Gagnrýni eftir:
Baise-moi0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi kvikmynd lýsir á afar opinskáan hátt heimi vændis, eiturlyfja og ofbeldis. Nauðganir morð og djarfar kynlífssenur ættu að koma kvikmyndhúsagestum verulega á óvart og ég tel að fæstir sjái eftir aurunum á þessa óvenjulegu kvikmynd. Viðvangsefnið er undirmálsfólk og ömurlegt líf þess og er varla hægt að hugsa sér áhugaverðara þema. Kröfuharðari kvikmyndahúsagestir hljóta hins vegar að verða fyrir nokkrum vonbrigðum hafi þeir þá gert sér miklar vonir fyrir þessa jaðarkvikmynd. Kvikmyndin er nefnilega fyrir ýmsar sakir gölluð. Hún líður fyrir slakan leik, ótrúverðuga söguframvindu - oft á tíðum tilgerðarleg samtöl og umfram allt skortir hana dýpt. Hér er ljótleikinn sýndur eins og hann kemur fyrir sjónir höfundanna og verður á ýmsan hátt að taka viljann fyrir verkið. Þeim láist hins vegar að vanda grundvallaratriði almennrar persónusköpunar. Nándin við persónurnar er lítil, samúð með þeim hverfandi o. s. frv.. Kraftur myndarinnar felst í ögrandi framsetningu og vel heppnuðum kynlífsatriðum. Svona kvikmyndir eru að sjálfsögðu fagnaðarefni í því fábrotna kvikmyndaframboði sem einhverjir telja hæfa kvikmyndahúsasmekk og listþörf Íslendinga. Ættu jaðarkvikmyndir sem þessar að vera ávallt í boði sem og eldri úrvalsmyndir og er vonandi að Filmundur og önnur slík félög lifi sem lengst.

