Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



The Last Stand
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Gagnrýni: The Last Stand
Arnold Schwarzenegger, orðinn 65 ára gamall, gefur ekkert eftir í sinni nýjustu hasarmynd, The Last Stand. Kvikmyndin segir frá lögreglustjóra (Schwarzenegger) í litlum smábæ við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó, sem þarf að taka á stóra sínum þegar að eiturlyfjabarón sleppur frá lagana vörðum og hyggst flýja yfir til Mexíkó. Eina leiðin fyrir hann þó, ótrúlegt en satt, er í gegnum áður nefndan smábæ. Með ansi fáliðað lögreglulið þarf Arnold gamli að gera allt sem hann getur til þess að stöðva eiturlyfjabaróninn og glæpagengi hans. Hér er því um að ræða baráttu upp á líf og dauða þar sem okkar maður er, eins og nafn myndarinnar gefur til kynna, síðasta hindrunin og þar af leiðandi eina von löggæslunnar.

Hér er um að ræða einskæra hasarmynd sem reynir ekki að vera neitt annað en hún er. Hasaratriðin, með tilheyrandi bílaeltingaleik og skotbardögum, eru vel sett fram og uppfylla allar óskir áhorfandans. Það er ekki eytt miklu púðri í karaktersköpun eða boðskap en þess í stað er myndinni haldið uppi með hraðri söguframvindu og áður nefndum hasar. Þá er húmorinn aldrei langt undan og margar senur sem vöktu upp hlátrasköll meðal áhorfenda. Þó svo að öll athyglin sé á endurkomu Schwarzenegger er þó ekki hægt að líta undan einkar athyglisverðum aukaleikurum sem blása lífi í karaktera sína með skemmtilegum hætti. Einna helst stendur upp úr hinn litríki og reyndi aukaleikari Luis Guzmán, sem leikur ansi afslappaðan lögreglumann sem dregst inn í atburðarrásina með skemmtilegum hætti. Þá bregður stórleikaranum Forrest Whitaker fyrir sem yfirmanni leyniþjónustunnar en það má með sanni segja að myndin hagnist verulega á nærveru Whitaker sem gefur karakter sínum eins mikla dýpt og handritið leyfir.

Á heildina litið gefur suður kóreski leikstjórinn, Jee Won Kim, áhorfandanum nákvæmlega það sem hann kom til að sjá, óstöðvandi hasar frá byrjun til enda sem gefur hasarmyndum 9. áratugarins ekkert eftir. Söguþráðurinn er nokkuð fyrirsjáanlegur og klisjukenndur en það er auðvitað nákvæmlega það sem aðdáendur slíkra kvikmynda leitast eftir. Þeir geta því hallað sér aftur í sætunum og notið þess að sjá Arnold Schwarzenegger snúa aftur á hvíta tjaldið og slökkva í nokkrum óþokkum með miklum tilþrifum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gangster Squad
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Gagnrýni: Gangster Squad
Kvikmyndinni Gangster Squad hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu síðan að stiklur úr kvikmyndinni komu fyrst út. Ástæðan er einfaldlega sú að Gangster Squad er uppfull af stórleikurum á borð við Sean Penn, Josh Brolin, Ryan Gosling, Nick Nolte, Emma Stone og Giovanni Ribisi. Með þetta úrvalslið leikara og leikstjórann Ruben Fleischer (Zombieland) við stjórnvölinn voru væntingarnar því ansi háar.

Kvikmyndin, sem lauslega er byggð á sönnum atburðum, segir frá baráttu leynilegs lögregluliðs sem kallar sig „The Gangster Squad“ við glæpaforingjann Mickey Cohen og gengi hans sem hösluðu sér völl í Los Angeles í kringum 5. áratuginn. Í forsvari fyrir þetta leynilega lögreglulið er Sgt. John O'Mara (Josh Brolin) en hann kom heim úr seinni heimsstyrjöldinni og sá að borgin sín, Los Angeles, var ekki sú sama og þegar hann yfirgaf hana fyrir stríðið. Hann leggur því á ráðin með yfirmanni löggæslunnar (Nick Nolte) um að stofna umrædda leynilögreglusveit. Fyrri partur myndarinnar segir því söguna af því hvernig hann finnur, með hjálp konu sinnar, réttu mennina til að skipa lögregluliðið og berjast gegn glæpunum, spillingunni og óöldinni sem ríkir í borg englanna. Seinni hluti myndarinnar sýnir svo baráttu þeirra við glæpagengi Cohen og félaga með tilheyrandi fórnum og dramatík.

Það sem stendur upp úr í þessari mynd er einfaldlega Sean Penn en sá maður virðist bara ekki fá leið á því að leika betur en aðrir mótleikarar sínir. Það er algjör unun að horfa á hann túlka kaldrifjaðan glæpaforingja sem svífst einskis í valdabaráttu sinni. Það sem hins vegar skorti í þessari mynd var betra handrit en oft á köflum fékk þetta samansafn úrvals leikara úr litlu að moða. Þá var oft á tíðum erfitt að tengja við karakterana og þeirra raunir og undirrituðum var svona nokkurn veginn alveg sama hvernig myndin myndi enda. Aftur á móti, myndinni til góða, var atburðarrásin nokkuð hröð sem gerði það að verkum að athygli áhorfandans hélst allan tímann. Á heildina litið má segja sem svo að myndin komist hvergi nálægt stórkostlegum „gangster“ myndum eins og Godfather eða Goodfellas en hún reynir þó sitt besta og var, þegar öllu er á botninn hvolft, ágætis afþreying.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei