Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Boðberi
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Á réttri leið... naumlega
Íslensk kvikmyndagerð hefur að mínu mati þroskast ákaflega lítið í gegnum árin en það hafa óhefðbundnar íslenskar kvikmyndir komið fram á síðasta áratugi(t.d. Börn og Astrópía) og Boðberi er ein af þessum óhefðbundnu íslensku myndum sem er að ýta iðnaðinum í rétta átt og upp úr stefnuleysi sem hefur hrjáð svo margar íslenskar kvikmyndir í gegnum tíðina. Boðberi hefur markmið frá upphafi en það sem dregur hana niður er að áhorfendum er meinaður aðgangur að lykilupplýsingum um átökin sem eiga sér stað milli ills og góðs þannig áhorfandinn er aldrei viss um hver hvöt persónanna er.

Darri Ingólfsson er án efa það besta í myndinni og veltur mest af Boðbera á honum því það þarf hæfan leikara til að geta haldið allri myndinni uppi og honum tekst það vel en það sama er ekki hægt að segja um aukaleikara myndarinnar þar sem þeir gamansömu virka best en þeir sem reyna að leika dramatískt bara tekst það ekki. Flestir aukaleikararnir -þá sérstaklega þeir sem koma fyrir aðeins einu sinni- standa sig svo illa að þeir eru hlægilegir en það eykur ósjálfrátt skemmtanagildi Boðbera.

Tæknibrellurnar eru ekkert til þess að hrópa húrra fyrir(ég lagði lófann við andlitið þegar ég sá green-screen brellurnar fyrir fréttastofu atriðin) en ég bjóst ekki við mjög fagmannlegum brellum þegar ég vissi hversu lítið fé fór í gerð Boðbera. Klippingin og kvikmyndatakan eru misgóð, hér á ferð eru margir sterkir punktar en í mörgum hasarsenum fara bæði faktorar niður á við. Það sem fór mest í taugarnar á mér var handritið sem hefði getað orðið betra hefði Hjálmar Einarsson lagt aðeins meiri hugsun í gloppurnar sem eiga sér stað og einbeitt sér meira að segja skíra sögu.

þó að Boðberi hafi ekki höfðað til mín mun ég samt segja að þetta sé skref áfram í íslenskri kvikmyndagerð en það væri hægt að gera miklu betur og sleppur Boðberi naumlega með fimmu í einkunnagjöf.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Toy Story 3
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Pixar toppa fyrrverandi Leikfangasögur
Leikfangasaga hefur fest sér rætur í hjörtu margra sem ólust upp á níunda áratugnum en hefur aldrei haft nein ákafleg áhrif á mig þó að ég kann vel að meta seríuna og skemmti mér konunglega yfir ævintýrum leikfanganna. Sú þriðja hafði samt sem áður meiri áhrif á mig og fannst mér eins og ég væri að kveðja gamla vini þegar myndinni var að ljúka.

Pixar hafa aldrei gert slæma kvikmynd og læra alltaf af þeim örfáu mistökum sem þau hafa gert, þetta er framleiðslu fyrirtæki sem er án efa með stórt hjarta og mikið af hæfileikaríku fólki. Hér er á ferð vel keyrð ævintýramynd sem skilur mikið eftir sig og fiskar tilfinningaleg viðbrögð aðdáenda seríunnar. Pixar er nú bara einfaldlega gallalaus gæðastimpill.

Húmorinn er ruglaðri en áður en einnig fyndnari og voru Pixar mjög skapandi með hvernig þau ættu að nota persónurnar til gamans og alvarleika. Spænski bósi er til dæmis ekki bara bráðfyndinn og sniðugt bergmál af persónugöllum hans í fyrstu tveim heldur virkar hann líka sem áhugaverð persóna og þróar meðal annars samband milli sín og óvæntrar persónu fyrir hann. Þegar brandararnir eru ekki bandbrjálaðir er grínið annaðhvort lúmskt og vel hulið eða eitthvað sem sést í bakrunninum sem ætti að veita Toy Story 3 mikið líf í spilaranum þegar hún kemur út á DVD þ.e.a.s. ef að pásutakkinn þinn ræður við alla snilldina sem leynist í þessum lokakafla.

Aukapersónurnar sem kynntar eru til leiks eru mjög litríkar og stórskemmtilegar og illmennið í þessari á sér mjög tragíska fortíð en fellur samt ekki í ákveðinn klassa af illmennum þar sem hann virkar ferskur út alla myndina og er ávallt einu skrefi á undan áhorfandanum. Leikararnir standa sig prýðilega eins og vanalega(hef bara séð ensku talsetninguna) og væri ekki hægt að búast við neinu verra frá Pixar.

Ef ég hef eitthvað á móti þessari mynd þá finnst mér hún eiginlega aðeins of væmin og allar aukapersónurnar taka frá svigrúm fyrir persónusköpun aðalpersónanna. Ég væri samt sem áður ljúga ef ég neitaði að hafa ekki fengið kökk í hálsinn við lok myndarinnar. Sjáðu þessa og ef þú hefur ekki séð fyrri tvær þá eru þær líka ómissandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Twilight Saga: Eclipse
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þolanleg en tilgangslaus
Twilight serían hefur fangað hug og hjörtu unglinga(þá sérstaklega af kvenkyninu) og er því serían nánast skotheld fyrir gagnrýni því aðdáendur munu sjá nýjustu myndina hvort sem hún fær lof gagnrýnenda eða ekki. Ástarþríhyrningurinn heldur áfram milli Bellu, Edwards og Jacobs en þessi átök hjá þeim hafa minna vægi í þetta skipti en í New Moon þar sem myndin byrjar og endar á sama punkti sambands þeirra þriggja.

Það sem er best við þessa í seríunni er að persónurnar í bakrunninum fá einhverja persónusköpun og hefur ekkert af þremenningunum fengið jafn mikla persónusköpun eins og aukapersónurnar Jasper, Rosalie. Þessar baksögur hefðu getað verið gerðar að stökum kvikmyndum þar sem þær eru mun áhugaverðari en aðalpersónur Twilight seríunnar.

Ólíkt fyrstu tveim myndunum í seríunni er þessi í höndum leikstjóra sem virðist skilja hvað aðdáendum finnst gott við Twilight og færir áhorfendum mun meira augnkonfekti(ekki manservice heldur betri framleiðslu fyrir kostnaðinn og stílfærðara útlit) og nær að kreista bærinlega frammistöðu úr aumkunarverðu aðalleikurunum. Önnur góð viðbót er Howard Shore sem semur tónlistina fyrir Eclipse, tónlistin er ekki mjög áberandi en þó betri en áður.

Það versta er náttúrulega að þetta er kvikmynd sem er alltof löng, skilar of litlu og er ennþá föst í að fylgja bókunum eftir eins mikið og hægt er. Þetta verður til þess að Bella er ennþá dæmigerð Mary Sue týpa, Edward hefur ekki ennþá persónuleika og Jacob er byrjaður að líkjast nauðgara í hegðun og samtölum. Það eina sem Bella og Edward tala um í myndinni er hvenær þau munu giftast og hvenær hann mun breyta henni í vampíru. Samtöl Bellu og Edwards eru þó aðeins hluti af þvinguðum setningum og samtölum sem koma fram í myndinni, ýmsar fléttur eru fyrirsjáanlegar langar leiðir og engin raunveruleg spenna er í gangi þar sem t.d. Alice getur séð í framtíðina og eyðileggur þar með alla brýnd sögunnar.

Það er engin ástæða til að sjá Eclipse nema þú sért aðdáandi seríunnar og það er ég svo sannarlega ekki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei