Gagnrýni eftir:
A Beautiful Mind0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Myndin „A beautiful mind“ í leikstjórn Ron Howards var frumsýnd hér á Íslandi 1.mars. Þá þegar var myndin orðin þekkt og viðurkennd af Hollywood akademíunni, hafði hlotið 4 Golden globe verðlaun og er líklegt að myndin og allir aðstandendur hennar fái fleiri verðlaun á Óskarsverðlaunahátíðinni sem bráðum fer fram. Sérstaklega er búist við því að aðalleikari myndarinnar, Russel Crowe, verði manna hlutskarpastur fyrir bestan leik í kvikmynd. Aðrir leikarar myndarinnar eru Jennifer Connelly, Ed Harris og Christofer Plummer.
Myndin, sem er sannsöguleg, segir frá stærðfræðisnillingnum John Nash. Myndin byrjar þegar hann er að hefja nám sitt í Princeton háskólanum. Nash er einkar mikill sérvitringur og á í erfiðleikum með að eiga eðlileg samskipti við fólk. Hann verður strax gagntekin af þeirri löngun að finna upp og gefa út einhverskonar stærðfræðiformúlu sem er frumleg og ný og á í mikilli baráttu við fræðin, sjálfan sig og félaga. Eftir örvæntingarfulla leit Nash að hans eigin frumlegu hugmynd dettur hans loksins niður á að afsanna 150 ára hagfræðireglu. Vegna þessa fær hann loksins viðurkenninguna sem hann þráði, væna stöðu við vísindastofnun og félagar hans trúa á gáfur hans og getu.
Svo er farið nokkur ár fram í tímann. Kalda stríðið er í gangi. Nash gegnir stöðu við tækniskóla og hefur verið fengin til að ráða í dulmálslykla frá Rússum í Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Þrátt fyrir að vera dulur einfari og oftast allt að því fjandsamlegur við fólk nær Nash að kynnast stúlku í skólanum og takast með þeim miklar ástir. Hann fær einnig leynilegt verkefni í varnarmálaráðuneytinu þar sem hann aðstoðar við að koma upp um rússnesk njósnasamtök sem áætla að koma kjarnorkusprengju fyrir í Bandaríkjunum.
Um það leyti sem að hamingjan virðist ekki geta orðið meiri hjá Nash vex þessu leynilega verkefni hans fiskur um hrygg og Nash kemst að því að hann er að vinna gegn harðsvíruðum glæpamönnum, sem vilja fátt annað en að koma honum fyrir kattarnef vegna hæfileika hans í ráðningu á dulmálskóðum. Við fylgjumst svo með baráttu Nash gegn þessari vá sem stofnar fjölskyldu hans í hættu, en einnig gegn sjálfum sér, því að hann kemst að því að fáum er treystandi, og þar er hann meðtalinn.
Myndin er dramatísk, fyndin og ljúf. Hún er frekar hæg, en heldur athygli manns og kemur á óvart. Flétta myndarinnar minnir um margt á Sixth Sense sem var sýnd hér á landi síðasta ár, en þar er áhorfandinn leiddur áfram inn í myndina og veit svo ekki hvað það er sem að hann á að trúa eða halda um persónur og atburðarrás. Eins er það í „A beautiful mind“. Þegar líður á myndina vakna með manni ýmsar grunsemdir um hvað það er í myndinni sem er raunverulegt og hvað ekki. (Þó að bíómyndir séu tæknilega séð aldrei raunverulegar). Áhorfandinn sér hlutina út frá sjónarhorni Nash og upplifir allt sem að hann sjálfur gerir, og á því erfitt með að draga hlutina, og Nash, í efa. Þannig er áhorfandinn settur í sömu aðstöðu og Nash finnur sig síðar í og tengir því betur við baráttu hans við umheimin og sjálfan sig.
Öll umgjörð í kringum myndina er góð. Myndin sjálf gerist á nokkura tuga ára tímabili og er skemmtilegt að sjá hve vel tekst til að túlka tíðaranda og einkenni hvers skeiðs. Myndatakan er klassísk og hógvær, engar hráar klippingar eða hraðar ferðir með myndavélina.
Russel Crowe stendur sig með miklum ágætum í myndinni. Hann gefur persónu sinni sérstök karaktereinkenni og túlkar og leikur hana á einkar trúverðuglegan hátt. Í raun stendur hann sig svo vel að hann nær ekki einungis að heilla áhorfendur með stórkostlegum leik og sjarma heldur tekst honum líka að láta stærðfræði virka áhugaverða og spennandi.
Helstu vandamál við myndina eru klisjukenndar og steríótýpískar persónur og aðstæður og ferlegar væmnar og ótrúverðugar ástarsenur. En myndin er engu að síður skemmtileg og áhrifarík innsýn í huga manns og líf hans með snilligáfu og geðsjúkdóm. Þegar búið er að skafa af helsta Hollywoodsmurningin stendur „A beautiful mind“ uppi sem falleg og skemmtileg mynd sem erfitt er að vera ósnertur af.

