Gagnrýni eftir:
Gladiator0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Já þvílíkt stórvirki segi ég nú bara. Eftir frekar langt gúrkutímabil þá snýr Ridley Scott aftur með þetta þrekvirki í farteskinu. Það er eitt orð sem lýsir þessarri mynd og það er STÓR. Öll umgjörð er svo stórfengleg og yfirgengileg að það hálfa væri nóg. Það á ekki að fara á milli mála að Rómarveldi var á hátindi dýrðar sinnar undir styrkri stjórn Markúsar Árelíusar, sem Richard Harris lýsir alveg feiknar vel hér. Svona til að gera langa sögu stutta(og vera ekkert að ljóstra allof mikið upp um efni myndarinnar) þá standast allir leikararnir prófið með glans, og þó sérstaklega Russell Crowe sem Maximus og sá gamli jálkur Oliver Reed sem Proximo. Russell Crowe er hérmeð útskrifaður úr sumarmyndahetjuskólanum og það kæmi mér ekki á óvart þótt slegist yrði um hann næsta sumar, það gneistar svo af honum. Honum til fulltingis er þó Joaquin Phoenix sem hinn illi keisari(hmm, hvar hef ég séð þetta áður?) Commodus en hann á nú verðlaun skilið fyrir að túlka þetta hlutverk á svona æðislega slepjulegan hátt. Kvikmyndataka, hljóðvinnsla, klipping er allt til fyrirmyndar enda er engu til sparað, þó getur myndvinnsla í mestu hasaratriðunum valdið viðkvæmu fólki svima. Tónlistin er þó sérstaklega 'epísk' og viðeigandi og vil ég þakka Ridley Scott fyrir að hafa nýtt sér stórfenglega sönghæfileika Lisu Gerrard og fær myndin hálfa stjörnu bara út á það. En þegar allt kemur til alls sést hér að Ridley Scott hefur engu gleymt þegar kemur að því að festa meistaraverk á filmu, því er það mér sönn ánægja að geta eindregið mælt með Gladiator fyrir alla unnendur góðra kvikmynda.

