Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Blossi/810551
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eirðarlausu turtildúfurnar
Eftir mörg ár af eftirvæntingu og dulúð hef ég loksins fengið tækifæri til að sjá þessa hverfulu mynd sem virðist hafa gjörsamlega horfið af yfirborði jarðar eftir aldamótin. Skrítið hulstur ásækti mig alla tíð eftir að ég sá það fyrst þar sem það lofaði 'Íslandi morgundagsins' og var hrósað fyrir að vera framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna árið 1998.

Myndin fylgir hinum eirðarlausa Robba, hinni ekki-svo-saklausu Stellu og amerísku dópsala-stereótýpunni Úlfi. Eftir röð óheppilegra atvika klúðrar Robbi óvart dópsölu og neyðist til að flýja borgina undan Úlfi; það vill bara svo til að Stella þarf að slást í förina með honum. Þaðan leggja þau upp í stefnulausa skemmtiferð hringinn í kringum landið á meðan að óhjákvæmanlegt uppgjörið við Úlf vakir yfir þeim.

Hér er Júlíus Kemp að setjast í leikstjórastólinn í annað skiptið en að honum aðskildum hafa flestir, ef ekki allir, aðstandendur myndarinnar ekkert látið bera á sér eftir að hún var kláruð. Sem er í raun ekki svo mikil synd þar sem hún getur verið ansi kjánalega leikin en að vísu hafa sumir karakterana ákveðin sjarma við þá. Þar liggur helsti styrkur myndarinnar: Hve óstjórnleg og stefnulaus hún getur verið, en á sama tíma stílísk og einhvernveginn svöl. Hún minnir mig að miklu leiti á hina meistaralegu Fear and Loathing in Las Vegas.
Margt kemur til að skaða myndina, s.s. stífar frammistöður, vafasamlega valin tónlist og myndataka sem reynir að gera eitthvað flott en mistekst við og við. Hins vegar er (í raun) tilgangslausa ferðalag turtildúfnanna óneitanlega dáleiðandi og eftir svolitla stund dregstu inn í þennan skrýtna heim Íslands ársins 2000 þar sem Sigurjón Kjartanson skokkar Hringveginn, ekki-prestar þamba viskíflöskur og landið liggur flatt og hjálparlaust undir fótum tveggja uppreisnarmanna; eða eru þau uppreisnarmenn í þessum heimi?

Á tímum er erfitt að leiða hjá sér gallana en persónulega get ég ekki annað en dáðst að viðhorfi myndarinnar um það að við eigum að gleyma okkur í hinu óþekkta og njóta þessa stutta lífs sem við eigum. Robba og Stellu er sama; þá á okkur að vera sama.

7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei