Gagnrýni eftir:
Insomnia0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Insomnia er snilldargóð kvikmynd. Það ættu sem flestir að sjá hana. Það er sjaldgæft nú orðið að sjá kvikmynd sem er svo vel gerð og svo vel leikin, eins og Insomnia er. En það verður að játast að þessi mynd stenst allar mínar kröfur. Hún er allt þetta í senn, vel leikin, áhugaverð, spennandi, fyndin og listræn - myndatakan, þar sem stórkostleg náttúran fær að njóta sín, er frábær.
Það vekur einnig athygli mína að aðalframleiðendur myndarinnar eru George Clooney og Steven Soderbergh. Leikstjórinn, Christopher Nolan, leikstýrði kvikmyndinni Memento á eftirminnilegan hátt. Honum tekst nú enn betur upp, enda einvalalið með honum í verkinu. Al Pacino er mjög sannfærandi og Robin Williams kemur gjörsamlega á óvart, fylgist með honum.
Njótið!
Cast Away0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Cast Away er meistaraverk sem tekur á þeim spurningum sem leita á hug mannsins svo oft. Hvar enda ég ef ég fer til hægri frekar en til vinstri? Hvað gerist ef ég fresta því sem ég gæti gert í dag, til morguns? Við lendum svo oft á krossgötum í lífinu, þurfum að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem geta breytt öllu okkar lífsmynstri. Þessi mynd veldur því að maður fer að hugsa um þessa hluti og það er vel. Ég naut þess að horfa á myndina og velta söguþræðinum fyrir mér á eftir. Ég er sammála því sem annar "gagnrýnandi" sagði um það þegar tímalínan er rofin á klúðurslegan hátt í miðri myndinni, það var ekkert sniðugt. Ég var samt mikið farinn að spá í það hvernig þeir ætluðu að láta þetta ganga upp öðruvísi. Myndin er góð, vekur upp spurningar í huga manns um lífið og tilveruna. Það eiga góðar myndir stundum að gera. Þrjár stjörnur.

