Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



The Brothers Grimm
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Úff, ógn og skelfing! The Brothers Grimm er einhver sú versta mynd sem ég hef á ævi minni séð. Það er sama hvert er litið, hún er bara slæm! Handrit, söguþráður, samtöl, karaktersköpun; þetta er allt hvert öðru verra.

Matt Damon, Heath Ledger, Monica Belucci; hvað voruð þið að hugsa? Hvernig í ósköpunum stendur á því að kvikmynd sem er svona mikil þvæla frá upphafi til enda, skartar þvílíkum stjörnuleikurum? Söguþráðurinn er algjör vitleysa, myndin stefnir ekki neitt og hefur afar takmarkaðan boðskap. Það þarf nú reyndar ekki endilega að þýða að myndin sé léleg, því maður getur oft skemmt sér ljómandi vel yfir alls konar vitleysu. En ekki yfir Brothers Grimm, því hún er bara einfaldlega hrútleiðinleg! Ég eyddi fyrsta klukkutímanum í það að líta á klukkuna og bíða eftir hléinu því mér leiddist svo ofboðslega. Myndin var svo uppfull af aulahúmor fyrir 6 ára að mér leið eins og ég væri að horfa á 10 ára gamlan þátt með Spaugstofunni. Þegar framleiðslukostnaður kvikmyndar er nálægt 90 milljónum dollara ætti nú að vera hægt að gera betur en það...

Myndin á að gerast seint á 18. öld í Þýskalandi, sem þá var hernumið af Frakklandi. Þjóðverjarnir fyrirlitu Frakkana sökum hernámsins, og Frakkarnir litu að sama skapi niður á Þjóðverjana. Það lýsir ágætlega þjóðrembingshátt og fáfræði Bandaríkjamanna að einkenni þessara stríðandi þjóða eru algjört klúður í myndinni. Þarna tala t.d. allir ensku, bara með mismunandi hreim. Eini sjáanlegi munurinn sem sýndur er á Þjóðverjum og Frökkum er síðan sá að þeir spila mismunandi tónlist!

Í þessari kvikmynd er að finna einn skelfilegasta karakter kvikmyndasögunnar. Það er Ítalinn Cavaldi. Cavaldi var fullkomnlega óþolandi á allan hátt, og ef ég hefði hitt þennan mann á förnum vegi hefði ég sennilega neyðst til að drepa hann. Hann var ekki fyndinn og hann var ekki sniðugur, bara óendanlega leiðinlegur. Svo var hann algjörlega tilgangslaus og ég skil bara engan veginn hvað hann var að gera þarna. Það var eins og leikstjórinn hefði ákveðið að bæta við einum auka karakter eftir að handritið var skrifað, svo hæfileikalausi frændi hans gæti fengið að vera með í myndinni!

Aðrar persónur voru líka óttalega leiðinlegar og tilfinningalausar. Ég veit eiginlega ekki ennþá hvort skógarkonan var skotin í öðrum hvorum bræðranna, eða hvort þeir voru skotnir í henni. Samt átti greinilega að vera einhver rómantík í gangi þarna, hún komst bara alls ekki til skila. Samband Grimm bræðranna átti líka að vera mjög dramatískt en það skilaði sér einnig frekar illa.

Æhh, ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að enda þessa gagnrýni. Ég hef reyndar aldrei skrifað svona áður, en þessi mynd var bara svo ofboðslega slæm að ég varð að segja eitthvað. Hún er kjánaleg, leiðinleg, barnaleg, illa leikin og illa skrifuð. Það eru nokkuð margar myndir sem lofa góðu að koma í bíó á Íslandi í janúar, og ég mæli með að þið kíkið frekar á einhverjar þeirra en á The Brothers Grimm.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei