Gagnrýni eftir:
The Contender
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Áður en ég felli dóm um kvikmyndina sjálfa get ég ekki látið hjá líða að bera fram kvörtun við Háskólabíó (þar sem Contender er sýnd) vegna þýðingarinnar. Hún er ekki góð. Það er hreinlega fyrir neðan virðingu Háskólabíós að bjóða áhorfendum upp á þessi vinnubrögð. (Dæmi: Skammstöfunin POTUS (President of the United States) er á einum stað þýdd sem "POST", sennilega með vísun í dagblaðið Washington Post. Fleiri (mun fleiri) dæmi mætti tína til um slæleg vinnubrögð. Annars er myndin ekkert sérstaklega leiðinleg, þökk sé afar sterkum leik þeirra Jeff Bridges, Joan Allen og Gary Oldman. Reyndar má segja að þessi mynd sé á vissan hátt eins og tveggja tíma útgáfa af sjónvarpsþættinum "The West Wing" sem nú er verið að sýna í Ríkissjónvarpinu. Og í þeirri samlíkingu liggur einmitt það sem ég tel vera höfuðgallann við þessa mynd: Hún reynir of mikið til að fá mann á sitt band, meðal annars með grunnri persónusköpun og klisjukenndum atriðum. "Vondi kallinn" er að sjálfsögðu Repúblikani (Oldman) sem lifir fyrir valdabrölt og er á móti konum, forsetinn er Demókrati, og jafnvel þó hann sé útsmoginn pólitíkus, þá erum við rækilega látin vita af því að hann hafi hjartað á réttum stað. Við eigum að trúa því að aðalpersónan (Allen) standi svo fast á sínum prinsippum - (að einkalíf stjórnmálamanna komi engum við - sem reyndar er hægt (og búið) að rökræða) - að hún sé jafnvel tilbúin til að láta rústa lífi sínu og orðspori fyrir það prinsipp, jafnvel þó hún hafi órækar sannanir fyrir "sakleysi" sínu. Og þegar við fáum að vita að hún hefur verið þingmaður og pólitíkus í langan tíma, þá verður þessi afstaða hennar enn ótrúverðugri. Atburðir síðustu ára tengdir forsetaembættinu og Clinton eru óspart notaðir í myndinni - og virðast raunar vera kveikjan að henni. Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum, rétt fyrir forsetakosningarnar, og þessi tímasetning virkar eins og myndin hafi átt að vera innlegg í þá umræðu sem þá fór fram, meðal annars um arfleifð Clintons. Og þegar tekið er tillit til þess að í myndinni er samúðin öll með persónum sem eru Demókratar, þá spyr maður sig óneitanlega hvort tilgangur hennar hafi verið að hafa áhrif á skoðanamyndun kjósenda.