Gagnrýni eftir:
A Beautiful Mind0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Um þessar mundir er verið að sýna kvikmyndina „A Beautiful Mind“ í bíóhúsum borgarinnar, með kappanum Russell Crowe í aðalhlutverki. Leikstjórinn Ron Howard er ekki að stíga sín fyrstu skref í þessum bransa því að hann hefur áður leikstýrt myndum á borð við „Parenthood“ og „Ransom“. Í þetta skipti tekur hann fyrir aðeins viðkvæmara efni, geðsjúkdóma. Það á vel við að frumsýna myndina núna þar sem geðdagurinn hér á Íslandi er einmitt í dag, þann 2. mars. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um stærðfræðisnillinginn og nóbelsverðlaunahafann John Nash.
Í upphafi leikur allt í lyndi hjá unga stærðfræðingnum. Hann á fallega konu og barn og hefur hlotið virðingu samstarfsfélaga sinna. Nash fær vinnu við að leysa úr leynilegum dulkóðum fyrir herinn. Nash er haldinn hinum ættgenga og erfiða geðsjúkdómi geðklofa. Þegar hann er á þrítugsaldrinum hefur geðklofasýki hans þróast vegna álags í vinnunni og er orðið nær óbærilegt fyrir aðstandendur hans að búa við þetta ástand. Nash er lagður inn á geðsjúkrahús og stefnubreyting á sér stað. Baráttan við veikindin eru löng og erfið. Myndin fer hægt í gang og það er ekki fyrr en eftir hlé sem að hún kemst á skrið og er þá áhorfandanum komið skemmtilega á óvart.
John Nash er haldin geðklofasýki. Það er oft erfitt fyrir okkur hin sem erum „heilbrigð“ að skilja hvernig svona sjúkdómar virka. Í myndinni „A Beautiful Mind“ eru ranghugmyndir Nash gerðar sýnilegar á skjánum á snilldarlegan hátt. Við fáum að kynnast sjúkdómnum á annan hátt, frá sjónarhorni sjúklingsins sem gerir það að verkum að við skynjum varla að Nash sé geðveikur. Áhorfendur fá miklu betri skilning á sjúkdómnum og fá að vita hvað það er sem gerist innan í hausnum á hinum sjúka. Nash lærir að lifa með sjúkdómnum án lyfjagjafar og lifir svo að segja eðlilegu lífi eftir það. Það er ágætis tilbreyting að horfa á mynd um geðveikan mann sem er ekki morðóður geðsjúklingur heldur venjulegur maður sem lifir með sjúkdómnum sínum þótt erfitt sé.
Ekki má gleyma að nefna afbragssgóðan leik Russells, enda tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Hann nær vel að túlka hinn einmana, ruglaða og varnarlausa Nash í veikindum sínum. Einnig er Alicia eiginkona Nash vel leikin af hinni ungu þokkadís Jennifer Connelly. Samband þeirra er falleg ástarsaga og þau passa einstaklega vel saman.
Þó svo að viðfangsefnið sé gott hefur myndin sína galla. Myndin spannar allt æviskeið Nash sem gerir það að verkum að það er farið hratt yfir sögu og stiklað á stóru ef svo mætti segja. Betra hefði verið að fjalla um styttra tímabil í ævi Nash til að ná dýpri persónusköpun. Myndin hoppar yfir stóra hluta undir lokin og við sjáum Russell Crowe eldast í hverju skoti með nýtt gervi framan í sér. Myndin er eins og fram kom áður byggð á ævi John Nash sem gerir það að verkum að við fáum mun meiri aðdáun á manninum en ef hann væri tilbúningur. Þess vegna hafði mátt sleppa að krydda handritið með Hollywood væmni undir lokin, maður verður klökkur alveg af sjálfu sér vegna aðdáunar á viljastyrk Nash.
Myndin hefur góða leikara, tónlist og leikstjórn en hún er sérstaklega góð fyrir þær sakir að hún fjallar um verðugt viðfangsefni sem er hér eru gerð ágætis skil.

