Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Meet the Fockers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skemmtileg mynd. Það er eiginlega einfaldasta og besta lýsingin á henni. Í myndinni eru engin leiðinleg eða langdregin augnablik, hún er ekki yfirfull af kjánalegum fíflalátum og endar ekki í væmni og mærð, þetta er einfaldlega gamanmynd eins og þær eiga að vera, skemmtileg og skapbætandi. Leikstjóranum hefur tekist að ná því besta út úr flestum stórleikaranna, hlutverk hinnar vanmetnu gæðaleikkonu Blythe Danner mætti reyndar vera bitastæðara og Dustin Hoffman fær kannski fullmikið frjálsræði á köflum til að fíflast, en Barbra Streisand og Robert DeNiro koma einstaklega vel út. Sú fyrrnefnda hreinlega geislar og rulla DeNiros er dásamlega vel skrifuð. Ben Stiller verður að fara að gæta sín að festast ekki endanlega í aulahlutverkum. Senuþjófarnir eru þó lítið barn og hundur, ekki orð um það meir. Á sýningunni var fólk á öllum aldri og virtist skemmta sér hið besta. Mæli með Meet the Fockers fyrir alla aldurshópa, hún svínvirkar í skammdeginu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Aviator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er enginn sérstakur Scorsese-aðdáandi og forðast t.a.m. mafíumyndir yfirleitt eins og heitan eldinn, en viðurkenni þó fúslega að hann er í hópi allra fremstu núlifandi kvikmyndaleikstjóra. Ég fór því eiginlega með hálfum huga á Aviator, viðbúinn því að mér myndi e.t.v. leiðast á köflum, ekki síst þar sem ég vissi að myndin var löng. En mér leiddist svo sannarlega ekki. Ekki eitt andartak. Myndin er feiknavel gerð, kvikmyndatakan og leikmyndin hreint stórvirki, og Leonardo DiCaprio, sem mér finnst varla hafa fengið verðskuldað hlutverk síðan í What's Eating Gilbert Grape, stendur sig firnavel í aðalhlutverkinu. Hann ER Howard Hughes. Cate Blanchett er aftur á móti ekki vitund lík Katharine Hepburn, en kerlingin sú var nú svo sérstök að vandséð er að nokkur leikkona gæti gert henni betri skil. Blanchett gerir sitt besta í erfiðu verkefni. Kate Beckinsale er heldur ekkert lík Övu Gardner, en verður þó einhvern veginn trúverðugri, kannski vegna þess að Gardner var ekki eins mikill furðufugl og Hepburn, en afar skemmtileg týpa engu að síður. Alan Alda er góður að venju og Alec Baldwin fínn. (Gaman að sjá Brent Spiner, Data úr Star Trek, bregða fyrir). Flugatriðin eru áhrifamikil og sömuleiðis atriðin þar sem fjallað er um geðveiki Hughes. Að mínum dómi er Aviator í hópi bestu mynda Scorsese, kannski vegna þess að ég er ekki heitur aðdáandi, kannski vegna þess að myndin er afskaplega aðgengileg þó að meistarinn slaki hvergi á í listrænum efnum. Mig langar í óbeinu framhaldi að benda áhugamönnum á myndina Melvin and Howard frá 8. áratugnum, þar sem Paul LeMat og Jason heitinn Robards leiða saman hesta sína, sá síðarnefndi í hlutverki miðaldra Howard Hughes. Ein af þessum litlu myndum sem kemur mörgum skemmtilega á óvart.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei