Gagnrýni eftir:
A Beautiful Mind0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Um síðustu helgi var frumsýnd hér á landi kvikmyndin A Beautiful Mind í leikstjórn Ron Howards (Apollo 13, Ransom, Far and Away). Með aðalhlutverkið fer ástralski óskarsverðlaunahafinn Russell Crowe en í öðrum hlutverkum ber helst að nefna þau Ed Harris sem leikur útsendarann William Parcher og nýstirnið Jennifer Connelly sem fer með hlutverk eiginkonunnar Aliciu. Þessi mynd hefur verið tilnefnd til átta óskarsverðlauna og þar á meðal sem besta myndin.
Myndin byggir á sannsögulegum atburðum en hún segir frá ævi stærðfræðisnillingsins John Nash sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1994. Sögusviðið er Bandaríkin á þeim tíma sem ofsóknarbrjálæði er almennt ríkjandi meðal almennings og stjórnvalda þar sem hræðslan við kommúnismann og kjarnorkurstyrjöld fer stöðugt vaxandi. Á þessum tíma hafa einnig vísindamenn sannað með afgerandi hætti hernaðarlegt mikilvægi sitt í seinni heimstyrjöldinni.
Sagan hefst árið 1947, tveimur árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðið í uppsiglingu. Hinn félagslega hefti Nash (Crowe) er að hefja nám við Princeton-háskóla þar sem hann uppgötvar hina frægu hagfræðikenningu sína. Vegna þeirrar miklu viðurkenningar sem honum hefur hlotnast lætur varnarmálaráðuneytið senda eftir Nash til að ráða dulmál í sovéskum skilaboðum sem hafa komist í þeirra hendur. Í kjölfarið er Nash lenntur í vef samsæris sem leiðir til þess að hann fyllist ofsóknarbrjálæði og er að lokum settur á geðspítala þar sem hann er greindur geðklofi. Í baráttu sinni við sjúkdóminn nýtur hann dyggan stuðnings frá konu sinni Aliciu (Connelly).
Í myndinni er fléttað saman spennandi samsærissögu og ástarsögu. Áherslan er þó mestmegnis á þeirri síðarnefndu og þeim hjónabandserfiðleikum sem fylgja geðsjúkdómi Nash. En í lokin kemur í ljós að ástin er áhrifaríkasta meðalið sem skýtur öllum sljóvgandi lyfjameðferðum ref fyrir rass og ef um er ræða einhvern boðskap í myndinni þá er hann helst fólgin í því.
Myndin byrjar ágætlega þar sem aukapersónurnar eru kynntar til leiks en þær setja margar hverjar skemmtilegan blæ á söguna en þar ber sérstaklega að nefna herbergisfélaga hans í Princeton sem leikinn er af Paul Bettany en persóna hans lífgar mjög upp á myndina. Spennan er byggð upp á áhrifaríkan hátt þar sem áhorfandinn fylgir Nash í ofsóknarbrjálæði hans og verður álíka ruglaður og Nash um hvað sé raunverulegt og hvað sé ímyndun. Russell Crowe er í kunnuglegu hlutverki en hann lék mjög svipaða persónu í svipuðum aðstæðum í myndinni Insider og fékk fyrir frammistöðu sína þar líkt og nú tilnefningu til Óskarsverðlauna. Svona hlutverk virðist því Crowe ráða mjög vel við enda á hann að mínu mati þessa tilnefningu fyllilega skilið. Yfirleitt er leikurinn til fyrirmyndar í myndinni. Ýmis tæknileg atriði fannst mér mjög skemmtilega gerð og þá helst hvernig hinn snilldarlegi hugsunarháttur Nash var útfærður á tjaldið með sniðugum brellum eins og atriðinu þegar hann uppgvötar hagfræðikenninuna.
En eins og algengt er með myndir af þessu tagi sem virðast sniðnar fyrir óskarsverðlaun fer myndin versnandi þegar líður á seinni helminginn. Undir lokin var ég orðinn fremur óþolinmóður eftir fyrirsjáanlegum endarlokum sem fylgja vandlega eftir hádramatískri óskarsverðlaunaformúlu. En á heildina litið er þetta sæmileg mynd með góðri fléttu og fjallar hún um áhugavert efni. Hún fær frá mér tvær og hálfa stjörnu.

