Gagnrýni eftir:
Hannibal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afhverju, afhverju í ósköpunum var Thomas Harris að skrifa aðra bók eftir Silence of the Lambs, og afhverju, afhverju í ósköpunum þurfti að gera mynd eftir þeirri bók? Ég er ekki að segja að Hannibal sé svona skelfileg, heldur það að það er enginn tilgangur í þessari mynd. Í fyrri myndinni, þeirri frábæru mynd, var skýr og greinilegur söguþráður og plott. Maður fékk gæsahúð af andlegum sálarkvölum yfir doktor Lecter, og kom út skjálfandi af hræðslu. Við gerð þessarar myndar, virðast þeir hinsvegar ekki þola neina sálfræðihræðslu, og draga þessvegna öll ógeðslegu atriðin upp - sem virkar ekki. Maður grettir sig kannski, það er ekki mjög geðslegt að sá andlitin rifin af fólki, en maður er ekki hræddur. Julianne Moore stens alls ekki samanburð við Jodie Foster í fyrri myndinni. Í Silence of the Lambs vildi maður virkilega að Jodie blessuð myndi nú lifa myndina af, en persónulega var mér eiginlega nokk sama um það hvort Julianne Moore væri drepin eða ekki. En það eru líka kostir við myndina, þó ókostirnir séu fleiri. Myndatakan er góð. Og manni leiðist aldrei - svo er fyrir að þakka hinum brilljant leikara Anthony Hopkins sem er frábær sem fyrr sem hinn fágaði læknir með sérstæðan matarsmekk. Ef Anthony Hopkins hefði ekki verið í þessari mynd, hefði hún hrapað gjörsamlega niður á núllpunkt, það er klárt. Semsagt. Hannibal fær tvær stjörnur, og 90% eru Anthony Hopkins að þakka. En ég vona innilega að þeim detti ekki í hug að gera þriðju myndina, þar sem Hannibal Lecter væri þá vafalaust búinn að brjóta sér leið inn í Hvíta húsið og éta forsetann. Og jafnvel Anthony Hopkins gæti ekki gert það sannfærandi.
Before Night Falls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er hrein synd að Before night falls, eða Antes de anochezca einsog skáldsagan sem hún er gerð eftir heitir á frummálinu, skuli ekki hafa náð sýningum í íslenskum bíóum. Það þarf alltaf tilbreytingu frá amerísku gelgjumyndunum. Ég er sammála því sem sagt er hér að ofan, að þetta er mynd Javier Bardem - hann stelur senunni. Aðrir leikarar eru samt yfirleitt góðir, og sérstaklega finnst manni stórskemmtilegt að sjá Johnny Depp sem klæðskiptinginn í fangelsinu. Ég hef ekki lesið bókina, ævisögu rithöfundarins Reinaldo Arenas, þannig að ég get ekki borið það neitt saman, en mér er sagt að hún sé fantagóð og enn betri en myndin. En semsagt, þetta er bara góð mynd, sérstaklega Javier Bardem, og myndatakan með ágætum. Ég hef ekkert meira að segja en gef henni þrjár stjörnur.
Little Nicky
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Æi, hún er ekkert sérstök. Það er pirrandi að horfa á heila mynd af Adam Sandler með andlitið lafandi út í aðra hliðina, plús það að söguþráðurinn og handritið og myndin yfirleitt er ekki upp á marga fiska. Harvey Keitel og Rhys Ifans, frábærir leikarar, ná ekki einu sinni að lyfta myndinni upp á meðalmennskuplanið. Aulahúmor, og ekki einu sinni fyndinn aulahúmor, fyllir þessa mynd, talandi hundur og grunaður steríótýpuhommi o.s.frv. Eyðið peningunum í eitthvað annað en Little Nicky.
Buena Vista Social Club
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Buena Vista Social Club er sannkölluð tónlistarmynd. Hún byggir á viðtölum við kúbanska tónlistarmenn (meðalaldur 75 ár) ásamt því sem við fylgjumst með þeim og tónlist þeirra. Það er ekki annað hægt en að heillast af þessu fólki, t.d. Ibrahim Ferrer, einum fremsta söngvara Kúbu, og Rubén Gonzalez, sem er meðal bestu píanóleikara í heimi. Myndin verður örlítið langdregin á stundum, helst um miðbikið, en seinni hlutinn er vafalítið bestur. Sérstaklega er gaman að fylgjast með tónlistarmönnunum í New York. Tónlistin er að sjálfsögðu í hæsta gæðaflokki, og ég mæli með geisladisknum úr myndinni, sem er samnefndur henni og heitir Buena Vista Social Club. Ég mæli með þessari mynd.
Íslenski draumurinn
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég tek undir þau orð hér að ofan að þessi mynd sé þannig að maður sé kannski ekki alltaf hlæjandi allan tímann, en maður hlær því meira inn í sig. Brandararnir eru á stundum lúmskir en mjög fyndnir. Leikur flestra leikaranna er mjög góður. Þórhallur Sverrisson er góður í aðalhlutverkinu, og Jón Gnarr er hreint út sagt frábær. Matt Keeslar er líka mjög góður eins og vænta mátti. Semsagt, fín mynd og gott innlegg í annars fátæklega kvikmyndagrínflóru Íslendinga. Sjáið hana!
What Lies Beneath
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bregðuatriðin eru það besta við þessa mynd. Maður hreinlega fær hjartaáfall í sumum þeirra. Það var mikið öskrað í salnum á meðan á myndinni stóð! Hinsvegar er endirinn frekar fyrirsjáanlegur og handritið ekkert snilldarverk þó það sleppi. En vegna þess hvað maður er gagntekinn og skíthræddur og taugaveiklaður á meðan maður er að horfa, tekur maður takmarkað eftir því hvort handritið sé gott eða vont, eða í rauninni neinu öðru en því að horfa á Michelle Pfeiffer ganga í gegnum hvern lífsháskann á eftir öðrum. Reyndar varð ég ekki vör við neina svefnerfiðleika eftir myndina, hún risti mig ekki sérlega djúpt. Hinsvegar er þessi mynd ekki fyrir fólk sem á yfirleitt erfitt með svefn eða er taugaveiklað á einhvern hátt! Það getur haft skelfilegar afleiðingar í fyrrnefndum bregðuatriðum...
Scary Movie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ókei, slappiði af, Scary Movie var EKKI svona góð. Það er að segja - hún er tiltölulega léleg. Hinsvegar er hún á köflum mjög fyndin og á ágæta spretti. Ég myndi segja að Shorty og eiturlyfjapartí morðingjans væru bestu brandararnir, plús kannski leikfimivörðurinn. En þó að það séu búnar til svona eftirhermumyndir þurfa þær ekki að vera fullkomlega algjörar eftirhermur. Það er nákvæmlega ekki vottur af frumleika í henni. Vonbrigðin hefðu samt ekki orðið svona stór ef myndin hefði ekki verið svona rosalega auglýst. Öllum bröndurunum var skellt í trailerinn og svo kom maður á myndina og það var ekkert eftir. Maður hefði skemmt sér betur ef maður hefði ekki búist við svona miklu. Ef þið eruð tilbúin til að slökkva á heilaframleiðslunni í einn og hálfan tíma þá er í lagi að fara á Scary Movie. En fólk siðmenntað og hefur virka heilaframleiðslu - EKKI!
La niña de tus ojos
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mjög góð mynd. Söguþráðurinn er fínn og leikararnir sérstaklega góðir, og þá má einkum nefna Penelopé Cruz. Göbbels er hæfilega ógeðslegur. Mæli með henni.
The Skulls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ekki hægt að hrósa hugmyndasmiðum The Skulls fyrir frumleika. Hinsvegar er allt ofsalega kúl sem viðkemur leynifélaginu í þessari mynd (það byggist auðvitað allt á böns af monní, þið vitið, þessir 322 styrktaraðilar...). Joshua Jackson sýnir ekki af sér neinn snilldarleik, en sálufélagi hans í leynifélaginu, sem er leikinn af Paul Walker ef mér skjátlast ekki, er skárri. Allt í lagi mynd til að taka á vídeó á letikvöldi, en ekki búast við of miklu.
Djöflaeyjan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Voðalega leiðinleg mynd með of miklum endurtekningum og jafnast ekkert á við bækurnar. Of mikil einföldun og of mikið gert úr röngum þáttum. Handritið er ekki gott en leikararnir standa sig yfirleitt ágætlega og sviðsmyndin er mjög fín.
Englar alheimsins
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bókin var meistaraverk - myndin líka. Kvikmyndatakan er mjög góð, tónlistin sömuleiðis (endalagið með Sigurrós á sérstakt hrós skilið). Ingvar E. var fínn í aðalhlutverkinu og Hilmir Snær sem Pétur, en upp úr stóðu Björn Jörundur og Baltasar Kormákur sem Óli og Viktor. Atriðið á Grillinu er allt að því betra en í bókinni. Örugglega með bestu íslensku myndunum til þessa. Toppmynd.
Little Voice
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mjög góð mynd, mjög mannleg og falleg. Allir leikarar standa sig sérstaklega vel, og tónlistin er frábær. Fyrsta flokks mynd!
Black Cat, White Cat
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hálfbrjálæðislegur en stórskemmtilegur farsi, í lengra lagi en alls ekki verri fyrir það. Svo gjörólík þessum Hollywood-gamanmyndum. Allir leikarar standa sig vel, en gömlu "frosnu" karlarnir tveir eru frábærir. Mæli eindregið með henni!
All About My Mother
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fín mynd, þó það sé svolítið ruglandi að einu persónurnar í myndinni sem athygli er beint að eru konur, í mörgum tilvikum lesbíur, og ef það eru ekki konur, eru það karlar sem vilja vera konur! Auðvitað frekar dæmigert fyrir Pedro Almodóvar, en skemmtileg tilbreyting frá horrengluríki bandarískra kvikmynda. Interesante!
Fucking Åmål
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fjórar stjörnur er alltof lítið! Þetta er mynd til að verða ástfanginn af. Hún er fyndin og skemmtileg og virkilega vel gerð, og eitthvað annað en þetta endalausa Hollywood-kjaftæði. Ég vona svo sannarlega ekki að Hollywood uppgötvi Fucking Amal því þeir myndu pottþétt vilja endurgera hana, sem myndi aldrei geta orðið annað en ömurlegt. Leikararnir eru fínir, og sérstaklega er bæði persónan Elín og stelpan sem leikur hana mjög mjög flott. Toppmynd.
Austin Powers: The Spy Who Shagged Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Austin Powers myndirnar eru þannig að það hefði átt að láta staðar numið við fyrri myndina. Mynd númer tvö er eiginlega bara endurtekning á bröndurunum úr fyrri myndinni, þó Mike Myers og aðrir leikarar standi sig yfirleitt ágætlega (og Dr. Evil sé að vanda mun skemmtilegri en Austin Powers sjálfur). En það eru tvær persónur sem gjörsamlega stela senunni og halda uppi myndinni, það eru Mini Me og Fat Bastard. Mini Me er lítið og stórhlægilegt fyrirbæri, og Fat Bastard er það ógeðslegasta sem Mike Myers hefur tekist að skapa. Sosum ágæt mynd, en væri lítilfjörleg ef ekki væri fyrir þessar tvær fyrrnefndu persónur.
Cruel Intentions
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ef þið eruð í hæfilega illkvittnu skapi er gott að taka Cruel Intentions. Ég er sammála því sem sagt er hér að ofan, fyrrihlutinn var miklu betri en seinnihlutinn. Það var yndislegt að horfa á stjúpsystkinin leikin af Sarah Michelle Gellar og Ryan Phillipe kvelja fólk eins og þau gátu með sínar illu fyrirætlanir, og leggja á ráðin um hvernig hin saklausa mey leikin af Reese Witherspoon ætti að verða afmeyjuð. En í seinnihlutanum verður myndin dæmigerð Hollywood-della. Það hvernig persóna Ryan Phillipe breytist gjörsamlega frá því að vera vond yfir í að vera góð er ósannfærandi og minnir helst á Disney-mynd. Hver klisjan rekur aðra og myndin endar í vonbrigðum. Myndin fær tvær og hálfa stjörnu fyrir fyrrihlutann, en seinnihlutinn dregur hana töluvert niður. En það má þá alltaf slökkva þegar myndin fer að verða væmin...
Life is Beautiful
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Yndisleg mynd. Bæði fyndin og sorgleg á snilldarlegan hátt. Leikurinn fínn, Roberto Benigni ef til vill örlítið of trúðslegur, en það skemmdi alls ekki. Á öll sín Óskarsverðlaun skilin.
Practical Magic
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Practical Magic er ágætis afþreying, en sver sig mjög í ætt við aðrar Hollywood-myndir, og ekki hægt að segja að hún komi mjög á óvart. Sandra Bullock er ágæt í myndinni, en sjálf var ég þó hrifnari af Nicole Kidman. Gömlu konurnar tvær voru þó enn betri. Semsagt; hin ágætasta mynd, en ef þið viljið sjá eitthvað nýtt og frumlegt er þetta ekki rétta myndin. Enda held ég að þessari mynd hafi aldrei verið ætlað að vera sérstaklega frumleg né á háu plani.
Mulan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Örugglega ein besta Disney-mynd til þessa. Bæði fyrir fullorðna, börn og unglinga, og hægt að horfa á hana aftur og aftur. Góð talsetning, og fín tónlist.
The Parent Trap
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The Parent Trap er úrvals mynd, sem ekki bara börn geta haft gaman af. Aðalleikkonan, sem leikur tvíburasysturnar, stendur sig með mikilli prýði, og allar aukapersónur eru ágætlega gerðar, sérstaklega breski brytinn og ameríska ráðskonan sem náðu saman í lokin. Mynd sem kemur ekki á óvart en er mjög skemmtileg, fyndin og vel gerð. Góð fyrir alla aldurshópa!
Sliding Doors
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ekki hægt að segja að Sliding Doors sé meiriháttar meistaraverk, hún skilur ekki mikið eftir, en hún er ágætlega unnin og voða sæt. Aðalkostirnir tveir eru aðalleikararnir, John Hannah og Gwyneth Paltrow. Myndin væri varla mikið án þeirra. Sæmilega vel heppnuð, lítil mynd sem gleymist fljótt en er ágæt afþreying.
There's Something About Mary
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mann verkjar í magann eftir þessa mynd. Atriðið þegar Matt Dillon reynir að lífga hundinn við með rafmagnslosti er það fyndnasta sem ég hef séð lengi. Flestir leikararnir standa sig með prýði. Semsagt; frábær mynd. Ef svo óheppilega vill til að þið hafið ekki séð hana - sjáið hana!