisstjórinn, Mama Morton (Queen Latifah) segir Roxie að ef hún vill sleppa við dauðadóminn verði hún að ná í Billy Flynn (Richard Gere) besta lögfræðing borgarinnar. En hann kostar sitt og ráð Mömmu Morton eru heldur ekki svo sem ókeypis svo nú eru góð ráð dýr. Á meðan hinn uppburðarlitli eiginmaður Roxie, Amos Hart (John C. Reilly) reynir að safna fé leggja Roxie og Velma á ráðinn um það hvernig þær geti báðar sloppið út. En hlutirnir breytast þegar Billy ákveður að taka mál Roxie að sér. Roxie er blásin svo mjög út af fjölmiðlunum að Velma fellur alveg í skuggann af henni. Afbrýðissemi vaknar og allt stefnir í meiriháttar árekstur á millri allra aðila.

13 Óskarstilnefningar??? Þar með besta myndin, besti leikstjóri og BESTA HANDRIT????? Ojæja, maður hefði svo sem getað búist við þessu. Akademían er söm við sig, myndin sem er auðveldast að horfa á, býður ekki upp á nein frumlegheit (nema í útsetningum) og kemur engum í opna skjöldu fær flestar tilnefningar.

Jæja, þá er ég búinn að ausa úr skálum reiði minnar yfir hana. En það er í rauninni alls óviðkomandi myndinni. Þetta er nefnilega prýðismynd, alltaf skemmtileg, dregst aldrei á langinn og sum atriðin, þá sérstaklega söng- og dansatriðin, eru hrein unun á að horfa. Verst er að partarnir eru betri en heildarmyndin.

Allt í lagi, yfir í það sem er gott. Myndin lítur virkilega vel út, þá hún hafi kannski ekki sama stórfenglega litabrjálæði og Moulin Rouge. Söngatriðin eru öll listilega vel gerð og grípa mann flest öll um leið án þess endilega að vera eitthvað sérstaklega eftirminnileg þegar þau eru búin. Allir leikarar standa sig með stakri prýði, þó að rullurnar séu oft æði þunnar. Auk þess er myndin virkilega sexý, sennilega mest sexý mynd það sem af er af árinu.

Og yfir í það sem er slæmt. Eins og ég sagði áðan, þetta er heldur þunnildislegt froðuhandrit (eftir Bill Condon sem gerði hið frábæra handrit að myndinni Gods and Monsters og vann Óskarinn fyrir) og persónurnar fá því oft ekki að mótast til fulls. Sérstaklega á það við um aukapersónurnar. Örugg leikstjórn Rob Marshall bætir þetta að vísu upp að talsverðu leiti.

Leikararnir: Standa sig allir mjög vel. Queen Latifah er frábær söngvari. Og það sem kom mér skemmtilega á óvart: Catherine Zeta-Jones er frábær dansari. Báðar standa þær sig mjög vel, þá sérstaklega Zeta-Jones sem er holdgervingur femme fatale. Hún gerir Velmu Kelly að gjörsamlega samviskulausum, en þó jafnframt bráðskemmtilegum karakter. Auk þess hefur hún talsvert öfluga söngrödd svo hennar atriði eru öll í hæsta gæðaflokki. John C. Reilly, sá frábæri leikari, stendur sig mjög vel þó að hlutverkið sé ekki stórt og á eitt mjög skemmtilegt dansatriði. Renée Zellweger gerir breytingunni frá treggáfaðri, óöruggri ljósku yfir í lævíst og svikult klækjakvendi frábærlega vel skil. Að horfa á hana er eins og að horfa á illa tvíburasystur Marilyn Monroe. Renée Zellweger er einhver besta gamanleikkona sem er að vinna í dag en myndin gefur henni ekki mikinn stuðning. Söngatriðin hennar eru af einhverjum óskiljanlegum ástæðum með þeim veikustu (fyrir utan lokaatriðið, sem er magnað) og, þar sem hún hefur auk þess ekki jafn góða söngrödd eins og Zeta-Jones að ég nefni nú ekki Latifah fellur hún oft dálítið í skuggann af þeim. Fyrir utan þessa smá vankanta stendur hún sig einnig frábærlega.

En bestur allra er Richard Gere. Ég verð að játa það að Gere kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Hann er mistækastur allra leikara en þetta held ég að sé hans besta hlutverk fyrr og síðar. Túlkun hans á þessum gjörspillta lögfræðingi er í einu orði sagt delicious (afsakið slettuna). Auk þess hefur hann bestu söngatriðin þá hann hafi ekki bestu röddina. Atriðið þar sem hann lýsir því hvernig hann blekkir kviðdóminn, Give'em the old razzle-dazzle er hreinasta snilld og maður getur ekki annað en hvatt hann áfram. Af hverju í veröldinni skelltu þeir ekki einni tilnefningu á hann fyrst þeir voru að tilnefna alla á aðra borð??? Það er ofar mínum skilningi.

Smá galli gæti verið að maður hefur ekki samúð með einum einasta karakter í verkinu fyrir utan aumingja sakleysingjann Amos. Allir aðrir eru samviskulausir glæponar eða gjörspilltir peningaplokkarar. Sérstaklega koma þær stöllur Zeta-Jones og Zellweger illa út. Gere og Latifah eru skárri að þessu leitinu af því að alla vega vita þau hvað þau eru og eru ekki stöðugt að blekkja sjálf sig. En það skiptir kannski ekki öllu máli. Þetta á nú ekki að vera mjög djúpt.

Þetta er engan veginn ein af bestu myndum ársins en hún er ein af þeim skemmtilegustu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Catch Me If You Can
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það sem gerir þessa mynd merkilegri en hún á kannski rétt á því að vera viðurkennd er að hún er byggð á ótrúlegri en sannri sögu eins snjallasta svikahrapps fyrr og síðar, Frank Abagnale Jr.

Frank (Leonardo DiCaprio) ólst upp við gott og öruggt uppeldi móður sinnar (Nathalie Baye) og föður síns (Christopher Walken) sem, samkvæmt myndinni, hann var sérstaklega náinn. En allt fór niður á við þegar foreldrar hans skildu. Er það notað sem ástæðan í myndinni hvers vegna Frank tekur upp á því að blekkja alla í kringum sig. Frank strýkur að heiman og frá því að hann er 16 ára og þar til hann er 19 ára tekst honum, með eintómum blekkingum, að verða flugmaður, læknir og aðstoðarmaður saksóknara í Louisiana án þess að hafa nokkurn tímann farið í eitthvert nám fyrir eitthvað af þessum störfum. Hann giftir sig meira að segja, og kvonfangið er dóttir saksóknarans (Martin Sheen) sem alltaf grunar Frank um græsku. Allann tímann er alríkislögreglumaðurinn Carl Hanratty (Tom Hanks) á eftir honum og í gegnum þennan þriggja til fjögurra ára eltingaleik uppgötva þeir að þeir eiga fleira sameiginlegt heldur en þeir héldu.

Steven Spielberg hefur að undanförnu sent frá sér gríðarlega metnaðarfullar myndir eins og A.I. Artificial Intelligence og Minority Report. Ég get skilið vel að hann hafi ákveðið að slappa af og gera eina mynd sem ekki gerðist lengst inni í framtíðinni og væri að velta sér upp úr grunnheimspekilegum spurningum um tilveru mannsins. Og hann hefur svo sannarlega valið áhugaverða sögu að segja. Verst er að oft er ekki nógu vel unnið úr henni.

Það sem er vel gert er sambandið á milli Franks og Carls. Báðir eru þeir einfarar, annar lifir fyrir vinnuna sína, hinn er á stöðugum flótta og þá helst frá sjálfum sér. Eina heiðarlega sambandið sem Frank hefur er í rauninni við Carl og Frank er eini maðurinn sem Carl hefur eitthvert alvöru samband við. Það skapast því gagnkvæm væntumþykja á milli þessara tveggja manna, jafnvel þó að Frank viti að Carl muni aldrei hætta að elta hann fyrr en hann er búinn að ná honum og koma honum í fangelsi. Spielberg og handritshöfundurinn Jeff Nathanson koma þessu vel til skila. Annað sem er gott við myndina er frábær leikur Christopher Walken sem pabbi Franks. Frank eldri er í raun sorglegasta persóna myndarinnar. Misheppnaður svikahrappur sjálfur sem fyrrverandi kona hans, og mamma Franks, vill ekkert með hafa og er svo ákafur og þurfandi í hvert skipti, og þau eru fá, sem hann hittir son sinn að átakanlegt er á að horfa. Walken hefur ekki verið jafn góður í ég veit ekki hvað langan tíma og á svo sannarlega skilið Óskarstilnefninguna.

Það sem myndinni tekst hins vegar ekki er að láta okkur þykja vænt um aðalpersónurnar, Frank og Carl. Nathanson og Spielberg reyna að varpa ljósi á það hvers vegna Frank lýgur og svíkur alla sem hann hittir en tekst það ekki mjög vel, því miður. Þess vegna er manni í rauninni sama hvað verður um hann. Manni er einnig sama um Carl, því miður. Karakterinn er ekki nógu vel skrifaður svo Carl verður að hálfgerðum leiðindagaur, ólæknandi vinnualka, svo helteknum að konan hans og dóttir hans eru farnar frá honum. Leonardo DiCaprio gerir atriðunum þar sem hann smýgur í gegnum hverja hindrunina á fætur annarri með blekkingum vel skil og hlakkar oft í manni þegar Frank tekst að blekkja kerfið hvað eftir annað. DiCaprio er hinsvegar, og hefur alltaf verið, óttalega takmarkaður. Hann hefur ekki þá dramatísku vigt sem þarf í tilfinningalegri atriði myndarinnar og virkar þar ósannfærandi, eina ferðina enn. Og Tom Hanks er á hálfgerðri sjálfstýringu í þessari. Hann gerir það sem hann gerir ágætlega en maður hefur nú samt oft séð hann betri en þetta.

Þetta er hinsvegar alls ekki leiðinleg mynd og oft mjög gaman að fylgjast með snilldarblekkingaleikjum Franks. Fyrir það og frammistöðu Christopher Walkens er myndin vel þess virði að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Irreversible
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég veit í sannleika sagt ekki alveg hvað mér finnst um þessa afar sérstöku, afar vitrænu, afar vel gerðu og leiknu, en að sama skapi einstaklega andstyggilegu mynd. Mér fannst hún vel gerð og koma með mjög athyglisverða sýn og hafa marga góða punkta en mig langar samt aldrei að sjá hana aftur.

Sagan er sögð í Memento-stílnum, þ.e. hún byrjar á endinum. Við verðum vitni að hryllilegu morði (slátrun væri réttara orð) á manni í frekar óhuggulegum sadó-masó hommaklúbbi. Eftir það sjáum við tvo menn sem við munum bráðum þekkja sem Marcus (Vincent Cassel) og Pierre (Albert Dupontel) leitandi að klúbbnum. Marcus er stjórnlaus af reiði út af atviki sem við verðum brátt vitni að. Við verðum einnig vitni að mjög hrottafullri nauðgun sem Alex (Monica Bellucci) verður fyrir af hendi manns sem við munum þekkja undir nafninu Le Tenia (Jo Prestia). Í seinni hluta myndarinnar skiptir alveg um gír. Við sjáum þetta fólk fyrr um daginn þar sem það skemmtir sér í partýi, lætur vel að hvort öðru og þar áfram eftir götunum.

Ég lít á þessa mynd sem ákveðna heimspekilega vangaveltu um öfgarnar í mannskepnunni. Við getum komið fram hvort við annað af takmarkalausri grimmd en við getum einnig komið fram við hvort annað af mikilli ástúð og umhyggju. Þó er þetta ekki alveg svo einfalt. Myndmálið segir manni eitt á meðan að samtölin og atburðarásin segja manni annað. Sumir leggja kannski þann pól í þetta að það sé verið að lýsa einhvers konar sálfræðilegri martröð sem aðalpersónan (sem væri þá Alex) vaknar upp af. Einnig er hægt að segja að endir myndarinnar sé óskhyggja (svipað eins og ég skildi endann á Taxi Driver). Svo má líka bara líta á þetta sem samhangandi atburðarás sem gerist aftur á bak.

Myndin fylgir ultra-realisma eftir. Þess vegna taka ofbeldisatriðin sérlega mikið á mann vegna þess hversu raunverulega þau eru gerð. Morðið er eins hrottafengið og það getur orðið og nauðgunin tekur heilar 10 mínútur í myndinni og er það atriði nánast óbærilegt á að horfa. Kvikmyndataka Benoit Debie og leikstjórans Gaspar Noé er tekin að mestu (ef ekki að öllu) leyti á handheldri myndavél og myndin er öll á ferð og flugi, sérstaklega í fyrri hluta myndarinnar til að auka ringulreið manns sjálfs og veraldarinnar sem maður er að horfa á. Tónlist Thomas Bangalter er einnig notuð í þessu samhengi, mjög skerandi og óþægileg í fyrri hlutanum en mun ljúfari í þeim seinni.

Leikararnir gera mikið fyrir þessa mynd enda gefa þeir sig henni á vald 100% Ber þar fyrst að nefna Vincent Cassel með sinni ofsafengnu frammistöðu. Bellucci og Dupontel gera sitt einnig frábærlega. Þau þrjú gera allt það sem gerist virkilega raunverulegt og því mun óhuggulegra fyrir vikið. Jo Prestia sem Le Tenia er síðan eitthvert það allra viðbjóðslegasta creep sem maður mun nokkurn tímann sjá.

Á endanum held ég að þessi mynd fjalli um tilgangsleysi ofbeldis, hvort sem það ofbeldi er réttlætanlegt eða ekki. Þetta er virkilega vel gerð, vel leikin og metnaðarfull mynd sem veltur upp mörgum þörfum og áhugaverðum spurningum en hún er ekki skemmtileg enda gæti hún ekki verið það. Þetta verður einhver erfiðasta mynd sem þið munið sjá. En ég mæli samt með henni.

P.s. helst vildi ég ekki gefa henni stjörnueinkunn af því ég veit ekki hvað mér finnst en fyrst ég verð að gera það á annað borð þá fær hún hér þrjár. Þær eru meira hugsaðar sem hvatning fyrir fólk að fara á myndina heldur en eitthvað annað.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
8 Mile
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jimmy Rabbit Smith (Eminem) er hvítur strákur sem lifir við 8 Míluna en það er sú lína í Detroit sem aðskilur hina ríku og fátæku. Hann er í fátæka hlutanum. Hann býr í hjólhýsi með drykkfelldri móður sinni (Kim Basinger) og litlu systur sinni. Allir vinir hans eru svartir fyrir utan Cheddar Bob (Evan Jones). Hann vinnur sem stuðarapressari (eða eitthvað svoleiðis). Hann veit ekki hvort hann ætti að fylgja eftir vini sínum Wink (Eugene Byrd) sem lofar honum frægð og frama með samningi við upptökuver eða fylgja eftir besta vini sínum Future (Mekhi Phifer) sem sér um rímnaflæðin í The Shelter. Þeir þola ekki hvorn annan. Það eina sem veitir honum einhverja gleði í lífinu er að battla (reyna að vinna aðra rappara í rímnaflæði) í The Shelter. En hvað vill hann gera við líf sitt? Hvernig fer hann að því að komast burt úr hverfinu og öðlast betra líf?

Það mætti vissulega kalla hlutverk Eminem í myndinni dálítið self-indulgent (afsakið slettuna en það er ekki til gott orð fyrir það sem ég meina á íslensku). Hann leikur ákveðna útgáfu af sjálfum sér í myndinni og að mörgu leiti er þessi útgáfa einum of góð til að geta verið sönn. Einnig er margt í fari vina hans einum of gott til að geta verið satt. En vitið þið hvað: gleymið því bara. Af því að ef þið lokið fyrir hugsunina um að þetta er að hluta til byggt á lífi Eminem þá er þetta alveg virkilega góð og ánægjuleg mynd á að horfa. Hún nær betur en margar aðrar myndir að sína aðstæður og líf persónanna sem allar rétt skrimta í hverfi sem maður gæti vel kallað skítapleis. Þessu er náð fram með því að sýna Detroit (eða þennan part af henni) sem stað í fullkominni niðurníðslu sem maður skynjar að eitt sinn var í blóma. Það er eins og rústirnar af betri tímum séu eftir og þetta fólk hafi lent í þeim. Mér líkaði þessi sýn mjög vel. Annað sem mér líkaði mjög vel er að myndin einblínir ekki bara á allt það neikvæða og ljóta í fátæktinni. 8 Mile fjallar að miklu leyti um vináttu og tryggð. Þrátt fyrir alla eymdina hafa þessar persónur mikla lífsgleði til að bera sem er óvanalegt að sjá í svona myndum.

Það þriðja sem mér fannst mjög gaman að sjá var það að gegnum myndina kemur það mjög vel og skýrt fram að rappið og keppnirnar í kringum það eru eina leiðin fyrir Rabbit og hina náungana að sleppa frá þeim harða raunveruleika sem umkringir þá. Rappið er það eina sem þeir nota til að tjá sínar innstu tilfinningar og þrár. Það er nokkurs konar spegill inn í sálarlíf þeirra. Myndin kemur þessu virkilega vel til skila.

Söguþráðurinn sjálfur er óttalega hefðbundinn. Rabbit guggnar fyrst á sviði, lendir í ýmsu, rífur sig upp og að lokum rústar keppninni og hlýtur virðingu og sjálfstraust að launum. Formúlan sjálf gæti þess vegna verið tekin beint út úr Rocky (1976) en ég hef sjaldan orðið vitni að því að unnið hafi verið með formið jafnvel og hér. Það er kannski ekkert nýtt í söguþráðinum í sjálfu sér en Scott Silver býður samt sem áður upp á fersk samtöl og Curtis Hanson stýrir þessu með sama krafti og hann gerði L.A. Confidential og Wonder Boys með.

Leikararnir standa sig allir vel. Eminem sjálfur gerir það sem hann gerir virkilega vel þótt að maður gæti rifist um það hversu erfitt það er að leika sjálfan sig. Samt sem áður var ég mjög hrifinn af frammistöðu hans. Basinger gerir sitt ágætlega sem hálfmisheppnuð fyllibytta sem þó hefur sína reisn og manndóm. Brittany Murphy er allt í lagi sem óvanaleg kærasta Rabbit þó að hlutverkið hefði mátt vera betur skrifað. Og Mekhi Phifer er virkilega traustur sem hinn tryggi vinur Rabbit. Og ekki má gleyma Evan Jones sem sýnir frábæra grínhæfileika og sér til þess að manni leiðist aldrei.

Hvort sem þið fílið rapp eða ekki þá eigið þið eftir að fíla lokasenuna þar sem Rabbit sýnir hvað í honum býr. Hún er gerð með slíkum fítonskrafti af Hanson og leikurunum, þá sérstaklega Eminem sjálfum, að unun er á að horfa.

Myndin er misjöfn á köflum en þrátt fyrir ákveðna vankanta er þetta sennilega ein af ánægjulegri myndum sem þið eigið eftir að sjá á árinu. Mæli eindregið með henni við alla.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fear and Desire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi skrítna mynd er fyrsta mynd Kubricks í fullri lengd. Hún myndi vart teljast í fullri lengd núna (68 mínútur). Hún fjallar um hóp hermanna, einhvern tímann, í einhverju stríði, sem eru fastir innan víglínu óvinanna og þurfa að koma sér aftur í sínar eigin herbúðir. Foringi þeirra (Frank Silvera) telur að best sé að fara niður eftir ánni í skjóli næturs. Á sama tíma er óvinahershöfðingi í upplögðu færi við þá. Þeir gætu reynt að koma honum fyrir kattarnef og hjálpað sínu liði talsvert með því þó að áhættan margfaldist einnig. Fyrir utan þetta glíma þeir við þá týpísku hluti sem hrjáir hermenn í stríði, ótti, brjálæði, vonleysi o.s.frv.

Ég gæti sagt mér það að Kubrick hafi skort dálítið húmor fyrir sjálfum sér ef að hann vildi eyðileggja allar menjar um þessa mynd. Hún er vissulega frekar amatörlega gerð, söguþráðurinn á köflum heldur þunnur og margt frekar ólíklegt sem kemur fram í henni. Samt sem áður er þetta talsvert athyglisverð mynd að horfa á og til að bera saman við nýrri myndir hans, þá sérstaklega Full Metal Jacket. Myndin almennt er frekar illa farin en er samt vel tekin með mjög góða notkun á ljósi og skugga. Textinn er bara venjulegur hermannatexti fyrir utan það þegar við heyrum karakterana hugsa. Þau atriði minna dálítið á meistaraverk Terrence Malick, The Thin Red Line, þó þau séu langtum yfirborðskenndari í Fear and Desire. Myndin þjáist af því að vera dálítið artí-fartí og tilgerðarlegt, til að mynda þegar einn hermannanna brjálast vegna álags. Það atriði hefði getað orðið öflugt en ofleikur og undarlegheit sökkva því.

Þetta er ekkert voðalega góð mynd en hún er samt ekki svo léleg að það þurfi að brenna öll eintök af henni. Og hún er vissulega athyglisverð upp á seinni myndir hans.

Ég sá þessa mynd á kvikmyndamaraþoni Bíó-Reykjavíkur og vil ég mæla með því við alla að fylgjast vel með þessu félagi í framtíðinni þar sem það er að gera fína hluti.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Day of the Fight
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í fyrradag og í gær var ég á Kubrick-maraþoni sem félagið Bíó-Reykjavík (vona að ég muni nafnið rétt) stóð fyrir. Ég vil hvetja alla til að fylgjast með þessu félagi vel í framtíðinni af því að þetta fólk er að gera fína hluti og eiga svo sannarlega hrós skilið bæði fyrir Kubrick-kvöldin og annað.

Kubrick er minn uppáhalds kvikmyndagerðarmaður svo það var virkilega gaman fyrir mig að fá að sjá fyrstu myndirnar hans sem er mjög erfitt, ef ekki nánast ómögulegt, að finna. Fyrsta myndin sem ég sá var einnig fyrsta myndin hans, Day of the Fight frá árinu 1951. Kubrick hafði áður búið til myndabút fyrir tímaritið Look árið 1949 um box og byggði hann þessa stuttu heimildamynd sína á því. Myndin er ekki nema sirka bát 10 mínútur og gefur okkur sýn á einn dag í lífi boxarans Walter Cartier, hann vaknar, borðar morgunmat, byrjar að æfa undir handleiðslu bróður síns og þjálfara, Vincent, boxar við annan mann um kvöldið og vinnur.

Ég ætla ekki að gefa þessari mynd einkunn þar sem hún er í rauninni lítið annað en 10 mínútna auglýsing fyrir boxarann. Þar sem hún er einungis 10 mínútur gefur hún okkur litla innsýn inn í þennan mann þótt að talað sé yfir og sagt frá því hvað hann sé að hugsa enda er lítið að marka það þar sem það er allt saman hálf yfirborðskennt og hallærislegt. Það eina sem vekur athygli er ágætis kvikmyndataka en hana sá Kubrick um. Maður sér það hér strax að Kubrick er kominn með vísi að þeim magnaða stíl sem hann notaði síðar.

Það er það eina sem vekur athygli manns. Fyrir utan það er þetta ekki neitt nema 10 mínútna auglýsing og gæðin eftir því.

P.s. Var að komast að því að ég verð að gefa einkunn. Ég gef þá einkun sem mér finnst hæfa en takið ekkert mark á henni. Það er ekki hægt að gefa þessu dóti einkun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Two Towers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring er orðin að mínu mati besta ævintýramynd allra tíma. Að mínum dómi sló sú mynd út Star Wars myndirnar að ég tali nú ekki um Harry Potter. The Lord of the Rings: The Two Towers er ekki fullkomin eins og fyrsta myndin var en hún kemst sirka bát eins nálægt því og hægt er.

Þeir sem hafa ekki lesið bókina eða ekki séð myndina ættu kannski ekki að lesa lengra. Föruneytið hefur klofnað. Frodo (Elijah Wood) og Sam (Sean Astin) hafa haldið einir til Mordor. Aragorn (Viggo Mortensen), Legolas (Orlando Bloom) og Gimli (John Rhys-Davies) elta Uruk-hai hópinn sem tók Merry (Dominic Monaghan) og Pippin (Billy Boyd). Á meðan að Gollum (Andy Serkis rödd og hreyfingar) hefur stofnað heldur ótraust bandalag við Frodo þarfnast landið Róhan sem Aragorn, Legolas og Gimli fara um á mikilli aðstoð að halda. Konungurinn Théoden (Bernard Hill) hefur lent í álögum og er stjórnað af Saruman (Christopher Lee) og hinum illa ráðgjafa Ormstungu (Brad Dourif). Aragorn, Legolas og Gimli verða nú að leysa konunginn úr álögum áður en Sauron og Saruman ráðast á ríkið með tröllvöxnum her.

Allskonar hlutir tvinnast inn í svo sem samband Aragorn við bæði Arwen (Liv Tyler) og dóttur konungsins, Éowyn (Miranda Otto), örlög Gandalfs (Ian McKellen) og trjámennirnir (foringi þeirra með rödd John Rhys-Davies). En það tæki allt of langan tíma að fara út í það enda á gagnrýni fyrst og fremst að gagnrýna en ekki að segja frá söguþræði.

Það er alveg ljóst að Jackson og meðhöfundar hans, Frances Walsh og Philippa Boyens eru komin með aðra vægast sagt magnaða mynd. Stórkostlegur frásagnarmáti Tolkiens fær að njóta sín eftir sem áður og myndin lítur frábærlega út. Ægifagurt landslag Nýja-Sjálands spilar stóra rullu rétt eins og í fyrri myndinni.

Í stuttu máli, útlitið er fullkomið, tónlistin er fullkomin, leikararnir eru fullkomnir. Maður sér hvergi veikan blett þar. Nýju mennirnir, og þá sérstaklega hinn ábúðarmikli Bernard Hill koma snilldarlega vel út. Brad Dourif fer einnig á kostum sem ógeðsleg undirlægja, hlutverk sem hann ætti að kannast við frá öllum hliðum séð. Aðrir karakterar eru einnig mótaðir enn meir og vil ég þar sérstaklega hrósa Elijah Wood fyrir frábæra túlkun hans á því hvernig Frodo verður fyrir stöðugt meiri áhrifum af hringnum. Gollum er síðan einn af þeim fáu tölvukarakterum sem fara ekki í taugarnar á mér fegna flókins persónuleika síns og frábærrar vinnu Andy Serkis.

EN, einu gallarnir sem ég get komið auga á er að það tekur myndina smástund að hrökkva í gang, byrjunin er ekki alveg jafn stórbrotin eins og í Fellowship of the Ring. Auk þess finnst mér stundum vanta dálítið af þessum töfrum sem einkenndu svo fyrstu myndina. Kannski verður það einfaldlega alltaf þannig að því meira sem er af hasar því minni töfrar verða. Kannski er lítið hægt að gera við því.

En ég nánast fyrirgef Jackson fyrir hið stórkostlega lokaatriði þegar Orkaherinn gerir árás á Hjálmsvirki. Ég leyfi mér að fullyrða að stórkostlegri bardagasena hefur ekki sést á hvíta tjaldinu frá upphafi. Punktur, basta.

Ég bíð í ofvæni eftir að fá að sjá lokin á þessum stórkostlega kvikmyndabálki. Hér vantar örlítinn neista en myndin er samt sem áður stórkostleg upplifun fyrir augun og eyrun og já, hjartað. Þetta er einfaldlega skylduáhorf.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Great Dictator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Great Dictator frá árinu 1940 var fyrsta talmynd Chaplins í fullri lengd. Jafnvel þótt að hún standi örugglega talsvert framar heldur en seinni verk hans þá sómdu gamanhæfileikar hans og þjóðfélagsádeila sér allltaf best í þöglu myndunum. Það má kannski þá segja sem svo að The Great Dictator marki hans fyrsta skref niður á við en þar sem þetta er einungis fyrsta skrefið er þetta samt sem áður ansi góð mynd.

Myndin gengur mestmegnis út á það að gera grín að Adolf Hitler og nasistunum. Hitler, sem hér heitir Adenoid Hynkel (Chaplin) ráðgerir sína miklu innrás inn í Austurríki eða Osterlich. Á sama tíma sleppur rakari sem einnig er gyðingur (Chaplin aftur) af hersjúkrahúsi þar sem hann hafði verið frá því í fyrri heimsstyrjöldinni. Rakarinn er gjörsamlega minnislaus og heldur að ekkert hafi breyst frá því hann var í burtu og veit því ekki af gyðingaofsóknunum. Rakarinn er svo sláandi líkur Hynkel að á verstu stundu (fyrir Hynkel það er að segja) ruglast hinir nasistarnir á þeim, henda Hynkel í fangabúðir en rakarinn verður kanslari og heldur að lokum mikla þrumuræðu eftir innlimun Austurríkis um jafnrétti og lýðræði.

Grínið hans Chaplins virkaði alltaf betur í þöglum myndum heldur en í talmyndum og er talið augljós galli á þessari mynd sem hefði alveg getað virkað án þess. Delluhúmorinn og leikrænu tilburðirnir hans eru og verða náttúrulega alltaf klassískir og það vantar ekkert upp á þá í þessari mynd. Þeir endurtaka sig þó einum of mikið og mér finnst vanta dálítið að Chaplin bryddi upp á nýjum hugmyndum af því að maður getur ekki komið með sömu brandarana aftur og aftur í mynd sem er yfir tveir tímar. Lengd er nefnilega einn helsti gallinn. Hún hefði virkað svo miklu betur sem stuttmynd.

Samt er margt drepfyndið hérna. Bestu brandarar Chaplins koma á meðan hann er í gervi Hitlers og sýnir hann í leiðinni fram á fáránleikann hjá öllum þessum nasistavitleysingum. Hann gerir Hitler hér að móðursjúkum, vælandi, stórmennskubrjáluðum fávita með hrikalega minnimáttarkennd gagnvart öllu og öllum (svona nokkurn veginn eins og hann var í alvörunni get ég ímyndað mér) og það fyndnasta/sorglegasta er að allir í kringum hann taka þennan rugludall alvarlega. Chaplin er ekki jafn fyndinn sem rakarinn og hann og Paulette Goddard (úr Nútímanum) mynda ekki jafn gott par og þau gerðu þar.

Sá sem stelur hins vegar myndinni er Jack Oakie með hreint út sagt stórkostlegri og drepfyndinni frammistöðu sem Mussolini. Öll atriðin með Hitler og Mussolini saman eru frábær þar sem Hitler verður fyrir hverri niðurlægingunni eftir annarri af höndum annars álíka mikils fávita.

En myndin er einum of löng og Chaplin rústar henni nánast með hreint út sagt afleitri lokaræðu. Hann ákveður eiginlega að gleyma öllu gríni og kaldhæðni en kemur þess í stað með ræðu sem á að vera einlægt kall til heimsins um lýðræði og jafnrétti og að fólk komi vel fram við hvort annað. Kannski virkaði það árið 1940 en ég leifi mér einnig að efast um það. Hann fer ekki fínt í það heldur fer um eins og jarðýta og predikunin er svo hryllilega augljós að hann missir gjörsamlega marks.

Þessi hörmungarendir er botninn á annars talsvert fyndinni (á köflum) en þó alltof langri mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Stella í framboði
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það sem var skemmtilegt við Stellu í orlofi er ekki til staðar í framhaldinu. Allt liðið í fyrri myndinni var skemmtilega klikkað en myndin fór samt aldrei yfir strikið. Þessi fer yfir strikið svo um munar. Hún er meira skrítin en fyndin.

Söguþráðurinn, sem þó er ansi þunnur, gengur út á það að Stella (Edda Björgvinsdóttir) óafvitandi býðst til þess að verða maður á lista fyrir lítinn óskipulagðan flokk sem á í stökustu vandræðum og virðist vera að tapa gjörsamlega fyrir Miðflokkinum, ófyrirleitnum flokki með ýmislegt misjafn á prjónunum. Á meðan er greyið Salómon (Þórhallur Sigurðsson) að halda fram landakröfum Stellu á sumarbústaðnum hennar við Anton (Gísli Rúnar Jónsson), ófyrirleitinn flugmaður sem einnig er kandídat fyrir Miðflokkinn. Eftir stutta stund er Salómon dottinn í það en hann hefur ekki snert dropa í 17 ár, meðflokksmann Stellu hefur rekið á haf út og til að toppa það allt þá hefur pabbi Stellu (Rúrik Haraldsson) boðist til að sjá um börnin á meðan hún er í framboðsstússi og aldrei gott að vita hverju afi gamli tekur upp á.

Mér fannst eins og það væri ekkert handrit að þessari mynd á köflum. Það var eins og að leikurunum hefði verið sagt að fara inn í rammmann á myndavélinni og láta öllum illum látum. Fyrir utan kolbilaða persónusköpunina er sagan sjálf óttalega þunn og ótrúverðug og Guðný Halldórsdóttir virðist hreinlega ekki hafa stjórn á sinni eigin mynd. Hún (myndin) er öll út um hvippinn og hvappinn.

Hún er samt ekki alvond. Hinn óborganlegi Svíi Ladda fær mann þó nokkrum sinnum til að hlæja t.d. þegar hann mætir blindfullur á svið og fer að syngja hástöfum Hvem skal silja forutan vind. Hrein snilld. Einnig er kostulegt oft að sjá afann, sérstaklega í hreint mögnuðum bíltúr. Og Gísli Rúnar er fínn sem gjörspilltur athafnamaður.

Þetta eru nú eiginlega góðu punktarnir. Helsti gallinn er að persónurnar eru svo ofurýktar að þær verða eiginlega ekkert fyndnar fyrir vikið. Til að mynda allt fólkið í flokkunum tveim. Það virðist allt meira og minna hafa verið vistmenn á Kleppi. Það eru þessar ofurýktu persónur sem gera myndina skrítna en ekki fyndna. Fyrri myndin hneigðist að vísu í þessa átt líka en hún kunni sér hóf. Önnur mistök eru sú að aðskilja Ladda og Eddu Björgvins meirihluta myndarinnar. Þau mynduðu frábært par á sínum tíma en nú er það ekki fyrir hendi.

Það er þó ekki eins og leikararnir reini. Myndin skartar rjóma leikarastéttarinnar á Íslandi og öll reyna þau sitt besta. Edda Björgvins er streit manneskjan í þessu að vanda og gerir það svo sem ágætlega fyrir utan að karakterinn hennar finnst mér ekki fá jafn mikið að gera og í fyrri myndinni. Og eins og ég sagði áðan, Laddi og Gísli Rúnar standa sig ágætlega. Aðrar persónur myndarinnar staldra of stutt við eru eru einum of ýktar af hinu sundurlausa handriti til að leikararnir fái rönd við reist.

Eina persónan sem er trúverðug er persóna afa leikinn vel að vanda af Rúrik Haraldssyni.

Stella í framboði fremur þann verknað sem engar gamanmyndir mega láta standa sig af, hún er ekkert svo fyndin.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ghost Ship
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Miðað við hina frekar lélegu The Hause on Haunted Hill og hina hreint út sagt hörmulegu Thirteen Ghosts, þá var myndin Ghost Ship aðeins betri heldur en ég þorði að vona. Það er nú samt langt í frá að þetta sé eitthvað góð mynd. Reyndar er þetta alveg agalega óhryllileg hryllingsmynd þar sem maður á að sjokkerast af augljósum tæknibrellum eða atriðum þar sem draugur kemur askvaðandi út úr horni og segir bú!!!!

Söguþráðurinn gengur út á það að Murphy skipstjóri (Gabriel Byrne) og meðeigandi hans, Maureen Epps (Julianna Margulies) fá tilboð um að bjarga ítalska skemmtiferðarskipinu Antonia Graza en það hvarf sporlaust fyrir um 40 árum síðan. Þau tvö, ásamt áhöfninni, ná skipinu og ætla að flytja það með sér í næstu höfn. En að sjálfsögðu er eitthvað illt á seyði í skipinu og hægara sagt en gert að draga það til hafnar. Og brátt taka líkin að hrannast upp.

Í stuttu máli sama formúlan eins og í 1000 öðrum hryllingsmyndum. Það er óttalega erfitt að breyta þessari formúlu svo manni er oftast sama ef myndin er vel gerð. En þessi er það ekki. Maður verður þó að segja henni til hróss að tæknilega séð er hún vel gerð og áhugavert að láta draugaganginn gerast um borð í skipi en ekki húsi. Auk þess fannst mér upphafsatriðið skemmtilega geggjað. En þá eru góðu hlutirnir eiginlega upptaldir. Leikstjórn Steve Beck er hvorki fugl né fiskur og handrit Mark Hanlon og John Pogue eftir sögu Hanlon er afleitt. Þegar þessir tveir hlutir eru í ólagi er myndin venjulega í ólagi einnig. Framvindan verður stöðugt heimskulegri og heimskulegri og endirinn er svo mikið bull og vitleysa að maður ætlaði varla að trúa því. Auk þess er ekkert hryllilegt við ræmuna þar sem hún er svo fyrirsjáanleg að maður veit nánast hvernig sérkver mínúta í henni verður.

Leikararnir eru lánlausir. Mér finnst alveg furðulegt hvernig sumir gæðaleikarar láta hafa sig út í þessa vitleysu. Geoffrey Rush í House on Haunted Hill, Tony Shalhoub í Thirteen Ghosts og núna Gabriel Byrne í Ghost Ship. Allir eiga þeir sameiginlegt að hafa bjargað því sem bjargað varð með fagmennsku sinni í myndum sem annars eru sóun á hæfileikum þeirra. Margulies hefur þá dýpt sem sjónvarpsleikkonur hafa venjulega, litla sem enga. Og á aukaleikarana hefði mátt setja skilti sem á stendur dauðans matur. Enda er þeirra eina hlutverk að hljóta einhvers konar hryllilegan dauðdaga.

Eina ástæðan fyrir því að ég fór á Ghost Ship var að þetta var eina ræman sem sýnd var kl. 11 og ég nennti ekki heim til mín alveg strax. Miðað við hina ömurlegu Thirteen Ghosts er þetta meistaraverk en ég mæli samt ekki með því að þið farið á hana. Leigið þið þá heldur The Shining eða eitthvað annað þvíumlíkt. Peningunum ykkar er betur varið í það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Die Another Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bond er kominn aftur í gamla góða gírinn. Á eftir hinni misheppnuðu The World Is Not Enough kemur þessi fína ræma og jafnvel þótt að þetta sé hugsanlega heimskulegasta Bond-mynd frá upphafi (eða Moonraker) þá er bara svo asskoti gaman að manni er alveg sama eftir smástund.

Söguþráðurinn gengur út á að eftir að Bond (Pierce Brosnan) er látinn laus úr Norður-Kóreskum fangabúðum er hann staðráðinn í að hafa uppi á þeirri manneskju sem sveik hann í hendur þeirra og einnig að ráða niðurlögum Zao (Rick Yune), stórhættulegs hryðjuverkamanns. Leitin ber hann til Kúbu þar sem hann hittir fyrir Jinx (Halle Berry) sem reynist ekki vera öll þar sem hún er séð. Bond kemst á snoðir um það að Gustav Graves (Toby Stephens), forríkur demantasali með höfuðstöðvar á Íslandi (ÓJÁ) gæti átt eitthvað saman að sælda við Zao. Bond heldur því til Íslands, ásamt Jinx og aðstoðarmanni frá MI6, Miranda Frost (Rosamund Pike), til þess að komast að sannleikanum í málinu. Og þá byrja lætin.

Kannski er óþarfi að fara mikið í söguþráðinn á Bond-mynd því hann er alltaf svipaður. Ríkur brjálæðingur vill stjórna heiminum. Bond kemur, ásamt aðstoðarkonunni og bjargar heiminum. Þannig hefur það alltaf verið og allt eins gott að það breytist ekkert.

Söguþráðurinn, ef hægt er að kalla það það, eftir Neal Purvis og Robert Wade er vægast sagt langsóttur og heimskulegur. En Lee Tamahori bætir úr því með því að keyra myndina áfram á þvílíkum eldingarhraða að manni er eiginlega alveg sama. Þetta er einhver allra mesta keyrsla á Bond-mynd sem ég hef séð. Hasaratriði eftir hasaratriði eftir hasaratriði. Þetta gerir myndina að hinni fínustu skemmtun.

Leikarar standa sig einnig ágætlega. Pierce Brosnan fellur alltaf betur og betur inn í hlutverkið og er nú þegar orðinn einn af allra fremstu Bondunum, kannski aðeins á eftir übertöffaranum Sean Connery en fylgir honum samt sem áður fast eftir. Halle Berry fær svo sem ekki mikið að tala þótt hún gefi Bond ekkert eftir á slagsmála/sprengju/skjóta sviðinu. Berry er þó langtum skárri heldur en hörmungin Denise ég kann EKKI að leika Richards í síðustu mynd. Toby Stephens virkar hálf aumingjalegt illmenni í byrjun myndarinnar en vinnur á og Rick Yune er talsvert hrollvekjandi sem hans hægri hönd. Judi Dench sem M og John Cleese sem Q standa síðan fyrir sínu og lífga upp á hlutina.

Allt í allt mjög skemmtileg Bond-mynd. Munið bara að slökkva á heilanum í ykkur áður en þið farið inn á hana þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Chamber of Secrets
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja, þá er önnur myndin um Harry Potter komin. Ég í mínum fordómum á sínum tíma leit bara á fyrstu myndina sem upphitun fyrir Hringadróttinssögu og þó að Potter-myndirnar jafnist nú ekki á við það þá virðist vera í bígerð bálkur hreint ágætis ævintýramynda.

Rauði þráðurinn í sögunni er að Harry (Daniel Radcliffe) er varaður við því að snúa aftur í Hogwarts-skólann þennan vetur af því að hræðilegt illt afl er komið þar á kreik og gæti hæglega ráðið niðurlögum hans. Harry ákveður samt að fara ásamt vinunum Ron Weasley (Rupert Grint) og Hermione Granger (Emma Watson). Í Hogwarts hitta þau fyrir ýmsa kunningja, þar á meðal erkióvin þeirra Draco Malfoy (Tom Felton) og föður hans, Lucius Malfoy (Jason Isaacs) sem er jafnvel enn verri en sonarómyndin. En þar bíða þeirra einnig margir vinir eins og vinalegi risinn Hagrid (Robbie Coltrane), hinn vitri Albus Dumbledore (Richard Harris) og Severus Snape (Alan Rickman). Einnig er þar kominn nýr smeðjulegur kennari, Gilderoy Lockhart (Kenneth Branagh). Í fyrstu er allt með kyrrum kjörum. En brátt fer Harry að heyra rödd innan skólans og lærir eftir það um tilvist Leyniklefans en ef hann er opnaður mun það hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér. Harry áttar sig á því að hann er sá eini sem getur stoppað hið illa afl sem sest hefur að í skólanum og einsetur sér, ásamt vinum sínum að gera það.

Ætli helsti gallinn við Harry Potter and the Chamber of Secrets sé ekki að hún er framhald, þó það sé sjálfstætt. Maður fær aldrei aftur þá tilfinningu að maður sé að upplifa eitthvað nýtt og hlýtur myndin skaða af fyrir. En í rauninni er það ekki fullkomlega sanngjarnt þar sem að myndin sjálf getur ekkert að því gert. Í flesta staði verð ég að segja að Harry Potter nr. 2 er talsvert betri heldur en fyrri myndin. Leikstjórnin er öruggari, handrit Steven Kloves ekki jafn leiðinlega varfærnislegt eins og í fyrri myndinni (þó að J.K. Rowling fái þar kannski einhvern heiður. Veit það ekki. Hef ekki lesið bókina) og myndin í heild öll talsvert dekkri og drungalegri og gæti því komið við kauninn á yngstu áhorfendunum. Leikararnir hafa líka vaxið vel inn í rullurnar sínar. Daniel Radcliffe stendur sig með ágætum þó að mitt uppáhald af krökkunum sé Rupert Grint með sinn skínandi gamanleik. Eldri leikarar veit líka gott aðhald. Richard heitinn Harris er svipmikill og sterkur að vanda og er mikill sviptir af þeim mikla leikara. Hinn frábæri Alan Rickman er líka óviðjafnanlegur að vanda og aðrir leikarar einnig mjög góðir. Ný andlit skjóta einnig upp kollinum og má þar helst nefna Jason Isaacs sem hinn illi Lucius Malfoy. Isaacs virðist vera sérfræðingur í að leika sérbresk illmenni með sitt ískalda augnaráð og ofurhrokafulla karaktera. Hið fínasta illmenni. Og aðalsenuþjófur myndarinnar er Kenneth Branagh sem fer hreint og beint á algjörum kostum sem hinn ofurmontni og spjátrungslegi Gilderoy Lockhart. Ég held að Branagh gæti vel fengið Óskarstilnefningu þegar upp er staðið eftir árið.

Þrátt fyrir alla þessa kosti fram yfir fyrri myndina þá vantar eitthvað upp á til að hún hitti alveg í mark. Til að mynda kom fátt mér í myndinni beinlínis á óvart sem er talsverður galli miðað við efnið. Auk þess fannst mér myndin oft bara lulla dálítið áfram án þess að eitthvað í henni gripi mann neitt sérstaklega ólíkt til að mynda The Fellowship of the Ring þar sem nánast hvert einasta myndskot greip mann. En hér er ég kannski aftur að fara út í ósanngjarnan samanburð.

Harry Potter and the Chamber of Secrets er hin fínasta skemmtun sem tekur fyrri myndinni talsvert fram. Bara ekki halda að þetta sé neitt snilldarverk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
One Hour Photo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Seymour Parrish (Robin Williams) vinnur við að framkalla ljósmyndir í einni af þessum tilbúnar-á-klukkutíma ljósmyndabúðum inni í stórum stórmarkaði. Uppáhaldsviðskiptavinir hans eru Yorkin-fjölskyldan, þá sérstaklega Nina Yorkin (Connie Nielsen) og sonur hennar Jake (Dylan Smith). Seymour, eða Sy, er afar einmana maður, á enga vini, ekki neitt. Eina haldreipið sem hann hefur eru myndirnar sem hann tekur. Hann er vanur að taka tvö eintök af hverri, eitt fyrir viðskiptavininn, eitt fyrir sig. Eftir því sem líður þá verður hann haldinn sífellt meiri þráhyggju af Yorkin-fjölskyldunni. Hann lítur á sig sem hálfgerðan sjálfskipaðan frænda. En einn daginn sér hann athæfi fjölskylduföðurins á myndum og það sendir hann algjörlega yfir strikið. Hann tekur að njósna um þau og elta þau hvert sem þau fara. Hvað mun Sy ganga langt í þessari þráhyggju sinni og er hann orðinn hættulegur fjölskyldunni og öðrum í kring um sig?

Þetta er besta hlutverk Robin Williams síðan í The Birdcage (1996) þó að þessi tvö hlutverk séu á engan hátt sambærileg. Hann leikur hreint út sagt snilldarlega hlutverk manns sem einmanaleiki og þráhyggja hafa hrakið út á hengiflug algjörs brjálæðis. Williams fær mann bæði til þess að kenna í brjósti um hann og vera hræddur við hann. Í einni senu hefur hann kannski samúð manns en í þeirri næstu er hann orðinn virkilega óhugnanlegur karakter. Leikstjórinn Mark Romanek nýtir sér einnig frábærlega kvikmyndatöku, tónlist og síðast en ekki síst búninga og svið til þess að skapa magnað og óhugnanlegt andrúmsloft. Sy er alltaf í þessum dauðu og líflausu fötum, með sitt dauða og líflausa hár inni í dauðri og líflausri verslunarkeðjunni. Það eina í myndinni sem hefur einhvern lit í sér eru myndirnar af Yorkin-fjölskyldunni og þau sjálf, semsagt það eina sem er gott í lífi Sy. Kvikmyndataka Jeff Cronenweth nær þessu frábærlega vel og tónlist Reinhold Heil og Johnny Klimek er verulega óþægileg og ýtir mjög undir spennuna. En fyrst og fremst er þetta vel skrifað handrit hjá Romanek sem hann leikstýrir af miklu öryggi.

Aðrir leikarar fyrir utan Williams standa sig ágætlega en hann er samt sem áður í rauninni allt í öllu á þeim bænum með magnaðri frammistöðu sinni.

Allt í allt mjög vel gerð og á köflum verulega óhugnanlegur spennutryllir um góða, viðkvæma sál sem tapar glórunni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blood Work
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Terry McCaleb (Clint Eastwood) er FBI-rannsóknarmaður og einn sá færasti í sínu starfi. En Terry fær hjartaáfall þegar hann eltir The Code-Killer, fjöldamorðingja sem hann hefur verið að rannsaka, niður dimmt húsasund. 2 árum seinna hefur Terry fengið hjartaígræðslu en hefur neyðst til þess að hætta störfum þar sem hann má ekki reyna á sig.

En einn daginn, þar sem hann situr í bátnum sínum, kemur kona til hans. Konan, Graciella (Wanda De Jesus) leitar ásjár hans þar sem að systir hennar var myrt í búðarráni. McCaleb segir henni að hann sé sestur í helgan stein en ákveður samt, þrátt fyrir að læknirinn hans sé ekki hrifin af því (Anjelica Huston), að taka verkefnið að sér þegar Graciella segir honum dálítið sem tengir hann við systur hennar.

McCaleb tengir morð systur hennar við annað morð sem átti sér stað fyrir utan hraðbanka. Brátt kemur í ljós að þetta gæti verið The Code-Killer aftur á ferðinni að senda honum leynileg skilaboð. Ásamt aðstoðarmanni sínum Buddy (Jeff Daniels), verður McCaleb nú að stöðva morðingjann í eitt skipti fyrir öll en það gæti orðið erfitt þar sem að hann má lítið sem ekkert reyna á sig.

Það sem mér finnst fyrst og fremst vera framför hjá Eastwood í þessari mynd miðað við hans síðustu er að hann er farinn að viðurkenna að hann sé að verða gamall maður. Hann er meira og minna hættur að skjóta allt í klessu og slást. Hann er sem betur fer einnig hættur að vera að eltast við stelpur sem eru á þeim aldri að hann gæti auðveldlega verið afi þeirra enda leit kallinn líka út eins og hálfviti fyrir vikið. Þetta er almennt talsvert þroskaðra verk en hann hefur sent frá sér í talsverðan tíma.

Fyrir utan þessa punkta er þetta hin fínasta spennumynd. Eastwood, ólikt mörgum öðrum spennumyndaleikstjórum, byggir sínar myndir upp á vel skrifuðu handriti og heilsteyptum karakterum sem eru alvöru fólk en ekki þessar steríótýpur. Manni er því ekki sama hvað gerist fyrir fólkið í myndunum hjá honum. Jafnvel þótt handrit Brians Helgelands sé dálítið gloppótt á köflum þá nær Eastwood að breiða yfir það með öruggri leikstjórn sinni og góðum og fáguðum leik sínum. McCaleb er einn af hans betri karakterum í talsverðan tíma. Aðrir karakterar eru einnig vel skrifaðir og þá sérstaklega Graciella sem er ekki bara einhver sidekick fyrir Eastwood heldur alvöru manneskja af holdi og blóði.

Þetta er engin framúrskarandi mynd en þetta er svona mynd eins og maður bjóst við og veldur alls engum vonbrigðum. Maður getur venjulega treyst því að maður fái vel gerðar og skrifaðar myndir ef að leikstjórinn er Clint Eastwood og það verður engin breyting á því hér. Fyrirtaks spennumynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Salton Sea
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Danny Parker (Val Kilmer) var áður Tom Van Allen, liðtækur jazzleikari. Núna er hann fastur í hinni hröðu og hættulegu veröld spíttfíkilsins. Hann hefur misst konuna sína en aðrar ástæður fyrir því að hann fór út á þessa braut er haldið leyndum. Það sem Danny gerir fyrir utan að spítta með nautheimskum spíttvinum sínum (Adam Goldberg, Peter Sarsgaard o.fl.) er að vera uppljóstrari fyrir tvær fíkniefnalöggur (Doug Hutchison og Anthony LaPaglia) þegar hann kemst á snoðir um eitthvað verulega stór mál. Eini gallinn er að nú er hann í vanda. Kólumbískir eiturlyfjasalar sem vita að hann kjaftaði frá vilja hann feigann svo að hann þarf að láta sig hverfa. En fyrst þarf hann peninga. Hann ákveður að redda sér þeim með því að vera milliaðili í fíkniefnaviðskiptum við glæponinn Pooh-Bear (Vincent D'Onofrio). Eini gallinn er að Pooh-Bear er gjörsamlega snaróður brjálæðingur haldinn kvalalosta og þar af leiðandi algjörlega óútreiknanlegur. En Danny er örvæntingarfulllur svo hann ákveður að reyna þetta samt. En skildi meira búa undir en sýnist í fyrstu.

Þessi mynd kom mér þægilega á óvart. Ég hafði séð trailerinn af henni, þótti hann skrítinn og þess vegna langaði mig til að sjá myndina. Hún byrjar dálítið líkt og Trainspotting, við höfum dóphetjuna okkar og dóphausana vini hans sem vilja gera hættulegan díl við hættulegan náunga. Einnig er dálítið drama undirliggjandi út af látinni eiginkonu hetjunnar. En síðan snarvendir myndin yfir í spennumynd þar sem eru alls kyns beygjur og sveigjur á framvindunni sem ég mun ekki fara nánar út í. En þetta er hin fínasta spennumynd drifin áfram af óvenju ljóðrænni nálgun D.J. Caruso á viðfangsefnið og ágætu, þó ekki gallalausu, handriti Tony Gayton. Myndin er einnig einstaklega vel gerð tæknilega séð. Kvikmyndataka Amir M. Mokri og klipping Jim Page ásamt fínni tónlist Thomas Newman búa oft til skemmtilega litadýrð út frá tattúunum sérstaklega og frá fyrra lífi söguhetjunnar og myndar það gott jafnvægi við ömurlegan hversdagsleika spíttfíkilsins.

Leikarar standa sig einnig flestir hverjir vel. Val Kilmer hefur ekki verið jafn góður síðan hann lék Jim Morrison í The Doors og er gaman að sjá að þessi misskildi en ágæti leikari er kominn aftur eftir að Hollywoodverksmiðjan hafði gleypt hann. Adam Goldberg og Peter Sarsgaard eru allt í lagi sem spíttfíklarnir vinir hans. Sérstaklega er fyndið eitt atriði þar sem þeir plana að ræna hlut sem ég ætla ekki að segja ykkur hver er en þar sem þeir eru að sjálfsögðu hálfvitar sjáum við hversu illa þetta fer úrskeiðis um leið og Goldberg segir okkur drögin að ráninu. Snilldaratriði. Deborah Unger er líka ágæt sem barin eiginkona sem Kilmer vorkennir sig yfir.

En senuþjófurinn, eins og svo oft áður, er D'Onofrio. Þessi frábæri leikari, sem maður sér alltof lítið af fer á kostum í hlutverki algjörlega geðsjúks viðbjóðs og er hrein unun að horfa á hann þegar hann er á skjánum. Maður er skíthræddur við þennan náunga alltaf þegar hann er á skjánum. Er ekki kominn tími á að D'Onofrio fái loks einhverja viðurkenningu á hæfileikum sínum og fái Óskarstilnefningu hér. Hann er hreint út sagt frábær.

Ég mæli eindregið með þessari mynd. Að mínu mati ein óvæntasta góða mynd ársins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Insomnia
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Insomnia er endurgerð á norskri mynd með Stellan Skarsgård í aðalhlutverkinu. Hér er aðalpersónan leikin af Al Pacino. Ég hef ekki séð frummyndina en sem bandarísk endurgerð af erlendri mynd er Insomnia sennilega sú besta sem ég hef séð þeirrar tegundar.

Myndin fjallar um lögreglumanninn Will Dormer (Al Pacino) sem er sendur til lítils byggðarlags í Alaska ásamt félaga sínum (Martin Donovan) til þess að rannsaka hrottalegt morð á ungri stúlku. Þar tekur á móti þeim nýliðinn Ellie Burr (Hilary Swank) en Dormer hefur verið átrúnaðargoð hennar síðan hún ákvað að gerast lögga.

Lögreglan í Alaska bað um aðstoð vegna þess að þetta morð er óvenjulegt í alla staði fyrir þennan stað. Það hefur verið framið af mikilli nákvæmni og vandvirkni, morðinginn hefur búið vel um það og hefur verið hinn rólegasti allan tímann. Þeir eiga greinilega í höggi við brjálæðing.

VARÚÐ, VARÚÐ!!!!!! Uppljóstranir framundan!!!!!!!!!


Margt þjakar Dormer. Innra eftirlitið er að rannsaka hann vegna máls sem hann vann að áður en hann var sendur í þetta. Stöðug miðnætursólin lengst úti á norðurhjara verður til þess að hann getur ekki sofið og fer að missa einbeitinguna. Og þegar lögregluliðinu tekst að króa morðingjann af gerir Dormer mistök sem plaga hann upp frá því. Og það sem verra er, morðinginn sá það. Svo hann fer að hringja í Dormer, leikur sér við hann til þess að lokka hann alltaf nær sér. Leikur kattarins að músinni er byrjaður en spurningin er, hver er kötturinn og hver er músin.

Það að Christopher Nolan geri jafn góða mynd eftir snilldina Memento er ósanngjörn krafa. Enda er þessi mynd ekki alveg eins góð. En þegar kemur að sálfræðilegum spennumyndum er hún með þeim betri sem ég hef séð í langan tíma. Handrit Hillary Seitz eftir upphaflegri sögu Nikolaj Frobenius og Erik Skjoldbjærg er vel úthugsað og uppfullt af óvæntum fléttum og einstaklega góð leikstjórn Nolans í bland við frábæran leik stjarnanna gerir þetta að hörkuspennumynd. Einnig spilar frábær klipping Dody Dorn þar inn í en hann eykur á ofsóknarkennt og óhugnanlegt andrúmsloftið með snöggum innskotum sem eiga að tákna einbeitingu Dormers og niðurbrot hennar.

Mér finnst sérstaklega sniðugt að láta þetta gerast í Alaska. Stórfenglegt og kuldalegt landslagið spilar afar vel inn í einmanalegt líferni löggunnar og þessi stöðuga birta sem ríkir þarna eykur á ofsóknartilfinninguna sem er óvenjulegt af því að venjulega er þessu öfugt farið með nótt.

Leikaravalið gæti í rauninni varla verið betra. Al Pacino, sá magnaði snilldarleikari, hefur ekki verið jafn góður síðan í Donnie Brasco árið 1997 og túlkar hreint frábærlega hina þjökuðu löggu, bæði af svefnleysi og ekki síður af sálarkvölum. Þetta er heldur ekki þessi venjulega hetjulögga sem við eigum að venjast í venjulegum spennumyndum. Hann er frekar veikgeðja maður sem er langt í frá að vera eitthvað sérstaklega fullkominn eða heiðarlegur. Og enginn getur leikið þreytu jafnvel og Pacino, maður varð nánast þreyttur sjálfur. Robin Williams myndar síðan fínt mótjafnvægi við hann. Það er i rauninni sjokkerandi að sjá góðlátlega gamanleikarann Williams umturnast í þennan sálsjúka brjálæðing og hrotta, fullan af illsku. Frábærlega vel leikið hjá honum einnig. Hilary Swank skilar síðan vel sínu en er heldur vannýtt.

Allt í allt er Insomnia vel gerð, frábærlega vel leikin og óvenjulega djúpur og spennandi sálfræðitryllir sem hittir oftast beint í mark.

P.s. Ég gaf henni þrjár stjörnur til að aðskilja hana örlítið frá Memento en þetta er í rauninni ósanngjarn dómur. Ég myndi allavega segja þrjár og 2 plúsar að auki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Windtalkers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið er 1943. Stríð bandamanna við Japani geysar á kyrrahafseyjunum. Eitt af því sem veldur hvað mestu mannfalli í liði bandamanna er að Japönum hefur alltaf tekist að ráða dulmálslykil þeirra. Þess vegna hefur yfirherstjórnin brugðið á það ráð að notast við indjána af Navajo-ættflokknum og tungumál þeirra sem dulmálslykla. Þessi dulmálslykill er svo mikilvægur að þeir sem eiga að gæta þessara manna er sagt að ef þeir lendi í höndum Japana eigi þeir að sjá til þess að Japanarnir nái þeim ekki lifandi.

Einn af þeim sem ráðinn er lífvörður indjánanna er liðþjálfinn Joe Enders (Nicolas Cage). Ásamt því að vera með bilað jafnvægisskyn eftir handsprengju glímir Joe einnig við drauga fortíðar þegar hann varð þess valdandi að margir menn úr hans eigin liði dóu.

Joe er settur í það að gæta hins Ben Yahzee (Adam Beach). Yahzee er fullur af hálfbarnalegum hetjuhugsjónum, ættjarðarást og öðru bulli og Joe hefur ekki mikið álit á honum í fyrstu. En það mun breytast þegar þessir menn fara út í bardagann og vinátta myndast með þeim. Og spurningin er hvort Joe geti virkilega drepið Ben ef að til kastanna kemur. Hversu langt er Joe tilbúinn að ganga bara til þess að hlýða skipunum.

Ein af verstu stríðsmyndum sem ég hef séð var myndin We Were Soldiers. Þessi er ekki svo ólík þeirri mynd nema að hún er hugsanlega ennþá klisjukenndari ef það var þá hægt. Ég veit í rauninni ekki hversu mikið er satt og rétt í hlut Navajo-indjána í seinni heimsstyrjöldinni en ef svo er þá er engin spurning að saga þeirra verðskuldar athygli umheimsins. Verst að henni skuli ekki vera komið betur til skila heldur en þetta. Maður veit eiginlega alltaf hvað á eftir að gerast, hvernig það mun gerast og hvers vegna. Sama gildir um persónurnar sem eru einn stór klisjubolti út í gegn. Við höfum hetjurnar og félagana tvo (betra að önnur þeirra sé skemmd á sálinni), við höfum rasistann (Noah Emmerich), við höfum hinn góða og léttari yfirmanninn (Christian Slater), við höfum by-the-book yfirmanninn (Peter Stormare) og síðast en ekki síst, við höfum konuna sem trúir statt og stöðugt á göfugu hetjuna Cage (Frances O'Connor). OJJJJ!!!!!

Það eina sem reddar þessari mynd frá því að vera algjört rusl eins og We Were Soldiers er Cage. Þegar hann er ekki að leika þessi væmnu leiðindavælukjóahlutverk sín þá er hann virkilega öflugur leikari oft á tíðum. Það væri svo sem synd að segja að samtölin væru vel skrifuð í myndinni en Cage gerir eins vel og hann getur með efnið sem hann hefur. Honum tekst að búa til úr efninu persónu sem er góður maður en er að bugast og missa manneðli sitt út af öllu blóðinu sem flýtur í kringum hann og hann sjálfur hefur stundum verið ábyrgur fyrir. Fyrirtaks leikur hjá Cage. Einnig reynir Adam Beach að gera eins vel og hann getur með sitt hlutverk. Eini gallinn er að það er algjörlega einhliða svo maður getur aldrei kynnst hans persónu sem með réttu ætti að vera aðalpersóna myndarinnar en ekki Cage.

Eins og ég sagði áðan: Saga þessara manna er vissulega merkileg en miðað við þetta mæli ég heldur með því að þið lesið um það. Og John Woo þarf verulega að fara að hugsa sinn gang um það hvert hann er eiginlega að stefna. Hann sem var áður einn allra öflugasti og stýliskasti leikstjóri samtímans er að sökkva æ dýpra niður í vellu, vitleysisgang og leiðindi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hafið
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þórður (Gunnar Eyjólfsson), gamli sægreifinn í sínu byggðarlagi kallar einn góðan veðurdag krakkana sína heim til sín, hana Ragnheiði (Guðrún Gísladóttir) og Ágúst (Hilmir Snær Guðnason). Kallinn veit sem er að hann á ekki eftir að verða eilífur og þegar ellin sækir á hann vill hann tilkynna börnunum sínum hvernig búi hans verður skipt eftir sína daga. Eftirlætisbarnið, hann Ágúst, á að taka við rekstri fyrirtækisins í staðinn fyrir bróður sinn Harald (Sigurður Skúlason). En Ágúst, sem hefur búið úti í Frakklandi með unnustu sinni Francoise (Hélene de Fougerolles) hefur aldrei þorað að segja föður sínum frá því að hann hætti í viðskiptafræði, fór að leggja fyrir sig tónlist í staðinn og hefur engan áhuga á að taka við rekstri hálfglataðs fyrirtækis lengst úti á afnára Íslands. Og fleiri gömul leyndarmál og sárindi ýfast upp út af þessum endurfundum fjölskyldunnar, meðal annars biturleiki Ragnheiðar út í föður sinn fyrir skelfilegt atvik sem henti hana á unglingsaldri, óuppkljáð uppgjör Kristínar (Kristbjörg Kjeld): móðursystir krakkana: Pabbi þeirra giftist henni eftir að alvöru mamma þeirra dó) við tengdamóður sína, hina tunguhvössu Kötu (Herdís Þorvaldsdóttir), kynferðisleg löngun Maríu (Nína Dögg Filippusdóttir), hálfsystur Ágústs, í Ágúst og örvæntingarfullar tilraunir Haralds til þess að halda lífi í fyrirtækinu ásamt því að reyna að hafa stjórn á taugaveiklaðri eiginkonu sinni, Áslaugu (Elva Ósk Ólafsdóttir). Allt stefnir í hrikalegt uppgjör fjölskyldunnar við fortíðina sem gæti sundrað henni endanlega.

Hafið er einhver áhrifamesta íslenska bíómynd, eða bara bíómynd, sem ég hef séð lengi. Örugg og sterk leikstjórn Baltasar Kormáks í bland við frábært handrit hans og Ólafs Hauks Símonarsonar, ásamt einstaklega góðum leikhópi nær að skapa ekki bæði óvenjulega hnyttna svarta gamanmynd heldur einnig mjög öflugt drama þegar gamanið fer að kárna.

Þetta er alls ekki einfalt og venjulegt fjölskylduuppgjör við gamla drauga eins og við eigum að venjast. Þessi mynd fer miklu dýpra en það og veltir sér jafnvel upp úr þjóðfélagsvandamálum eins og landsbyggðarflóttanum, ofurvaldi gömlu aflakónganna á íbúunum, einkaeigu kvótans í landinu, jafnvel blóðskömm (e. incest) og þannig mætti áfram telja. Baltasar og Ólafur Haukur sýna samt sem áður þá visku að reyna ekki að svara þessum spurningum sjálfir, velta þeim aðeins upp og láta okkur eftir um að reyna að svara þeim.

Það er ekki síst fyrir tilstuðlan leikaranna að þetta er jafn áhrifarík mynd og hún er. Þar er valinn maður í hverju rúmi. Hilmir Snær, Sigurður Skúlason, Elva Ósk Ólafsdóttir, Sven Nordin og Kristbjörg Kjeld sína öll stórleik í sínum hlutverkum. Topparnir að mínu mati eru nú samt Gunnar Eyjólfsson, Guðrún Gísladóttir og Nína Dögg Filippusdóttir sem sýna hreint út sagt frábæran leik í sínum erfiðu og margslungnu hlutverkum. En aðalsenuþjófur myndarinnar er nú samt sem áður hin aldna Herdís Þorvaldsdóttir í hlutverki hinnar tunguhvössu Kötu. Hún stelur hverri einustu senu sem hún er í með stórkostlega eitruðum athugasemdum sínum. Íslenska kvikmyndaakademían getur allt eins látið hana hafa Edduverðlaunin núna fyrir besta leik í aukahlutverki kvenna af því að við erum sennilega að tala um frammistöðu ársins hérna.

Hafið fór satt að segja fram úr öllum mínum björtustu vonum og Baltasar Kormákur sýnir hér og sannar að hann er ekki síðri leikstjóri en leikari. Besta íslenska myndin frá því að Englar Alheimsins var sýnd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
K-19: The Widowmaker
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið er 1961. Kalda stríðið er í algleymingi. Sovétríkin vilja sanna mátt sinn með því að senda nýjasta og glæsilegasta kafbát flotans, K-19, út á mitt Atlantshaf, skjóta þar upp tilraunaflugskeyti og ganga þannig frá því að Bandaríkjamenn sjái það. Margir valdamenn í Moskvu telja að stríð við Bandaríkin sé óumflýjanlegt og að þetta muni aftra þeim frá því að aðhafast eitthvað.

Skipstjóri kafbátsins, Mikhail Polenin (Liam Neeson) varar yfirmenn hersins við því að báturinn sé ekki tilbúinn en að sjálfsögðu er ekkert hlustað á eina manninn sem veit um hvað hann er að tala. Í staðinn er fengin nýr skipstjóri, Alexei Vostrikov (Harrison Ford) til að taka við af Polenin. Mennirnir tveir hafa mjög ólíkar skoðanir og persónuleika svo að samstarf þeirra gengur ekki hnökralaust fyrir sig.

Hörmulegt atvik á sér stað þegar báturinn er út á miðju Atlantshafi. Kjarnorkuofninn ofhitnar svo að mennirnir eiga bara um tvo kosti að velja. Annað hvort að gera við ofninn og halda áfram eða að yfirgefa skipið. Ef að skipið er yfirgefið þá gætu Bandaríkjamenn náð því og það getur Vostrikov ekki hugsað sér. En ef þeim tekst ekki að gera við ofninn gæti hann leitt af sér kjarnorkusprengingu og hugsanlega startað þriðju heimsstyrjöldinni.

Þetta er hin allra fínasta spennumynd og aðdáunarvert af kananum að hafa gert mynd um örlög rússnesks kafbáts og áhafnar hans. Rússar hafa nánast alltaf verið vondu kallarnir í myndum kananna en núna eru þeir sýndir einnig frá mannlegu sjónarhorni. Sannarlega óvenjuleg og kærkomin breyting.

Myndin er mjög vel gerð. Innilokunarkenndinni inni í þessum ömurlegu farkostum er lýst mjög vel þá hún jafnist nú aldrei á við hina frábæru Das Boot. Geysilega mikið er í húfi og þar sem þessi mynd er byggð á sönnum atburðum verður hún eiginlega meira spennandi fyrir vikið. Einnig tekst henni að láta mann ekki vera sama um þessa menn sem er einkennið á öllum góðum stríðsmyndum.

Bæði Ford og Neeson hjálpa mjög mikið myndinni áfram. Ford er mjög fínn í þessu hlutverki og þetta er frekar óvenjuleg hetjutýpa sem hann leikur hér. Hann hugsar fyrst og fremst um árangur og oft leggur hann menn sína í óþarfa hættu. Semsagt ekki þessi algjörlega hreina og beina góða hetjutýpa. Ford stendur sig mjög vel. Og Neeson er jafnoki hans sem Polenin, maður sem hugsar fyrst og fremst um sína eigin menn og að bjarga lífi þeirra. Bæði Ford og Neeson hafa sterka sviðsáru og leika báðir sterka persónuleika í myndinni svo að þeirra eigin persónulega togstreita verður meira spennandi fyrir vikið. Þeir bæta hvorn annan upp ef svo má að orði komast. Síðan er ansi skondið að sjá Ingvar E. Sigurðsson þarna í hlutverki yfirvélstjórans Viktor Gorelov. Hlutverk hans hefur nú verið ansi mikið blásið upp í íslenskum fjölmiðlum en hann fær nú samt sem áður tækifæri til þess að leika hetju. Hann virðist allavegana skemmta sér konunglega.

Helsti gallinn er að myndin hefði mátt vera styttri og endirinn er ansi hreint klisjukenndur. Ég held að flestir séu búnir að ná boðskapnum og það er óþarfi að hamra svona svakalega á honum.

En almennt séð er þetta hin fínasta spennumynd frá flinka fagmanninum Kathryn Bigelow (Strange Days) og eitt af betri hlutverkum Fords í langan tíma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Maður eins og ég
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Maður eins og ég fjallar um Júlla (Jón Gnarr), frekar uppburðarlítinn mann um þrítugt sem er ekki almennilega búinn að átta sig á því enn hverslags lúser hann er í rauninni. Hann vinur á póstlager, lauk aldrei menntaskóla og virðist dunda sér best við það að hanga fyrir framan sjónvarpið heima hjá sér. Besti vinur hans (raunar sá eini) er Arnar (Þorsteinn Guðmundsson), fremur farsæll uppi sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hangir með Júlla og styður hann í gegnum nánast hvað sem er. Konunni hans og vinum hans (frekar kaldrifjaðir uppar alltsaman) er ekkert um Júlla gefið og stundum af skiljanlegum ástæðum og fjölskylda Júlla er í meira lagi skrítin.

En líf hans tekur stakkaskiptum þegar Qi (Stephanie Che) kemur inn í líf hans. Júlli hjálpar henni að læra íslensku í staðinn fyrir að fá að éta frítt á kínverska staðnum sem hún vinnur á. Brátt þróast samband þeirra yfir í ástarsamband en auðvitað tekst Júlla að klúðra því á magnaðan hátt. Þar sem Júlli situr í sinni ástarsorg fréttir hann að Qi hafi farið aftur til Kína til þess að hjúkra aldraðri móður sinni. Þá gerist eitthvað í heilabúinu á Júlla og hann heldur til Kína á eftir henni.

Persónulega fannst mér Íslenski draumurinn örlítið betri en þessi en þetta er samt sem áður ein af bestu íslensku myndunum í langan tíma. Myndir hér á landi eru alltaf að verða betri og betri að mínu mati og það er farið að leggja mikinn metnað í gerð þeirra. Þetta er náttúrulega bara af hinu góða. Róbert Douglas hefur næmt auga fyrir því spaugilega í mannlegum samskiptum landans og sést það oft í drepfyndnum atriðum í myndinni, þar sem sérstaklega Þorsteinn Guðmundsson kemur oft við sögu. Handritin hafa náttúrulega alltaf verið aðalhausverkurinn í íslenskri kvikmyndagerð en hérna finnst mér það bæði mjög fyndið en einnig mjög mannlegt og manneskjulegt á sama tíma. Jafnvel þótt að Júlli sé eins og hann er þá getur manni ekki annað en þótt strax vænt um þennan undirmálsmann.

Jón Gnarr hefur að mínu mati vaxið með hverju hlutverki sem hann hefur tekist á við. Hérna fær hann sjálfur mestmegnis að hvíla sig á gamanleiknum þótt oft geti maður hlegið rosalega að honum (eða öllu heldur uppákomunum sem hann lendir í). Hann sýnir hér afar góðan leik í vel skrifuðu hlutverki og sýnir það að hann er jafnvígur á gamanleik og drama. Stephanie Che er einnig mjög góð í öðru vel skrifuðu hlutverki á svipaðan hátt og Jón Gnarr er, bara á hinum enda striksins.

Margar dásamlega sérvitringslegar aukapersónur spila inn í. Sigurður Sigurjónsson er hreint út sagt frábær sem pabbi Júlla, Valur, sem lifir í þeirri ímyndun að hann sé poppstjarna. Einnig fer Þorsteinn Bachmann á kostum sem hinn frekar truflaði nágranni Júlla, Dagur. En senuþjófurinn er hins vegar Þorsteinn Guðmundsson sem brillerar bókstaflega sem hinn fremur sjálfumglaði Arnar. Sumar senurnar með honum fá mann til að veltast um af hlátri. Þorsteinn Guðmundsson markar sér hér með svæði sem einn af topp gamanleikurum Íslands.

Allt í allt er þetta einstaklega skemmtileg mynd sem bíður upp á bæði óborganlega fyndnar senur og einnig óvenjulega næmni á mannlegar tilfinningar. Dæmi um það er að það eru engar af þessum venjulegu íslensku bíómyndaklisjum. Engin stór uppgjör eða eitthvað svoleiðis, einungis framvinda eins og hún er í raunveruleikanum hjá raunverulegu fólki.

Ég mæli eindregið með þessari mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Signs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Graham Hess (Mel Gibson) býr með börnum sínum tveimur, Morgan (Rory Culkin) og Bo (Abigail Breslin) og bróður sínum Merrill (Joaquin Phoenix) á sveitabæ í Pennsylvaníu. Hann var áður prestur en hefur misst trúna vegna persónulegs harmleiks. Einn góðan veðurdag vaknar hann upp við hræðsluóp dóttur sinnar. Hann hleypur út og sér að undarleg tákn hafa verið gerð í maísinn í formi risavaxinna hringja. Fyrst í stað afskrifar hann þetta sem plat en eftir að hann og bróðir hans elta torkennilega veru sem hverfur síðan, hundarnir á bænum verða óðir og undarleg hljóð taka að berast með útvarpsbylgjum fara að renna á hann tvær grímur. Hvað er eiginlega um að vera? Eru geimverur komnar til jarðar? Eða er einhver að spila með hann? Hvað sem það er þá er eitthvað ógnvænlegt á sveimi rétt fyrir utan bæinn hans sem gæti ógnað bæði hans eigin lífi og lífi fjölskyldu hans.

M. Night Shyamalan hefur einstakt lag á að vekja óhug með fólki bara út úr samtölum fólks. Hann hefur einnig áttað sig á því alveg eins og meistari Hitchcock eða meistari Kubrick að það sem maður hvorki sér eða heyrir er það skelfilegasta af því öllu. Það er langt síðan ég hef séð þögn vera notuð á jafn áhrifamikinn hátt eins og hér. Eins og þegar Graham fer út á maísakurinn til að rannsaka málið. Það er algjör þögn og spennan er nánast óbærileg. Allt í allt þá er þetta umfram allt annað verulega óhugnanleg og óþægileg mynd á að horfa sem er einmitt þau áhrif sem er verið að reyna að fá.

Til þess að ná fram óþægindatilfinningunni er mikið notast við kvikmyndatöku og tónlist og bæði eru í toppformi. Kvikmyndataka Tak Fujimoto býr til einangrun og frábærlega innilokunarkennt andrúmsloft. Og tónlist James Newton Howard er verulega taugatrekkjandi og minnir talsvert á hina frábæru tónlist Bernard Herrmann í Psycho (upprunalegu).

Leikarar standa sig einnig afar vel. Mel Gibson er alltaf bestur í einhverjum svona hlutverkum sem hin sterka en samt sem áður mannlega týpa. Hann stendur sig hér með stakri prýði og bætir upp fyrir hörmungina We Were Soldiers. Joaquin Phoenix sem yngri bróðir hans gefur honum síðan lítið eftir. Og enn og aftur er aðdáunarvert hversu vel Shyamalan tekst að ná góðum leik frá barnungum leikurum, þá sérstaklega Rory Culkin sem sýnir frábæran leik sem hinn áhrifagjarni Morgan. Culkin (af Culkin-fjölskyldunni samanber Macauley Culkin) stefnir í að verða mikið efni.

Þetta er áreiðanlega einn af bestu spennutryllum ársins og er nánast jafngóð og fyrsta bandaríska mynd Shyamalans, The Sixth Sense. Þessi er mögnuð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Austin Powers in Goldmember
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Voðalega er nú Austin Powers dæmið orðið þreytt alltsaman. Mike Myers er greinilega búinn að blóðmjólka allt sem hann getur út úr þessum karakterum sem sýnir sig oft í þessari mynd. Sömu gömlu brandararnir, sífellt súrrealískari uppákomur sem eru einfaldlega ekkert fyndnar. Nokkrir góðir brandarar leynast inn á milli en annars er þessi mynd mikil vonbrigði.

Í þessari mynd hefur pabba Austins, Nigel (Michael Caine) verið rænt af glæpasnillingnum Goldmember (Mike Myers) sem er að vinna með Dr. Evil. Austin þarf að fara aftur til ársins 1975 og þar, með hjálp Foxxy Cleopatra (Beyoncé Knowles) þarf hann að bjarga föður sínum, fara aftur til nútíðarinnar og stoppa Dr. Evil og Goldmember frá því að drekkja jörðinni í vatni (nema ráðamenn reyði fram kasilljón billjón trilljón kr.)

Flestir brandaranna eru endurtekningar frá fyrri tveimur myndunum. Allir karakterarnir koma aftur, Mini-Me (Verne Troyer) sem hefur ekkert nýtt fram að færa þó að Troyer sé stöðugt að brillera. Fat Bastard með allt sitt neðanbeltisbrandara-og ógeðsbrandaradót, aftur annar karakter sem hefur ekkert nýtt fram að færa. Goldmember er einna best heppnaðastur, hollenskt gerpi sem er jafnvel ógeðslegri heldur en Fat Bastard ef að það var þá hægt. Og Michael Caine virðist skemmta sér konunglega mitt í öllum herlegheitunum sem eldri útgáfa af Austin. Alltaf gaman að honum. Beyoncé Knowles er hins vegar fullkomlega misheppnuð sem gellan og hana skortir algjörlega það sem gerði Heather Graham svo skemmtilega í mynd nr. 2, léttleikann fyrir efninu. Allir aðrir karakterar svo sem Scott, Number 2, Frau og Basil eru með sínar sömu gömlu tuggur. Ég sakna dálítið Mustafa en í staðinn er kominn Number Three eða The Mole (Fred Savage) sem er gerður að einum af bestu bröndurunum.

Ég frábið mér fleiri Austin Powers myndir eftir þessa. Ég hafði þokkalegar vonir þar sem að tvö var betri heldur en eitt en númer 3 er fremur ófyndin og misheppnuð á flesta kanta.

Vonbrigði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sum of All Fears
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar ég fór á The Sum of All Fears bjóst ég við þessu venjulega. Mikil hætta skapast, góði kallinn kemur til bjargar, vondi kallinn ferst og öllu verður síðan drekkt í þjóðrembu og væmni undir lokin. En þessi kom mér dálítið á óvart. Hún reynist vera besta myndin um Jack Ryan fyrir utan The Hunt for Red October.

EF þú hefur EKKI séð myndina EKKI lesa lengra!!!!!!

Jack Ryan er hér leikinn af Ben Affleck. Hann fer að starfa fyrir CIA undir handleiðslu Bill Cabot (Morgan Freeman). Nýr forseti er tekinn við í Rússlandi (Ciarán Hinds) og ástand heimsmála er viðkvæmt, sérstaklega út af innrás Rússa í Tsjetsjeníu í óþökk Bandaríkjanna. Á meðan á því stendur hafa óprúttnir menn í Evrópu undir forystu Dressler (Alan Bates) í hyggju að smygla kjarnorkusprengju inn í Bandaríkin, sprengja hana þar og láta líta svo út sem að Rússarnir hafi gert það. Á meðan Bandaríkjamenn og Rússar eru uppteknir við að útrýma hvor öðrum þá getur risið nýtt afl í Evrópu og tekið yfir. Það er undir Ryan og John Clark (Liev Schreiber), sem sér um skítverkin fyrir Bandaríkjastjórn, komið að sjá til þess að þessi illu áform nái ekki fram að ganga og vara forseta Bandaríkjanna (James Cromwell) við í tæka tíð.

Þessi mynd er nokkuð merkileg að mörgu leiti. Hún tekur sjálfa sig alvarlega og gerir ekki lítið úr þeim möguleika að þetta gæti gerst í alvörunni. Þjóðrembu og væmni er blessunarlega haldið í lágmarki og meira er leitast við að byggja upp spennu með því að láta Ryan vera í tímahraki með að gera mönnum viðvart og komast oft ekki áfram vegna skrifræðis. Einhvern veginn er maður nú einum of meðvitaður um að þetta muni nú allt ganga upp hjá honum á endanum til þess að það takist en samt sem áður, heiðarleg tilraun. Það er meira að segja litið á málin frá sjónarhóli Rússanna einnig svo að þeir eru ekki bara einhverjir einsleitir thugs eins og þeir eru oftast sýndir. Annar stór plús. Þriðji stóri plúsinn er að vondu kallarnir í þessari eru viðbjóðslegir. Sannkallaður sori samfélagsins sem maður vonar að muni deyja einhverjum herfilegum dauðdaga í endann. Auk þess eru þeir viðvörun um uppgang fasista í Evrópu (Berlusconi, le Pen, Haider) þótt að ekki sé minnst á uppgang þeirra líka í Bandaríkjunum.

Helsti mínusinn eru leikararnir. Ben Affleck, sem mér finnst ekki mjög góður leikari, nær aldrei að vera trúverðugur eins og Harrison Ford var eða jafnvel Alec Baldwin og er frekar lánlaus hér. Morgan Freeman fær að leika enn eina útgáfuna á sama hlutverkinu og synd að þessi gæðaleikari fái ekki úr meiru að moða. Liev Schreiber er einfaldlega vonlaus leikari. James Cromwell er í svipaðri aðstöðu og Freeman. Sá eini sem vekur einhverja athygli er Ciarán Hinds sem forseti Rússlands, skynsamur maður sem þarf að höndla hið bilaða ástand heimafyrir og síðan Alan Bates sem hið viðbjóðslega illmenni.

Endirinn er afar furðulegur svo ekki sé meira sagt en einhvern veginn svo skrítinn að hann sleppur í mínum bókum.

Þetta er hin fínasta afþreying en hefur einnig heila og er í alvörunni að reyna að seyja eitthvað vitrænt um stöðu heimsmála. Mæli með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Minority Report
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

John Anderton (Tom Cruise) er yfirmaður Pre-Crime deildarinnar í Washington árið 2054. Lögreglan getur nú séð glæpi og stoppað þá áður en þeir eiga sér stað með því að notast við sjáendurna eða Pre-Cogs sem eru mannverur sem hafa þann eiginleika að geta séð hvenær morð verða framin. Bráðum verður kosið um það í landinu hvort Pre-Crime verði komið fyrir á landsvísu eða ekki. Danny Witwer (Colin Farrell) frá dómsmálaráðuneytinu er ekki viss um ágæti kerfisins og brátt skapast mikil spenna á milli hans og Andertons. Dag einn berst Anderton útsending frá sjáendunum sem sýnir hann sjálfan myrða ókunnugan mann. Honum bregður mjög við þetta og þarf strax að leggja á flótta. Á meðan hann flýr lögregluna sem er annað en auðvelt á þessum tíma þarf hann jafnframt að sanna sakleysi sitt og komast að því hvort að einhver sé að reyna að klína á hann morði. Með hjálp sjáandans Agöthu (Samantha Morton) reynir hann nú að hreinsa nafn sitt.

Ég hef heyrt að fólk haldi vart vatni yfir þessari nýjustu ræmu Spielbergs og telji hana eina af bestu myndum leikstjórans. Mér finnst hún góð en mér finnst hún ekki stórkostleg. Vissulega er hún mjög flott og söguþráðurinn er margslunginn og spennandi (á sumum köflum reyndar dálítið fyrirsjáanlegur) en hana vantar bara eitthvað í viðbót til þess að lifta henni yfir aðrar svipaðar myndir eins og Strange Days eða Total Recall (aðrar svona framtíðarsakamálamyndir). Og endirinn er að mínu mati veikur og svona dálítið fyrisjáanlega týpískur fyrir Spielberg. Persónulega var ég hrifnari af síðustu mynd hans A.I. Artificial Intelligence.

En eins og ég sagði áður, þetta er ekki léleg mynd, engan veginn. Kvikmyndataka Janusz Kaminski er vægast sagt frábær og verulega vel og sniðuglega klippt og tekin mörg atriði. Tónlist John Williams er fín eins og venjulega þótt hún týnist dálítið inn á milli. En það sem gefur myndinni aukinn kraft er fyrst og fremst afbragðsgóð frammistaða Tom Cruise sem leifir manneskjunni á bak við hasarhetjuna alltaf að skína í gegn og stundum skyggja á hana. Gömlu stórleikararnir Max von Sydow og Lois Smith eru einnig mjög traust, Lois Smith er ekkert annað en brilliant í því atriði sem hún birtist í.

Minority Report er mjög góð skemmtun með heila en eins og ég sagði, hún er engin snilld.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Men in Black II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndin Men in Black kom út árið 1997 og að mínu mati var ein af bestu sumarmyndum þess árs. Hún var kannski ekki svo merkileg kvikmynd þanning séð enda átti hún eingöngu að skemmta fólki og tókst það frábærlega upp. Og það besta var að hún var frumleg, maður hafði ekki séð svona mynd áður. En nú er komið framhaldið og gallinn við öll framhöld er að það er einstaklega erfitt að fá efnið til þess að sýnast vera nýtt og ferskt aftur. Og það tekst ekki upp hérna frekar en fyrri daginn.

Söguþráðurinn er á þá leið að Jay (Will Smith) þarf að hafa uppi á Kay (Tommy Lee Jones), planta minningum hans þegar hann vann hjá MIB aftur inn í hann til þess að hann geti munað hvar Ljósið er að finna, en Ljósið er búnaður sem mun eyða plánetunni finnist hann ekki í tæka tíð. Og á eftir ljósinu er einnig hin illa geimvera Serleena (Lara Flynn Boyle) sem hyggst ráða yfir vetrarbrautinni (eða eitthvað svoleiðis) með því.

Ég skil í rauninni ekki hvers vegna í ósköpunum þeir þurftu endilega að fara að gera framhaldsmynd af MIB. Eini tilgangurinn náttúrulega að græða meira í miðasölunni en það finnst mér rotinn tilgangur þegar um er að ræða listform eins og kvikmyndir. Allavegana má segja að þessi mynd er ekki leiðinleg þökk sé aðallega Tommy Lee Jones sem með fagmennsku sinni bjargar því sem bjargað verður. Það lífgar verulega yfir myndinni eftir að Jones er kominn. Fyrir utan hann og nokkra (en alltof fáa) frábæra brandara er fátt um fína drætti hér. Almennt séð er handritið lélegra í þessari mynd heldur en þeirri fyrstu og það er náttúrulega stærsti gallinn. Annar galli er Lara Flynn Boyle sem er óttalega máttlaust illmenni við hliðina á hinu frábæra illmenni Vincent D'Onofrio í fyrstu myndinni. Og því miður þarf hinn gjörsamlega ófyndni Johnny Knoxville endilega að vera að troða sér inn i myndina. (Einn af þeim fígúrum sem ég þoli ekki). Tony Shalhoub sem kolrugluð geimvera fær mann allavegana til að brosa út í annnað. Tæknibrellurnar eru sem áður fyrr fyrsta flokks en gallinn er aftur að maður hefur séð þetta allt saman áður. Tónlist hins venjulega frábæra Danny Elfmans nýtur sín heldur ekki jafnvel í þessari eins og í þeirri fyrstu.

Eins og ég sagði áðan, þessi mynd er aldrei beinlínis leiðinleg en hún er aldrei neitt annað heldur en skugginn af fyrstu myndinni. Ég mæli heldur með að þið horfið bara á fyrstu myndina aftur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Mothman Prophecies fjallar um blaðamanninn John Klein (Richard Gere) sem er hamingjusamlega giftur Mary (Debra Messing úr leiðindaþáttunum Will & Grace). Þau eru nýbúin að kaupa sér hús og allt í lukkunnar velstandi. En eina dimma nótt sér Mary eitthvað hryllilegt á bílglugganum hjá sér og keyrir út af. Í ljós kemur að hún er með heilaæxli og deyr nokkru síðar. John er að vonum niðurbrotinn maður eftir þetta. Talsvert seinna er John sendur til Virginíu út af frétt um pólitískt framboð. En John veit ekki betur fyrr en hann er allt í einu kominn til Point Pleasant í Vestur-Virginíu. Það hefði átt að taka hann 9 tíma en í staðinn er hann kominn þangað á einum og hálfum. Og eftir það fara alls konar skrýtnir hlutir að gera vart við sig. Hann er ásakaður um að vera að ofsækja hjón sem hann hefur aldrei séð áður, hann fer að fá undarlegar símhringingar og heyrir raddir upp úr vaskinum. Er John að verða geðveikur eða er eitthvert dularfullt afl þarna úti sem er að reyna að nálgast hann. Ef svo er hvað vill það og er það valdur að slysinu sem konan hans heitin lenti í? Hann byrjar að rannsaka málið með lögreglustjóra bæjarins, Connie Mills (Laura Linney).

Leikstjóri þessarar myndar er Mark Pellington en ég persónulega var stórhrifinn af síðustu mynd hans, Arlington Road. Myndir hans hafa drungalegt, ofsóknarkennt yfirbragð og fjalla báður um venjulega menn sem eru fastir í aðstæðum sem þeir skilja ekki og ráða ekki við. Mér fannst The Mothman Prophecies líka hin fínasta ræma. Helstu veikleikarnir eru að myndin er einum of löng (hefði alveg mátt stytta hana um svona 20 mínútur) og endirinn fannst mér dálítið veikur miðað við það sem hafði gengið á áður. En Pellington tekst að búa til verulega óhugnanlegt andrúmsloft í anda The Twilight Zone og dálítið líkt David Lynch einnig þó að myndin fari ekki út í súrrealisma. Partur af velgengni myndarinnar til að hræða er frábær kvikmyndataka Fred Murphy og sú viturlega ákvörðun sem Pellington tekur að sýna The Mothman ekki einum of mikið. Maður finnur meira návist hans allt um kring en maður sér hann. Það sem maður getur ekki séð er það sem hræðir mann.

Frammistöður leikaranna eru almennt fínar. Richard Gere er að mínu mati afar mistækur leikari. Hann getur verið glimrandi góður og líka alveg hundlélegur. Hann hefur ekki verið jafn góður í háa herrans tíð eins og í þessari mynd og túlkar afar vel örvinglaðan mann sem veit ekki hvort hann er að ganga af göflunum eða eitthvert dularfullt afl er að ofsækja hann. Laura Linney gerir sitt vel sem lögreglustjórinn en rullan býður ekki upp á mikið og er þessari fyrirtaks leikkonu hálf sóað að því er mér finnst. Will Patton er mjög fínn sem maður að nafni Gordon sem hefur einnig séð The Mothman og síðan bregður breska stórleikaranum Alan Bates fyrir í hlutverki sérfræðings um dularfull öfl.

Fyrst og fremst er þetta hreint ágætis spennuhrollur og er hún hreint ansi óþægileg á köflum.

P.s. Það segir að myndin sé byggð á sönnum atburðum sem er sniðugt bragð til þess að nota en mig grunar að það sé svona álíka mikið byggt á sönnum atburðum í þessu eins og í X-Files þætti.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Murder by Numbers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi nýjasta Sandra Bullock ræma kom mér satt að segja talsvert á óvart. Ég hafði engar sérstakar væntingar þótt ég vissi að leikstjórinn Barbet Schroeder hefur gert fínar myndir í gegnum tíðina (síðast gerði hann að vísu hina afleitu Desperate Measures). En svo kom í ljós að þessi mynd er hinn fínasti þriller og óvenjulega gáfulegur miðað við að þetta er Hollywood-framleiðsla.

Bullock leikur lögreglukonuna Cassie Mayweather. Hún er gríðarlega klár og fær í því sem hún gerir en þykir vera í frekar miklu tilfinningalegu ójafnvægi vegna skelfilegra atburða úr fortíð hennar. Hún er send ásamt nýjasta félaga sínum Sam Kennedy (Ben Chaplin) til að rannsaka morð á konu sem hefur verið skilin eftir úti í skógi. Það sem við vitum en þau vita ekki er hverjir morðingjarnir eru. Það eru menntaskólapiltarnir Richard Haywood (Ryan Gosling) og Justin Pendleton (Michael Pitt). !!!Þeir sem hafa ekki séð myndina hættið að lesa NÚNA!!!!!

Richard er rikur, vinsæll og á auðvelt með að ráðskast með fólk. Justin er hlédrægur, óvinsæll en gríðarlega snjall og það er í rauninni hann sem skipuleggur morðið. Planið er að komast upp með hinn fullkomna glæp. Þeir skilja sjálfir eftir sönnunargögn til að afvegaleiða löggurnar og koma sökinni yfir á aðra manneskju. En Cassie finnst eitthvað bogið við þetta allt saman og tekur að gruna þá tvo. Og þá hefst leikur kattarins að músinni. En spurningin er hver er kötturinn og hver er músin.

Eins og ég sagði áðan þá er þetta óvenjulega smart þriller. Og hann er sagður á óvenjulegan hátt. Við vitum hvað gerðist en persónurnar vita það ekki. Svo maður gat skemmt sér við það að sjá þegar þær lentu í blindgötu með rannsóknina eða það hljóp á snærið hjá morðingjunum og þar fram eftir götunum. Frammistaða leikaranna vegur þungt í því hversu vel tekst að koma efninu til skila. Þetta er til að mynda ein af allra bestu frammistöðum Bullocks á ferlinum og gerir hún Cassie að frábærri löggu en brotinni manneskju. Hún er ekki fullkomin. Maður getur ekki alltaf treyst dómgreind hennar. Hún hatar Richard og heldur að hann hafi skipulagt þetta allt saman vegna atburða úr hennar eigin lífi. Og mér fundust þær alveg frábærar senurnar á milli hennar og Ben Chaplin þar sem hún dregur hann á tálar en ekki öfugt, hún fleygir honum út úr rúminu eftir á en ekki öfugt eins og í venjulegri mynd. Kynjahlutverkunum er þar skemmtilega snúið við.

Ryan Gosling og sérstaklega Michael Pitt eru einnig góðir. Gosling býr til karakter sem, líkt og Cassie, maður þolir ekki frá fyrstu mínútu. Hrokafullan grimmdarsegg og drullusokk. Pitt býr til karakter sem er kannski ekki jafn slæmur á yfirborðinu eins og Richard en maður grunar samt að hann sé jafnvel truflaðri og hættulegri. Það er aðallega Ben Chaplin sem er hálf leiðinlegur sem by-the-book löggan enda líka hálf leiðinleg og tilþrifalítil rulla.

Þetta er mynd þar sem fer saman vel samið handrit, fínn leikur og örugg leikstjórn fagmanns sem neytar að stytta sér leið og láta allt enda bara í skotbardaga eða einhverju þannig löguðu. Ég mæli með þessari. Hún kemur á óvart.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: Attack of the Clones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sem gamall Star Wars aðdáandi get ég ekki annað sagt en að ég hafi verið uggandi eftir The Phantom Menace. Þótt sú mynd sé ekki leiðinleg var hún vonbrigði og fór ég því með ákveðnu hiki á Attack of the Clones. Hún er ekki vonbrigði!!!!!

Sagan heldur áfram. Obi-Wan Kenobi (Ewan McGregor) lærisveinn hans, Anakin Skywalker (Hayden Christensen) eru fengnir til þess að vernda Amidölu prinsessu (Natalie Portman) þegar það er reynt að ráða hana af dögum. Anakin sér um að vernda hana á meðan Obi-Wan fer að leita að þeim aðilum sem vilja hana feiga. Grunur beinist fljótt að Viðskiptasambandinu og hinum dularfulla Dooku greifa (Christopher Lee). Brátt kemur í ljós að reistur hefur verið gríðarlegur her til þess að berjast við Lýðveldið og nú verða Obi-Wan, Anakin og Amidala ásamt hjálp Mace Windu (Samuel L. Jackson) að ekki sé minnst á Yoda (Frank Oz) og vélmennin C-3PO (Anthony Daniels) og R2-D2 (Kenny Baker) að taka höndum saman til þess að stemma stigu við hinum illu öflum. Á sama tíma þarf Anakin að glíma við hrifningu sína á Amidölu en samkvæmt siðareglum Jedi-riddara mega þeir ekki verða ástfangnir og einnig þarf hann að glíma við söknuðinn eftir móður sinni (Pernilla August).

Meira ætla ég nú ekki að segja um söguþráð myndarinnar. En að mörgu leiti jafnast hún á við það besta í gömlu klassíkerunum. Hún er þrælspennandi, ólíkt The Phantom Menace í það fyrsta. Munið þið eftir hinum fremur óspennandi kappakstri í Episode I? Í þessari er svipað hasaratriði en munurinn er sá að það tekur hitt algjörlega í bakaríið hvað snertir spennu. Það er kannski ágætt og lýsandi dæmi fyrir það hversu mikið þessi mynd tekur þeirri fyrstu fram. Jar-Jar Binks er að mestu horfinn og verður ekki sárt saknað hér á þessum bæ. Í staðinn er kominn hinn ógleymanlegi vélmennadúett sem er svo miklu, miklu fyndnari og skemmtilegri. Og í staðinn fyrir Darth Maul úr fyrstu myndinni er kominn annar hrikalegur andstæðingur og er hann miklu öflugri og ógnvænlegri en Darth Maul sem var nú aldrei mikið annað heldur en andlitið. Myndin byrjar að vísu dálítið brösuglega en verður bara alltaf betri og betri eftir því sem á líður.

Ewan McGregor, Natalie Portman og Hayden Christensen virka stundum eins og út á þekju sem er kannski skiljanlegt þar sem þau léku á móti blue-screen nánast allan tímann. Stundum líður manni eins og þau séu að lesa af spjöldum sem hanga fyrir framan þau en það er fyrirgefanlegt um leið og hasarinn byrjar. Hayden Christensen er dálítið eins og Leonardo DiCaprio. Enginn snilldarleikari en sleppur fyrir horn. Sérstaklega í seinni hlutanum. Myndinni tekst jafnvel að vera talsvert djúp og sorgleg á köflum, þá aðallega í kringum hliðarsöguna af móður Anakins.

Þessi mynd er ekki fullkominn (hvað er það svo sem) en hún kemst ansi nálægt því. Ég gæti ekki verið ánægðari með nýju Star Wars myndina og nú veit ég fyrir víst að Star Wars serían er í góðum málum. George Lucas var bara úr æfingu þegar hann gerði nr. 1. Þetta er myndin til þess að toppa í sumarmyndunum í ár.

P.s. Yoda kemur mjög mikið við sögu í þessari mynd og er alveg brilljant hvað Lucas lætur hann gera.

P.s.s. Það eina sem ég get í rauninni kvartað yfir er laser-sjóið í Smárabíói á undan myndinni. Mér finnst það vera pirrandi fyrstu mínúturnar af myndinni af því að reikurinn af því gerir skjáinn mattari. Jæja en hvað um það, það er skyldumæting í bíó núna fyrir alla sanna ævintýrafíkla.

P.s.s.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Majestic
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Majestic fjallar um Peter Appleton (Jim Carrey), handritshöfund í Hollywood snemma á 6. áratugnum. Hann vinnur við B-myndir en dreymir um að komast upp í A-klassann. En Peter er óheppinn að starfa á þeim tíma þegar uppgangur fasista í Bandaríkjunum var hvað mestur og kommúnistaveiðarnar svokölluðu í algleymingi. Allt í einu er Peter kominn á svarta listann í Hollywood bara af því að hann mætti á einn vinstrisinnaðan fund þegar hann var unglingur, og þrátt fyrir að hann hafi engan áhuga á pólitík. Sár og reiður yfir þessu drekkur hann sig fullan og brunar í burtu. En hann lendir í því óhappi og keyra fram af brú og finnst næsta morgun af hundaeiganda í smábæ einum rétt hjá (James Whitmore). Hann hjálpar honum á lappir og kemur honum inn í bæinn. Allir virðast þar kannast við hann og loks segir gamli bíóstjórinn í bænum, Harry Trimble (Martin Landau) að þetta sé sonur hans, Luke, sem allir héldu að hefði dáið í seinni heimsstyrjöldinni. Þar sem að Peter er algjörlega minnislaus eftir slysið tekur hann þetta gott og gilt og verður þá mikill fögnuður í bænum en margir ungir menn þar höfðu farist í stríðinu. Peter/Luke tekur saman við gömlu kærustuna, Laurie (Adele Stanton) og hann og faðir hans ákveða að opna aftur gamla bíóið. En er hann í rauninni þessi Luke sem allir halda að hann sé og munu blóðhundar Washington einhvern tíma hætta að elta hann?

Ég hef heyrt frá mörgum að þessi mynd sverji sig í ætt við myndir Frank Capra sem gerði sínar helstu myndir á 5. og 4. áratug þessarar aldar. Því miður hef ég aldrei séð Capra-mynd en ég tek það sem gott og gilt. Gallinn er bara sá að sú formúla virkar einfaldlega ekki lengur. Heimurinn var saklausari staður en núna (allavega hvað snertir almenna vitneskju manna). Nú á nýju árþúsundi er Jörðin því miður orðin einum of kaldhæðin kúla fyrir svona mynd. Hún er nokkrum áratugum of seint á ferðinni. Það sem þótti einu sinni innileiki er núna væmni, það sem var áður þjóðarstolt er nú þjóðremba. Og lengdin, guð minn góður, það hefði mátt stytta þessa mynd örugglega um klukkutíma eða svo. Hún er víst ekki nema 143 mínútur en mér fannst ég hafa setið í fjóra tíma. Þetta er mjög dæmigerð amerísk mynd. Maður veit hvað mun gerast, hvernig það mun gerast og af hverju. Og maður veit nákvæmlega hvernig hún endar.

Samt er þessi mynd ekki alveg vonlaus. Það sem hjálpar henni áfram eru fyrst og fremst tvær frammistöður leikara. Martin Landau fær óskerta samúð manns sem syrgjandi faðir sem þykist hafa himin höndum tekið þegar strákurinn hans skilar sér. Og Jim Carrey gefur frá sér enn eina snilldarframmistöðuna sem hinn áttavillti Peter. Carrey getur túlkað allan tilfinningaskalann á góðum degi og hann fær mann nánast stundum til þess að trúa handritinu að myndinni með frammistöðu sinni. Bara að handritið hefði verið betra fyrir þessa tvo heiðursmenn og afbragðsleikara.

Ég veit í sjálfu sér ekki af hverju ég er að gefa þessari mynd tvær og hálfa stjörnu en ekki tvær. Hún er væmin, yfirfull af þjóðrembu (þótt að hún fordæmi kommúnistaveiðarnar: Er annað hægt nú á dögum?) og alltof, alltof löng. Ég skynja samt sem áður í gegnum þetta að þetta hefði getað verið efni í frábæra mynd og hún er yndislega vel leikin. Frank Darabont sem hefur hingað til aðeins sent frá sér snilld (The Shawshank Redemption var meistaraverk og The Green Mile litlu síðri) fer því miður alveg yfirborðs í þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spider-Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja þá er hún komin fyrsta bomba sumarsins (ég tek nú ekki einu sinni The Scorpion King með). Því miður er þetta ein af þeim bombum þar sem væntingarnar út af umbúðunum voru miklar en sprengingin og ljósadýrðin ekki í samræmi við það.

Peter Parker (Tobey Maguire) er uppburðarlítill og óvinsæll nemi. Hann er afar óframfærinn sem lýsir sér best í því að hann hefur ennþá ekki þorað að tjá tilfinningar sínar til Mary Jane Watson (Kirsten Dunst) þrátt fyrir að hafa þekkt hana frá því þau voru 6 ára. En dag einn breytist líf hans til muna. Hann er bitinn af stökkbreyttri könguló og eftir það þarf hann ekki gleraugu, hann breytist í vöðvabúnt og hann fattar að hann getur prílað upp lóðrétta veggi og skotið út úr sér köngulóarvefjum. Eftir að frændi hans og uppeldisfaðir, Bob Parker (Cliff Robertson) er myrtur af bílaþjófi ásetur Peter sér að berjast gegn glæpum og breytir sér yfir í Spider-Man eða Köngulóarmanninn. En starfið er erfiðara en hann hélt. Hann lendir í bardaga upp á líf og dauða við græna illfyglið eða The Green Goblin (Willem Dafoe), stórhættulegum brjálæðingi sem hafði áður fyrr verið friðsæli vísindamaðurinn Norman Osborn. Græni djöfullinn einsetur sér að knésetja Spider-Man og til þess að gera það ræðst hann á það tvennt sem honum er kærast, Mary Jane og frænka hans, May (Rosemary Harris). Og nú tekur við bardagi upp á líf og dauða.

Persónulega hefur mér alltaf fundist Batman vera meira heillandi heldur en Spider-Man vegna þess hversu flæktur hann er tilfinningalega en nóg um það. Gallinn við þessa mynd er sá að hún er einfaldlega ekkert spennandi. Maður veit svosem hvernig þetta endar allt saman þar sem þetta er ofurhetjumynd en það er samt sem áður hægt að gera það með dálítið meiri tilþrifum en er gert hér. Það er eins og þessari mynd hafi verið rubbað af. Hasarsenurnar eiga að vera mjög flottar en einhvern veginn þá fanst mér þær ekkert spes. Sem er ekki gott mál fyrir mynd sem reiðir sig algjörlega á stanslausan hasar frá upphafi til enda. Mér finnst myndin miklu betri þegar allir taka niður grímurnar og gerast aftur venjulegir borgarar.

Sem Peter Parker er Tobey Maguire fullkomnunin uppmáluð. Hann nær hinum uppburðarlitla Parker frábærlega vel og er Maguire í rauninni það besta við þessa mynd. Willem Dafoe á síðan skemmtilegan ofleik sem ófreskjan en karakterinn hans er samt sem ekki nógu áhugavert útfærður. Saga hans sem þessi Osborn náungi er í rauninni mjög sorgleg og hefði verið hægt að vinna eitthvað svipað með þetta eins og gert var með The Joker í fyrstu Batman-myndinni. En því er ekki að heilsa. Kirsten Dunst ofleikur leiðinlega sem Mary Jane. Ég hef hingað til verið hrifinn af henni en ekki hér. Tónlist Danny Elfman er brilliant eins og venjulega.

Spider-Man og The Green Goblin eru áhugaverðastir þegar þeir taka niður grímurnar og þá rís myndin einnig hæst. Þess vegna fannst mér fyrri hlutinn af henni fínn. En það fer í rauninni allt til fjandans í seinni hlutanum þar sem myndin verður að einni langri hasarsenu af því að það merkilegasta við þessa mynd er þetta: Hasarsenurnar eru mest óspennandi kafli myndarinnar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
You Can Count on Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

You Can Count on Me eftir Kenneth Lonergan fjallar um Sammy Prescott (Laura Linney), einstæða móður sem býr í litlum smábæ úti á landi með syni sínum (Rory Culkin). Foreldrar hennar dóu þegar hún var lítil svo að hún og bróðir hennar Terry (Mark Ruffalo) höfðu einungis hvort annað að. Samt eru þau gjörólíkir einstaklingar. Á meðan Sammy hefur komið undir sig fótunum sem starfsmannastjóri bankans og hefur alltaf verið sú með ábyrgðartilfinninguna er Terry ábyrgðarlausi flækingurinn sem kemur við og við í bæinn til þess að biðja systur sína um peninga. Og Terry er núna kominn í enn eitt skiptið út af sömu ástæðu. Sammy ákveður að nota tækifærið og láta hann kynnast stráknum sínum og reyna að fá hann til að ílengjast í bænum. Á sama tíma veit Sammy ekki í hvorn fótinn hún á að stíga í karlamálum. Hún er í sambandi við bæði heimamann á staðnum (Bob Stegerson) og hinn nýja yfirmann sinn, hinn harðgifta reglufasista Brian (Matthew Broderick). Gallinn við þá báða er hvað þeir eru leiðinlegir. Og hvað á Sammy að gera með öll þessi vandræði í kringum sig.

You Can Count on Me er ein af þessum litlu myndum sem koma svo skemmtilega á óvart. Þetta er ekki beinlínis neitt þungavigtarstykki en þetta er alveg virkilega yndisleg mannleg mynd sem er bæði fyndin og alvarleg í bland. Það sem ég er hrifin af er hvernig myndin sneiðir hjá allri væmni sem svo oft einkennir amerískar vandamálamyndir. Í staðinn starir hún bara þráðbeint á persónur sínar og öll tilfinningaleg viðbrögð þeirra virka þess vegna eðlileg. Við fáum til dæmis ekkert yfirþrungið tilfinningaflóð í endann þegar uppgjörið kemur fram. Lonergan ber meiri virðingu fyrir persónum sínum og áhorfendum en svo. Handrit hans er listavel samið og leikstjórn hans mjög örugg.

Leikararnir smellpassa síðan inn í hlutverk sín. Bæði Linney og Ruffalo eru mjög góð í sínum hlutverkum og mjög flottur samleikur er á milli þeirra tveggja. Hingað til hef ég ekki séð þau gera neitt brilliant en þarna geislar af þeim og hlakka ég til að sjá hvað þau gera í framtíðinni. Broderick hefur heldur ekki verið jafn góður síðan í Election hérna um árið og gerir hann mjög vel að sýna Brian bæði sem hálf einfaldan mann og einnig gjörsamlega óþolandi möppudýr.

Manni líður virkilega vel eftir að hafa séð þessa mynd og mæli ég með henni fyrir alla þá sem hafa gaman af að sjá raunverulegt fólk í trúverðugum kringumstæðum án allrar væmni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Frailty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frailty fjallar um Dad Meiks (Bill Paxton) og syni hans tvo, Fenton (Matthew O'Leary) og Adam (Jeremy Sumpter). Saga þeirra er sögð af Fenton þegar hann er fullorðinn (Matthew McConaughey) og er kominn til að uppljóstra hryllilegu leyndarmáli þeirra þriggja í FBI-manninn Wesley Doyle (Powers Boothe) sem er að eltast við fjöldamorðingja sem kallar sig hendi Guðs. Sagan byrjar á því að eina nóttina, meðan Fenton og Adam eru litlir fær pabbi þeirra vitjun frá engli sem segir honum að djöflar lifi í mannslíki á jörðinni, heimsendir sé að koma og það sé heilög skylda hans og sona hans að stoppa djöflana. Adam sem er sá yngri hlýðir pabba sínum í blindni en Fenton sér að pabbi sinn er orðinn snargeggjaður og reynir að stoppa hann. En þá byrja morðin.

Þessi virkilega óþægilega og hálf andstyggilega mynd verður sífellt brenglaðri eftir því sem líður á hana. Ætli helsti galli hennar sé ekki sá hvað hún er fyrirsjáanleg. Maður veit að það kemur einhver flétta í ljós og maður veit líka hver fléttan verður eftir fyrstu 10 mínúturnar. Eftir þessar 10 mínútur gerði ég í rauninni ekkert annað heldur en að bíða eftir því sem ég vissi að myndi gerast. Það er slæmt mál fyrir mynd sem vill vera þriller. Annað slæmt mál er það hvað þessi mynd er stefnulaus. Hún virðist ekki geta ákveðið sig að hvaða niðurstöðu hún vill komast svo hún ákveður að reyna að taka allar hugsanlegar niðurstöður með í endinn. Það gerir það að verkum að þetta verður því miður samhengislaust bull í endann. Ég segi því miður af því að það er auðséð að þessi mynd var gerð með metnaði.

Það er oft afar erfitt að horfa á þessa mynd vegna þess að fólkið í henni er gott og á ekki skilið að lenda í þessu. Dad Meiks er ekki vondur maður, aðeins veikur, og þetta bitnar að sjálfsögðu á sonum hans sem hljóta óbætanlegan skaða af. Ég veit að svona hlutir gerast í alvörunni og þess vegna er þetta ekki beinlínis exploitive (hræðileg sletta ég veit en hey klukkan er 1:16 núna) en þess vegna er ég mjög ósáttur við endinn sem mér finnst gera lítið úr þjáningum mannsins og strákanna hans.

Ætli leikurinn sé ekki það skásta við myndina. Paxton er mjög góður sem hinn sjúki fjölskyldufaðir en McConaughey illþolanlegur að vanda sem hinn fullorðni Fenton. Powers Boothe leikur eins og hann leikur alltaf en strákarnir tveir, Matthew O'Leary og Jeremy Sumpter eru ágætir. Sérstaklega er Matthew O'Leary fínn sem eldri strákurinn.

Þessi mynd er mjög vel gerð í alla staði og metnaður var greinilega fyrir hendi en með bilað handrit er lítið sem hægt er að gera. Myndin er samhengislaus, sundurlaus og afskaplega óþægileg á að horfa. Ég get ekki mælt með henni, því miður.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The 51st State
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Elmo McElroy (Samuel L. Jackson) er efnafræðisnillingur sem vinnur við það að finna stöðugt upp á nýjum eiturlyfjum sem yfirmaður hans, hinn snargeðveiki glæpamaður The Lizard (Meat Loaf) selur síðan. En McElroy er búinn að fá nóg af því að vera eingöngu þræll fyrir bófann og því stingur hann af með formúlu í höfðinu á sér fyrir byltingarkenndu eiturlyfi. The Lizard er að sjálfsögðu ekki ánægður og sendir á eftir honum leigumorðingjann Dawn (Emily Mortimer). McElroy heldur til Liverpool í Skotapilsi og ætlar að semja annaðhvort við Leopold Durant (Ricky Tomlinson) eða Iki (Rhys Ifans), tvo helstu glæpamenn borgarinnar um formúluna. Sá sem bíður betur fær hana. Inn í þetta flækjast síðan hinn seinheppni smákrimmi Felix DeSouza (Robert Carlyle), spillta löggan Virgil Kane (Sean Pertwee) sem vill fá sína sneið af kökunni, snarruglaðir nýnasistar og það sem er verst af öllu, The Lizard sjálfur til Liverpool í hefndarhug.

Það yrði kannski seint sagt að þessi mynd væri neitt merkileg og þetta er engin Guy Ritchie mynd eins og Snatch. eða Lock, Stock and Two Smoking Barrels en asskoti hefur hún mikið skemmtanagildi. Ef maður gleymir bara heilanum á sér heima þá er þessi mynd príðisgóð skemmtun. Bæði tónlist og myndataka (eins og í Fight Club og Snatch.) er vel heppnuð og klippingarnar eru einnig skemmtilegar. Kannski er það bara ég en mér hefur alltaf fundist eitthvað ómótstæðilegt við fullt af hálf-misheppnuðum og kolrugluðum glæpamönnum sem eru allir á höttunum eftir sama hlutnum og eru stöugt að flækjast fyrir hvor öðrum. Enda er þessi mynd borin uppi af skörpum samtölum og leik.

Samuel L. Jackson er að venju svalastur allra og ekkert meira. Robert Carlyle er stórskemmtilegur sem vandræðagemsinn og ákafi Liverpool-aðdáandinn Felix. Hann og Jackson mynd ágætis par. Sean Pertwee sem spillta löggan er fínn (hann minnti mig reyndar svo mikið á Gary Oldman að ég hélt að þetta væri Gary Oldman), hinn ávallt skemmtilegi Rhys Ifans er það áfram og Meat Loaf (sem ég fékk dálítið álit á sem leikara eftir að ég sá Fight Club) er frábær aftur hér sem snargeðveikur glæpamaður.

Eini tilgangur þessarar myndar er að skemmta og ef henni tekst það þá fer ég ekki fram á meira. Henni tekst það í mínu tilviki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Iris
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Áður en ég byrja að skrifa um Iris langar mig til að leiðrétta eitt. Ég gaf Mulholland Dr. þrjár og hálfa stjörnu þegar ég ætlaði að gefa henni þrjár. Ég var einhvers staðar langt í burtu í hugsunum mínum út af þessari mynd og gleymdi alveg einum stórum galla á henni. Hún er einum of löng!!!!!

Allavegana, nóg um það. Iris er saga rithöfundarins Iris Murdoch sem þótti vera ein af fremstu rithöfundum Breta á 20. öldinni. Hún segir einnig sögu John Bayley sem var maðurinn í lífi hennar og studdi hana gegnum Alzheimer-sjúkdóminn síðustu árin í lífi hennar. Myndin fylgir eftir sambandi þeirra alveg frá því að þau eru bæði í háskólanum og fram á gamalsaldur. Hin unga Iris (Kate Winslet) er frjálsleg gáfuð ung manneskja sem er fyrir það að lifa dálítið hratt og villt. John Bayley (Hugh Bonneville) er algjör andstæða hennar, óframfærinn og einrænn. Einhvern veginn smellur þetta ólíklega par saman og þrátt fyrir að Iris sé frjálslynd í kynferðismálum (var t.d. tvíkynhneigð) þá helst samband þeirra í gegnum súrt og sætt. Súra hliðin fer virkilega að láta á sér kræla þegar Iris, þá orðin öldruð kona (Judi Dench) greinist með Alzheimer. John (Jim Broadbent) þarf þá að sjá algjörlega um hana en samkvæmt myndinni hafði það oftast verið öfugt farið.

Líf Iris Murdoch er greinilega fínt efni í dramatíska kvikmynd. Sérstaklega er það sorglegt að jafn frjó og gáfuð manneskja skyldi fá sjúkdóm eins og Alzheimer sem gerir hana að hálfgerðu grænmeti. Myndin er geysilega vel leikin, það má hún eiga. Stórleikkonan Judi Dench sýnir hér eina af sínum allra bestu frammistöðum til þessa og það hvernig hún fellur frá því að vera þessi magnaða persóna yfir í það að vera orðin alveg kexrugluð af sjúkdómnum er virkilega átakanlegt á að horfa. Jim Broadbent er einnig skínandi fínn í sínu hlutverki og er aðdáunarvert að horfa á samleik þeirra beggja. Winslet og Bonneville standa sig einnig mjög vel sem yngri útgáfurnar af þeim báðum. EN:

Gallinn er að þessi mynd er leiðinleg. Efni myndarinnar er svo sem ekkert gamanmál en persónurnar eru bara því miður svo þurrar. Maður fær í rauninni nánast ekkert að vita um þau tvö, það er nánast engin tenging við það hvað gerði Iris Murdoch að einum ástsælasta rithöfundi aldarinnar. Mér skilst einnig að John Bayley sé einn af bestu bókmenntagagnrýnendum Englands. Hérna er hann sýndur sem frekar einfaldur en hjartahlýr gamall (eða ungur) maður sem sé í rauninni annað lítið sérstakt við. Sem er þá greinilega ekki rétt. Auk þess vantar alla miðju í þessa mynd. Við fylgjumst með þeim tveimur á háskólaárunum og síðan ekki aftur fyrr en á gamalsaldri. Það gerir það að verkum að manni finnst vanta stóran kafla í myndina.

Það er vel horfandi á myndina ef maður vill sjá afburða leik frábærra leikara en fyrir utan það hefur myndin ekki upp á margt að bjóða. Ég mæli heldur með að fólk lesi einhver af verkum Iris Murdoch sem ég hef mikinn áhuga á eftir að ég sá þessa mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mulholland Drive
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mulholland Dr. er nýjasta mynd David Lynch. Þegar maður fer á David Lynch mynd þá verður maður að gera ráð fyrir að sjá ansi skrítna hluti á tjaldinu (fyrir utan The Straight Story). Ekkert sem ég hef séð hefði getað undirbúið mig fyrir það sem ég er nýbúinn að sjá.

Við fylgjumst með konu í limósínu í Mulhollandhæðum. Limósínan stoppar, bílstjórinn miðar á hana byssu og skipar henni að fara út úr bílnum. Þá klessa fullir unglingar á bílinn. Konan ráfar niður til Los Angeles og inn í yfirgefið hús. Næsta morgun kemur Betty (Naomi Watts) að konunni í sturtu. Konan sem kallar sig Ritu (Laura Harring) segist vera minnislaus og Betty, nýkomin til L.A. til þess að verða fræg kvikmyndastjarna ákveður að hjálpa henni að komast til botns í sannleikanum.

Þetta er plottið sem við byrjum með og hugsa með sjálfum mér gott og vel. Gáum hvert þetta fer. Málið er að ég hef ekki minnstu hugmynd um hvert það fór. Það þíðir samt ekki að þessi mynd sé ekki algjörlega heillandi frá fyrstu mínútu til þeirrar seinustu. Varúð: Þeir sem hafa ekki séð myndina EKKI lesa lengra!!!!!

Öll þessi mynd er einn stór draumur sem ruglast saman við aðra drauma og verður að martröð. Lynch hefur einstakt lag á að skapa óhugnanlegt og martraðarkennt andrúmsloft. Mér hefur ekki verið jafn órótt í bíó síðan ég sá The Others. Og tilfinningin hélt áfram vegna þess að engar eðlilegar skýringar var að finna á neinu. Og það er einmitt málið. Þessi mynd á ekki að meika sens (svo ég sletti nú). Lynch er að spila með tilfinningar áhorfenda. Það sem hann er að bjóða okkur upp á er draumur. Þetta lýsir sér mjög vel í því að hlutverk svissa, senur eru hálfkláraðar og nýjir raunveruleikar ruglast saman við aðra gamla sem voru fyrr í myndinni.

Ég veit í rauninni ekki hvað ég get meira sagt um þessa mynd nema það að hún er afburða vel leikin af báðum aðalleikkonunum, kynlífssenurnar í henni eru með eindæmum erótískar og einnig er hún afar óhugnanleg oft á köflum. Það er þessi tilfinning sem maður hefur í maganum allan tímann sem er aukið á með enn einu frábæru tónlistarskori hjá Angelo Badalamenti. Allt er slétt og fellt á yfirborðinu en maður veit að eitthvað er ekki í lagi en maður veit ekki hvað það er.

Ég mæli með þessari mynd. Hún er algjörlega heillandi en ekki reina að fá einhvern botn í hana af því að þá er hún óþolandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monster's Ball
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hank Grotowski (Billy Bob Thornton) er aðalvörðurinn á dauðadeild fangelsis í Georgíu-fylki. Pabbi hans Buck (Peter Boyle) er illvígur kynþáttahatari sem hefur andlegt tangarhald á Hank. Hank hefur einnig erft rasismann eftir föður sinn og lemur son sinn, Sonny (Heath Ledger) reglulega, eitthvað sem faðir hans gerði örugglega honum á sínum tíma.

Leticia Musgrove (Halle Berry) er einstæð móðir. Eiginmaður hennar (Sean Puffy Combs) situr á dauðadeildinni sem Hank vinnur á. Hún er slæm móðir sem annaðhvort kæfir son sinn Tyrell (Coronji Calhoun) í ástúð eða slær hann og hrópar að honum blótsyrði fyrir að vera einum of feitur. Auk þess drekkur hún stíft.


Þeir sem hafa ekki séð myndina ekki lesa lengra!!!!


Sonny drepur sig. Tyrell verður fyrir bíl og deyr. Hank og Leticia, þessar misheppnuðu og niðurbrotnu manneskjur, hittast á endanum og leita huggunar eða sáluhjálpar hjá hvort öðru.


In the Bedroom og Monster's Ball eru um margt líkar þótt efnið sé ekki eins. Alveg eins og In the Bedroom þá neitar Monster's Ball að fara einföldu leiðina. Hún gefur okkur ekki einfaldar tilfinningar sem eru auðmeltar. Myndin segir manni alls ekki með hverjum við ættum að halda og hvers vegna. Þegar þau ná saman á endanum er það ekki út af líkamlegri hrifningu fyrir hvort öðru heldur einfaldlega vegna þess að bæði þurfa þau að ná snertingu við aðra manneskju bara til þess að finna eitthvað. Það er ekkert einfalt að finna til með þessu fólki. Bæði voru þau t.d. slæmir foreldrar á meðan börnin þeirra voru á lífi. Það sem hreyfir svo mikið við manni er þegar maður fattar að hvorugt þeirra eru slæmar manneskjur í eðli sínu. Lífið hefur einfaldlega komið fram við þau bæði það harkalega að þau helltu sinni eigin óánægju með líf sitt yfir á börnin sín. Leikstjórinn Marc Forster lýsir þessu mjög vel og handrit Milo Addica og Will Rokos er magnað í einfaldleika sínum. Þeir forðast allar rasistaklisjur, allar yfirlýsingar, alla tilfinningavæmni og melódramatík. Þeir leifa karakterunum bara að vera fólk með alla sína kosti og galla og láta okkur dæma þá út frá því. Það er vissulega sjaldgæft og dýrmætt í amerískum myndum.

Þetta er einnig ein af best leiknu myndum ársins. Billy Bob Thornton er jafn frábær og endranær og leikur Hank alveg rétt með því að hemla sig af, engar tilfinningasprengjur koma en það er látið skína í hversu mikið opið sár maðurinn er með hlédrægum samtölum eða bara augnaráði eða fasi. Halle Berry er kannski með meira showy rullu (afsakið enskuslettuna) en Thornton er ekki síðri. Halle Berry kemur annars virkilega á óvart. Hingað til hefur hún ekki gert neitt sérstakt nema kannski í Bulworth (ekki mjög vel skrifaður karakter) en hérna springur hún virkilega út sem leikkona. Það að hún skuli reyna strax að halda áfram með líf sitt eftir að sonur hennar deyr virkar kannski dálítið kaldranalegt en ef við spyrjum okkur, hvernig bregst venjulegt fólk við sorg. Það reynir að slá henni á frest eins lengi og það getur (ég get þess vegna tekið sjálfan mig sem dæmi). Það sama gerir hennar karakter hérna þar sem í hefðbundnu drama hefði komið ein allsherjar þunglyndis- og sorgarsprengja. En ekki hér. Aðeins í einu atriði sjáum við tilfinningarnar brjótast út eftir talsverða viskídrykkju. Það er átakanlegt án þess að fara yfir strikið. Berry er sennilega uppgötvun ársins meðal leikkvenna. Aðrir leikarar eru einnig fínir, sérstaklega Peter Boyle (úr Everybody Loves Raymond) sem er einstaklega ógeðslegur og fyrirlitlegur sem hið hatursfulla höfuð Grotowski-fjölskyldunnar. Einnig kemur Sean Combs á óvart í sínu hlutverki, svo langt sem það nær. Spurning hvort hann ætti ekki bara að snúa sér að leik í staðinn fyrir rappið. Þá eru erótísku senurnar smekklega gerðar þó hugsanlega séu þær fulllangar ásamt myndinni. Það er eiginlega það eina sem ég hef að kvarta yfir.

Einhvern tímann heyrði ég sagt að ofurraunsæji væri leiðinlegt. Að vissu leiti er þetta rétt. Þessi mynd er ekki skemmtileg í hefðbundnum skilningi þess orðs. En ef þið viljið sjá mynd um alvöru fólk, með alvöru tilfinningar og alvöru viðbrögð sem er vel skrifuð og frábærlega vel leikin, sjáiði þá Monster's Ball.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ice Age
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það hefur verið mikil grassering í teiknimyndabransanum á undanförnum misserum. Með tilkomu tölvutækninnar inn í þennan geira hefur kvikmyndagerðarmönnum verið gefinn algjörlega laus taumurinn til þess að varpa öllum sínum villtustu hugmyndum í myndrænt form. Hefur þetta leitt til þess að hver frábær teiknimyndin hefur rekið aðra þar sem standa upp úr myndir eins og Toy Story, Antz og Shrek.

Ice Age er teiknimynd sem 20th Century Fox gerir. Í stuttu máli fjallar hún um loðfílinn Manny (Ray Romano), letidýrið Sid (John Leguizamo) og sverðköttinn Diego (Denis Leary) sem taka höndum saman við að skila týndu ungabarni til foreldra sinna.

Sagan virkar kannski dálítið klisjukennd þegar maður sér hana svona á prenti en eftir upphafsmínútur þessarar myndar er manni hjartanlega saman. Þessi hérna hefur kannski ekki voðalega mikla dýpt og tölvuvinnslan er dálítið hrárri en í t.d. Shrek eða Monsters Inc. en asskoti er hún fyndin. Ég hef ekki hlegið jafn mikið í bíó síðan ég sá Shrek. Þetta er að miklu leiti að þakka frábærri talsetningu leikaranna ásamt óborganlegum svipbrigðum fígúranna í samræmi við þá. Romano, Leguizamo og Leary sína allir snilldartakta og Goran Visnjic (úr Bráðavaktinni) býr til talsvert ógnandi karakter í Soto, hefndarþyrstum sverðketti. En það fyndnasta er nú samt sem áður ótalsett íkornakríli sem bisar við það alla myndina að bjarga hnetunni sinni frá háska. Hvert einasta svipbrigði og hver einasta hreyfing þessarar fígúru fá mann til þess að hlæja og hann á bestu augnablikin í mynd sem er pökkuð og góðum augnablikum.

Teiknimyndir eru eiginlega að verða fyndnustu myndirnar sem boðið er upp á í bíóum nú til dags og þessi er engin undantekning. Frábær gamanmynd sem ég mæli með fyrir alla fjölskylduna. Þú munt hlæja hvort sem þú ert 5 eða 90 ára. Hún er þess virði að sjá bara fyrir íkornann þótt annað sé ekki nefnt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
In the Bedroom
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Dr. Matt Fowler (Tom Wilkinson) og kona hans Ruth (Sissy Spacek) búa í smábæ í Maine-fylki ásamt unglingssyni þeirra Frank (Nick Stahl). Þau lifa þarna rólegu og áhyggjulausu lífi, sonurinn á leiðinni í háskóla og allt í lukkunnar velstandi. Fyrir utan kannski einn hlut. Frank er með sér eldri konu, Natalie (Marisa Tomei) og fyrrverandi eiginmaður hennar, Richard (William Mapother) sem er þekktur fyrir að vera ofbeldishneigður er ekkert alltof ánægður með það. Ruth hefur sérstaklega miklar áhyggjur af þessu bæði út af Richard og einnig vegna þess að hún vill að Frank fari í háskólann.


(ATHUGIÐ: þeir sem hafa ekki séð myndina lesið ekki lengra!!!!!)


Það endar með því að allt sýður upp úr. Richard skýtur Frank til bana. Matt og Ruth eru harmi slegin og ástandið versnar þegar það lýtur út fyrir að Richard muni einungis þurfa að vera 5 ár í fangelsi út af galla í sókninni. Sorgin umbreytist í reiði og örvæntingu sem getur einungis haft skelfilegar afleiðingar í för með sér.

Ég var farinn að halda að það myndi ekki gerast á þessu ári að eitthvert alvöru drama myndi reka á fjörur bíóanna en þá kemur þessi magnaða litla mynd til sögunnar. Þessi mynd er ekki beinlínis um það sem gerist heldur er hún meira að sýna okkur hvernig mismunandi fólk bregst við þegar lífið verður því nánast óbærilegt. Það sem mér líkar svo vel við þessa mynd er að hún kemur ekki með nein yfirdramatísk augnablik, mikil uppgjör og sprengingar. Það form á hlutunum getur stundum orðið dálítið afkáralegt. Það sem hendir þetta fólk er trúverðugt og það sem þetta fólk gerir er trúverðugt. Þetta er alvöru fólk, ekki Hollywood-raunveruleiki. Við fylgjumst með tveimur manneskjum sem hafa orðið fyrir gríðarlegum missi og vita ekki hvernig þau eiga að vinna sig út úr því. Þetta lýsir sér mjög vel í samtölum í myndinni. Það er virkilega sársaukafullt að heyra þau mörg hver. Hversdagsleg samtöl um veðrið, sumarbústaðaferðir og ýmislegt annað verða virkilega sorgleg af því að maður gerir sér ljóst að þetta fólk er að tala en samt sem áður í rauninni ekki. Það er eins og allt sé dautt innanfrá.

Leikararnir túlka þetta hreint út sagt stórkostlega. Bæði Sissy Spacek og Tom Wilkinson eru meiriháttar sem tvær tilfinningalega eyðilagðar manneskjur. Þau ná bæði að túlka svo margt út úr minnstu svipbrigðum og fasi. Eru þau bæði mjög vel að Óskarstilnefningum komin. Einnig er Marisa Tomei virkilega góð sem Natalie sem þjáist af sektarkennd vegna þess sem gerðist.

Ef þið viljið sjá alvöru drama með alvöru fólki í því þá mæli ég eindregið með þessari mynd. Þessi kemur sko á óvart.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Thir13en Ghosts
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

13 Ghosts er endurgerð á samnefndri mynd frá árinu 1960 eftir hinn goðsagnakennda hrollvekjuleikstjóra William Castle.

Arthur Kriticos (Tony Shalhoub) hefur erft geysistórt hús eftir hinn sérvitra frænda sinn Cyrus (F. Murray Abraham). Arthur er enn í sárum eftir að hann missti eiginkonu sína í eldsvoða og kemur þetta með vonarneista inn í líf hans ásamt því að vænka fjárhagsstöðuna hjá honum. Hann flytur inn í húsið ásamt krökkunum sínum Kathy (Shannon Elizabeth) og Bobby (Alec Roberts) ásamt barnfóstru Bobby, Maggie (Rah Digga). En áður en langt er um liðið eru þau öll föst inni í húsinu og þau eru ekki ein. Inni í því er banvænt draugahyski sem Cyrus hafði safnað í gegnum tíðina. Ásamt hinum dularfulla Dennis (Matthew Lillard) og draugabananum Kalina (Embeth Davidtz) reyna þau nú að finna undankomuleið áður en þau enda öll í litlum bútum.

Lélegasta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð er hörmungin Judge Dredd. Þessi gæti hugsanlega toppað hana. Það fólk sem gerði þessa mynd hefur klúðrað öllu sem það gat hugsanlega klúðrað. Í fyrsta lagi: Myndin er ekki hrollvekjandi (ég hef séð hryllilegri Marilyn Manson myndbönd). Hún er ekki spennandi: Myndin reiðir sig öll á bregðuatriði og hraðar klippingar í staðinn fyrir undirliggjandi hrylling. Eftir fyrstu bregðuna rís ekki upp á manni augabrúnin, hvað þá eitthvað annað. Hún er ekki einu sinni fyndin: Nema þá óviljandi á köflum. Húmorinn sem á að vera í henni er meira og minna misheppnaður. Fyndnustu hlutirnir eiga að koma frá barnfóstrunni sem er, þú giskaðir rétt, svört sem er svo klisjukennt að maður fær klígju. Það er nákvæmlega ekkert gott við þessa mynd. Handritið er alveg vonlaust, sama gildir um ófrumlega og lélega leikstjórn Steve Beck og leikararnir lánlausir: Hvað voru þeir eiginlega að hugsa. Hinum ágætu leikurum Tony Shalhoub og F. Murray Abraham er sóað gjörsamlega í þessari þvælu, sá síðarnefndi reyndar ekki gert neitt sérstakt markvert síðan hann fékk verðskuldað Óskarinn fyrir Amadeus og sama má segja um Embeth Davidtz sem hefur ekki heldur gert neitt af viti síðan Schindler's List árið 1993. Það er í rauninni eins og allir þeir sem komu að gerð þessarar myndar hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Gusum bara nógu miklu af blóði og ljótum andlitum, klippum það nógu hratt svo að enginn átti sig á því að þetta er ekki mjög vel gert og treystum síðan á heimsku og trúgirni áhorfenda. Það virðist allavega hafa verið planið miðað við gæði myndarinnar. Hún beinlínis móðgar þá sem horfa á hana.

Ég sé eftir þeim 500 kalli og klukkutíma og 50 mínútum sem ég eyddi í þetta. Ekki sjá þessa mynd. Hún er fullkomin hörmung ef svo má að orði komast.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Beautiful Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

John Nash var og er hreint ótrúlegur maður. Að geta rökhugsað sig út úr sínum eigin geðklofa er meiriháttar afrek. Saga hans er svo sannarlega efni í mynd og hér er sú mynd komin. Hún er ekki fullkomin en hvað er það svo sem. Það sem fyrst og fremst gerir myndina góða er snilldarleg frammistaða leikaranna í henni.

Myndin segir sögu John Nash (Russell Crowe) frá því að hann var stúdent í Princeton-háskóla seint á 5. áratugnum þangað til hann vinnur Nóbelsverðlaunin árið 1994. Nash skar sig frá öðrum nemendum með hæfni sinni til þess að sjá mynstur út úr umhverfi sínu og hann kemur að lokum fram með splunkunýja kenningu sem vekur athygli William Parcher (Ed Harris) sem vinnur fyrir varnarmálaráðuneytið. Brátt er hann farinn að vinna fyrir þá við að brjóta dulmálslykla. Þá hittir hann einnig Aliciu (Jennifer Connelly) sem hann giftist á endanum. En þá fer raunveruleikaskyni Nash einnig að hraka. Hann fær ofskynjanir og línan milli raunveruleikans og ímyndunar mæst út. Að lokum er honum komið fyrir á geðveikrahæli undir stjórn Dr. Rosen (Christopher Plummer) sem telur að insúlín- og rafmagnsmeðferð séu réttu úrræðin. En Nash er á öðru máli og einsetur sér að sigrast á veikindum sínum án lyfja. Hann ákveður að reyna að rökhugsa sig út úr þessu. Og barátta hans er hafin.

Það eru ákveðnir gallar á þessari mynd. Mér finnst stundum Ron Howard vera full mikið á yfirborðinu í myndum sínum. Tilfinningasenur milli Nash og Aliciu rista ekki mjög djúpt af því að þær eru allar stuttar og klipptar. Einnig eru sum samtölin dálítið skrítin. Maður gerir sér grein fyrir því að þetta eru bíómyndasamtöl en ekki alvörusamtöl sem er ekki gott mál. Þetta eru það sem ég kýs að kalla Hollywoodsamtöl. Svo að aðalvandamálin felast í leikstjórninni og handritinu.

Sterkasti þáttur myndarinnar felst í leiknum. Russell Crowe er frábær leikari. Hann hefur þann eiginleika að geta horfið inn í þau hlutverk sem hann leikur. Frá harðsnúinnar en hjartagóðrar löggu í L.A. Confidential, miðaldra, réttsýnum uppljóstrara hneykslis í The Insider, hugdjörfum skylmingaþræl í hinni fornu Róm í Gladiator, einrænum snillingi í A Beautiful Mind, allt passar hann jafn vel inn í. Mér finnst þetta vera hans þroskaðasta frammistaða til þessa og er hann vel að Óskarstilnefningunni kominn. Jennifer Connelly er einnig frábær sem hin skilningsríka kona hans. Frá því ég sá Connelly í Requiem for a Dream vissi ég að þar væri komin ný stjarna. Hún túlkar viðkvæmni og hugrekki þessarar manneskju lystilega vel. Aðrir leikarar eru einnig fínir, sérstaklega Paul Bettany sem besti vinur Nash.

Þessi mynd hefur sína kosti og galla. Hún er oft dálítið yfirborðskennd og manipulative (afsakið enskuslettuna) en viðfangsefnið er hrífandi og hún er frábærlega leikin. Ekki endilega besta mynd ársins en örugglega ein af þeim best leiknu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ók, ég veit að það er kannski dálítið asnalegt að segja frá söguþræði fyrsta hluta Hringadróttinssögu í mjög stuttu máli en ég ætla nú samt sem áður að gera einmitt það!!!!

Aðalsöguhetjan er Frodo Baggins (Elijah Wood), ungur Hobbiti sem lifir sínu áhyggjulausa lífi í The Shire eða Héraðinu. Það sem hann veit ekki er það að hann á eftir að verða örlagavaldur alls Miðgarðs eða Middle-earth. Frændi hans Bilbo (Ian Holm) fer til álfanna á 111 ára afmælinu sínu og að skilnaðargjöf erfir hann Baggaenda og einnig hring sem Bilbo hafði fundið á ferðalögum sínum. Galdramaðurinn Gandalf (Ian McKellen) lofaði Bilbo að sjá um Frodo og áður en langt um líður fattar hann að hringurinn er sá hringur sem hinn illi Sauron lét smíða í djúpum eldfjallsins Mount Doom. Sauron glataði hringnum fyrir mörg þúsund árum en illska hans lifði áfram í hringnum og nú þegar hringurinn er kominn aftur upp á yfirborðið hefur hið illa vaknað aftur til lífsins í hinu myrka landi Mordor. Ef að Sauron kemur höndum aftur yfir hringinn þá mun hann fá vald til þess að ráða öllum Miðgarði aftur. Aðeins eitt er til ráða. Frodo verður að fara með hringinn til Mordor og eyða honum í eldfjallinu sem hann var skapaður í. Til að aðstoða Frodo er föruneyti hans, samsett af mönnum, dvergum, álfum og hobbitum. Upp leggja Frodo, besti vinur hans Sam (Sean Astin), hobbitarnir Pippin (Billy Boyd) og Merry (Dominic Monaghan), Gandalf, mennirnir Aragorn (Viggo Mortensen) og Boromir (Sean Bean), dvergurinn Gimli (John Rhys-Davies) og álfurinn Legolas (Orlando Bloom). Og ferðin er hafin.

Allt frá því ég heyrði að kvikmyndun Hringadróttinssögu ætti eftir að verða að veruleika gerði ég gríðarlega miklar kröfur til þeirrar myndar þar sem bók J.R.R. Tolkien tilheyrir heimsbókmenntunum. Ég var ekki viss um Peter Jackson sem leikstjóra og ég gerði stór spurningamerki við suma leikara myndarinnar eins og Elijah Wood sem Frodo. Þetta er í eina skiptið sem ég hef farið á mynd sem stóðst allar mínar kröfur og væntingar og gott betur. Það sem Peter Jackson hefur gert hérna er ekkert minna heldur en kvikmyndalegt kraftaverk. Þvílík bíóferð! Það var lífsreynsla að fara á þessa mynd. Þetta var örugglega svipað eins og fyrir þá sem voru á svipuðum aldri og ég er núna að fara á Star Wars árið 1977. Fyrir utan það að The Lord of the Rings er með pottþéttara handrit. Jackson ber greinilega djúpa virðingu fyrir verkinu en lætur það samt sem áður ekki stjórna sér. Myndin er þrír tímar en er svo góð að maður hefði alveg verið til í að sitja í tvo tíma eða meira í viðbót. Hugarheimur Tolkiens birtist manni ljóslifandi á hvíta tjaldinu. Allt í umhverfinu er fullkomið. Héraðið, Rivendell, námur Moriu, Lóríen eða Mordor. Þetta er veröld Tolkiens. Svona lítur hún út. Myndin spannar mörg tilfinningasvið. Hörkuspennandi, fyndin, hlý, ógnvekjandi (sérlega vel heppnað hvernig maður finnur einhvern veginn illsku hringsins) og það kemur á óvart hvað hún er átakanleg á köflum.

Ólíkt Harry Potter myndinni er Jackson ekkert að tefja við hlutina. Það tekur hann einungis um 5 mínútur að segja forsögu hringsins en þvílíkar 5 mínútur. Neðri kjálkinn á mér datt í gólfið. Eftir þessar 5 mínútur ákvað ég að henda poppinu mínu í ruslið af því ég vildi ekki missa af einni einustu sekúndu. Og öll myndin er ein samfelld dásamleg rússíbanareið frá upphafi til enda. Og allt er einhvern veginn svo ótrúlega vel heppnað, allt frá orkunum (yndislega ógeðslegir) til álfanna (fullkomnir í guðlegheitum sínum). Og þvílíkt leikaraval! Jackson hefur fundið einhverja töfralausn varðandi þá. Þeir eru bæði fullkomnir í leik sínum og útliti. Sean Astin er góður sem hinn trausti Samwise, Billy Boyd og Dominic Monaghan skemmtilegir sem Pippin og Merry, Viggo Mortensen hefur virkilega sterka nærveru sem aðalhetja mannanna (ef þessi mynd gerir hann ekki að stórstjörnu gerir engin mynd það), Orlando Bloom og John Rhys-Davies báðir traustir sem Legolas og Gimli, Christopher Lee ábúðarmikill að vanda sem hinn illi Saruman (frábært comeback fyrir Lee) og Ian Holm vekur samúð manns sem Bilbo Baggins. Það eru kannski bara tveir leikarar sem maður veit ekki alveg með. Liv Tyler gerir ekki mikið fyrir utan að tala fallega álfnesku og líta vel út en þar sem að þetta er lítil rulla og eiginlega tilbúin fyrir myndina er manni alveg sama. Og Hugo Weaving tekst stundum ekki alveg að losa sig við Agent Smith sem Elrond en það er svo smávægilegt að manni er eiginlega alveg sama líka. En þeir leikarar sem standa upp úr eru Cate Blanchett sem hin dularfulla Galadriel (virkilega fágaður og flottur leikur), Sean Bean sem Boromir (ein af þeim persónum myndarinnar og bókarinnar sem fær einna dýpstu samúð manns. Bean gerir henni listavel skil). Ian McKellen er fullkomnunin sjálf sem Gandalf (stígur hárnákvæmt jafnvægi á milli fyndni, visku og mikils krafts). Og loks Elijah Wood sem Frodo. Wood nær algjörlega þeim breytingum sem verða á Frodo frá því að verða sæll og áhyggjulaus Hobbit yfir í það að verða hugrökk en þrúguð sál. Álit mitt á Wood sem leikara hefur snarlega vaxið.

Ég veit ekki hvað meira ég get sagt um þessa mynd nema það að hvað ævintýramyndir varðar þá verður varla náð betri árangri en með þessari mynd. Maður brennur í skinninu eftir að sjá þá næstu í seríunni. Þetta eru einu myndirnar hingað til sem gætu sláð út gömlu Star Wars myndirnar sem bestu ævintýramyndir allra tíma. Sjáið þessa mynd á stórum skjá og fáið lífsreynslu. Algjört meistaraverk!!!!!!



Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Rock Star
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Rock Star fjallar um prentarasölumanninn Chris Cole (Mark Wahlberg) sem lifir algjörlega fyrir rokk. Uppáhaldsbandið hans er þungarokksbandið Steel Dragon. Reyndar heldur hann svo mikið upp á það að hann er aðalsöngvari annars bands sem spilar eingöngu lög eftir Steel Dragon og þau verða að vera nákvæmlega rétt. Félagar hans í bandinu fá á endanum svo mikla leið á þessu að þeir reka hann. En þá fær hann hringingu frá meðlimi Steel Dragon sem býður honum að gerast aðalsöngvari þeirra þar sem þeir eru búnir að reka hinn söngvarann (Jason Flemyng). Hann heldur því með kærustunni sinni Emily (Jennifer Aniston) til Los Angeles og verður umsvifalaust gífurlega vinsæll enda gæddur miklum náttúrulegum hæfileikum. En frægðin og peningarnir hafa sína galla og Chris verður á endanum að ákveða hvað hann vill gera við líf sitt.

Ég ætlaði í fyrstu að gefa þessari mynd þrjár stjörnur en ég ákvað að bíða aðeins með að skrifa þetta. Ástæðan fyrir þremur stjörnunum var sú að ég var ennþá í rokkvímu (þar sem ég álít að rokkið sé besta og merkasta uppfinning síðustu aldar). Eftir að víman fór af mér áttaði ég mig á að þessi mynd hefur marga galla. Í fyrsta lagi þá hefur maður séð þessa sögu ótal sinnum áður: Lúserinn fær drauma sína uppfyllta, draumarnir reynast ekki vera jafn skemmtilegir í alvörunni eins og þeir voru í hausnum á honum, samband hans við stelpuna sem hann er með fer allt í vaskinn og á endanum þarf hann að ákveða hvað hann vill gera við líf sitt. Og maður hefur séð hana vera betur gerða en þetta. Samkvæmt þessari mynd þá er það að vera rokkstjarna mjög einmanalegt starf sem er örugglega að vissu leiti rétt en það er ekki eingöngu það. Þessa mynd skortir dálitla gleði og oft í seinni hlutanum verður hún einfaldlega leiðinleg. En fyrri hlutinn er oft á tíðum mjög fyndinn. Eins og til dæmis þegar Chris hittir átrúnaðargoðið sitt, söngvara Steel Dragon Bobby Beers (Jason Flemyng). Óborganleg sena. Annars eru leikararnir nokkuð mistækir. Mark Wahlberg er allt í lagi en ekkert meira. Hann vantar dálítinn kraft í þetta hlutverk og er ekki nema rétt yfir meðallagi. Jennifer Aniston er oft fín í sínu hlutverki þó að það sé nú ekki mikið áreynsluhlutverk og ekki tekst henni ennþá að losna við skugga Friends. En bretinn Timothy Spall (Secrets & Lies) ber af sem umboðsmaður bandsins. Þreyttur og lífsreyndur rokkari sem hefur í rauninni sóað möguleikum sínum á því að vera hamingjusamur. Spall fer frábærlega með sitt hlutverk.

Ef þið viljið sjá almennilega mynd um kraftaverkið sem er rokk þá skuluð þið sjá Almost Famous. Hún hefur tíu sinnum meira skemmtanagildi en Rock Star og er samt sem áður mynd fyrir hugsandi fólk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shadow of the Vampire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndin fjallar um kvikmyndun hinnar goðsagnakenndu vampírumyndar Nosferatu frá 1922. Hinn sjálfumglaði leikstjóri hennar F. W. Murnau (John Malkovich) hefur ráðið hinn dularfulla Max Schreck (Willem Dafoe) til þess að fara með hlutverk Nosferatu. Það sem samstarfsmenn Murnaus vita ekki en hann veit er: Schreck er í alvörunni vampíra. Murnau er búinn að gera samning við Schreck, ef að hann leikur í myndinni sinni þá fær hann að launum háls aðalleikkonunnar (Catherine McCormack) í lokasenunni. En það reynist erfiðara að hafa hemil á blóðþorsta Schrecks en Murnau hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér. Einn af öðrum falla samstarfsmenn hans í valinn og spurningin er: Hvernig hefur maður hemil á veru sem er ódrepandi. Því miður hef ég ekki séð upprunalega klassíkerinn hans Murnaus. Það hefði eflaust hjálpað til við gagnrýni þessarar myndar. Þetta er afar furðuleg og sérviskuleg mynd verður að segjast en alls ekki leiðinleg. Myndin hefur mikið skemmtanagildi og er oft á tíðum hálfgerð gamanmynd sem heldur þó alltaf alvarlegum og þrúgandi undirtón. Myndin segir bæði vampírusöguna og einnig er áhugaverð saga innan í sögunni sem sýnir mjög vel gerð kvikmyndar, baktjaldamakkið, reddingarnar, rifrildi við duttlungafullar stjörnur (mjög duttlungafullar í tilliti Schrecks) og leikstjóra sem hefur svo einstrengingslega sýn að hann hunsar allt annað og telur það sjálfsagt mál að fórna fáeinum hræðum á altari listar hans. Það má í rauninni ekki á milli sjá hvor er klikkaðri, Murnau eða Schreck. Leikurinn er ekki af verri endanum. Malkovich kemur hinum ofsafengna leikstjóra fullkomlega til skila. Dafoe er fullkomnunin sjálf sem hin ævaforna vampíra. Schreck er sýndur bæði í kómísku og alvarlegu ljósi. Þar sem hann gerir sér grein fyrir að hann er stjarna myndarinnar veit hann að hann getur sett fram ýmsar kröfur. Senurnar þar sem Schreck er að gera Murnau vitlausan á skrítnum kröfum og mannfórnum eru oft sprenghlægilegar. En einnig er maður aldrei í rónni á meðan Dafoe er á skjánum, hvæsandi og alltaf til alls líklegur. Og í þessu ótrúlega vel gerða gervi virkar þetta allt mjög eðlilegt auk þess að vera dálítið absúrd í leiðinni. Cary Elwes er í hálfgerðri óþarfarullu sem rustalegur myndatökumaður, Udo Kier er frábær í hlutverki framleiðanda myndarinnar sem er orðinn að einni taugahrúgu og McCormack er skemmtilega klikkuð sem aðalleikkona myndarinnar. En gallinn við þessa mynd er að þótt hún sé skemmtileg og áhugaverð þá snerta þessar persónur ekkert sérstaklega við manni. Malkovich er til dæmis algjörlega ósympatískur í hlutverki leikstjórans. Dafoe nær stundum að hræra mann aðeins af því að vera vampíra hlýtur að vera helvíti miðað við það hvernig því er lýst hér. Annars er þessi mynd ekkert sterk tilfinnningalega. Á heildina litið skemmtileg mynd og óvenjuleg sýn á vampíruna með fínum leik en ekkert meira en það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Requiem for a Dream
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Allt frá því ég sá meistaraverkið Pi á sínum tíma eftir Darren Aronofsky hef ég haft það á tilfinningunni að þessi maður ætti eftir að gera stórkostlega hluti í framtíðinni. Og núna er loksins komin til Íslands önnur mynd hans, Requiem for a Dream. Ég verð að segja að fyrst í stað leist mér ekkert á hana en myndin vinnur sífellt á því lengra sem líður á hana og eftir að hún er búin fattar maður allt í einu að maður er búinn að vera að horfa á frábæra mynd. Myndin snýst í kringum fjórar aðalpersónur, Sara Goldfarb (stórkostleg Ellen Burstyn), son hennar Harry Goldfarb (Jared Leto), kærustu Harrys, Marion (Jennifer Connelly) og besta vin Harrys, Tyrone (Marlon Wayans). Þau fjögur eiga öll einn hlut sameiginlegt. Þau eru öll eiturlyfjasjúklingar. Harry, Marion og Tyrone eiða deginum í það að skjóta sig upp á kókaíni, heróíni og guð má vita hvað á meðan Sara er orðin háð megrunarpillum eftir að hafa fengið platsímhringingu um að fá að koma fram í uppáhalds sjónvarpsþættinum sínum. Og eftir því sem að fíkn þeirra allra verður sterkari því dýpra og dýpra sökkva þau öll ofan í geðveiki og dauða. Þetta er ekki auðveld mynd að horfa á, sérstaklega ekki hinn hrikalegi lokakafli hennar en ef þú endist út þá fattarðu að þessi mynd hefur upp á gífurlega margt gott að bjóða. Í það fyrsta sýnir hún betur en nokkur mynd síðan sennilega Trainspotting hið ofsóknarbrjálaða andrúmsloft sem aðalpersónurnar þjást af. Aronofsky sýnir þetta með Snatch. stílnum hans Guy Ritchie, semsagt mjög hröðum tökum í mikilli nálægð og súrrealískum myndskeiðum. Fyrst fannst mér þetta vera hálf ómerkileg eftiröpun og brella til þess að tengjast ekki persónunum en eftir því sem leið á myndina fattaði ég það hvað þetta er öflug nálgun við þetta efni. Aronofsky og kvikmyndatökumaðurinn hans, Matthew Libatique, eiga hrós skilið. Hinn parturinn af gæðunum er leikurinn. Ellen Burstyn er hér í sínu besta hlutverki í ég veit ekki hvað langan tíma. Þvílíkt hugrekki sem það tekur að taka svona rullu að sér. Hún er látin líta út fyrir að vera tuttugu árum eldri og 25 kílóum þyngri en hún er í alvörunni. En þetta losar einnig um hömlur útlitsins svo að hún fær frelsi til þess að gera það sem hún vill. Burstyn neglir algjörlega hinn taugabilaða, aldraða eiturlyfjafíkil. Þetta er átakanleg, djúp og kraftmikil frammistaða sem getur ekki annað en snert mann. Ég hef svo sem ekki séð Erin Brockovich en Burstyn hefði verið vel að Óskar komin ekki bara fyrir leikinn heldur einnig fyrir að taka djörfustu rullu síðasta árs örugglega. Jared Leto er einnig stórgóður sem heróínfíkillinn sonur hennar. Leto hefur aldeilis uppgötvast fyrir mér að minnsta kosti. Jennifer Connelly er einnig átakanlegt að fylgjast með í hlutverki góðrar stelpu sem leiðist út í dóphryllinginn með skelfilegum afleiðingum. Og gamanleikarinn Marlon Wayans kemur einnig virkilega á óvart sem skynsamari dópfíkillinn. Maður hefði aldrei trúað af þessari frammistöðu að hann léki venjulega í hálfvitamyndum eins og Scary Movie 2. Þetta er engin poppkornsmynd og ekki búast við að ykkur muni líða alltof vel á meðan þið horfið en þetta er mynd um málefni sem skipta máli og Aronofsky gefur ekkert eftir heldur slær okkur utan undir með bláköldum og hrottalegum raunveruleikanum. Þetta er hugrökk, mikilvæg mynd sem allir ættu að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pollock
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd fjallar um ævi og störf málarans Jackson Pollock (Ed Harris). Pollock þykir vera með einum af fremstu málurum aldarinnar en var plagaður af alkóhólisma sem að lokum dró hann til dauða. Sagan byrjar í kringum 1941 eða um það leiti sem hann kynnist eiginkonu sinni Lee Krasner (Marcia Gay Harden) sem verður einnig að umboðsmanni hans (nokkurn veginn). Síðan fylgjumst við með sambandi þeirra í gegnum áratuginn og fram á þann næsta, í gegnum góða tíma og slæma tíma. Það er rauði þráðurinn í gegnum þetta frábæra byrjendaverk Ed Harris sem leikstjóra. Harris sem ávallt er traustur leikari sýnir hér hugsanlega sína bestu frammistöðu á ferlinum með snilldarlegri túlkun sinni á þessum ógæfumanni og snillingi í leiðinni. Í rauninni finnst mér skítt að hann skyldi ekki vinna Óskarinn fyrir frammistöðuna af því að hann ber af öðrum leikurum á árinu. Marcia Gay Harden vann hinsvegar Óskarinn fyrir frábæra túlkun sína á hinni geysisterku og óendanlega þolinmóðu eiginkonu hans sem var liðtækur málari sjálf. Maður getur ekki annað en hrifist af þessum virkilega agaða leik sem hún sýnir í hlutverki konu sem tekur fylliríi og geðsveiflum bónda síns alltaf með sama rökhugsunarhugarfarinu. Það geta einungis sterkar og hjartahlýjar manneskjur og Harden nær að skapa fullkomið mótjafnvægi gagnvart Harris sem leikur eins og oft áður á lágstemmdu nótunum sem virkar fullkomlega í þessu hlutverki. Sú aðferð gerir þessa mynd afar sorglega þegar erfiðu tímarnir hjá þeim hjónakornunum eru. Amy Madigan sem Peggy Guggenheim (listaverkaeigandinn) og Jeffrey Tambor sem Clen Greenberg (gagnrýnandinn) eru síðan mjög traust í tveimur stærstu aukahlutverkunum. En þetta er samt sem áður mynd Ed Harris út í gegn og hann dóminerar algjörlega skjánum þegar hann er á honum. Hann er ekki að leika Jackson Pollock, hann er Jackson Pollock. Ég mæli eindregið með þessari mynd fyrir alla myndlistarunnendur og einnig alla unnendur vel leikinna, vel gerðra hádramatískra mynda.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Others
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Grace (Nicole Kidman) og börnin hennar tvö Anne (Alakina Mann) og Nicholas (James Bentley) búa ein í stóru, Viktoríönsku húsi úti fyrir Englandsströnd. Seinni heimsstyrjöldinni er lokið og Grace býður eftir fréttum frá eiginmanni sínum Charles (Christopher Eccleston) sem var herkvaddur. Bæði börnin hennar eru haldin sjaldgæfum sjúkdómi sem hefur það í för með sér að þau mega aldrei verða fyrir sólarbirtu. Ef að ein hurð er opnuð í húsinu verður henni að vera lokað áður en sú næsta er opnuð. Grace er strangtrúuð manneskja og heldur uppi miklum aga á heimilinu. En einn þokukenndan dag koma þrjár manneskjur að setrinu, Mrs. Mills (Fionulla Flanagan), Lydia (Elaine Cassidy) og Edmund Tuttle (Eric Sykes) sem segjast vilja ráða sig í vinnu hjá Grace en fyrrverandi starfsliðið hafði horfið með dularfullum hætti. Ekki líður á löngu eftir að starfsfólkið kemur heldur en vofeiflegir atburðir fara að gerast og Grace og börnin hennar finna fyrir nærveru einhvers eða einhverja sem er ekki af þessum heimi. Meira skal ekki sagt um sögufléttuna í The Others af því að hún kemur talsvert á óvart. Þessi mynd er ein af þessum gáfulegu semi-hryllingsmyndum sem þora að taka sér sinn tíma til þess að byggja upp spennu og hroll. The Shining er besta dæmið í þessu sambandi. Þótt að þessi mynd sé nú ekki jafn góð og sá klassíker þá er þetta nú samt sem áður ansi hrollvekjandi mynd sem fær mann oft og tíðum til þess að hoppa upp úr sætinu sem maður situr í. Það sem gerir hana jafn hrollvekjandi og hún reynist vera er örugg og þétt leikstjórn Alejandro Amenábar, tónlistin sem er einfaldlega frábær (einning eftir Amenábar) og fullkominn leikur Nicole Kidman og ungu leikaranna tveggja sem leika krakkana hennar. Nicole Kidman er án efa stærsta leikkona ársins. Árið 2000 var það Julia Roberts en nú er röðin komin að Nicole Kidman. Hún leikur hreint og beint óaðfinnanlega konu sem reynir að halda í vitglóruna barnanna hennar vegna þótt hún sé ein og yfirgefin og berjist við eitthvað sem verður ekki barist við. Hún smýgur algjörlega inn í karakterinn svo maður sér aldrei að þetta er leikari að vinna vinnuna sína. Frammistaðan verður ennþá glæsilegri vitandi það að hún er nýbúin að sýna ámóta glæsilegan leik í gjörólíku hlutverki, tálkvendisins Satine í Moulin Rouge! Ungu leikararnir Alakina Mann og James Bentley eru einnig alveg frábærir. Og Fionulla Flanagan er einnig eldtraust í hlutverki hinnar dularfullu ráðskonu. En....það sem dregur þessa mynd niður er að maður kannast við þessa formúlu allt of vel. Ekki það að hún sé ekki vel gerð. Málið er það að maður hefði viljað sjá einhverjar nýjar útfærslur á gamla draugaþemanu. The Sixth Sense var brautryðjandaverk. Þessi fer hins vegar slóðir sem nú eru orðnar troðnar. Miðað við hvað myndin er rosalega vel byggð upp í fyrri hlutanum þá veldur seinni hlutinn dálitlum vonbrigðum. Ef að Amenábar hefði nostrað aðeins meira við handritið hefði þetta getað orðið fullkomið. En hvað um það!!!! Ef þið viljið sjá afbragðsleikna, verulega hrollvekjandi spennumynd sjáið þá The Others. Bara ekki fara að halda að þetta sé eitthvert meistarastykki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
2001: A Space Odyssey
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

2001: A Space Odyssey. Þótt það hafi ekki allir séð þessa mynd Kubricks frá árinu 1968 þá held ég að flestir hafi heyrt hennar getið. Af hverju er þessi mynd jafn fræg og raun ber vitni. Sumir telja það vera af því að þetta er fyrsta alvöru vísindaskáldsagan í kvikmynd. Aðrir segja það vera af því að aldrei fyrr hafi tónlist spilað jafnvel með mynd. Ég segi það vera af því að þetta meistaraverk er einstakt sinnar tegundar. Engin mynd hefur nokkru sinni komist nærri því að líkjast henni. Ég er ekki einu sinni viss um að nokkur geti sagt með fullri vissu hverrar tegundar þessi mynd er né hver sé boðskapur hennar. Og það er einmitt það sem gerir hana svo fjári áhugaverða. Maður getur velt sér endalaust upp úr henni og samt verið engu nær. Myndin fjallar um þróunarsögu mannsins allt frá því að þeir voru enn apar fram til ársins 2001. Þegar þróun verður er það í gegnum orku dularfullrar steintöflu sem virðist hafa verið gerð af framandi vitsmunaverum. Fyrst finna apar það og læra að drepa sér til matar (góður hulinn punktur með vægðarlausri gagnrýni Kubricks á mannkynið) og síðan finna menn það á tunglinu. Útvarpssending berst til Júpíters og mennirnir senda leiðangur þangað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Myndin fjallar einnig talsvert um gervigreind í formi tölvunnar HAL (man einhver eftir A. I.???) HAL er bæði ógnvekjandi og á endanum sorgleg sympatísk vera. Um leið og mennirnir byggja veru sem getur hugsað og haft tilfinningagreind hafa þeir einnig skyldum að gegna gagnvart henni. Auðvitað eru þær skyldur alltaf virtar að vettugi og því fer sem fer. HAL hefði aldrei átt að vera búinn til. Enn kemur þar fram vægðarlaus gagnýni Kubricks. Það er einn liður sögunnar. Hinn liður sögunnar að mínu mati er um stöðu mannsins í alheiminum. Af hverju erum við hér og hvert er hlutverk okkar sem vitsmunavera? Erum við á réttri leið eða stefnum við í átt til glötunar? Þetta eru þær spurningar sem myndin veltur upp en leifir okkur að svara. Ég ætla allavega ekki að vera alltof langorður um eina af mínum uppáhaldsmyndum. Ég hvet alla til þess að sjá þessa mynd og mynda sér skoðun. Ef þú hatar hana þá skil ég það vel. Ef þú dýrkar hana skil ég það einnig vel. En ekki reyna að segja mér að þú hafir enga skoðun á henni. Það er einfaldlega ekki hægt. Sá sem ekki hefur skoðun á þessu heimspekilega ljóðræna listaverki er ekki hugsandi manneskja. Takk fyrir. Og þvílíkt tónlistarskor.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Joy Ride
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Lewis Thomas (Paul Walker) er á leiðinni frá New Jersey til Colorado til þess að ná í vinkonu sína Venna (Leelee Sobieski) fyrir sumarleyfið. Lewis þorir ekki að segja Vönnu að hann sé skotinn í henni og öfugt. Í leiðinni nær hann í eldri bróður sinn Fuller (Steve Zahn) úr fangelsi eftir að Fuller hefur látið ófriðlega á enn einu fylliríinu. Á leiðinni til Colorado skemmta þeir sér við að blekkja vörubílstjóra með símaötum úr talstöð. En einn af þeim hefðu þeir ekki átt að blekkja. Meira ætla ég ekki að segja um söguþráðinn í Joy Ride. Það er alltaf gaman þegar mynd kemur manni á óvart. Þessi gerði það. Ég bjóst ekki við neinu sérstöku en þar sem þessi mynd er eftir John Dahl (Rounders, The Last Seduction) ákvað ég að gefa henni séns. Mér að óvörum reyndist þetta vera alveg hreint hörkuspennandi mynd og óvenjulega fyndin einnig. Þótt að það sé ekki neitt frumlegt við efnið sjálft (Duel, 1971, eftir Steven Spielberg) þá vinnur myndin mjög vel úr þeim klisjum sem hún þarf að nota. Með öðrum orðum: Svo framarlega sem þú hugsar ekkert alltof mikið um lógík þá virkar hún. Paul Walker (sem sýndi ágæta takta í The Fast and the Furious) og Leelee Sobieski hafa ósköp lítið úr að moða en Steve Zahn er skemmtilega klikkaður sem eldri bróðirinn og á nokkrar mjög góðar senur. Allt í allt er þetta hinn fínasti þriller sem ætti að ganga vel í alla þá sem vilja láta sér bregða endrum og sinnum. P. S. Reynið að giska á leikarann sem ljær óða vörubílstjóranum rödd sína. Þið gætuð þekkt hann.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Moulin Rouge!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þvílíkt sjónarspil sem þessi mynd er. Ég leifi mér að fullyrða að hér er komin glæsilegasta mynd ársins og þótt víðar væri leitað. Og maður hélt að söngleikir væru óframkvæmanlegir á filmu. Hinn ofurferski Baz Luhrmann sannar svo sannarlega að maður hefur rangt fyrir sér. Myndin fjallar um unga ljóðskáldið Christian (Ewan McGregor) sem kemur til Parísar um aldamótin 1900 inn í hina frjálslyndu Bóhemamenningu sem þar viðgengst. Þar hittir hann fyrir leikritaskáldið smávaxna Toulouse-Lautrec (John Leguizamo) og gerast þeir góðir vinir. Lautrec tekur Christian með sér á Rauðu Mylluna eða Moulin Rouge, heitasta næturklúbb Parísar þar sem hinn skrautlegi Harold Zidler (Jim Broadbent) ræður ríkjum. Þar hittir Christian í fyrsta skipti söngkonuna undurfríður Satine (Nicole Kidman) og verður umsvifalaust yfir sig ástfanginn af henni. Sú ást er endurgoldin þegar hann hefur sungið sig inn í hjarta hennar en sá galli er þó á að hún á að giftast greifanum af Monroth (Richard Roxburgh) sem mun í staðinn styrkja fjárhagslega Rauðu Mylluna umtalsvert. Mun Christian og Satine geta átt hamingjusamt líf saman eða ekki? Þetta er nú söguþráðurinn og þótt hann virðist vera eins og í nánast öllum öðrum ævintýrum þá er manni alveg sama. Sagan er klassísk og pökkuð hérna inn í þvílíkar umbúðir að annað eins hefur maður aldrei séð áður. Búningarnir, leikmyndirnar, hönnunin, förðunin, allt hjálpast þetta við að skapa ævintýraheim sem er til inni í hugarflugi hvers mannsbarns. Og ekki bara það að myndin líti óaðfinnanlega út heldur blandar hún frábærlega saman lögum úr nútímanum (T-Rex, David Bowie, Elton John). Þessi mynd fer líka allan tilfinningaskalann, hún er gamanmynd, drama, harmleikur og fyrst og fremst ástarsaga, allt í einum pakka. Leikararnir eru óaðfinnanlegir. Hin ofurglæsilega Nicole Kidman hefur aldrei verið glæsilegri en hér og sýnir það enn eina ferðina að hún er afbragðsleikkona. Ekki veit ég hvort skilnaðurinn við Tom Cruise hafi eitthvað að gera með það en um þessar mundir er hún vinsælli en nokkru sinni fyrr. Svo hefur hún einnig fína söngrödd. Ewan McGregor hefur heldur ekki verið betri síðan hann lék í Trainspotting og fer frábærlega með sitt hlutverk. Og hann hefur stórkostlega söngrödd, hann ber af í því sambandi. John Leguizamo er stórskemmtilegur sem hinn smávaxni rómantíkus, stórleikarinn Jim Broadbent er traustur í sínu hlutverki og Richard Roxburgh er skemmtilega ógeðfelldur sem hin aumkunarverða hertogapísl. Allt í allt er þetta unaðslegur kokkteill tragi-kómedíu, söngs, dans og lita sem rennur svo ljúpt niður að maður nánast grátbiður um meira. Ein besta mynd ársins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A.I. Artificial Intelligence
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

David er 11 ára strákur. Hann er í meðallagi í hæð og þyngd á við jafnaldra sína og hefur tilfinningar eins og þeir. En það er eitt sem gerir hann öðruvísi en alla aðra. Hann er ekki mennskur. Hann er vélmenni. Hann hefur verið forritaður með gervigreind og það merkilegasta af öllu: Hann hefur þann eiginleika að geta elskað. Hann er gefinn til Monicu og Henry Swinton (Frances O'Connor og Sam Robards) sem eiga um sárt að binda þar sem sonur þeirra Martin (Jake Thomas) er í dái. Monica á erfitt með að aðlagast David (Haley Joel Osment) en smátt og smátt fer hún að elska hann á móti. En vandræðin byrja þegar Martin vaknar úr dáinu. Spennan sem að hann myndar (alvöru krakkar geta verið grimmir) leiðir til þess að Monica skilur David eftir úti í skógi (hún fær það ekki af sér að senda hann í eyðileggingu). Og þar byrjar sorgleg þrautaganga Davids í fylgd með bangsanum Teddy og karlhóruvélmenninu Gigolo Joe (Jude Law) til þess að verða að alvöru strák og að komast aftur til móður sinnar. Stanley Kubrick dó áður en hann gat komið hugmyndum sínum í framkvæmd. Fyrir utan Kubrick hefði enginn annar átt að gera þessa mynd heldur en Steven Spielberg. Spielberg hefur þá sæmd að virða hugmyndir Kubricks og maður sér handbragð Kubricks í gegnum alla myndina. Ádeilan er til staðar, hin miskunnarlausa gagnrýni á mannskepnuna er til staðar en Spielberg bætir inn í þetta hlýju myndanna sinna. Spielberg er einn magnaðasti leikstjóri heims og myndin hans er ekki væmin heldur sorgleg og maður finnur virkilega til með David sem er óaðfinnanlega leikinn af Haley Joel Osment, þessi strákur býr yfir ótrúlegum leikhæfileikum og mér þætti það skrítið ef við myndum ekki sjá aðra Óskarstilnefningu fyrir ógleymanlega frammistöðu sína hér. Frances O'Connor er einnig verulega góð sem móðir hans. Jude Law er skemmtilegur í aukahlutverki sínu og William Hurt er einnig traustur sem skapari Davids. En Osment er samt sem áður aðal stjarnan hér og heldur myndinni saman með magnaðri frammistöðu sinni. Og tæknibrellurnar eru ótrúlegar. Ég held ég segi ekki mikið meira um hana nema það að þessi mynd er sjónræn og tilfinningaleg reynsla sem hefur þann eina galla að dragast aðeins á langinn í miðjunni, annars er þessi ótrúlega mynd (fyrir utan 2001: A Space Odyssey er þetta einstakasta mynd sem ég hef séð, maður hefur aldrei séð neitt þessu líkt) fullkomin. Sjáið hana og verðið reynslunni ríkari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mummy Returns
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1981 gerði Steven Spielberg myndina Raiders of the Lost Ark. Þetta var fyrsta myndin af þremur sem fjallaði um ævintýri fornleifafræðingsins Indiana Jones. The Mummy Returns er önnur myndin af tveimur sem fjallar um ævintýramanninn Rick O'Connell (Brendan Fraser) og konu hans, fornleifafræðinginn Evelyn Carnahan O'Connell (Rachel Weisz) ásamt bróður Evelyn, hinn seinheppna Jonathan Carnahan (John Hannah). Munurinn á "Mummy" myndunum og "Indiana Jones" myndunum er að "Mummy" myndirnar snúast eingöngu um tæknibrellurnar á meðan að "Indiana Jones" myndirnar snerust um söguna og notuðu brellurnar sem hjálpargögn. Sagan snýst um að Imhotep (Arnold Vosloo) er vakinn til lífs á ný og ætlar sér að berjast um heimsyfirráð við The Scorpion King (Dwayne "The Rock" Johnson). Hetjurnar okkar verða að stoppa þá báða. Flóknari er nú sagan ekki, enda ekki til þess ætlast. Að minnsta kosti tekur þessi sig ekki jafn alvarlega og fyrri myndin og er þar af leiðandi dálítið betri, aldrei þessu vant með framhöld. Stephen Sommmers lærði greinilega af fyrri myndinni að handritið sem hann skrifar sjálfur er algjört kjaftæði og þess vegna tekur hann þetta ekkert alvarlega heldur heldur galvaskur í tæknibrelluveisluna. Og þvílík veisla! Ég held ég hafi aldrei séð neina mynd jafn stúthlaðna af brellum. Reyndar er það svo mikið að það er orðið allt hálf þreytandi í lokin auk þess sem að myndin er alltof löng. Það sem hjálpar er ágæt kvikmyndataka Adrian Biddle og fín tónlist Alan Silvestri, auk magnaðra fjöldasena. Brendan Fraser og John Hannah hafa lítið annað að gera þarna en að reyta af sér brandarana við réttu tækifærin og Arnold Vosloo og "The Rock" þurfa bara að sýnast ógnvænlegir og tekst það ágætlega upp, sérstaklega "The Rock". Rachel Weisz, sú takmarkaða leikkona, er farin að fara í taugarnar á mér og það eru einum of margir heimskulegir aukakarakterar. Sá sem sleppur einna best er Freddie Boath sem leikur son Rick og Evelyn, Alex. Hann sýnir nokkuð góða takta sem byrjandi. The Mummy Returns er svo sem ágætis tímaeyðir en ekki búast við Raiders of the Lost Ark eða öðrum þannig snilldarævintýramyndum. En þetta er svo sem græskulaust gaman.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Girlfight
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Diana (Michelle Rodriguez) er stelpa af latínsku bergi brotin sem gengur í frekar hrörlegan menntaskóla í hverfi í algjörri niðurníðslu. Krakkarnir í kringum hana eru allir að hugsa um að koma sér út úr hverfinu og lifa mannssæmandi lífi sem fyrst og margir strákanna æfa box sem undankomuleið. Diana er skapstór og er æ ofan í æ að koma sér í vandræði í skólanum. Eitt kvöldið lætur pabbi hennar hana sendast með peninga til Hector (Jaime Tirelli) sem er einn af boxþjálfurunum í hverfinu. Hún lendir þar í slag við fant úr hverfinu sem var að níðast á bróður hennar og vekur þar með athygli Hectors. Eftir það fer hún einnig að fá áhuga á boxi og byrjar að þjálfa með Hector. En boxið er mun erfiðara en hún hefði nokkurn tímann haldið en spurningin er hvort hún hafi það sem þarf til þess að komast á toppinn og komast út úr eymdinni í kringum hana. Mér líkaði þessi mynd af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi: Hún snertir á málefni sem er mjög lítið viðrað og það eru kvenhnefaleikar. Í öðru lagi: Hún er ekki að drekkja sér í ofbeldi og eiturlyfjum eins og svo margar aðrar myndir um fátæka krakka. Það er eingöngu minnst á þessa hluti en þeir eru aldrei sýndir. Hún býr ekki til steríótýpur úr persónum sínum heldur gerir þær að lifandi fólki rétt eins og nágranninn eða manneskja sem þú gætir hitt út í búð. Í þriðja lagi: Hún er frábærlega vel leikin af óþekktu leikaraliði. Sérstaklega af Michelle Rodriguez. Það gneistar af henni í hlutverki sérlega greindrar og hæfileikaríkrar stelpu sem hefur brynjað sig gegn grimmd lífsins. Sérstaklega er samband hennar og annars boxara Adrians (Santiago Douglas) vel af hendi leist og það er ekkert "fony" eða hallærislegt við það eins og oft vill verða í einhverjum unglingaglanssulli frá Hollywood. Þetta eru bara tveir krakkar sem eru bæði að sumu leyti óörugg með sjálf sig en finna að þau passa vel saman. Allt þetta leysir leikstjórinn Karyn Kusama sérlega vel af hendi og lætur allar persónur sínar vera mjög raunverulegar og eðlilegar. Tónlist Theodore Shapiro passar einnig sérlega vel við myndina. Ætli einu gallar myndarinnar séu ekki fullhægt handrit og undarleg myndataka. Það hefði verið allt í lagi að stytta myndina aðeins af því að hún skríður stundum áfram alveg lúshægt. Eins er kvikmyndataka Patrick Cady óttalega skrítin í boxatriðunum og skemmir þau dálítið. En þetta eru smávægilegir gallar. Þessi mynd er annars hið fínasta sambland af rómantík og drama og mæli ég með að sem flestir sjái hana, sérstaklega ungt fólk. Og vonandi sjáum við meira af Michelle Rodriguez af því að hún sýnir stórleik í þessari mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Memento
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Lenny Shelby (Guy Pearce) er að leita að manninum sem drap konuna hans. Eini gallinn er að Lenny er gjörsamlega minnislaus eftir högg sem hann fékk á höfuðið. Hann hefur ekkert skammtímaminni og þarf því þess vegna að skrifa allar vísbendingar og alla hluti sem hann gerir niður hjá sér og taka ljósmyndir af því fólki sem hann hittir svo hann þekki það aftur. Hann jafnvel tattúverar mikilvægustu hlutina á sig. Samt veit hann ekki hverjum hann á að treysta. Á hann að treysta Natalie (Carrie-Anne Moss) sem er að reyna að hjálpa honum eða hvað? Eða ætti hann að treysta Teddy (Joe Pantoliano) sem segist vita ýmsa hluti en er hann kannski að leiða Lenny í gildru? Það eina sem Lenny veit með vissu er að einhver myrti konuna hans og hann þarf að raða brotunum saman í heilanum á sér ef hann ætlar sér að finna manninn. Meira ætla ég nú ekki að segja um söguþráð þessarar myndar til þess að eyðileggja hana ekki. En hér er um eina þá frumlegustu, margslungnustu og mest spennandi mynd sem ég hef séð í háa herrans tíð. Leikstjórn og handrit er pottþétt, Christopher Nolan (leikstjóri og handritshöfundur) heldur hlutunum flóknum þannig að við vitum ekkert meira heldur en aðalpersónan sem er leikin með stakri snilld af Guy Pearce, þessum hæfileikaríka leikara úr L.A. Confidential. Carrie-Anne Moss og sérstaklega Joe Pantoliano (alltaf góður) eru fín í aukahlutverkunum. Það sem ég persónulega dýrka við myndina er að hún fer inn á efni sem er ekki mikið notað, minnisleysi og snýr því út og suður og er að gera alveg nýja hluti. Þetta er spennandi, dularfull, margslungin mynd sem allir ættu að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Enemy at the Gates
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stalíngrad, Sovétríkjunum 1942. Öll Evrópa er í heljargreipum nasista og sókn þeirra inn í Sovétríkin virðist óstöðvandi. Rússar mæta Þjóðverjum í Stalíngrad og þar fer fram einhver blóðugasta orrusta allra tíma. Orrusta sem átti eftir að hafa þýðingu fyrir allan gang stríðsins. Mitt í þessu öllu eru leyniskytturnar Vassili Zaitsev (Jude Law) fyrir Rússa og Major Erwin Konings (Ed Harris) fyrir Þjóðverja. Vassili hefur hjálpað mikið til með að lyfta móralnum upp meðal Rússa á vígstöðvunum og nú er svo komið að hann er orðinn það mikil ógnun að Þjóðverjar senda sýna bestu leyniskyttu, Major Konings til að ráða niðurlögum hans. Það að Vassili drepi Konings er mikilvægt pólitískt hitamál einnig. Nikita Krushchev (Bob Hoskins) heimtar árangur og Commissar Danilov (Joseph Fiennes) vinur Vassili notar málið til að koma sér áfram í hernum. Vassili er einfaldur maður og kærir sig helst ekkert um þetta en málum er orðið svo háttað að hann nái að drepa Konings gæti haft úrslitaáhrif um orrustuna. Það er spurning hvort það sé réttlætanlegt lengur að gera hasarstríðsmynd sem hefur ekki neinn sérstakan boðskap um það hvað stríð séu skelfileg. Auðvitað er vænn skammtur af ádeilu á menn eins og Krushchev sem heimtuðu bara árangur, sama hversu mörgum mannslífum var fórnað en myndin skilur við mann undarlega ósnertum. Það er slæmt þegar kemur að stríðsmyndum. Mér finnst svona ákveðin hroðvirkniskennd og metnaðarleysi ríkja yfir myndinni að sumu leyti. T.d.: Af hverju þurfti Major Konings að vera svona vondur. Hefði ekki verið betra ef hann hefði bara verið venjulegur maður eins og hinir. Þessi undarlegi tónn myndarinnar dregur einnig leikarana niður. Jude Law, Joseph Fiennes, Rachel Weisz, Bob Hoskins og Ed Harris eru öll undarlega flöt út af handritinu. Leiðinlegt að sjá það hjá mönnum eins og Jude Law, sem var svo góður í The Talented Mr. Ripley og Ed Harris sem er frábær leikari. Bob Hoskins kemur dálítið skemmtilega út sem skíthællinn Krushchev. Joseph Fiennes er ekki sami þungavigtarleikari og bróðir hans, Ralph, og er hér eins og venjulega, allt í lagi en ekkert sérstakur. Og Rachel Weisz hefur lítið að gera sem kona sem Law og Fiennes bítast yfir. Fyrir þónokkrum árum var gerð mynd sem hét einfaldlega Stalingrad. Þar var hörmungunum lýst frá sjónarhóli óbreyttra, þýskra hermanna. Sú mynd var mikið öflugri og betri en Enemy at the Gates sem er undarlega flatneskjuleg og snertir mann lítið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Gift
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Annie Wilson (Cate Blanchett) er ekkja með þrjá syni í smábæ einhvers staðar í suðurríkjum Bandaríkjanna. Maðurinn hennar dó í slysi og hún hefur lifibrauð sitt af félagsmálayfirvöldum og að spá fyrir fólki. Annie er skyggn. Hún hefur verið það alveg frá því hún var lítil stelpa. Margt fólk í bænum trúir á skyggnigáfu hennar og þar á meðal er Valerie Barksdale (Hilary Swank) en hún er gift ofbeldismanninum Donnie (Keanu Reeves) sem er ekkert um það gefið að Annie sé að menga hana "með einhverjum nornabrögðum". Hann ógnar bæði Annie og strákunum hennar en hún getur ekki að gert. Annie er einnig að reyna að hjálpa bifvélavirkjanum Buddy Cole (Giovanni Ribisi) sem er alvarlega veikur á geði út af einhverju atviki sem henti hann þegar hann var lítill. En dag einn birtist frétt í blöðunum um að ung kona, Jessica King (Katie Holmes) sé horfin. Hún var u.þ.b. að fara að giftast skólastjóra bæjarins, Wayne Collins (Greg Kinnear). Böndin berast að Donnie Barksdale en Annie er ekki viss í sinni sök og ákveður með dulrænum hæfileikum sínum að grennslast sjálf til um málið. Síðast þegar Sam Raimi og Billy Bob Thornton unnu saman gerðu þeir A Simple Plan sem Raimi leikstýrði og Billy Bob lék í. Núna er Raimi aftur leikstjórinn en Thornton er handritshöfundur ásamt Tom Epperson. Mér líkar virkilega vel við myndina framan af. Eins og allar góðar hryllingsmyndir tekur hún sinn tíma í að byggja upp spennu, flækir málin óendanlega og ræðst síðan til atlögu. En slæmt að það skuli allt fara til fjandans út af afskaplega asnalegum endi. Hann virkar ekki líklegur og er allur hálf klaufalegur. Meira má ég nú víst ekki segja um svona týpur af myndum. Það sem skilar sér hér eru frammistöður leikaranna. Mér finnst virkilega gaman að sjá Keanu Reeves í hlutverki þessa brjálaða "redneck". (Afsakið slangrið). Það er mikilvægt fyrir leikara að breyta til og Reeves er öflugur og sannfærandi á skjánum. Ribisi stendur sig frábærlega sem virkilega hugsjúkur maður og það er í rauninni athyglisverð og ákaflega sorgleg hliðarsaga í myndinni. En á toppnum trónir hin magnaða Cate Blanchett með þrælsterka frammistöðu hér alveg eins og í Elizabeth sem hún í raun hefði átt að fá Óskarinn fyrir. Hún er virkilega sannfærandi og með frábæran hreim miðað við að hún kemur frá Ástralíu. Þetta er ágætis spennuhrollur með góðum fyrri hluta, frábærum leik og flottri myndatöku en nánast sekkur í seinni hálfleik. Samt góð tilraun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hannibal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég held að allir ættu að kannast við nafnið Hannibal Lecter, nafnið eitt er orðið að einum af táknum þessa áratugar. Anthony Hopkins skapaði í The Silence of the Lambs ógnvænlegasta fjöldamorðingja sem ég hef nokkurn tímann séð sem samt sem áður var undarlega heillandi. Þetta er framhaldið um doktorinn geðsjúka. Lecter (Anthony Hopkins) slapp úr haldi í fyrri myndinni og við finnum hann í þeirri síðari í Flórens, þar sem hann er farinn á eftirlaun í vinnu sinni (ef svo má að orði komast) og hefur það náðugt. En sumir hafa ekki hætt að leita að honum. Þeirra á meðal er fyrrverandi fórnarlamb Lecters, auðkýfingur að nafni Mason Verger (Gary Oldman fullkomlega óþekkjanlegur). Hann er sá eini sem komst lífs af úr klóm Lecters en er hroðalega afskræmdur engu að síður. Nú vill hann hefnd og er tilbúinn að beita öllum meðulum til þess. Hann þrýstir á um að Lecter verði settur aftur inn á Topp 10 lista F.B.I. um hættulegustu glæpamennina. Þetta vekur athygli ákveðinna aðila í Flórens þeirra á meðal lögreglumannsins Pazzi (Giancarlo Giannini) og ekki síst Clarice Starling (Julianne Moore) sem er ekki beint inni hjá yfirmönnum sínum um þessar mundir. Hún dregst inn í áætlun auðkýfingsins um að ná Lecter og þetta vekur einnig Lecter sjálfan af dvala og morðþörf hans sérstaklega þegar hann veit að Starling er aftur komin í málið. Mun Lecter endanlega nást eða mun hann með slægð sinni komast undan á ný. Ég verð að segja eins og er að ég hef mjög blendnar tilfinningar gagnvart þessari mynd. Í rauninni finnst mér ósanngjarnt að bera hana saman við The Silence of the Lambs af því að þessar myndir eru jafn ólíkar og dagur og nótt. Hannibal er áhugaverð, maður sekkur vel inn í hana og hún er aldrei leiðinleg. Hins vegar saknar maður kraftsins sem einkenndi fyrri myndina og spennunnar. Einn af göllum myndarinnar er hversu hægt hún gengur og hversu undarlega afslöppuð hún er í rauninni. Það passar bara ekki við efnið. Hannibal Lecter er óvéfengjanlega mögnuð persóna og Anthony Hopkins bregst ekki bogalistin en Ridley Scott og hinum ágætu handritshöfundum David Mamet og Steven Zaillian gera það. Gallinn við Ridley Scott í þetta efni er að hann leggur meira upp úr sviðsetningum og stíl en söguþræði. Hann er ekki jafn jarðbundinn og Jonathan Demme sem gerði fyrri myndina mikið óhuggulegri og hrárri. Þetta er meira eins og sambland af The Talented Mr. Ripley sem mætir Hannibal Lecter. Ekki alveg nógu góður kokkteill það. Auk þess saknar maður hræðilega Jodie Foster í myndina. Ekki það að Julianne Moore, sú frábæra leikkona sé ekki góð heldur er gallinn sá að hún er alltof, alltof, alltof breytt frá fyrri myndinni til þess að virka sem skyldi. Auk þess ná Hopkins og Moore ekki jafn vel saman og Hopkins og Foster gerði. Ekki sama hálf kynferðislega spennan á milli þeirra. En Anthony Hopkins skilar sínu vel sem áður þótt hann sé ekki jafn ofsafenginn eins og í Silence enda bjóða línurnar hans ekki upp á það. En hann gerir sem mest úr því og er aftur frábær sem hinn heillandi geðsjúklingur og mannæta. Niðurstaðan er áhugaverð gotnesk hryllingsmynd sem er því miður búið að draga dálítið tennurnar úr. En ég er viss um að þetta er ekki það síðasta sem við munum sjá af Hannibal Lecter.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
O Brother, Where Art Thou?
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mynd þessi eftir Coen-bræðurna er lauslega (mjög lauslega) byggð á Ódysseifskviðu eftir Hómer og segir frá þrem föngum sem strjúka úr nauðungarvinnuni í fangelsinu á 4. áratug seinustu aldar (20. öldinni það er að segja). Þetta eru þeir Ulysses Everett McGill stytt sem Everett (George Clooney), Pete (John Turturro) og Delmar (Tim Blake Nelson). Á flótta sínum frá hinum illa lögreglustjóra Cooley (Daniel von Bargen) lenda þeir í hreint ótrúlega súrrealískum og skrítnum uppákomum með álíka súrrealísku og skrítnu fólki eins og biblíusölumanninum Big Dan Teague (John Goodman) og hinum ofvirka en um leið þunglynda ræningja George "Babyface" Nelson (Michael Badalucco). Spurningin er: Munu þeir detta í lukkupottinn og fá frelsi eða munu þeir nást. Coen-bræðurnir eru einhverjir bestu kvikmyndagerðarmenn sem komið hafa fram síðustu tvo áratugina eða svo. Ég fór á fyrstu mynd þeirra, Blood Simple fyrir fáeinum dögum og hún hafði þetta sama hráa og geysikraftmikla yfirbragð sem þessi mynd hefur einnig, jafn ólíkar og þær eru. Þeir stytta sér aldrei leið, gefa aldrei eftir og halda áfram að koma með efni sem virkar alltaf nýtt of ferskt. Ég dýrka þá! Hvað sem því líður þá er þessi mynd drepfyndin út í gegn í sínum furðulegheitum. Og það er gaman að sjá alla orkuna sem kemur frá öllum við gerð þessarar myndar. Kvikmyndataka Roger Deakins er snilld eins og venjulega, sömuleiðis tónlist T-Bone Burnett, Carter Burwell og Chris Thomas King sem hefur yfir sér þennan ekta suðurríkjablæ. Og leikurinn er hreint afbragð. Clooney hefur aldrei verið betri og er frábær sem hinn snjalli og tungulipri foringi klíkunnar, John Turturro fjalltraustur að vanda sem Pete og Tim Blake Nelson fer á kostum sem hinn tregi Delmar. Einnig er hann góður John Goodman (einn af mínum uppáhalds leikurum) þótt rullan sé ekki stór. Ég mæli eindregið með því að allir fari á þessa mynd. Fyndnasta mynd ársins og ein af þeim bestu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Traffic
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi ópus Steven Soderberghs um fíkniefnavandann í Bandaríkjunum og Mexíkó spannar nokkrar mismunandi sögur. Ein fjallar um mexíkósku lögguna Javier (Benicio Del Toro) sem reynir að vera heiðarlegur og gera það sem er rétt en finnur út að lögregla Mexíkó er öll meira og minna flækt í fíkniefnin og á mútum hjá barónunum. Önnur fjallar um hinn íhaldssama dómara Robert Wakefield (Michael Douglas) sem hefur verið skipaður yfirmaður fíkniefnavarna Bandaríkjanna en uppgötvar að einkadóttir hans Caroline (Erika Christensen) er eiturlyfjasjúklingur. Sú þriðja fjallar um yfirstéttarkonuna Helenu Ayala (Catherine Zeta-Jones) en eiginmaður hennar Carlos Ayala (Steven Bauer) er einn af stærstu eiturlyfjabarónum Bandaríkjanna. En hann er handtekinn og hún þarf að kljást við það að standa ein með son sinn og enginn vill neitt með hana hafa. Fjórða sagan fjallar um löggurnar Montel Gordon (Don Cheadle) og Ray Castro (Luis Guzmán) sem reyna af fremsta megni að uppræta eiturlyfin af götunni. Maður verður nú í fyrsta lagi að hrósa Steven Soderbergh fyrir að takast á við jafn þýðingarmikið málefni og þetta og er reyndar ótrúlegt að það hafi nánast ekkert verið minnst á það fyrr. Ef að mark má taka á myndinni og ég held að það megi gera þá eru stjórnvöld í báðum löndum að tapa stríðinu á hendur fíkniefnunum. Þeir ná miklu en meira sleppur. Soderbergh er ekki með neinar predikanir og er heldur ekkert að reyna að benda á lausn á vandanum sem mér finnst ágætt. En það sem er að myndinni er það að Soderbergh leyfir manni aldrei neitt meira en að kíkja grunnt inn í líf þessara persóna. Hann snertir einungis á yfirborðinu en skyggnist ekki undir. Það finnst mér mjög undarlegt miðað við hvað þetta er í rauninni sorglegt og dramatískt efni. Mér finnst það einfaldlega vera sóun. Það er eins og Soderbergh hafi vantað hugrekki til þess eða eitthvað. Allavegana er það leitt. Sögurnar eru misjafnar að gæðum þó að þær séu allar yfir meðallagi. Sú besta finnst mér sagan af dómaranum og samband hans við dóttur sína, eiturlyfjafíkilinn. Það kemur virkilega við mann að sjá leið dótturinnar beina leið í ræsið og karl faðir hennar virðist ekki geta gert neitt til þess að hindra það. Enda eru persónurnar frábærlega leiknar af Michael Douglas og Eriku Christensen. Þetta er svo sannarlega gott ár fyrir Michael Douglas. Maður var eiginlega búinn að gleyma því hversu hæfileikaríkur leikari hann er. Annar hæfileikaríkur leikari er Benicio Del Toro sem skilar firnasterkri frammistöðu sem réttsýna löggan Javier. Verst er að parturinn með honum er ruglingslegur og skilur lítið eftir sig. Parturinn með hinum löggunum tveimur er fínn og eru löggurnar óaðfinnanlega leiknar af Don Cheadle og Luis Guzmán. Fjórði parturinn er hins vegar slakur þar sem manni er sama um fólkið í honum þrátt fyrir að Dennis Quaid sé skemmtilegur sem undirförull lögfræðingur Ayala og Catherine Zeta-Jones sé sterk sem Michael Corleone þessa áratugar. Í heildina er þetta mikilvæg mynd. Hún er vel leikin, vel kvikmynduð (aftur Steven Soderbergh) og öll tæknivinna til fyrirmyndar. En hún heldur manni í tilfinningalegri fjarlægð og þess vegan veðja ég á Crouching Tiger, Hidden Dragon á Óskarsverðlaununum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cast Away
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Chuck Noland (Tom Hanks) vinnur fyrir pósthraðsendingarfyrirtæki eitt og er vinnualki af verstu gerð. Hann elskar vinnuna sína en einnig kærustuna sína, Kelly (Helen Hunt) og á oft erfitt með að finna nægilegan tíma fyrir hvort tveggja (Ég er viss um að margir þekkja þetta vandamál nútímamannsins). Þegar hann er í jólaboði hjá fjölskyldu Kelly þarf hann enn einu sinni að þjóta upp í flugvél og afhenda pakka. En flugvélin brotlendir yfir miðju Kyrrahafi og allir farast nema Chuck. Hann rekur upp að óbyggðri eyju langt úr alfaraleið. Hann veit ekkert um það hvernig á að komast af aleinn í náttúrunni og þarf að læra það á erfiða mátann. Og eftir því sem tíminn líður þarf hann að glíma við stærsta vandann: Að missa ekki vitið. Það eina sem hann hefur er mynd af Kelly og vonin um að hann komist einhvern tímann aftur heim. Persónulega finnst mér sagan sjálf heillandi viðfangsefni. Hvað gerir nútímamaður sem lendir í aðstæðum sem ræna hann öllu því sem gerir hann að nútímamanni? Hvernig kemst maður lífs af þegar manni hefur í rauninni verið hent aftur til steinaldar. Ég er í engum vafa um að Robert Zemeckis er hæfileikaríkur leikstjóri og hann og Tom Hanks hafa áttu frábært samstarf með Forrest Gump, bestu mynd þeirra beggja. Handritið er einnig vel skrifað og raunsæislegt að því er ég best veit (þó ég hafi aldrei þurft að hanga einn á eyðieyju) fyrir utan dáldið bældar síðustu 25 mínútur eða svo miðað við það sem á undan hefur gengið. Og Tom Hanks: VÁ!!! Hann sannar hér enn og aftur að hann er með bestu leikurum samtímans og umskiptin sem verða á honum í gegnum myndina eru ótrúleg. Ég veit ekki hvernig þessi mynd hefði orðið hefði hann ekki verið innanborðs. Hann hlýtur að fá tilnefningu til Óskarsins. Helen Hunt er einnig fín í sínu frekar takmarkaða hlutverki. En Hanks er burðarásinn sem heldur myndinni uppi með mögnuðum leik sínum. Og flugslysið: Þetta er í fyrsta sinn í bíómynd sem ég hef verið hræddur í flugslysaatriði. Farið endilega og sjáið þessa mynd. Þótt hún sé ekki gallalaus þá er Tom Hanks og viðfangsefni myndarinnar þess virði til að sjá hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Thirteen Days
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þeir sem einhvern áhuga hafa á sögu eða láta sig eitthvað varða heimsmálin ættu að vita um hvað þessi mynd er. Hún fjallar um Kúbudeiluna árið 1962 þegar skrifræðið í Sovétríkjunum og auðjöfrarnir og fulltrúar þeirra í Bandaríkjunum gerðu Kúbu að bitbeini á milli sín sem nærri því leiddi mannkynið út í kjarnorkustyrjöld. Myndin fjallar um atburðina frá sjónarhóli ráðgjafa forsetans, Kenny O'Donnell (Kevin Costner). Ekki bara þarf hann að berjast við ógnina frá Sovétríkjunum heldur einnig við misvitra herforingja innan ráðsins sem vilja bara sprengja þetta allt til fjandans. Á meðan John F. Kennedy (Bruce Greenwood) og hans menn reyna að finna lausn á vandanum tifar klukkan áfram og allt stefnir í heimsendi. Þessari mynd verð ég eiginlega að skipta upp í tvo flokka. Öðrum flokknum gef ég þrjár stjörnur, hinum flokknum ekki eina einustu. Byrjum á þriggja stjarna flokknum. Ég er hrifinn af því hvað þetta er fagmannlega unnin og spennandi mynd. Hún er að mörgu leyti lík Apollo 13 sem þó var þó betri mynd. Hér er mikið í húfi og menn berjast við klukkuna og reyna að bjarga ástandinu undir mikilli pressu og ótta. Ég hef alltaf hrifist af þannig spennumyndum. Þessari mynd er leikstýrt af miklu öryggi af Roger Donaldson og handritið er oftast hnitmiðað nema atriði úr persónulegu lífi Kenny O'Donnell og algjörlega úldinn þjóðrembuendir a la Bandaríkin. Auk þess má nefna frábæra kvikmyndatöku hvorki fleiri né færri en þriggja atvinnumanna, þeirra Andrzejs Bartkowiak, Rogers Deakin og Christophers Dully. Auk þess er sérstaklega góður leikur Bruce Greenwood sem JFK sem verður að flókinni, gáfaðri og margbrotinni persónu. Förum nú yfir í hinn flokkinn. Bara ef að þetta væri nú rétt! Það eru fleiri en ein hlið á öllum málum og ég held að fólk verði að kynna sér hina hliðina áður en það getur dæmt um hvað sé satt og hvað ekki. Og ég get ekki trúað því að einhver heilvita maður haldi að þessir menn eins og JFK hafi með öllu verið gallalausir og alltaf tekið réttar ákvarðanir. JFK var enginn friðarins maður heldur einn af herskáustu forsetum í sögu Bandaríkjanna. Og að Bandaríkjamenn hafi verið saklausir með öllu eins og myndin heldur fram þegar þeir hegðuðu sér eins og verstu fautar við alla þá sem voru minni máttar eins og smáþjóðir eins og Kúbu. Mér blöskrar lygarnar í pólitíkinni í þessari mynd. Hugleiðið þetta!!! En ætli við verðum ekki að óska Kevin Costner til hamingju að lokum með endurkomuna eftir mögur ár þrátt fyrir að leikur hans hér sé nú bara svona lala eins og gengur og gerist hjá honum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Unbreakable
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

David Dunn (Bruce Willis) er þessi dæmigerði Jón Jónsson. Hann býr ásamt eiginkonu sinni Audrey (Robin Wright Penn) og syni sínum Joseph (Spencer Treat Clark) í Philadelfíu og vinnur þar sem öryggisvörður á íþróttavelli. David á í tilfinningalegum vandræðum. Hann hefur einangrast frá konu sinni og syni og getur ekki tjáð sig almennilega við þau og hjónabandið er að verða ástlaust. En einn góðan veðurdag lendir David í hræðilegu lestarslysi. Hann er sá eini sem kemst lífs af og ekki nóg með það heldur er ekki ein skráma á honum. Eftir það fer hann að skoða líf sitt og sér að hann hefur aldrei slasast né veikst. Inn í líf hans kemur síðan dularfullur maður, Elijah (Samuel L. Jackson) sem virðist vita ástæðuna fyrir því að David lifði slysið af. Saman taka þeir nú til við að leysa ráðgátuna. M. Night Shyamalan er að mínu mati mikilvægur kvikmyndagerðarmaður nú um stundir. Hann er ómengaður af Hollywood-maskínunni og er óhræddur við að gefa sér góðan tíma í uppbyggingu mynda sinna, persónusköpun og sögu. Það eru fáir sem þora því. Þessi mynd jafnast ekki alveg á við hina frábæru The Sixth Sense en hún er samt sem áður vel upp byggður sálfræðilegur thriller. Það er nokkuð merkilegt hvernig honum tekst að gera senur án einhverja sérstakra brellna óhugnanlegar og virkilega óþægilegar að horfa á en einnig dálítið sorglegar. Það er eins og það hvíli alltaf einhver djúpur sársauki og angist yfir allri myndinni og þess vegna er hún kannski ekki sérstaklega vel til fallin fyrir jólatímann þar sem þetta verður stundum dálítið þunglyndislegt. Það sem háir aðallega þessari mynd er að persónurnar eru svolítið fjarrænar og erfiðara að fá samúð með þeim heldur en persónunum í The Sixth Sense. Auk þess er persóna Spencer Treat Clark fullík persónu Haley Joel Osments í The Sixth Sense sem mér finnst vera ákveðið ófrumleikamerki. Varðandi leikinn: Nú vil ég sjá Bruce Willis fara að fá einhverja meiri viðurkenningu sem leikari. Hann hefur sýnt það og sannað með myndum eins og 12 Monkeys (hans besta frammistaða á ferlinum), The Sixth Sense og þessari að hann getur vel leikið drama og leikið það vel. Hann bregst ekki hér frekar en í hinum myndunum. Sá sem stelur samt senunni er Samuel L. Jackson sem Elijah. Ég ætla sem minnst að segja um persónu hans til þess að skemma ekki fyrir en Jackson sýnir hreint magnaðan leik í hlutverkinu og mér finnst að þeir í Óskarnum mættu a.m.k. hugsa um að tilnefna hann. Robin Wright Penn er prýðis leikkona en persóna hennar er dálítið köld og fjarræn og skemmir það fyrir. M. Night Shyamalan er kvikmyndagerðarmaður sem verðskuldar athygli. Hann er einn af boðberum nýrra strauma inn í kvikmyndirnar og hver sá sem þorir að byggja vandlega myndir sýnar upp og gefa sér nægan tíma í persónusköpun og sögu á tímum mynda eins og Gone in 60 Seconds á skilið hrós.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Almost Famous
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

William Miller (Patrick Fugit) er 15 ára á besta tímabili í sögu rokksins, 1973 og þar í kring. Veldi hippanna var í algleymingi en þetta var samt sem áður upphafið á endalokunum. William skrifar fyrir lítið tónlistartímarit en skriftir hans hafa vakið athygli og einn góðan veðurdag fær hann hringingu frá Rolling Stone tímaritinu sem býður honum að ferðast með hljómsveitinni Stillwater og skrifa um hana. En hann þarf að eiga við móður sína (Frances McDormand) sem kæfir hann með ofverndun. Hann kemst samt á rúntinn með bandinu en það ferðalag og sérstaklega tvær persónur, gítarleikari hljómsveitarinnar Russell Hammond (Billy Crudup) og grúppían Penny Lane (Kate Hudson) eiga eftir að hafa áhrif á allt hans líf. Ég ætla að vera aðeins tilfinningasamari hér en venjulega. Kvöldið hjá mér byrjaði ekki vel. Ég ákvað að fara á myndina á seinustu stundu af því að sjónvarpsdagskráin var svo leiðinleg. Þegar ég mæti blasir við mér biðröð langt út á götu. Ég hélt að það væri orðið uppselt. Ég komst nú samt inn en þurfti þá að velja hálfgerða afarkosti um sæti. Eftir að fyrstu 5 mínúturnar af myndinni eru búnar og ég tek ekki einu sinni eftir því að ég er í bíó. Mér finnst ég vera staddur í rútu með útúrreyktum tónlistarmönnum árið 1973. Og ég er að skemmta mér. Ég vorkenni dálítið fólki af minni kynslóð. Hvað varð um tónlistarbyltinguna, hvað varð um frumleikann, hvað varð um rokkið. Núna höfum við Eminem og hans líka. En þeir eru ekki frumlegir. Þeir eru ekki að gera neitt merkilegt í rauninni. Og allt það sem er gert í tónlist í dag verður algjört hjóm miðað við þessa brjáluðu tíma. Um leið og peningarnir þröngvuðu sér inn í þetta dó það. Um leið og peningarnir þröngvuðu sér inn í pönkið dó það. Núna ráða peningarnir öllu og við höfum ekkert. Þetta verður að breytast. Ég held að það hafi aldrei verið búin til mynd sem lýsti því jafn rétt og raunverulega hvernig var að lifa og hrærast á þessum tíma. Cameron Crowe er rétti maðurinn í að lýsa því. Hann ferðaðist um með Led Zeppelin á sínum tíma. Myndin er í rauninni ekki að segja okkur neitt sérstakt annað en það hvernig þetta raunverulega var árið 1973. Og það er það sem ég dýrka við hana. Þeir sem voru unglingar á þessum tíma munu fá hrikalega nostalgíu þegar þeir sjá Almost Famous. Við hin munum öfundast endalaust út í William Miller (frábærlega leikinn af Patrick Fugit) fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu. Og hann lifði af. Það gerir boðskap myndarinnar réttan. Njóttu þess en ekki falla fyrir því. Þá gætirðu endað uppi eins og Penny Lane (Kate Hudson). Hudson kemur með innkomu ársins. Hún vinnur Óskarinn. Er algjörlega ógleymanleg sem Penny Lane. Billy Crudup hittir einnig beint í mark sem hinn charming (afsakið slettuna) gítarleikari og foringi bandsins. Og Frances McDormand er móðursýkislega fyndin sem mamman. En það þýðir ekki að gráta beiskt hlutskipti okkar í dag. Maður verður að gera gott úr því sem maður hefur. Það fólk sem lifði þarna. Það gerði kannski aldrei neinn einasta hlut rétt. Dópandi, drekkandi, ríðandi vitlausu fólki, gjörsamlega veruleikafirrt. En það getur þó sagt að það var gaman meðan það entist. Besta mynd ársins!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Wonder Boys
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Grady Tripp (Michael Douglas) er prófessor í bókmenntum við háskóla einhvers staðar í Pennsylvaníu held ég. Hann er einnig rithöfundur sjálfur en virðist ekki geta lokið við bókina sem hann hefur verið að vinna að í 7 ár. Hann varð frægur fyrir fyrstu og einu bók sína til þessa en nú virðist allt vera á niðurleið. Konan hans er farin frá honum, bókaútgefandinn hans, hinn stórfurðulegi Terry Crabtree (Robert Downey Jr.) þrýstir á hann að klára verkið, einn af nemendum hans, hinn léttklikkaði James Leer (Tobey Maguire) virðist vera búinn að skrifa meistaraverk á einum ársfjórðungi, annar nemandi hans Hannah Green (Katie Holmes) er skotin í honum og ofan á allt hefur hann gert viðhaldið sitt, rektorinn sjálfan Sara Gaskell (Frances McDormand) ólétta. Öll þessi vandamál hrúgast upp á einni helgi og spurningin hvort hann finni sjálfan sig í öllu þessu. Þessi mynd kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti alveg eins og American Beauty í fyrra. Leikstjórinn Curtis Hanson sem gerði hina frábæru L.A. Confidential árið 1997 snýr hér aftur með aðra æðislega mynd. Það sem lætur þessa mynd fyrst og fremst virka er að manni er alls ekki sama hvað verður um þetta undarlega lið í henni. Auk þess er myndin ágætis innsæi inn í hina stundum skrítnu háskólamenningu. Handrit Steven Kloves byggt á bók eftir Michael Chabon er óvenjulega bitastætt og hreint kraumar af hugmyndaflugi og vel skrifuðum samtölum. Þetta sannar í rauninni hvað góð handrit eru gífurlega mikilvæg til þess að myndir heppnist. Þá fá líka leikararnir sem fara með það virkilega eitthvað til að moða úr og verður að segjast að þeir nýta það til hins ýtrasta. Michael Douglas hefur aldrei verið betri sem prófessorinn sem er flæktur í svo mikið af rugli að hann hefur engan tíma til þess að gera neitt í sínum eigin málum. Douglas fer á algjörum kostum og er furðulegt að hann skuli ekki hafa verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. Tobey Maguire og Robert Downey Jr. eru einnig frábærir. Tobey Maguire er hæfileikaríkur leikari og ég var búinn að gleyma því hversu mikill afbragðs leikari Downey Jr. er. Verst að hann skuli vera sjálfum sér verstur. Síðast en alls ekki síst verð ég að minnast á FRÁBÆRA tónlist Bob Dylan, eins magnaðasta listamanns 20. aldarinnar. Hér kemur hann með enn einn gullmolann sem á eftir að verða klassískur eins og flest annað eftir meistarann og ég mun aldrei fyrirgefa akademíunni ef hann vinnur ekki Óskarinn. Wonder Boys er frábær lítill gullmoli sem kemur þægilega á óvart og engin spurning að allir unnendur góðra kvikmynda ættu að sjá hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Blair Witch Project
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1994 héldu þrjú ungmenni inn í Svartaskóg í Marylandfylki í Bandaríkjunum til þess að búa til heimildamynd um gamla þjóðsögu á staðnum, nornina frá Blair. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan. Einu ári seinna fundust upptökur þeirra. Þannig hljómar upphafslína myndarinnar The Blair Witch Project sem er örugglega besta og skelfilegasta hryllingsmynd áratugarins. Ungmennin þrjú eru Heather (Heather Donahue), Josh (Joshua Leonard) og Mike (Michael Williams). Áður hafa þau tekið viðtöl við fólkið sem lifir í grennd við skóginn og það segir þeim óljósar lýsingar um nornina og hvort þau haldi að sagan sé sönn og meira í þeim dúr. Þau vita líka alls konar óhugnanlegar lýsingar á því að börn og annað fólk hafi verið drepið og limlest á hryllilegan hátt og einhvers konar tákn hafi verið hjá líkunum. Þau halda síðan inn í skóginn. Þau eru vongóð og bjartsýn í byrjun. Um nóttina heyrir Josh eitthvað hljóð fyrir utan tjaldið en þau halda að það hafi ekki verið neitt. Þau fara hins vegar að verða dálítið óróleg þegar þau grunar að þau gætu verið villt. Næstu nótt heyra þau greinilega eitthvað og fara að verða óttaslegin. Þau verða síðan enn örvæntingarfyllri þegar þau finna tákn sem líkjast einhvers konar vúdú. Þau ganga í hringi, matarbirgðirnar eru búnar, þeim er kalt og þau vita það að einhver eða eitthvað er að elta þau og þau stórlega efa það að hann/hún/það hafi eitthvað gott í hyggju. Það sem lætur myndina virka eins vel hún gerir er að þetta er gert í ofurraunsæislegum heimildamyndastíl. Myndin er tekin upp á handhelda myndavél og oft sést ekkert hvað er um að vera. Það er einmitt málið. Það sem er ógnvekjandi og ógnvænlegt er ekki það sem sést heldur það sem gefið er í skyn og það er svo sannarlega gefið margt í skyn í þessari mynd. Mér hefur sjaldan eða aldrei liðið jafn illa eftir að hafa farið í bíó. Leikurinn er frábær en galdurinn er að margt af þessu er enginn leikur. Þessir krakkar eru í alvörunni hrædd. Leikstjórarnir, þeir Daniel Myrick og Eduardo Sánchez létu þau labba þangað til þau voru örþreytt og matarbirgðir af skornum skammti og hrelldu þau með alls kyns brellum sem þeim hafði ekkert verið sagt til um að myndu vera. Þess vegna er hræðsla þeirra ekki leikin heldur raunveruleg. Ég ætla ekki að lýsa smáatriðum myndarinnar eða því hvað gerist en ég ætla að segja að þetta er ein af þeim myndum þar sem maður getur ekki fundið einn einasta hlut athugaverðan. Þessi mynd mun hræða þig meira en fáar aðrar myndir munu gera og þú munt ekki koma út úr bíóinu samur maður. Til dæmis efast ég að þú munir nokkurn tímann fara í útilegu aftur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fight Club
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Edward Norton leikur ungan mann í ónefndri stórborg sem er afar óhress með lífið og tilveruna. Hann starfar sem möppudýr við hrútleiðinlega skrifstofuvinnu, hann lifir í íbúð þar sem eru eingöngu húsgögn út úr Ikea bæklingum og þessi kapítalíski lífsmáti og starfsmáti eru að gera út af við hann. Hann getur ekki sofið og á við miklar þjáningar að stríða. Segja mætti að hann væri einfaldlega að drepast úr leiðindum. En eftir að hann fer að sækja allar gerðir af sjálfstyrkingarhópum sem eru til, allt frá krabbameinssjúklingum yfir í getulausa karla sem eru að vaxa á brjóst fer honum að líða betur og fær útrás fyrir hatur sitt á markaðssamfélaginu. Það er í rauninni ekkert að honum en hann verður að leika það að hann sé í rauninni fársjúkur. Á einum af þessum fundum kynnist hann Mörlu Singer (Helena Bonham Carter), dóphaus og stórreykingamanneskja með virkilega sjálfseyðingarhvöt. Lífsstíll hans truflast við þetta og þau ákveða að skipta með sér tímunum. Þessir tímar fullnægja samt ekki þörf hans og þegar hann er að ferðast á milli borga í viðskiptaerindum hittir hann Tyler Durden (Brad Pitt) um borð í einni vélinni. Tyler er verulega sjúkur einstaklingur eins og strax kemur í ljós og hann gæti einmitt verið lausnin á vandamáli mannsins. Eftir að íbúðin hjá manninum springur í loft upp vegna gasleka á hann þann eina úrkost að fá að gista hjá Tyler. Tyler sem er hálfgerður útigangsmaður sem lifir í draslkofa sem enn er ekki búið að rífa og er með mjög róttækar skoðanir um það að nútímasamfélagið sé að gera út af við karlmenn og að þeir geti einungis fundið frelsun þegar þeir hafa glatað öllu sem þeir hfa átt og algjörlega lent á botninum. Tyler stofnar þess vegna bardagaklúbbinn með manninum þar sem að ungir menn, aðallega hvítir millistéttarmenn með innihaldslaust líf, hittast og berja hvern annan í klessu til þess að fá útrás. En þegar manninum verður ljóst að Tyler er farinn að sökkva dýpra og dýpra inn í þetta verður honum ljóst að þetta er gengið allt of langt og reynir að stoppa Tyler. Spurningin er hvort að það sé ekki þegar orðið of seint. Þessi snilldarmynd frá David Fincher er það besta sem hann hefur nokkurn tímann gert og þá er ég ekki að gleyma Se7en. Í fyrsta kaflanum er myndin aðallega fyndin og virkar vel sem svört gamanmynd (sem reyndar helst í gegnum alla myndina, bara í mismunandi útgáfum). Í öðrum hlutanum magnast ofbeldið upp og er það hreint yfirgengilegt. Ég vara væntanlega áhorfendur við að þessi mynd er ekki fyrir alla og alls ekki fyrir viðkvæma. Í þriðja hlutanum kemur síðan svo ótrúleg breyting á söguþræðinum að hún nær næstum að slá út lokin á The Usual Suspects. Fincher hefur aldrei verið jafn yfirgengilegur og nú og sýnir að hann er sennilega besti kvikmyndagerðarmaður í heimi til þess að gera dökkar, undarlegar og oft ofbeldisfullar og fyndnar myndir. Kvikmyndatakan er fín, hrá og dökk og grámyglan er í fyrirrúmi. Klippingin er hreint út sagt frábær. Leikurinn er fyrsta flokks. Edward Norton er fyrsta flokks eins og venjulega sem maðurinn þótt að hann sýni kannski ekki sömu meistarataktana eins og í Primal Fear og American History X enda er þetta allt öðruvísi rulla hérna. Hins vegar hefur Brad Pitt aldrei verið betri sem hinn kolruglaði Tyler Durden og er greinilegt að þetta fer honum best, að leika sjúka brjálæðinga eins og hann gerði í 12 Monkeys sem er hans næstbesti leikur á ferlinum. Helena Bonham Carter er glimrandi fín sem hin uppdópaða Marla en virðist samt oftast vera eina manneskjan sem hefur einhverja heilbrigða skynsemi eftir. David Fincher hefur hér með skapað sitt meistaraverk sem verður erfitt að toppa. Farið á þessa mynd (ef þið hafið sterkan maga) og búið ykkur undir að fara í rússíbana sem tekur ykkur lengst niður í myrkustu og dýpstu afkima mannsins og fljúgandi upp aftur og hendir ykkur út úr dösuðum, sjokkeruðum og endurnærðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
South Park: Bigger Longer
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

South Park Bigger, Longer and Uncut er þá komin í bíó. Hún var svona nokkurn veginn eins og ég bjóst við, 95% klósetthúmor og illgirnisbrandarar þar sem allt er látið flakka og ekkert er heilagt. En fyrst að ég hef líka séð Beavis and Butthead Do America varð ég fyrir dálitlum vonbrigðum. Söguþráðurinn er náttúrulega ekkert annað en afsökun fyrir því að koma með brandara á færibandi en í stuttu máli fjallar hann um þegar hin hundleiðinlega mamma Kyles og nokkrar aðrar mömmur þrýsta svo fast á Bandaríkjastjórn að hún neyðist til þess að fara í stríð við Kanada út af því að Cartman, Stan, Kyle og Kenny eru farnir að hafa eftir hrikalegt orðbragðið úr nýjustu mynd Terrence og Phillips. Inn í þetta blandast síðan myrkrahöfðinginn sjálfur ásamt félaga sínum Saddam Hussein. Margt í þessari mynd er töluvert fyndið, eins og t.d. drepfyndið atriði þar sem Cartman syngur sitt fræga lag "Kyle's mom is a bitch". Einnig er það fyndið hvað djöfullinn hefur mildast mikið og er orðinn hreint ansi kvenlegur en Saddam Hussein hins vegar hinn versti. Síðan er frábært atriði þar sem bandaríski herinn ætlar að nota svertingja fyrir sjálfsmorðssveitir með kokkinn í broddi fylkingar. Og skemmtileg atriði þar sem rödd George Clooney bregður fyrir, þar sem Kenny sínir loksins hvernig hann lítur út og þegar Cartman tekur ofan húfuna. En myndin þreytist hins vegar einum of fljótt og tekur að verða langdregin og brandararnir hætta að vera eins fyndnir. Sennilega er það vegna þess að í rauninni er þetta efni ekki ætlað fyrir 80 mínútna mynd heldur fyrir 20 mínútna þætti. En samt sá maður það vel gert í Beavis and Butthead sem var töluvert fyndnari mynd. Þeir sem hafa gaman af South Park (í þáttunum og í myndinni er reyndar prýðileg ádeila á þetta sjúklega bandaríska samfélag) ættu endilega að skella sér. Aðrir ættu að hugsa sig tvisvar um.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Run Lola Run
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Lola Rennt er hugmyndasmíð Tom Tykwer og sýnir hann afbragðstakta. Myndin er í grófum dráttum um Lolu (Franka Potente) sem þarf að ná í 100.000 mörk á 20 mínútum út af því að kærasti hennar, Manni (Moritz Bleibtrau) týndi þeim frá hættulegum glæpamanni sem mun áreiðanlega drepa hann ef hann afhendir honum það ekki innan þessarra 20 mínútna. Lola þarf að hindra manni í að ræna stórmarkað í örvæntingu sinni og á meðan hún hleypur reynir því að hugsa upp fullt af leiðum til þess að reyna að fá peningana. Henni dettur í hug að biðja kannski hinn kaldlynda föður sinn (Herbert Kneup) um peningana en er ekki viss um að það gangi eftir. Hún reynir að hraða sér til Manni en margt ófyrirséð á eftir að koma á daginn. Þessi mynd er eins og æfing í kvikmyndagerð. Hún skeytir til dæmis saman leikinni mynd og teiknimynd og allt í hráum stíl svo að þetta kemur út eins og MTV myndband en allt miklu athyglisverðra og skemmtilegra. Persónunum sjálfum fær maður kannski ekki mikið að kynnast en það er ekki tilgangurinn með myndinni. Handritið sem Tom Tykwer skrifar auk þess að leikstýra er fullt af óvæntum uppákomum og uppfinningasemi. Ef þið hafið séð Groundhog Day þá hafið þið kannski einhverjar hugmyndir um hvað gerist. Kvikmyndatakan er mjög hröð og margar, margar klippingar í henni þar sem mestur hluti myndarinnar fer í að Lola hleypur og hleypur og reynir að ná í peningana. Tónlistin fellur mjög vel að viðfangsefninu og myndin verður út af þessum tveimur þáttum mjög stýlísk og flott. Leikararnir eru ekkert sérstakt aðalatriði í myndinni. Franka Potente leikur Lolu alveg prýðilega þótt maður viti ekki mikið um hana. Hún minnir mjög mikið á Millu Jovovich í The Fifth Element. Mest út af eldrauðu hárinu og hefur Tom Tykwer sennilega eitthvað haft Millu Jovovich í huga þegar hann skapaði Lolu útlitslega séð. Mér finnst Moritz Bleibtreu samt vera meini senuþjófur sem Manni sem er á barmi taugaáfalls og hefur enga hugmynd um hvað hann á af sér að gera. Síðan verð ég að minnast á eitt bráðsnjallt hjá leikstjóranum. Þegar Lola rekst eða talar örstutt við fólk sem hún þekkir af götunni er sýnt síðar hvernig fer fyrir þessu fólki í mjög hröðum skotum eftir því hvað Lola sagði eða gerði. Tom Tykwer er með auðugt hugmyndaflug og hlakka ég til þess að sjá eitthvað meira eftir hann í framtíðinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sixth Sense
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef ekki séð mynd jafn vel gerða, jafn spennandi og jafn ógugnanlega síðan ég sá The Shining. Þetta er hreint út sagt frábær mynd og mjög ógnvænleg og sjokkerandi. Myndin segir frá barnasálfræðingnum Malcolm Crowe (Bruce Willis) sem á við vandamál að stríða. Hann þjáist af sektarkennd eftir að fyrrverandi sjúklingur hans skýtur hann og síðan sjálfan sig til bana af því honum finnst að Malcolm hafi ekki hjálpað sér. Honum líður líka illa út af því að samband hans við konu sína Önnu Crowe (Olivia Williams) sé að fara í vaskinn. Hún virðist vera fjarlæg honum og vill ekki hlusta á hann. Hún er jafnvel kannski farin að halda framhjá honum. Einn dag fær Malcolm sjúkling að nafni Cole Sear (Haley Joel Osment). Þetta er 9 ára strákur sem er stöðugt skelfingu lostinn við eitthvað hræðilegt sem hann einn veit um en vill engum segja. Malcolm reynir að ná til hans og gengur það brösuglega þangað til að atvik gerist sem fær Cole til þess að leysa frá skjóðunni. Svo virðist sem að hann geti séð dáið fólk. Malcolm trúir honum að sjálfsögðu ekki en eftir að hann kafar dýpra ofan í málið og sálarlíf drengsins fer hann að sannfærast um að drengurinn sé að segja satt. Fyrir utan The Shining hef ég aldrei séð mynd sem er jafn vel gerð um svona hluti. Myndin er það djúp að hún leyfir sér að grafa sig virkilega niður í sálarlíf drengsins svo að maður skilur hvernig honum líður. Og það er ekki skemmtileg líðan. Það er sennilega svipað eins og að vera staddur í martröð sem aldrei hættir. Myndin er ekki neitt sérstaklega blóðug eða neitt svoleiðis en þegar eitthvert blóð er á skjánum er það svo vel undirbúið og vel tímasett að maður verður skelfingu lostinn um leið og það kemur. Leikstjóranum og handritshöfundinum M. Night Shyamalan heldur óhugnanlegu andrúmslofti gangandi allan tímann svo maður sekkur niður í sætið í bíóinu og grípur dauðahaldi í stólarmana. Þegar ég kom út úr bíóinu leið mér illa og leit oft aftur fyrir mig eins og til þess að sjá að allt væri í lagi. Ég tek ofan fyrir hverri þeirri mynd sem fær mig til þess að láta þannig. Myndin er vel leikin einnig. Bruce Willis sem sálfræðingurinn leikur rólega og samúðarfulla týpu sem byrjar síðan að átta sig á því hvað er á seyði. Að þetta er ekki ímyndun endilega heldur hugsanlega raunverulega. Haley Joel Osment sem leikur drenginn er hreint út sagt frábær og stelur hverri einustu senu sem hann er í sem er þá mest öll myndin. Hann sýnir hræðslu drengsins svo vel að ótrúlegt er á að líta. Lokin á myndinni ætla ég alls ekki að ljóstra upp um en þau eru hreint út sagt stórkostleg. Að vera svo djarfur að leyfa sér að enda mynd svona er afrek. Endirinn einn er þess virði að fara á þessa mynd. Skemmtið ykkur vel og verið hrædd af því að eruð afbrigðileg ef þið verðið ekki hrædd á þessari mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Analyze This
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Paul Vitti (Robert De Niro) er sennilega öflugasti mafíuforingi New-York borgar. En eftir að hann er næstum því drepinn í árás þá fer hann allt í einu að brotna niður andlega. Hann leitar því ásjár sálfræðingsins Bens Sobols (Billy Crystal). Ben er meinilla við það að fá Paul inn í líf sitt enda er hann stórhættulegur glæpamaður, skapillur og með eindæmum uppáþrengjandi. Þegar hann dettur niður í þunglyndisköstin er Ben alltaf látinn koma, jafnvel þó það sé niðdimm nótt. Það sem flækir málin enn frekar er að Ben er að fara að giftast unnustu sinni (Lisa Kudrow), Alríkislögreglan grunar hann um að vera í innsta hring mafíunnar og risastór mafíufundur er í bígerð þar sem allir foringjarnir munu hittast svo það er eins gott fyrir Ben að hafa læknað Paul fyrir þann tíma. Robert De Niro sannar hér enn einu sinni að hann er einn besti leikari í heiminum og fer hreint frábærlega með hlutverk sem hann gjörþekkir út og inn en þarf nú að gera á öfugum forsendum. Fer hann á algjörum kostum og er fullkomlega trúverðugur. Þetta sannar fyrir mér a.m.k. að hann getur sennilega leikið hvað sem er og gert það allt jafn vel. Billy Crystal styður hann dyggilega sem sálfræðingsuppinn sem veit ekkert hvernig hann á að vera í kringum Paul og fleiri hans líka og er skíthræddur um að hann verði drepinn mjög bráðlega út af þessari vitleysu. Þó að Robert De Niro og Billy Crystal séu kannski alveg eins fyndnir saman og Robert De Niro og Charles Grodin í Midnight Run þá fara þeir samt á kostum báðir. Leiðinlegast er að sjá Lisu Kudrow hafa ekkert að gera. Miðað við hvað hún er hæfileikarík gamanleikkona þá finnst mér að Harold Ramis hefði getað leyft henni að eiga nokkrar fyndnar línur. Handritið er stútfullt af bröndurum sem hitta oftast beint í mark, sérstaklega þegar Billy Crystal þarf að þykjast vera "consigliere" fyrir framan alla mafíósana. Það er samt ekki bara brandarar heldur er hugsun á bak við þetta allt saman og það er heilsteypt. Leikstjórn Harold Ramis er með ágætum og er þetta næstbesta mynd sem ég hef séð eftir hann (sú besta myndi vera sú frábæra Groundhog Day). Mjög fyndin og skemmtileg mynd semsagt með De Niro og Crystal í toppformi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Black Cat, White Cat
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi afar fyndna og virkilega súrrealíska mynd frá Emir Kusturica er með skrítið fólk, furðulegar uppákomur og endalaust vesen og misskilning á misskilning ofan. Myndin segir frá feðgum. Faðirinn er hálfgerður auli og eftir að hafa misst peninga í viðskiptum á afar klaufalegan hátt skuldar hann bróður sínum, sem er smákrimmafauti, töluverða fúlgu. Til þess að leysa þetta vandamál ákveða þeir bræður að sonurinn giftist systur krimmans sem er afar smávaxin svo ekki sé minna sagt. Syninum líst ekkert á þetta fyrirkomulag karlanna þar sem að hann á þegar vingott við aðlaðandi konu. En ef hann gerir ekki eins og honum er sagt verður karl faðir hans drepinn. Inn í þetta blandast síðan faðir karlsins og besti vinur hans sem er valdamikill glæpamaður. Þessi afar fyndni farsi státar af frábærum leik allra leikara sem eru allir meira og minna óþekktir og utan um allt heldur Emir Kusturica með sína afar skringilegu sýn á líf sígauna í Austur-Evrópu. Sum atriði eru sprenghlægileg og sumar uppákomur svo kostulegar að maður fer að halda að maður sé að horfa á dellugamanmynd. En myndin er meira en það. Hún er líka um ungt fólk sem rís upp gegn hinum aldagömlu skyldum og kúgunum eldri kynslóðarinnar. Það er hugsun á bak við þetta allt saman og þess vegna gengur myndin upp.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Big Daddy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sonny Koufax (Adam Sandler) er frekar kærulaus náungi sem lifir í hálfgerðu greni, er með eindæmum sóðalegur og kjaftfor og kærastan hans er nýfarin frá honum með eldri manni sem hefur pælt hlutina betur út. Hann reynir að sýna kærustunni að hann getur líka sýnt ábyrgð með því að ættleiða 5 ára gamlan strák að nafni Julian sem birtist allt í einu á dyratröppunum hjá honum. Hann segist vera að leita að pabba sínum og Sonny tekur að sér að sjá um hann á meðan. En Sonny er alveg að fara á tauginni yfir öllu því umstangi sem fylgir því að hafa 5 ára krakka heima hjá sér og vill því skila honum aftur en það er hægara sagt en gert. Málin flækjast síðan enn frekar þegar Sonny kemst í samband við konu (Joey Lauren Adams) og þarf að sinna bæði því að heilla hana og sjá um strákinn. En milli stráksins og hans þróast sérstakt vináttusamband og þegar á að taka hann vill Sonny halda honum eftir. Það á eftir að draga dilk á eftir sér. Adam Sandler er skemmtilegur gamanleikari en hefur ekki alveg verið að leika í réttu myndunum undanfarið síðan hann lék í sinni bestu mynd til þessa, The Wedding Singer. Myndin heldur vel dampi í fyrri hlutanum og er oft sprenghlægileg en þegar tekur að síga á seinni hlutann fer bröndurunum að fækka og dramað tekur að færast meira inn í. Þar fatast myndinni flugið. Það er hreint agalegt að horfa upp á ágæta gamanmynd detta niður í enn eitt hundleiðinlegt, ósannfærandi og ofurvæmið réttardramað. Ef að Sandlers nyti ekki við þar þá væri myndin algjörlega glötuð. En Sandler tekst merkilega vel að halda þeim hluta á floti og er ansi sannfærandi þótt fáir aðrir séu það. Það er eitt sem mér finnst sorglegt. Að sjá málefni eins og samkynhneigð og ábyrgð barna vera í deiglunni en síðan ekkert unnið neitt bitastætt út úr því. Einnig er það sorglegt að sjá leikkonu eins og Joey Lauren Adams (sem lék svo glimrandi vel í Chasing Amy) ekki hafa neitt að gera nema vera sæt og fín. Einn af mínum uppáhaldsleikurum, Steve Buschemi kemur fram sem hálfgerður gestaleikari virðist vera sem heimilislaus maður. Hann hefur nú birst í tveimur myndum Sandlers sem gestaleikari svo að hann er kannski orðinn almennur gestaleikari í myndum hans? Kann að vera. Á heildina litið er Big Daddy oft fyndin en líka dálítið mislukkuð mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Idle Hands
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Anton (Devon Sawa) er ofurlatur hasshaus sem hangir með hinum tveimur ofurlötu hasshausavinum sínum, Mick og Pnub (Seth Green og Elden Ratliff) reykir marijúana, glápir á sjónvarpið og lætur sig dreyma um stelpu að nafni Molly (Jessica Alba) í skólanum sem semur sína eigin lagatexta og keyrir um á vespu. Anton er svo sljór og latur að hann hefur ennþá ekki áttað sig á því að foreldrar hans eru dánir. Hafa þeir verið myrtir á hrottalegan hátt af hendi sem er andsetin af djöflinum og hefur í hyggju að setjast að í Anton og halda síðan áfram að myrða alla sem hún sér. Loksins þegar Anton fattar að foreldrar hans eru dánir er það einum of seint þar sem höndin er búin að taka sér bólfestu í honum (nánar tiltekið hans hægri hönd) og þeir fyrstu sem deyja eru þeir Mick og Pnub, vinir Antons (deyja þeir einnig á ansi hrottalegan hátt). En þeir snúa engu að síður aftur sem uppvakningar til þess að geta djammað áfram. Anton verður nú að finna ráð til þess að stöðva hendina og bjarga Molly sem er næsta fórnarlamb handarinnar. Það er ekki til ein einasta frumlega mínúta í þessari mynd. Morðhendi hefur verið gert ótal sinnum áður og hefur víst aldrei tekist vel upp. Fyrr en núna. Leikstjóri myndarinnar, Rodman Flender veit að þetta er hallærislegt kjaftæði og gerir hann þess vegna myndina hálfpartin að dellugamanmynd. Það var einmitt það sem átti að gera og tekst hún mjög vel upp aðallega sem sprenghlægileg gamanmynd og líka er hún allt í lagi sem afar blóðug hryllingsmynd. Handritið er svosem ekki upp á marga fiska en myndin er keyrð töluvert áfram svo að maður fyrirgefur henni t.d. nánast enga persónusköpun og meira i þeim dúr. Myndin er ein af þeim blóðugustu sem hafa komið í langan tíma, t.d. er hún mun blóðugri en Scream en það er allt gert í léttari kantinum svo að hún verður aldrei neitt sérstaklega hryllileg. Enda er hún aðallega ágætis gamanmynd. Devon Sawa sem leikur Anton er allt í lagi svo langt sem það nær en bestir eru þeir Seth Green og Elden Ratliff sem hálfvitarnir vinir hans. Jessica Alba er svaka skutla en óttalega litlaus. Í heildina litið er þetta hið prýðilegasta léttmeti og della og er fínt að skella sér á hana eftir erfiðan og kannski leiðinlegan dag.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: The Phantom Menace
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja, jæja Þá er hún loksins komin, Star Wars Episode I The Phantom Menace. Ég hef beðið þessarar myndar með mikilli óþreyju og ég varð ekki fyrir neitt sérstaklega miklum vonbrigðum með hana. Myndin er stútfull af lygilegum tæknibrellum, flottum hugmyndum, einum stórkostlegum sverðabardaga sem er sennilega hápunktur myndarinnar og hreint ágætri frammistöðu hjá Liam Neeson sem Jedi-meistarinn Qui-Gon Jinn. En myndin hefur einnig sína galla. Sagan er ansi þunnur þrettándi miðað við hinar myndirnar þar sem hún var pottþétt, persónusköpunin er sáralítil sem þó er kannski skiljanlegt þar sem að Lucas þarf að kynna alla hérna eins og hann þurfti að gera í Star Wars Episode IV A New Hope. Í þeirri mynd var persónusköpunin einnig mynnst af gömlu myndunum einfaldlega vegna þess að hún var sú fyrsta. Þessi er líka sú fyrsta í þessum nýja bálki svo að persónusköpunin er minnst hér einnig af þessum nýju myndum. Það er allavega mín trú. Og það vantar gömlu töfrana sem voru í fyrri myndunum. En myndin kemst vel í gang í síðari hlutinum og heldur þar uppi stanslausri keyrslu það sem eftir er svo að myndin er langt frá því að vera leiðinleg. Í stuttu máli sagt er sagan svona Hið illa Viðskiptabandalag, stjórnað af hinum dularfulla og ógnvænlega Darth Sidious hefur hafið innrás á hina friðsömu plánetu Naboo. Amidala drottning hefur beðið Lýðveldið um hjálp en það er orðið veikt og spilling ríkir á meðal ráðamanna þar. Valorum æðstikanlsari sendir tvo samningamenn til flota Viðskiptabandalagsins yfir Naboo. Það sem Viðskiptabandalagið veit ekki er að samningamennirnir eru báðir Jedi-riddarar, Qui-Gon Jinn og lærisveinn hans Obi-Wan Kenobi (Ewan McGregor). Þegar Darth Sidious skipar að þeir verði drepnir tekst þeim að flýja niður á plánetuna, bjarga drottningunni þaðan og komast fram hjá hindruninni sem umkringir plánetuna (með hjálp frá R2-D2). Skipið er það skemmt að þeir neyðast til þess að lenda á plánetunni Tatooine. Þar hittir Quin-Gon Anakin Skywalker, þá barn að aldri. Quin-Gon sér að Anakin hefur ótrúlega hæfileika til þess að verða gríðarlega sterkur Jedi-riddari og vill hann því taka hann með sér til þess að kenna honum. En Anakin er þræll skransalans Watto. Hann og Qui-Gon semja um að takist Anakin að vinna hið árlega í hinum árlega kappakstri þá fari hann með Qui-Gon. Anakin vinnur og fer með Qui-Gon. En Darth Sidious er búinn að finna út hvar Amidala drottning er og sendir hann lærisvein sinn, hinn öfluga Darth Moul á eftir þeim öllum. Amidala drottning ákveður að reyna að sigra Viðskiptabandalagið með hjálp Jedi-riddaranna, Jar Jar Binks sem á Qui-Gon líf sitt að launa og öllum Gungahernum. En þar bíður þeirra Darth Moul og verður barist uns yfir líkur. Ekki er þetta nú leiðinlegt. Sérstaklega ekki í seinni hlutanum. Varðandi karakterana Liam Neeson kemur best út úr þessu og sýnir hann ágætis tilþrif sem Qui-Gon Jinn sem er nú líka heilsteyptasta persóna myndarinnar. Ewan McGregor er ágætur en hefur úr litlu að moða og stendur óneitanlega í skugganum af Alec Guinnes sem lék Obi-Wan svo vel í gömlu myndunum. Jar Jar Binks er allt í lagi en stendur í skugganum af C-3PO og R2-D2 sem voru mun fyndnari. Natalie Portman sem drottningin er heillandi en hefur lítið að gera einnig. Jake Lloyd er ágætur sem Anakin. Darth Sidious er alveg eins og keisarinn í mynd nr. 6 en vantar þessa köldu, dauðu og óhugnanlegu rödd sem Ian McDiarmid reddaði. Darth Moul er ofursvalur en jafnast samt hvergi á við svalasta illmenni kvikmyndanna fyrr og síðar, Darth Vader og Yoda hefur ekki mikið að gera. Það finnst mér verst af því að hann sýndi svo stórkostlega frammistöðu í The Empire Strikes Back sérstaklega að hann hefði a.m.k. átt að vera tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. Í heildina er The Phantom Menace hin fínasta skemmtun en ristir ekki djúpt. En ég segi að það eigi eftir að breytast í 2 og 3.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Notting Hill
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bóksalanum William Thacker (Hugh Grant) gengur ekki mjög vel með bóksöluna sína (kannski vegna þess að hann selur eingöngu ferðapésa og landabréfabækur) og honum gengur jafnvel enn verr í einkalífinu. Eiginkona hans yfirgaf hann og hin konan sem hann elskaði er gift besta vini hans og er í hjólastól. Einn daginn lendir hann þó í því að inn í bóksöluna hans kemur frægasta leikkona heims, Anna Scott (Julia Roberts). Eftir frekar klaufalegt slys sem verður þegar þau hittast aftur býður hann henni inn í íbúðina sína sem hann er með ásamt herbergisfélaga sínum, Spike (Rhys Ifans) hreint einstaklega kærulausum og sóðalegum náunga. Þrátt fyrir klaufaskap Williams í kvennamálum er þetta greinilega ást við fyrstu sýn. En vandamálin við það að vera með ofurfrægri manneskju er meira en hann hefði nokkurn tímann getað grunað. Þessi mynd er skólabókardæmi um það hvernig á að gera vel heppnaða rómantíska gamanmynd. Myndin er oft bráðfyndin og einnig grátbrosleg en það sem lætur hana virka eins og allar aðrar rómantískar gamanmyndir er að maður getur virkilega séð strauma á milli Hugh Grants og Juliu Roberts. Handritið er óvenjulega gott og djúphugsað miðað við rómantíska gamanmynd og gengur myndin ekki út á það að vera með aulahúmorinn og fáránlegar uppákomur í fyrirrúmi. Þótt að þær séu oft fyndnar þá hefði það ekki hentað þessari mynd. Vissulega eru þannig uppákomur í myndinni engu að síður en þær eru allar vel unnar. Sá sem sér um þær er mestmegnis Rhys Ifans sem leikur Spike og fer hann á algjörum kostum. Julia Roberts hefur sjaldan verið meira heillandi heldur en hérna og Hugh Grant passar fullkomlega sem mótleikari hennar. Leikstjórn Roger Michell er góð og traust og myndatakan er til fyrirmyndar. Sérstaklega eitt atriði sem gerist í garði sem ég var mjög hrifinn af af því að það sýnir mér sjónarhorn sem ég hef ekki áður séð. Það er bara aðeins í endann þegar William og vinir hans eru að reyna að ná Önnu sem að henni fatast aðeins flugið. Þótt það sé fyndið kemur það svo gjörsamlega á skjön við það sem áður hefur gerst að það kemur hálf fáránlega út. En það skemmir svo sem ekki mikið fyrir þegar leikararnir eru jafn sjarmerandi og hér og handritið jafn pottþétt. Sennilega besta rómantíska gamanmyndin í ár.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mummy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í hinu forna Egyptalandi heldur æðstipresturinn Imhotep (Arnold Vosloo) við konu Faraó. Þegar þau eru gripin er Imhotep dæmdur til þess að þola hryllilegan dauðdaga. Því er spáð að ef einhver raskar grafarró hans muni hann koma aftur sem ófreskja, taka yfir Jörðina og gera mannkynið að þrælum sínum. Nokkur þúsund árum síðar rekast sistkynin Evelyn (Rachel Weisz) og Jonathan (John Hannah) á kort sem vísar þeim til borgar hinna dauðu þar sem Imhotep hvílir. Evelyn hefur leitað að borginni allt sitt líf og með hjálp frá ævintýramanninum Rick O'Connel (Brendan Fraser) halda þau á þennan forboðna stað. Þessi mynd reynir að vera spennandi ævintýramynd í ætt við Indiana Jones-myndirnar en mistekst það fullkomlega. Versta við hana er hversu ótrúlega heimskuleg hún er á allan hátt. Mér hefði örugglega líkað við hana ef þetta hefði verið almennileg hryllingsmynd eða eitthvað svoleiðis en þeir hjá Hollywood þurftu að sjálfsögðu að pakka henni upp í sínar eigin lélegu umbúðir. Besti partur myndarinnar er fyrri hlutinn og tekst honum að byggja upp dálitla spennu. En eftir að múmían er komin til sögunnar fer myndin að verða sífellt asnalegri og asnalegri. Hefði Stephen Sommers (leikstjóri myndarinnar) ekki getað prófað að hafa smá samúð með múmíunni sem er auðveldlega hægt í þessu tilfelli. Í staðinn býr hann til úr henni hið versta illmenni sem er smá vonbrigði. Varðandi leik þá er hann allur í meðallaginu. Brendan Fraser er enginn Harrison Ford en kemst samt ágætlega frá sínu. The Mummy hefði getað verið góð ef að menn hefðu reynt að sýna smá frumleika en ekki eitthvað sem við höfum öll séð milljón sinnum áður og betur gert. Það eina sem er gott eru tæknibrellurnar. Leigið ykkur heldur Raiders of the Lost Ark.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Matrix
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Neo (Keanu Reeves) er tölvuforritari hjá stóru fyrirtæki en lifir einnig lífi eitursnjalls tölvuþrjóts. Honum hefur alltaf fundist að ekki sé allt með felldu í lífi hans og að eitthvað sé að veröldinni sem hann lifi í. Allt í einu fær hann boð frá hinni dularfullu skuggaveru Morpheus (Laurence Fishburne) sem segir honum að koma að hitta sig. Neo gerir það og veit að það eru einnig aðrir dularfullir aðilar á eftir honum sem líta út fyrir að vera frá leyniþjónustunni eða einhverri álíka ríkisstofnun. Morpheus segir honum að hann geti haldið áfram að vera í The Matrix sem sé sú veröld sem hann hefur alltaf lifað í eða að hann geti orðið frjáls maður eins og hann sjálfur er. Hann velur leið Morpheusar og þá byrja óútskýranlegir atburðir að gerast. Ég ætla ekki að segja neitt meira um söguþráðinn til þess að spilla ekki fjörinu fyrir þeim sem eiga eftir að fara á myndina. En handrit þessarar myndar er eitt það skotheldasta og útpældasta sem hefur komið í langan tíma. Það er þess vegna sem þessi mynd gengur upp. Hún hefði getað orðið enn eitt innantómt tæknibrelluundrið en hún er svo mikið meira en það. Wachowski-bræðurnir sem hafa áður gert myndina Bound eru fagmenn fram í fingurgóma og þeir sýna það hér með styrkri og hugmyndaríkri leikstjórn. Leikararnir fara vel með sitt. Keanu Reeves er ekki mikill leikari en hann þarf ekki að tala svo mikið svo hann kemst vel frá sínu. Laurence Fishburne er hins vegar frábær leikari og stelur hann hverri einustu senu sem hann er í. Brellurnar eru sennilega þær mögnuðustu sem hafa birst á hvíta tjaldinu og hasaratriðin eru hreint og beint stórfengleg. The Matrix er sennilega ein af bestu sumarmyndum ársins og er frábær og mjög útpæld spennumynd. Og það er engin gervispenna í henni. Gerið þið sjálfum ykkur greiða-farið á hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Austin Powers: The Spy Who Shagged Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Dr. Evil (Mike Myers) er snúinn aftur til jarðarinnar. Núna ætlar hann sér að stela sjarma eða "mojoi" Austin Powers (Mike Myers) og taka síðan yfir heiminn. Þetta er söguþráðurinn. Gleymið þið honum. Gleymið þið líka að hugsa. Skrúfið bara fyrir heilann í ykkur og skemmtið ykkur konunglega yfir þessari ótrúlegu vitleysu hins mjög svo hæfileikaríka gamanleikara, Mike Myers. Hann er nánast allt í öllu í þessari mynd. Ekki bara að hann leiki bæði aðalhlutverkin heldur leikur hann einnig hinn ofurógeðslega Fat Bastard sem er hreint út sagt alveg frábær persóna, Skoti sem étur börn. Við bætist einnig dúndurgellan Heather Graham sem Felicity Shagwell??? Og einnig klónuð útgáfa af Dr. Evil, Mini-me sem er líka hreint stórkostleg persóna. Flestir, ef ekki allir brandararnir eru tómt rugl og eru þeir misgóðir. Myndin dettur dálítið niður undir miðbikið en það er samt nóg af sprenghlægilegum (og oftast yfirnáttúrulega ósmekklegum) atriðum til þess að vinna upp á móti því. Þess vegna segi ég, farið þið á Austin Powers bara í þeim eina tilgangi til þess að hlæja að tómri vitleysu og skemmtið ykkur vel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Plunkett and Macleane
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Macleane (Johnny Lee Miller) er aðalsmaður sem á ekki bót fyrir rassinn á sér og er frekar ómerkilegur pappír af þeim sökum hjá aðlinum í Englandi árið 1740. Þegar á að setja hann í skuldafangelsi hittir hann þjófinn Plunkett (Robert Carlyle) sem ræðst á vagninn hans og rænir þaðan rúbíni. Þeir sleppa báðir en nást aftur og meðan þeir eru í fangelsinu ákveða þeir að það gæti verið góð hugmynd að ræna aðalinn. Plunkett er flinkur með byssuna og er góður þjófur en Macleane veit hvernig á að hegða sér innan um aðalsfólkið og slá ryki í augun á því. Smám saman þróast með þessum tveimur ólíku mönnum vinátta. Málin flækjast síðan þegar Macleane verður ástfangin af lafði Rebekku (Liv Tyler) en hún er um það bil að fara að giftast hinum illa lögreglustjóra sem er heltekinn af því að ná þeim félögum. Þessi mynd er það sem maður gæti kallað hina fullkomnu meðalmynd. Sagan rennur áfram þýðlega án þess að nokkuð stórkostlegt gerist út alla myndina. Reyndar er fyrri parturinn betri en sá seinni og myndin er stundum þónokkuð fyndin í fyrri hlutanum. En myndin er alls ekki djúp og hún verður auðgleymd um leið og maður labbar út úr bíóinu. Flatneskjan verður nú aðallega að skrifast á handritið og yfirborðskennda leikstjórn Jake Scott. Það besta eru leikararnir. Þar stendur Robert Carlyle upp úr og fer hann alltaf létt með að stela senunni. Sorglegt að hann skyldi ekki fá meira til að moða úr. Johnny Lee Miller fellur nú reyndar ansi mikið í skuggan af Carlyle en gerir samt sitt vel. Og Liv Tyler er einnig ágæt sem lafði Rebekka þrátt fyrir að persóna hennar sé frekar óspennandi. Sviplítil en ágætis afþreying á meðan hún varir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Who Am I?
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jackie Chan leikur Jackie Chan sem er sérdeildarmaður í leiniþjónustu sem tekur að sér að stela mjög verðmætum steini sem hefur ótrúlega krafta inni í sér. En þeir eru sviknir og allir deyja nema Jackie að sjálfsögðu, sem missir minnið. Hann verður nú að komast að því hver hann er og koma steininum aftur undir réttar hendur svo að hann valdi ekki óbætanlegum skaða fyrir mannkynið. Þeir sem hafa séð Jackie Chan myndir vita að söguþráðurinn er bara bull enda viðurkennir Jackie það sjálfur. En þeir ættu einnig að vita að myndir hans eru nær alltaf bráðskemmtilegar og með hreint ótrúlegum bardagaatriðum. Þessi er engin undantekning. Myndin er mjög fyndin líka sem sýnir að Jackie Chan er ekki bara frábær bardagamaður heldur einnig hinn fínasti gamanleikari og sumar senurnar í þessari mynd eru bókstaflega drepfyndnar. Maður þarf að bíða dálítið eftir að slagsmálaatriðin byrji en þau eru vægast sagt mögnuð og sennilega ein af þeim bestu sem Jackie hefur gert á ferlinum. Maðurinn er hreint og beint ótrúlegur sé tekið tillit til þess að hann er orðinn 45 ára. Who Am I? er hin besta skemmtun og mæli ég með henni fyrir alla þá sem vilja sjá eitthvað létt og flott í bíó.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei