Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



A Beautiful Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg




Tengist snilligáfa geðveiki? Þetta er spurning sem hefur oft áður borið á góma og alltaf jafn áhugaverð að velta fyrir sér. Enn á ný er það gert, þó á nýstárlegri hátt en áður, í kvikmyndinni A Beautiful Mind sem var frumsýnd hér á landi 1.mars.

Myndin fjallar um stærðfræðisnillinginn John F. Nash (Russel Crow) sem þjáist af geðklofa en nær með rökhugsun og ótrúlegum viljastyrk að lifa með sjúkdóminum og öllum þeim ofskynjunum sem honum fylgja. Myndin hefst þegar Nash er rúmlega tvítugur við doktorsnám í stærðfræði við Princeton háskólann. Námið gengur allt út á það að koma með frumlegustu kenninguna og þ.a.l. að skara framúr og öðlast sjálfsmat sem Nash tekst á endanum. Hann er einfari og óheflaður í mannlegum samskiptum sem gerir það að verkum að hann á fáa vini fyrir utan herbergisfélaga hans Charles (Paul Bettany) sem reynist honum traustur vinur. Kenning Nash, sem veitti honum Nóbelsverðlaun 50 árum síðar, breytti hagfræðihugmyndum hins vestræna heims og fær hann umsvifalaust stöðu hjá MIT-tækniháskólanum og að ráða rússneskt dulmál fyrir Varnarmálaráðuneytið. Um þetta leyti kynnist hann verðandi konu sinni Aliciu (Jennifer Connelly) og allt gengur eins og í sögu. Á sama tíma verða leyniverkefnin, undir stjórn Parcher (Ed Harris), sífellt hættulegri og Nash ræður ekki við álagið sem endar með því að hann er lokaður inn á geðdeild og greindur með geðklofa.

Þegar hér er komið við sögu er allt eftir uppskrift þeirra í Hollywood og ekki heldur maður að miklu verði bætt við nema nokkrum vasaklútum og hjartnæmum endi í stíl. En ekki verður það raunin því að nú fáum við að fylgjast með Nash þar sem hann áttar sig á því að allt sem hann hélt, og áhorfendur líka, að væri raunveruleiki virðist nú aðeins vera lygi. Baráttan sem Nash herjar er átakaleg, sársaukafull og raunveruleg.

Þrátt fyrir mikil átök er myndin að mestu laus við væmni sem er aðdáunarvert miðað við efniviðinn, hún gefur okkur raunverulega sýn á þennan sjúkdóm sem svo margir þurfa að kljást við og færir okkur nær því að losa okkur við fordóma gegn geðsjúkdómum. Heiðurinn að þessu eiga handritshöfundurinn Akiva Goldsman og leikstjórinn Ron Howard. Leikur Russel Crow er sérlega góður, hann túlkar Nash af mikilli næmni og hefur einstaklega sterka nærveru sem gerir hann trúverðugan í hlutverki sínu, sömu sögu má segja um Jennifer Connelly sem leikur Aliciu, hún er hreint ótrúleg þessi leikona eins og sást í kvikmyndinni Requiem for a Dream. Tónlist James Horner er undurfögur eins er myndataka og klipping áhrifamikil og falleg. Aðrir leikarar standa sig með prýði og má þar sérstaklega nefna Ed Harris og Paul Bettany.

Falleg mynd sem gefur okkur þarfa sýn inní huga geðsjúklings þó svo að margir gætu farið að taka upp á því að lækna sig sjálfir sem ég held að sé ekki á allra færi, maður þarf sennilega að vera geðveikur til að vera snillingur eða öfugt. Fín hugmynd enda er geðveiki í tísku.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei