Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Hostage
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hostage boðar endurkomu Bruce Willis í hasarmyndirnar. Á tímabili lék Willis í fjöldanum öllum af slíkum myndum áður en hann fór yfir í drama og misjafnlega heppnað grín. Willis leikur löggu sem hefur mikla reynslu af gíslamálum, þegar eitt slíkt mál fer úr skorðum, fylgir líf hans með. Hann hættir sem stórborgarlögga og gerist fógeti í smábæ. Þar rennur skemmtilega af stað flétta sem endar í gíslatökum og miklu ofbeldi. Gíslatökurnar í myndinni eru fjórar talsins og eru allar vel upp byggðar. Hostage skilur samt nákvæmlega ekkert eftir, fyrir utan leik Ben Fosters sem Mars Krupcheck, sem gerir hrikalega geðveikum unglingi frábær skil.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: Revenge of the Sith
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Star Wars Strikes Back! Ég er einn af þeim sem hef alltaf haft mjög gaman að þessum myndum. Eins og margir aðrir varð ég fyrir töluverðum vonbrigðum með Episode 1 og 2, fannst sögurnar alls ekki áhugaverðar. Aftur á móti er sagan á bakvið Episode 3 hrein snilld. Hún minnir helst á grískan harmleik, þar sem allir þekkja söguna, en upplifunin á henni dýpkar hana og veitir manni einhverja ákveðna lausn, þetta sem þeir kalla kaþarsis. Leikararnir standa sig jafn vel og hægt er að reikna með, og reyndar aðeins betur en ég átti von á. Nú eru til þrjár snilldarlega vel gerðar og skemmtilegar Star Wars myndir, ein góð og tvær frambærilegar. Episode 3, 4 og 5 eru jafnbestar að mínu mati, svo er það Episode 6. Episode 1 og 2 er báðar mun verri en allar hinar. Myndina sá ég fyrir fullum sal í Mexíkó, myndskeið bráðnaði á meðan Samuel L. Jackson var að berjast við keisarann og allir í salnum blístruðu spenntir eftir því að myndin héldi áfram. Ánægður með að það var ekkert hlé og miðinn kostaði mig ekki nema kr. 250. Popp og kók kostaði svo kr. 250 líka. Fínn salur, góð sæti, frábær hljómgæði, spænskur texti og rosa stemmning. Ég get ánægður sagt að nú ætla ég aftur í bíó að sjá Star Wars. Heyrst hefur reyndar að nú þegar Episode 3 er að gera stormandi lukku aukist líkur á því að Episode 7, 8 og 9 verði gerðir, en þó ekki leikstýrðir af George Lucas. Góðar fréttir, ekki satt?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Alexander
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Æi! Hvernig getur maður öðruvísi byrjað þessa gagnrýni. 'Alexander' er hálfkveðin vísa. Ekki nóg með það, hún er löng og leiðinleg hálfkveðin vísa. Maður sér auðveldlega hvernig þetta hefði getað verið snilldarmynd. Oliver Stone hefði bara þurft að klippa um helming myndarinnar í burtu. 'Alexander' var svo langdreginn að ég var farinn að líta á klukkuna um miðja mynd. Þvílík kvöl! Eftir þetta hef ég líka ferlegan hausverk. Það verður erfitt að fyrirgefa Oliver Stone þessa tímaeyðslu. Allir leikararnir standa sig frekar illa, fyrir utan Christopher Plummer í alltof stuttu hlutverki. Ég hefði miklu frekar verið til í að fylgjast með fullri mynd um Aristóteles þar sem Ewan McGregor léki hann ungan, en Christopher Plummer gamlan. Má maður láta sig dreyma? Greinilegt er að gífurlegum peningi hefur verið ausið í myndina og er útlit hennar óaðfinnanlegt. Það er meira að segja stórgott bardagaatriði í henni þar sem Alexander rís á fák sínum gegn víggirtum fíl. Hins vegar eru bardagaatriðin gölluð að því leiti að mér fannst þegar verið var að drepa hermenn, virtust þeir mjúkir sem koddar, svo auðveldlega tókst að aflima þá eða stinga í gegn. Ekki er hægt að ræða um 'Alexander' án þess að minnast á leikarann í titilhlutverkinu, Colin Farrell. Hann leggur sig greinilega allan í hlutverkið og hefur tekið mikið á til að vera sannfærandi og góður. Því miður er finnst mér hann ekki hæfa hlutverkinu. Hann hefur jú, útlitið, og oft má sjá geðveikisglampa í augum hans, og minnir hann þá mikið á Peter O'Toole í 'Lawrence of Arabia'. Aftur á móti sýndi O'Toole meiri dýpt í 'Lawrence' og líka í 'Troy' en Colin Farrell tekst að sýna í þessari mynd. Það er eins og hann skilji Alexander engan veginn. Þar að auki varð ég hundleiður á öllum þeim atriðum þar sem sífellt var verið að gefa samkynhneigð Alexanders í skyn, sem skipti í raun engu máli fyrir myndina fyrir utan það að hún varð bara enn langdregnari. Val Kilmer og Angelina Jolie sem foreldrar Alexanders. Right! Kilmer var eins og steingervingur og Jolie virtist vera í allt annarri mynd, kannski 'Kleópötru' með Elizabeth Taylor og Richard Burton? Ég á erfitt með að ímynda mér einhvern sem líkar við þessa mynd, það væri þá ekki nema einhver sem er nákvæmlega sama um gæði myndanna sem hann eða hún sér, og vill kynnast aðeins grískum goðsögum og hetjum. Mæli ég þá frekar með lestri Hómerskviðna eða einhverjum þeim mígrút sagnfræðirita sem til eru um Alexander mikla, sem var víst ekkert annað en skræfa með minnimáttarkennd og mikilmennskubrjálæði, samkvæmt Oliver Stone. Ég mæli með að fólk forðist þessa mynd bæði í bíó og í vídeó og horfi frekar á svona sæmilega mynd eins og Troy - sem er reyndar alls ekki góð - en samt mun betri en Alexander. Ég er í vafa um hvort ég eigi að gefa 'Alexander' 0 eða 1 stjörnu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Chronicles of Riddick
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það besta við 'The Chronicles of Riddick' er viðmót aðalpersónunnar gagnvart öllu. Honum er nákvæmlega skítsama um allt og alla á yfirborðinu, og hagar sér þannig að mestu, fyrir utan eina eða tvær undantekningar. Við eðlilegar aðstæður væri Riddick vondi gaurinn - morðingi sem svífst einskis til að fá sínu fram - en í myndinni eru ennþá verri gaurar sem hann þarf að takast á við. Ég meina - Riddick drepur kannski einn og einn - en heill her sem kallar sig Necromangers, eða tilbiðjendur svartagaldurs - ætla einfaldlega að leggja undir sig alheiminn og drepa alla sem vilja ekki ganga í lið með þeim. Það er tvennt frekar vont við þessa mynd, það er leikur flestra í aukahlutverkum, sem virkar frekar flatur og þunnur, á meðan tilefni var til að gera persónurnar mun dýpri og skemmtilegri - þar að auki fór kvikmyndatakan stundum í taugarnar á mér, en mér fannst óþarflega mikið um að vélinni væri hallað á asnalegan hátt til að kalla fram einhver hughrif. Slíkt virkar stundum á stóra tjaldinu, en aldrei í sjónvarpi. Tæknibrellurnar eru stórglæsilegar og gaman að því þegar Macbeth þemu eftir Shakespeare sjálfan er dælt í söguþráðinn. Í höndum betri leikara, og leikstjóra, hefði verið hægt að gera magnaðan stjörnustríðsþriller. Mæli með 'The Chronicles of Riddick' fyrir alla spennufíkla og sérstaklega þá sem hafa gaman af töffaranum Vin Diesel - en hann þykir mér bara ansi skemmtilegur í þessari mynd - en ekki fyrir þá sem búast við einhverju einstöku fyrirbæri. Þetta slær samt flestu öðru við sem finnst á DVD-leigum í dag.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Prisoner of Azkaban
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef lesið Harry Potter bækurnar fimm sem gefnar hafa verið út, og hef haft gaman af þeim öllum. Ég varð fyrir vonbrigðum með fyrstu myndirnar tvær, þó að þær hafi verið flottar og tæknibrellurnar glæsilegar. Eitthvað vantaði upp á persónurnar - mér þótti þær daufar og húmorinn sem var svo einkennandi í bókunum, virkaði frekar rembingslegur í myndunum. Chris Columbus, sá sem leikstýrði fyrstu tveimur myndunum, setti þó upp skemmtilegt andrúmsloft og undirbjó farveginn fyrir næstu myndir. 'Harry Potter and the Prisoner of Azkaban' finnst mér best þessarra þriggja mynda, en samt varð hún ansi hæg á köflum og fannst mér að klippa hefði mátt enn knappar en gert var. Fyrstu tvær myndirnar fylgdu bóknunum mjög náið eftir, en þessi nær hins vegar andrúmsloftinu mun betur. Tæknibrellurnar eru stórgóðar, leikurinn er fínn, persónurnar skondnar, sögusviðið skemmtilegt, tónlistin fín, en samt vantar eitthvað. Ætli ég hafi ekki orðið fyrir mestum vonbrigðum með Gary Oldman og leik hans. Hann uppfyllti sitt hlutverk, en einhvern veginn vonaðist ég eftir sterkari karakter. Það sama má segja um alla aðra leikara í myndinni - þeir voru einfaldlega að skila sínu hlutverki - og ekkert meira. Mér fannst vanta smá dirfsku og drifkraft í leikarahópinn. Það er samt tvímælalaust hægt að mæla með myndinni sem góðri skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Eternal Sunshine of the Spotless Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'Eternal Sunshine of the Spotless Mind' væri kannski hægt að skilgreina sem heimspekilega ástarsögu, þar sem velt er fyrir sér tengslum fortíðar við minni og ímyndun. Einnig vakna upp pælingar um hvort að allt minnið sé geymt í heilanum - þegar þú elskar einhvern, manstu bara eftir manneskjunni með heilanum einum? Aðalpersónurnar tvær eru svolítið týndar í samfélagi manna, en eru heiðarlegar og 'góðar', þau eiga í ástarsambandi sem virðist vera raunverulegt, þyrnum stráð og stundum erfitt; reyndar svo erfitt að það leiðir þær í ákvörðunartöku sem þau myndu bæði sjá eftir tækist þeim að muna hver þessi ákvörðun var. Hver einasta aukapersóna bregst trausti og misnotar sér aðstæðurnar sem skapast þegar þessar tvær manneskjur, Joel og Clementine, leita hjálpar þeirra. Þannig snýst myndin líka um það hversu erfitt getur verið að vera heiðarleg manneskja sem grunar engan um græsku, innan um fólk sem er nákvæmlega sama um almennt siðgæði. Valdís Óskarskóttir skeytti saman þessari mynd og tókst bara ágætlega til. Það hefur örugglega verið erfitt að raða myndskeiðunum án þess að þetta yrði of ruglingslegt fyrir áhorfandann. Leikarahópurinn er allt í lagi, mér sýnist að hvaða leikari sem er hefði getað tekið að sér hlutverk stjarnanna Jim Carrey, Kirsten Dunst, Eliah Wood og Tom Wilkinson. Hefðu fyrrnefndir leikarar staðið sig betur, og verið eftirminnilegri í hlutverkunum, hefði ég gefið myndinni fjórar stjörnur. Leikkonan sem heldur myndinni uppi er Kate winslet. Hún á stórleik eins og svo oft áður og seiðir til sín athyglina í hverju einasta atriði. Það besta við að leigja þessa mynd og horfa á hana með fjölskyldunni eru samræðurnar sem geta sprottið upp meðal fjölskyldumeðlima um þann aragrúa hugmynda sem spretta upp við áhorfið. Mæli með 'Eternal Sunshine of the Spotless Mind' fyrir þá sem vilja hugsa um lífið og tilveruna á ólíkan hátt um stund, og jafnvel lengur ef horft er á hana með góðum vinum, og gerð að umfjöllunarefni þegar henni lýkur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Once Upon a Time in the West
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þó að 'Once Upon A Time In The West' hafi verið gerð 1968 og sé orðin 36 ára gömul stenst hún fyllilega tímans tönn. Hver einasti karakter er flottur, og sviðsetningin, tónlistin og kvikmyndatakan. Það má taka fram að umhverfishljóð eru notuð af snillingnum Ennio Morriconi til að magna upp áhrif atriða, sett saman rétt eins og kvikmyndatónlist. Þetta er dæmigerð klassísk mynd og í besta skilningi þess orðs. Sagan er mjög einföld, en sögð með mjög spennandi stíl, þar sem ekkert er útskýrt og maður verður að geta í eyðurnar. Fátt er sagt í þessari kvikmynd, en þegar persónurnar missa út úr sér orð, eru það undantekningarlaust gullmolar. 'Munnharpan' mælir sér mót við hinn kaldrifjaða morðingja Frank. Í stað þess að mæta á staðinn sjálfur, sendir Frank menn sína til að taka á móti gaurnum og ganga frá honum. Þremenningarnir eru það vel kynntir til sögunnar að unun er að fylgjast með - persónur af holdi og blóði skapaðar með lekandi vatnsdropum og húsaflugu. Áætlun Franks fer ekki eins og hann vonaðist til, og 'Munnharpan' finnur leið til að nálgast Frank smám saman. Það er mikið um lestar á þessum stað í villta vestrinu, og snýst plottið að miklu leiti um samgöngur og sífellt hraðari boðskipti, og möguleikana sem felast í þeim. Hrein snilld. Allir aðalleikararnir eiga stórleik, en þar fer Henry Fonda fyrir liðinu, ásamt Charles Bronson og Jason Robards. Claudia Cardinale leikur svo húsfreyjuna heillandi sem sagan á eftir að snúast um, upp að ákveðnu marki. Arketípurnar eru skýrar: það er hetjan og verndarinn sem tilbúinn er að láta allt í sölurnar fyrir markmiðið, það er illmennið sem er kaldara en kaldasta hjarta, og svo er það kameljónið, og loks prinsessan. 'Star Wars' var haldið uppi af svipuðum persónum, og flestum af bestu sögum og kvikmyndum mannkynssögunnar hafa persónur í svipaðri stærðargráðu innanborðs. Þó að þetta sé bara hreinn og beinn vestri, hefur maður á tilfinningu að myndin sé um eitthvað margfalt meira og stærra. Mér datt í hug að verið væri að vísa í átök milli fasisma og frjálshyggju, og hversu mörkin milli þeirra getur verið óskýr, ef illmenni eru til staðar til að misnota sér völdin. Sergio Leone er þekktur fyrir að ná glæsilegum myndum af augum fólks, sem síðan er stillt upp gegn víðáttumiklu og stórfenglegu umhverfi og aðstæður sem snúast um líf og dauða, heiður og hefndir. Þessari mæli ég með. Þó skal vara við að hún er hvorki hröð né full af æsingi. Hún virðist full róleg á köflum, en spennan og persónurnar eru byggðar hægt upp, þannig að fyrir þá sem hafa athyglisbrest eins og algengt er í dag, þá þurfa þeir að geta setið á sér heldur lengi til að njóta myndarinnar út í þær ystu. 'Once Upon A Time In The West' er hrein og tær snilld sem enginn sannur kvikmyndaaðdáandi má láta framhjá sér fara. Að mínu mati besti vestri sem festur hefur verið á filmu, og þá er ég með snilldarmyndir eins og 'The Man Who Shot Liberty Valance', 'Unforgiven' og 'The Good, The Bad, And the Ugly' einnig í huga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fahrenheit 9/11
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'Fahrenheit 9/11' er áhugaverð heimildarmynd, sem er því miður mjög svo lituð af sterkum skoðunum Michael Moore, og finnst mér hún stundum vera meira um skoðanir og túlkanri Moore frekar en veruleikann sjálfan. Mér finnst ekki ólíklegt að Bush aðdáendur og repúblikanar hafi hagnast meira á þessari mynd fyrir kosningarnar, en annað. Áhugavert er hvernig forsetaferill Bush er rekinn, hvernig mótmæli blökkumanna og almennings voru ekki virt eftir kosningarnar í Florida, árið 2000. Áhugavert er að sjá venjulegt fólk í Írak rétt fyrir innrásina og svo 'Helvítið á Jörðu' sem verður til þegar hún er orðin að veruleika. Hvernig fólk hefur þjáðst vegna þessa stríðs. Hversu fáránlegt er að tengja saman Írak og Al-Queada samtökin. Ég er alls ekki hrifinn af Bush, en samt fannst mér gagnrýnin á hann oft missa marks. Til dæmis þegar hann er staddur í skólastofu með börnum, og hefur heyrt að gerð hafa verið árás á Bandaríkin; hvernig átti hann að bregðast við? Hefði hann átt að hlaupa út, upp í þyrlu eða glæsikerru, komast í símasamband sem fyrst og þykjast vera að gera eitthvað í málinu? Eða var það kannski ekki svo vitlaust hjá honum að sitja áfram og virða fyrir sér börn, og hugleiða fyrir framan börnin, í öruggu umhverfi, hvernig best væri að bregðast við? Michael Moore getur sér til um hvað Bush er að hugsa í þessari skólastofu eftir að hann hefur heyrt fréttirnar, en allar þær skoðanir eru kaldhæðnar og írónískar, og miðað við svipbrigði Bush var hægt að lesa úr andlitinu bæði miklar áhyggjur og umhyggju. Þetta atriði kom mér mjög á óvart, þar sem að ég hafði áður lesið um hversu asnalegur og gagnrýnisverður Bush var á þessu augnabliki. Ég er ósammála. Mér sýnist hann hafa haldið virðingu sinni og reynt að halda rónni. Vissulega kemur margt gagnrýnisvert fram, eins og skuggaleg viðskiptatengsl forsetans við Bin Laden fjölskylduna og upplýsingar um hversu gríðarlega hagkvæmt þetta stríð gæti orðið fyrir stórfyrirtæki með tengsl við repúblikana. Það finnst mér áhugaverðasti þátturinn, og í raun óþarfi að blanda svipbrigðum Bush - sem enginn getur ráðið í hvort eð er - við þá alvarlegu umræðu sem spilling í stjórnkerfinu er. Mér sýnist þessi mynd vera eins og hávær flugeldur sem því miður springur áður en hann nær flugi og slasar þá sem ætluðu að skjóta honum upp. En vissulega hefur myndin mikið skemmtigildi. Hún er faglega unnin og Moore er fyndinn gaur sem kemur skoðunum sínum skemmtilega ýtið á framfæri. Öfgar hans eru bara ekkert skárri en öfgar annarra, þó að gaman geti verið að þeim.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Final Destination 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'Final Destination' var splattermynd með Dauðann sjálfan sem morðingjann í stað Freddy Krueger, Jason, Leatherface, og allra hinna sem gaman hafa að því að stinga unglinga á hol og láta blæða á sem ógeðslegasta hátt. Hugmyndin er snjöll. Allir eiga að deyja einhvern tímann. Sumir hafa þá gáfu að geta séð fyrir hluti. Þeir geta komið í veg eigin dauða með því að hlíða fyrirboðunum á réttan hátt. Gallinn er sá að ef þú átt að deyja einhvern tíma og sleppur, þá verður dauðinn allt í einu frumlegur og tekur upp á því að drepa fólk á írónískan hátt. Semsagt, hann er grafalvarlegur náungi þegar einhver á að deyja, en þegar einhver sleppur undan honum, tekur hann upp á því að setja upp dauðagildrur fyrir fólkið: smá gálgahúmor hjá Dauða. 'Final Destination 2' er samansett á nákvæmlega sama hátt og fyrri myndin, nema að í þetta skiptið er lítið gert til að hafa dauðsföllin hryllileg, heldur snýst hún um að láta næsta atriði vera flottara en það síðasta. Dýpri er ekki myndin. Atriðin sem myndin snýst um eru reyndar mjög vel gerð, og ekki laust við að vera frekar fyndin, en mér tókst einfaldlega ekki að setja mig inn í líf persónanna eins og um lifandi manneskjur væri að ræða. Þetta eru allt næfurþunnar tvívíddarpersónur sem gegna engum öðrum tilgangi en að hlýða kalli handritsins og hugmyndaflugi höfundanna. Ef þú hefur gaman af hæfilega vitlausum splatter sem tekur sig alls ekki alvarlega, er þetta allt í lagi skemmtun. Ef þú ert hard-core splatter dýrkandi, haltu þig þá frá þessari, því hún er ekki ógeðsleg fyrir þá sem hafa byggt upp þol gegn slíku. Ef þú hefur hins vegar engan áhuga á að sjá limlestingar með miklu blóði á skjánum, finndu þér þá aðra mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
White Oleander
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'White Oleander' er hvorki frábær mynd né léleg. Hún fjallar um dóttur konu sem myrðir kærasta sinn, og hvernig glæpur móður hennar hefur djúp áhrif á allt hennar líf. Nokkrum klukkustundum eftir að móðirin hefur verið handtekin er bankað á dyrnar hjá henni og henni sagt að taka saman föggur sínar, en hún hefur aðeins fimmtán mínútur til þess og á nú að senda hana í fóstur. Myndin er kaflaskipt á svolítið afgerandi hátt. Þáttur 1: Líf Astrid með móður sinni, Claire, sem leikin er á mjög sannfærandi hátt af Michelle Pfeiffer. Samband þeirra tengir alla aðra þætti saman. Ég hef ekki séð þessa hlið á Pfeiffer áður, hún er reyndar hörð og grimm, svipuð Catwoman í Batman, þar sem hún geislaði af sér í svörtum latex-galla, margfalt flottari en Halle Berry fyrr á þessu ári. Önnur hlið á hennar karakter er skækja sem svífst einskis til að setja sjálfa sig í fyrsta sæti, sama hvað það kostar fólkið í kringum hana. Hún er ofurgreind en eigingjörn, spilar með líf annarra án miskunnar. Þriðja hlið hennar er þegar móðirin loks skín í gegn - hún er kannski illmenni, en samt býr eitthvað innan með henni sem kalalr fram það litla góða sem hún hefur yfir að bjóða - móðureðlið. Annar þáttur myndarinnar fjallar um fyrsta fósturheimili Astrid þar sem persónurnar eru vægast sagt mjög lítríkar 'frelsaðar' manneskjur með vandamál í bakgrunninum. Þriðji þátturinn fjallar um dvöl Astrid á fósturheimili þar sem hún kynnist loks strák sem henni líkar við. Fjórði þátturinn er stuttur en góður, þar sem Astrid lendir á fósturheimili hjá fyrrum kvikmyndastjörnu, leikinni af Renee Zellweger, sem sýnir á sér góðar hliðar. Þær Renne Zellweger og Michelle Pfeiffer eiga saman besta atriðið í myndinni, þar sem Pfeiffer rústar einfaldlega tilfinningalífi persónunnar sem Zellweger leikur. Í fimmta þætti er Astrid loks í uppreisn gegn móður sinni og samfélaginu, og gerir loks upp við móður sína. Efnislega er sagan mjög áhugaverð, en myndin er samt ansi misjöfn. Tónlistin fannst mér frekar væmin og atriðin kannski aðeins lengri en þau þyrftu að vera. Mér fannst vanta meiri drifkraft í myndina, en hún lítur út eins og heimildarmynd. Sumir kaflarnir voru mjög góðir, en aðrir bara sæmilegir. Ég á erfitt með að mæla með þessari mynd fyrir alla, en er samt nokkuð viss um að mæður hefðu áhuga á henni, og svo ég úthelli fordómum mínum: þetta er konumynd sem krefst tveggja og hálfs vasaklúts.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Punisher
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég sá 'The Punisher' á DVD í gærkvöldi. Ég hef verið misjafnlega hrifinn af kvikmyndum byggðum á Marvel teiknimyndasögunum. Á meðan mér fannst 'X-Men' 1 og 2 snilld, og 'Spider-man' 1 og 2 jafn mikil snilld, þótti mér 'The Hulk' ansi léleg og 'Daredevil ' einfaldlega hörmuleg. Í teiknimyndasögunum lenda Spider-man og The Punisher til dæmis oft í slagsmálum, enda er The Punisher drápsmaður en Spider-man verndari. Einnig hefur hann lent í einhverjum ævintýrum með Daredevil. Mér finnst heimur sögunnar passa vel inn í aðrar nýlegar Marvel myndir, þó svo að engir ofurkraftar, yfirnáttúrulegir atburðir eða stökkbreytingar eigi sér stað í þessari sögu. Þetta er einfaldlega hrein spennumynd þar sem aðalhetjan er samkvæmt formúlunni látin þjást af hendi illmenna af eins mikilli heyft og kvöl og hægt er að hugsa sér, og sem síðar hyggur á hefndir - reyndar segist Castle (The Punisher) að hann sé ekki að hefna, þar sem tilfinningalíf hans er dautt, segist hann einungis refsa. Söguþráðurinn er eins einfaldur og hugsast getur. Sonur mafíuforingja er drepinn í umsátri sem FBI snillingurinn Castle, sem talar reipbrennandi 6 tungumál og er sérfræðingur í hernaðarlist, hefur skipulagt. Mafíuforinginn kemst að því hver skipulagði framkvæmdina og hefnir sín á Castle. Castle kvelst. Castle snýr aftur með tonn af byssum og sprengjum. Hann segist ekki vera pirraður, ekki reiður, búinn að jafn sig eftir allt. Hann hefur breyst í vopn sem ræðst gegn öllum þeim sem réttarkerfið nær ekki yfir vegna spillingar og vanmátts. Refsarinn er einfaldlega böðull götunnar. Eins grunn og þessi saga er, þá er hún merkilega vel leikstýrð. Tónlistin er góð, og stíll spennuatriðanna er skemmtilega útfærður, oft með blöndu af Sergio Leone víðskotum sem stökkva í nærmynd og öðrum klassískum blæbrigðum á formúlunni. Leikur Thomas Jane er mjög góður, og sýnir hann nú aftur, eftir að hafa gert það einu sinni áður í hinni alltof vanmetnu 'Deep Blue Sea', að hann er klassísk hasarhetja. Þetta er hæfileikaríkur leikari sem mér sýnist verðugur arftaki hasarleikara eins og Bruce Willis, Clint Eastwood og Sean Connery. Kannski yrði hann góður James Bond? Hann er trúverðugur sem útsjónarsamt hörkutól, sem þó er ekkert ofurmenni. Skemmtileg mynd og óhætt að mæla með henni fyrir þá sem hafa gaman af hasar og spennu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Godsend
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hugmyndirnar að 'Godsend' eru nokkuð góðar. Það má segja að þetta sé hrærigrautablanda af myndum eins og 'The Sixth Sense', 'Freddy Vs. Jason' og 'Frankenstein'. Ég spilli engu með því að segja að sagan er um foreldra sem missa son sinn, en er boðið að klóna hann af snilldar vísindamanni, leiknum af Robert de Niro. Að sjálfsögðu fer allt úr böndunum, fyrir foreldrana, vísindamanninn, klónaða strákinn, kvikmyndina sjálfa og áhorfandann. Þó eru til einstaka atriði sem eru virkilega hrollvekjandi, en það er þegar fylgt er aðeins einni af hinum fjölmörgu hugmyndum sem skjóta upp kollinum. Ég hefði verið til í mynd þar sem strákur er klónaður eftir upp úr dauðum einstaklingi, og svo fer draugur þess sem dó að langa til að komast í líkama þess klónaða, með meðfylgjandi skynvillum og ótta fyrir þann klónaða. Þessi hugmynd skýtur upp kolli í myndinni, en því miður er alls ekki unnið úr henni. Klipping myndarinnar er það allra versta við hana. Greinilegt er að sums staðar hefur atriðum verið víxlað, til dæmis þegar vísindamaðurinn og móðirin eru að ræða saman, kemur hún með tilgátu frá eiginmanni sínum sem hann aðeins segir henni tveimur atriðum síðar. Annað atriði er þegar ein persónan er skilin eftir í brennandi byggingu nær dauða en lífi, og tveimur atriðum síðar birtist hún í margra kílómetra fjarlægð og kemur til bjargar. Frekar langsótt. Robert de Niro sýnir óvenju slakan leik, en sjálfsagt hefði myndin getað orðið mun betri í höndum hæfari leikstjóra og klippara. Ég þori líka að veðja að endinum hefur verið breytt til að þóknast áhorfendum, með hryllilegum afleiðingum. Það er margt betra á næstu leigu en þessi mynd.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blade Runner
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'Blade Runner' er gerð eftir smásögunni 'Do Androids Dream of Electric Sheep?' (Dreyma vélmenni rafrollur?) eftir Philip K. Dick. Kvikmyndin er drungaleg framtíðarsýn þar sem vélmenni eru notuð sem þrælar til að vinna í námum á ólíkum plánetum. Þessi vélmenni geta ekki lifað lengur en fjögur ár í senn. Nú gerist það að nýjustu útgáfurnar af þessum vélmennum taka upp á því að hugsa sjálfstætt, og þroska með sér tilfinningar eins og ást og þrá til að lifa. Þessi þrá til að lifa verður til þess að nokkur vélmennin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að framlengja eigin líf. Það kostar blóðug átök. Lögreglumaðurinn Rick Deckard (Harrison Ford) sem sérhæfir sig í að elta upp vélmenni á flótta er fenginn til að leita þau uppi og eyða þeim. Smám saman uppgötvar hann heim þessara nýju gerðar vélmenna, og þarf að takast á við undirstöðu trú sína um lífið og tilveruna. Ef mannkynið hefur búið til vél sem getur hugsað og fundið til, hefur manneskjan einhvern rétt til að útrýma þessum verum? Ef við höfum skapara, hefði hann þá fullan rétt til að kippa okkur úr sambandi þegar honum þóknaðist? Þetta eru svolítið skemmtilegar spurningar, og það að tekið sé á þeim innan um frumlega framtíðarsýn Ridley Scott, byssubardaga og eltingaleiki, gefur myndinni traustari grundvöll til meðmæla. Þetta er góð mynd, en ekki fyrir þá sem eru lítt hrifnir af drungalegum sögum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Magnolia
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þó að 'magnolia' sé ekkert sérlega skemmtileg mynd, þá gerir hún nákvæmlega það sem hún á að gera, og hún gerir það snilldarlega vel. Persónurnar í myndinni eru fjölmargar og hver einasta þeirra er mjög sérstök og litrík, og einhvern veginn tengjast þær allar. Tengingin er þó svolítið firrt og fjarlæg. Samkvæmt sögumanni eru engar tilviljanir til, og á áhorfandinn sjálfsagt að draga þá ályktun að lítil kraftaverk eigi sér stöðugt stað í heiminum, þrátt fyrir að tengsl fólks séu hugsanlega brengluð og slitin. Lítil kraftaverk eins og að sonur fyrirgefi föður sínum gamlar syndir, að móðir uppgötvar misnotkun á dóttur sinni og finnur leið til að nálgast hana aftur, snillingur gerir sér grein fyrir að gáfurnar eru ekki allt, heimskur maður uppgötvar að glæpir borga sig ekki, lögga uppgötvar að fólk er til fyrir utan ramma laganna, og svo framvegis. Í hverri einustu persónu myndarinnar á lítið kraftaverk sér stað, sem er sjálfsagt ekkert síðra en sú fegurð sem birtist þegar blóm magnólíunnar springur út. Reyndar gerist eitt kraftaverk í myndinni sem er alls ekki trúverðugt á nokkurn hátt, en það er notað til að undirstrika það að stundum gerast hlutir sem maður getur einfaldlega ekki útskýrt. Og þessir hlutir sem maður getur ekki útskýrt eru oft eitthvað sem leynist innra með manni sjálfum. Ljóst er að leikstjórinn, P.T. Anderson hefur gífurlega hæfileika sem leikstjóri og áhugavert að hann notar ekki stórt nafn eins og Tom Cruise til að slengja ímynd sinni áfram. Þvert á móti sýnir Cruise stórleik í sínu hlutverki og hefði mátt hirða óskarinn fyrir. Handritið er vel spunnið völundarhús sem krefst þess þó af áhorfendum að þeir leggi á sig smá vinnu til að átta sig á hlutunum. Fátt er útskýrt öðruvísi en ég litlum vísbendingum. Þetta er mynd sem hvetur fólk til að hugsa, og ekki ólíklegt að það leiði fólk sem horfir saman á myndina í samræður um trú og kraftaverk. Margar spennandi spurningar spretta fram eftir áhorfun, eins og: Hvernig ætli standi á því að svona margir hlutir ganga upp? Hvernig stendur á því að mörg lítil kraftaverk eiga sér stað á hverjum degi? Hvernig stendur á að við tökum þau sem sjálfsagðan hlut? Er þessum kraftaverkum stjórnað af einhverju eða einhverjum, eða erum við bara að fylgja lögmálum alheimsins í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur? Einnig er fjallað mikið um örlög, en á skemmtilega snúinn hátt. Í stað þess að gera ráð fyrir að örlög hverrar manneskju séu ráðin af einhverri guðlegri veru eða einhverju öðru, þá er stærsti örlagavaldur í lífi hverrar manneskju hennar eigin fortíð. Það er ekki fyrr en þú hefur tekist á við vandann í eigin fortíð að þú getur byrjað að mynda þér ný örlög, sem byggjast þá sjálfsagt á því sem þú ákveður á hverri stundu. Semsagt, heimspekileg, siðfræðileg og fagurfræðileg umræða getur notið góðs af þessari mynd. Ekkert sérstaklega skemmtileg, en djúp og áhugaverð fyrir þá sem hafa gaman af að spá í lífinu og tilverunni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Touching the Void
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'Touching the Void' er svolítið merkileg kvikmynd. Hún er leikin heimildarmynd, sögð af þeim sem upplifðu atburðina, þannig að aldrei leikur neinn vafi á að mennirnir komust lífs af. Spennan felst í einhverju allt öðru. Ensku fjallgöngumennirnir Joe Simpson og Simon Yates hafa merkilega sögu að segja sem tengist klifri þeirra á tind Siula Grande í Andesfjöllum Perú. Þeir höfðu hrikalega sögu að segja og var Simon Yates mikið gagnrýndur fyrir verk sín í ferðinni. Vini sínum til varnar skrifaði Joe Simpson söguna um það sem gerðist. Nú hefur hún verið kvikmynduð. Kvikmyndataka myndarinnar er mögnuð, og sagan er virkilega góð, en því miður þurfti leikstjórinn endilega að klippa inn í samtöl með viðeigandi talandi hausum í hægindastólum, sem kippti manni svolítið út úr atburðarrásinni. Hins vegar höfðu þessir menn margt gott að segja, og sérstaklega Joe Simpson. Heimspekilegar pælingar hans við erfiðar aðstæður minntu mig mikið á stóuspeki forngrikkja, og viskuna sem finna má í máli hans er djúp. Spekin er tengd þrautseigju, markmiðum, árangri, ótta, trú, hugdirfsku, og tengsl líkama og sálar; og svo mörgu öðru sem er áhugavert að pæla í. Skemmtigildi myndarinnar er kannski takmarkið, en lærdómurinn sem af henni má draga er merkilegur. Mæli með henni!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sky Captain and the World of Tomorrow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'Sky Captain and the World of Tomorrow' er mynd sem enginn sannur aðdáandi kvikmynda ætti að láta fram hjá sér fara. Hún er merkileg fyrir þær sakir að þetta er fyrsta kvikmynd leikstjórans Kerry Conran. Leikstjórnin, kvikmyndatakan og tæknibrellurnar eru hreint út sagt framúrskarandi á allan hátt. Handritið er hins vegar akkilesarhæll myndarinnar. Það er frekar klisjukennt og maður finnur aldrei fyrir raunverulegum háska eða tilfinningum aðalpersónanna. Hins vegar á Kerry Conran vonandi eftir að gera fleiri myndir og þá eftir handritum betri rithöfunda. Útlit myndarinnar er glæsilegt, og reyndar sýnist mér það tekið að mestu úr eldgömlu Superman teiknimyndunum sem gerðar voru á 4. áratug síðustu aldar af Dave Fleischer. Jude Law, Gwyneth Paltrow og Angelina Jolie standa sig öll vel í sínum hlutverkum, en virðast þó hafa orðið fyrir 'George Lucas áhrifunum' þar sem þau hafa líklegast leikið alla myndina fyrir framan grænt eða blátt tjald og þurft að ímynda sér ansi mikið til að geta leikið af sannfæringu. Gamall leikari sem er löngu horfinn á vit feðra sinna birtist einnig í myndinni, í stóru hlutverki. Óvenjulegt að löngu látinn Óskarsverðlaunahafi fái hlutverki í nýrri mynd! Sagan er mjög einföld. Vísindamaður er búinn að fá leið á siðmenningu samtímas, býr til þúsundir vélmenna til að vinna þrjótastörf sín, og setur í gang áætlun til að koma á endanlegum frið á jörðinni. Að sjálfsögðu þýðir sá friður nánast útrýmingu mannkyns, en það er bara aukaatriði. Húmorinn er nokkuð góður og gaman að horfa á myndina. Mæli með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Army of Darkness
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Til eru tvær útgáfur af 'Evil Dead 3', það eru 'Army of Darkness' og 'Bruce Campbell vs. Army of Darkness'. Til umfjöllunar hér er sú síðarnefnda. Eftir raunir Ash í fyrstu myndunum tveimur, þar sem hann fyrst þroskast úr venjulegum náunga yfir í skrýmslabana og í annarri myndinni úr skrýmslabana í hetju, ferðast hann um tíma og rúm, lendir í Englandi á 13. öld þar sem hann kynnist konunginum Arthur og gömlum vitringi sem gefur góð ráð (Merlin?). Bifreið, haglabyssa og vélsög Ash fara með honum í tímaflakkið. Í tilraun sinni til að opna aftur tímagáttina vekur Ash óvart upp her uppvakninga, þúsundir beinagrinda sem haga sér eins og hálfvitar. Það er mikill galsahúmor í þessari mynd og greinilegt að efnið var ekki tekið alvarlega. Hrollvekjuelementið er nánast algjörlega horfið og nú er einfaldlega fylgst með ævintýrum Ash þar sem hann þarf að berjast við nokkra uppvakninga, smærri útgáfum af sjálfum sér sem spretta úr brotnum speglum, og svo aðal illmennið, sem virðist vera hann sjálfur, nema bara ansi illur. Frasarnir í myndinni eru góðir og er Bruce Campbell án nokkurs vafa einn mesti töffari kvikmyndasögunnar. Þekktasti frasi myndarinnar er eflaust þegar Ash tekur upp afsagaða haglabyssu með annarri hendi, gerir sig reiðubúinn til að berjast gegn skrýmsli og segir: Come get some og skýtur síðan nokkrum kúlum úr haglabyssunni sem virðist vera sjálfhlaðin og með endalaus skot. Svo snýr hann byssunni í nokkra hringi, eins og Arnold í T2, og stingur henni í bakhulstrið. Tæknibrellurnar eru upp og ofan, en hugmyndaflæðið er mikið og skemmtilegt. Mjög skemmtileg mynd!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Evil Dead II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Evil Dead 2 er ekki framhaldsmynd í venjulegum skilningi. Hún er frekar lausleg endursögn á fyrri myndinni til að byrja með, sem segir ekki nákvæmlega sömu sögu, en hefur sömu aðalpersónu og fylgir henni áfram eftir óræðan endi fyrri myndarinnar. Ástæðan er einföld, leikstjórinn Sam Raimi hafði ekki rétt til að nota búta úr fyrri myndinni til að sýna hvað hafði komið fyrir áður, en upprifjunnar var þörf. Sjálfsagt hefur verið erfitt að kalla allt sama leikaraliðið aftur saman, og því var sagan einfölduð. Bruce Campbell snýr aftur sem Ashley, eða 'Ash' eins og hann er kallaður af bíógárungum. Eins og í fyrri myndinni þarf hann að takast á við afturgöngur og drauga, en með svolítið skemmtilegri stíl en áður. Á meðan 'The Evil Dead' var hrein hrollvekja, er 'Evil Dead 2' hrollvekja með miklum húmor og ævintýramennsku. Á meðan fyrri myndin var svona venjuleg hrollvekja, er seinni myndin orðin að hrollvekjandi goðsögu. Málið er að sagan er miklu ævintýralegri í seinni myndinni, kvikmyndatakan mun betri og þroski Ash merkilegri. Í þessari mynd finnur Ash 'Bók hinna dauðu' eða 'Necronomicon XMortis' sem Howard P. Lovecraft skrifaði um á sínum tíma, því má segja að ákveðin Cthulutilfinning sé í þessum myndum. En þessi bók er svolítið merkileg. Hún getur ekki aðeins kallað fram ill öfl úr myrkheimum, heldur getur hún einnig opnað leið gegnum tíma og rúm. Það skemmtilegasta við þessa mynd er hvernig skrýmslabaninni Ash úr fyrri myndinni þróast enn frekar og verður að mikilli bardagahetju, sem hefur vélsög á annarri hendi og framanafsagaða haglabyssu í hinni. Þekkt er að Ash er fyrirmynd einnar tölvuleikjahetju: Duke Nukem, og segir marga góða frasa í 'Evil Dead 2' og 'Evil Dead 3 - Army of Darkness'. Tvímælalaust hægt að mæla með þessari mynd. Hún missir hálfa stjörnu einfaldlega vegna þess að tæknibrellurnar eru í raun úreltar, en hefði vafalaust náð fjórum stjörnum þegar hún var fyrst gefin út. Stórfín mynd fyrir aðdáendur splattermynda og hrollvekja, og merkileg sérstaklega þegar skoðaður er ferill Sam Raimi, sem er reyndar furðulíkur Peter Jackson. Báðir byrjuðu þeir á ódýrum hrolli og splatter sem varð að 'költ' myndum, en eru án vafa meðal valdamestu kvikmyndaleikstjóra heimsins í dag. Kannski hrollvekjurnar innihaldi efnistök sem yfirfærast vel yfir í aðrar gerðir kvikmynda?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Evil Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Evil Dead þríleikurinn er gjörólíkur öðrum þríleikjum. Fyrsta myndin er hrein hrollvekja. Önnur myndin er grínhrollvekja sem endursegir fyrstu myndina og bætir við, en þriðja myndin er hrollvekjufantasía með tímaflakki og látum. The Evil Dead er eins og svo margar unglingahrollvekjur um fimm ungar manneskjur sem fara í ferð að afskekktum kofa. Jafnvel áður en þau koma á staðinn tekur einhver vera eftir þeim, við sjáum hana aldrei en hún brýtur sér leið gegnum skóga með miklum látum. Í kjallara kofans finna ungmennin hins vegar forna bók með kápu úr mannshúð og texta ritaðan úr blóði. Textinn er skrifaður á máli sem ekkert þeirra skilur, en fyrri eigandi hefur skilið eftir riffil og segulbandsupptöku. Þegar segulbandsupptakan er spiluð les rödd upp sérkennilegan texta, sem hræðir ungmennin og vekur til hreyfingar óvætti úr skóginum umhverfis þau. Þá hefst líka fjörið. Aðalhlutverkið er í höndum Bruce Campbell, sem af aðdáendum og honum sjálfum er oft kallaður 'The Chin' eða Hakan, en hann leikur einn úr hópnum, Ashley, sem þróast úr því að vera tilfinninganæmt góðmeni í skrýmslabana. Þessi breyting er það sem gefur myndinni mest skemmtanagildi. Samspil tónlistar og myndar er mögnuð, og ég mana þig til að stilla græjurnar hátt á meðan þú horfir á hana, og lækka ekki í þeim þó að það verði oft freistandi, því að á einstaka stöðum er spennan nánast óbærileg. Eitt atriði fannst mér sérlega vel útfært, en það er þegar Ash snertir spegilmynd af sjálfum sér. Myndin er sérstaklega áhugaverð fyrir kvikmyndaáhugamenn sem vilja skoða leikstjóraferil Sam Raimi, þess hins sama og slegið hefur í gegn með Spider-Man myndunum, en hann gerði The Evil Dead fyrir mjög lága upphæð. Leikararnir standa sig jafn vel og búast má við í svona mynd, en Bruce Campbell er glæsilegur. Þessi mynd er alls ekki fyrir viðkvæmar sálir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: Return of the Jedi
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Return og the Jedi er þriðja Stjörnustríðsmyndin. Hún byrjar snilldarvel á atriði þar sem Han Solo eru bjargað úr hrömmum glæpabarónsins Jabba the Hut. Eftir björgunina fer Luke og lýkur sinni þjálfun til þess að berjast að lokum gegn Darth Vader og keisaranum. Samskipti Luke við Darth Vader og keisaranna eru það besta sem myndin hefur upp á að bjóða. Á sama tíma fer Lando Calrissian fyrir miklu liði sem á að ráðast á nýja Dauðastjörnu, sem ekki hefur verið kláruð, en virkar samt. Han Solo, Leia og félagar fara hins vegar á plánetuna Endor til að taka varnarskjöld Dauðastjörnunnar úr sambandi svo að hægt verði að ráðast gegn henni. Sögurnar um Luke og Lando eru mjög vel útfærðar, og svo eru snilldarpunktar í sögunni um Han Solo og Leiu. Hins vegar finnst mér síðastnefndi þátturinn ekki jafn magnaður og hinir tveir, en sagan er þar frekar þunn og frásögnin frekar hæg. Það hefði verið hægt að klippa heilmikið úr þeim þætti sögunnar. Til dæmis standa Han Solo og Leia kyrr í inngangi neðjanjarðarbirgis í mjög langan tíma og verjast aðeins með því að skjóta á þá sem skjóta á þau. Þetta atriði var einfaldlega alltof langt. Tónlistin og hljóðblöndunin eru ennþá snilld og greinilegt hvers vegna ekki voru gerðar fleiri myndir með þessum leikurum og persónum. Samt stórgóð skemmtun með snilldartöktum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: The Empire Strikes Back
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar George Lucas gerði Star Wars hafði hann hugsað sér hana sem miklu stærri mynd en hægt var að koma fyrir innan tveggja klukkustunda. Hann gerði Star Wars úr fyrsta hluta handritsins, en hann gat engan veginn vitað fyrirfram um þær gífurlegu vinsældir sem fyrsta myndin hlaut. Hann hafði samið um greiðslur fyrir leikstjórn og handritsgerð fyrstu myndarinnar fyrir mjög lág laun, en hafði haldið réttinum að gerð framhaldsmynda, sem hann hefur ekki enn afsalað sér til þessa dags, enda reyndist vörumerkið 'Star Wars' vera gífurleg gullnáma. Eftir gerð fyrstu myndarinnar var George Lucas einfaldlega uppgefinn. Hann hafði lagt allt undir, rétt eins og aðalhetjurnar í myndinni og uppskorið vel. En átökin höfðu dregið mjög úr heilsu hans og treysti hann sér einfaldlega ekki til að leikstýra framhaldsmyndinni heilsunnar vegna. Því fékk hann til liðs við sig leikstjórann Irvin Kershner, sem áður hafði gert hina æsispennandi, The Eyes of Laura Mars, með Faye Dunaway, og sem síðar átti eftir að skilja eftir sig hina eftirminnilegu anti-Bond mynd, Never Say Never Again, með Sean Connery. Einnig fékk Lucas með sér sem handritshöfund Lawrence Kasdan, sem síðar átti eftir að skrifa handritið að Raiders of the Lost Arc og hefja sinn eigin leikstjóraferil. Plottið á bakvið The Empire Strikes Back er einfalt. Darth Vader vill útrýma öllum uppreisnarmönnum nema Luke Skywalker, og fá Luke á band með Keisaraveldinu. Darth Vader hefur uppi í erminni eitt eftirminnilegasta útspil kvikmyndasögunnar. En fyrst fer Luke í æfingabúðir hjá Yoda, 900 ára gömlum Jedi meistara. Á sama tíma eru Han Solo, Leia og félagar þeirra á flótta undan Keisaraveldinu, en tekst ekki að koma sér undan vegna kænsku mannaveiðarans Boba Fett, sem rekur ferðir þeirra til Skýjaborgarinnar sem Lando Calrissian er í forsvari fyrir. Tæknibrellurnar eru stórgóðar, og hinar ýmsu verur nokkuð vel gerðar, þó að maður sé nú fljótur að sjá að þetta eru bara brúður, en maður verður nú að vera tilbúinn að gefa eitthvað eftir í þeirri deildinni til að njóta myndarinnar til fullnustu. Þessi mynd er í alla staða frábært framhald af Star Wars og gefur fyrri myndinni ekkert eftir. Oft er sagt að hún sé betri en Star Wars, en ég er ekki á þeirri skoðun. Finnst hún hins vegar byggja stórvel á þeim heimi sem skapaður var með fyrstu myndinni. Jafngóð fyrstu myndinni!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: A New Hope
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

George Lucas gerði marga aðdáendur Star Wars myndina æfa þegar hann tilkynnti að hann ætlaði að gefa út Upprunalega Star Wars þríleikinn á DVD, en í breyttri mynd. Stærsta deiluatriðið snýst um hvort að Han Solo eða Greedo hafi skotið fyrst á barnum í upphafi myndarinnar. Í fyrstu útgáfum skaut Han Solo fyrst, en í síðari útgáfum skaut Greedo fyrst en framhjá (var aðeins í tveggja metra fjarlægð - atvinnumaður í mannaveiðum) og þótti mörgum sem að ákveðinn kraftur væri dreginn úr persónu Han Solo við þessa breytingu. Aðrar breytingar finnst mér góðar. Bardagaatriðin eru gerð skýrari, sviðsmyndin er stækkuð og bæði filma og hljóð hreinsuð til að myndin líti stórvel út. En aðeins um myndina sjálfa. Star Wars er þroskasaga Luke Skywalker sem dregst inn í borgarastyrjöld flestra pláneta stjörnuþyrpingarinnar. Sjálfur telur hann sig vera einfaldan sveitastrák sem vill láta til sín taka og hafa einhver áhrif í heiminum. Hins vegar veit hann ekki að fjölskylda hans býr yfir magnaðri sögu, sem tengist mættinum, afli sem gerir einstaka fólki fært að hafa áhrif á smæstu sameindir og stjórna þeim. Sagan er mjög einföld. Uppreisnarmenn hafa komist yfir teikningar af nýju vopni Keisaraveldisins, Dauðastjörnunni, og þurfa að koma þeim til stjórnstöðva uppreisnarmanna. Leia prinsessa felur teikningarnar í vélmenninu R2D2 og sendir hann ásamt siðatúlkavélmenninu C3PO til plánetunnar Dantooine, þar sem Luke á heima. Luke kaupir vélmennin og kemst um síðir að því að eigandi þeirra er Obi-Wan Kenobi, einfari sem býr í eyðimörkinni. Obi-Wan er að sjálfsögðu Jedi-riddari sem ákveður að koma teikningunum til skila og fær Luke með sér. Til að komast af plánetunni ráða þeir Han Solo og Chubakka til að smygla sér áfram. Þeir þurfa að yfirstíga mjög mörg vandamál, og eitt þeirra stærsta er að þegar þeir koma á staðinn, uppgötva þeir að miðstöðvum uppreisnarmanna hefur verið gjöreytt, og plánetunni Alderan með. Þrátt fyrir allt mótlætið taka hetjurnar á sínum málum og leggja allt í sölurnar gegn keisaraveldinu, og besta illmenni kvikmyndasögunnar: Darth Vader. Það væri hægt að skrifa endalaust um þessa einföldu, en samt margbrotnu og merkilegu mynd, sem ég sá fyrst sjö eða átta ára gamall í Nýja Bíói. Ekki má gleyma því að hljóðið í myndinni, tæknibrellur og tónlist eru hrein snilld. Myndin vann sjö óskarsverðlaun á sínum tíma og var meðal annars tilnefnd sem besta mynd ársins 1977, en þá vann mynd Woody Allens, Annie Hall. Að mínu mati var Star Wars besta mynd ársins 1977.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Kingdom of Heaven
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kingdom of Heaven kemur skemmtilega á óvart. Ef hún líkist einhverri annarri mynd sem gerð hefur verið þá er það helst El Cid þar sem Charlton Heston og Sophia Loren fóru á kostum. Orlando Bloom leikur aðalhlutverkið og skilar því af sér með miklum ágætum, samt fannst mér einstaka sinnum að ég væri að fylgjast með Viggo Mortensen úr Hringadróttinssögu, sem er alls ekki leiðum að líkjast. Það er skemmtilegt hvernig Ridley Scott hefur spunnið þroskasögu ungs manns við heimssögulega atburði, sem reyndar eru ekki sagnfræðilega nákvæmir í myndinni, en því skemmtilegri til áhorfunar. Tæknibrellurnar í stóru bardagaatriðunum eru álíka magnaðar og í The Two Towers, en þegar kemur að maður á mann, þá finnst mér of mikið af hristandi myndavél og digital blóði trufla frásögnina, en Gladiator návígin voru gerð á nákvæmlega sama hátt. Ef ég ber þessa mynd saman við aðrar nýlegar myndir í sama stíl, þá er þessi mynd fersk appelsína á meðan Alexander er rykfallin rúsína, Troy myglaður banan, Gladiator ágætt epli og Braveheart ávaxtakarfa. Það sterkasta við söguna er hversu vel hún á við það sem er að gerast í Írak, Ísrael og Palestínu í dag, og hvernig lausn á vandamálum hljóta að byggjast á því að meta líf manneskjunnar sem meira virði en dýrmæta hluti, hvort sem þeir eru heilagir í einhverra augum eða gróðastía í annarra. Sérstaklega skemmtilegur þótti mér Jeremy Irons, en hann var með takta eins og Scar í Lion King og nákvæmlega eins ör yfir andlitinu, en persónan var þó gjörólík. Mjög góð skemmtun sem ég mæli sterklega með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei