Gagnrýni eftir:
300
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Nóg hefur verið skrifað hér að ofan um 300 held ég. Geri fólk sér grein fyrir að hún er egningasaga manns á leið í orrustu, þá er fólk í réttu stellingunum fyrir myndina. Það á að vera nokkuð augljóst, en mögulega fara einhverjir á mis við það. Setjið ykkur í réttar stellingar og njótið alveg hreint stórkostlegrar myndar sem þið munið aldrei gleyma.
Pathfinder
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Um söguþráðinn: Þetta er mynd um son víkinga sem halda frá Íslandi til vesturheims til að takast þar á við indíána. Víkingarnir eru drepnir, eins og kemur í ljós á fyrstu mínútum myndarinnar og drengurinn er tekinn í fóstur víkinga. Fimmtán árum síðar koma svo fleiri víkingar á þrem skipum og herja á strendurnar og drengurinn, þá fullorðinn maður, berst á móti þeim. Í stuttu máli er þetta er versta mynd sem ég hef nokkru sinni séð ef undan er skilin ágætt litaþema sem fengið er með einhverskonar eftirvinnslu eða tökufilter. Reyndar, þá er hún svo ofboðslega slæm að það má hlægja að henni og gera töluvert af því. Ég var svo ólánssamur að vera boðið á hana úti í Bandaríkjunum fyrir tveimur vikum ásamt dálitlum hópi íslendinga og við vorum þeir einu sem ekki gengu út af myndinni. Ótrúverðugleikinn er yfirþyrmandi. Sérstaklega stendur upp úr snörp skipti á milli töku í myrkum og steikjandi heitum frumskógum og sprangs í helköldum fjallaskörðum undir snjó og ís, en söguhetjurnar virðast búa yfir undraverðum hæfileika að feraðst á milli þeirra á örskotsstundu. Nóg af staðháttavillum semsagt. Helst er eftirminnilegt fyrir íslending að heyra íslenskunni misþyrmt eins og gert er í myndinni, og má raunar hafa af því gríðarlegt gaman. Leikararnir lögðu samt töluvert á sig og stöku sinnum má heyra svalar setningar í ætt við Þungur hnífur sem leikararnir reyna að koma frá sér. Víkingarnir eru kostulegir, skokkandi um fjöll og fyrnindi með hrossahausa og kjálkabein fyrir hjálma, gríðarleg horn, tugkílóa herklæði og hrikalegustu sverð sem sést hafa á skjánum nýverið í leit að indjánum til að drepa. Og eigum þeirra til að rústa. Og ekkert annað. Líf þeirra er svo brjálæðislega tilgangslaust að það er stórkostlega hlægilegt. Mestu veiðimenn indíánanna eru stórkostlega vitlausir, þrautþjálfaðir hermenn og gildrumeistarar stökkva á úrslitastundu út úr leynistöðum sínum í runnum og trj´ma ofan í indíánagildrur sem aðalsöguhetjan og þroskaheftur aðstoðarmaður hans útbjuggu á metstundu til að gabba víkingana í (ásamt fjölda annarra flókinna gildra) og stráfalla. Töluverðs er krafist af áhorfandanum sem þarf að horfa upp á áhöfn víkingaskipanna... tilgangslausumorðóðuhundaskipanna meina ég, margdrepna, sömu mennina falla hvað eftir annað, hálsbrotna hver á fætur öðrum í sleðaeltingaleik niður endalausa fjallshlíð og synda eins og fiskar í hringabrynjum og svörtu blóðskrauti hins sturlaða slátrara. Annars má segja þessum skrímslaforfeðrum okkar til hróss að það er sama hversu oft þeir hrapa niður lóðréttan klettavegg að þeir eru magnaðir að hrista dauðann af sér þangað til það passar söguþræðinum, ef söguþráð skyldi kalla. Og hvað er ég að skrifa svona langan dauðadóm um svona vonda mynd? Til þess að hvetja fólk til að fjölmenna á myndina og hlæja sig vitlaust yfir þessarri ógeðslegu vitleysu - Og nú er ég ekki að spauga, það er sennilega stórgaman að fara í stóóórum hópi íslendinga á þessa mynd og hlæja að henni. Kynningin á myndinni er frábær, leikstjórarnir ná ekki árinu rétt sem Leifur Heppni og co. fundu Ameríku. Þeir hitta ekki einusinni á öldina :) Þetta er vond mynd. Fjölmennið á hana - Íslendingar eru eina þjóðin í heiminum sem getur mögulega haft gaman af þessu! Bara ekki fara einn/ein á myndina eða í það litlum hópi að hlátrasköllin nái ekki að lyfta myndinni úr hallærisplaninu upp á gamanmyndaplanið.
Star Wars: Attack of the Clones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Lélegt handrit, afleit klipping og gróðamarkmið (í stað gæðamarkmiða) standa upp úr eftir að hafa horft á myndina. Vélrænt leikin í flestum atriðum og þar sem leikurunum tekst bærilega upp (Ewan McGregor helst) skemmir texti eða klipping fyrir. Hræðilega órökrétt atriði skemma mikið í myndinni, og þá á ég ekki við beygð eðlisfræðilögmál eða mikil afrek (að gefa því lausan tauminn er krafa sem gera má til bíógesta á sci-fi mynd) heldur eru viðbrögð persóna hver við öðrum, ályktanir og hugsun vægast satt út í hött, og það er ekki hægt að fyrirgefa. Aftur er það hinu ægilélega handriti um að kenna auðvitað. Sem sagt, myndin er full af ótrúverðugum persónum, kjánalegum og samhengislausum senum sem eiga að vera mikilfenglegar en vegna umgjarðarinnar verða þær afkáralegir tölvuleikjatrailerar. Skammsýni og skilningsleysi Lucas & co. má segja að kristallist í nafni myndarinnar, en árás klónanna er algerlega afleitt heiti á myndina, og skilur það hver sem á hana horfir og nær að skilja söguþráðinn og plottið (sem er á brauðfótum). Ég nenni eiginlega ekki að eyða fleiri orðum á þessa mynd, hún er ekki þess virði. Ég gef myndinni hálfa stjörnu fyrir fallegt tölvugert umhverfi og hljóð sem nær nokkrum sinnum að láta mann finnast að maður sé á staðnum (vanalega þar til söguþráðurinn tranar sér fram og minnir mann á að George Lucas situr við stjórnvölinn, ólíkt því sem var í gömlu trílógíunni). Því miður er sennilega of seint að segja það, en aðdáendur fyrstu myndanna þriggja ættu ALLS EKKI að fara á þessa mynd frekar en Phantom Menace. Þessi er mun verri.