Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Unbreakable
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í kvikmyndinni Unbreakable leiða aftur saman hesta sína leikarinn Bruce Willis og leikstjórinn M. Night Shyamalan sem stóðu að einni vinsælustu kvikmynd síðustu ára The Sixth Sense. Shyamalan, sem var óþekktur leikstjóri áður en The Sixth Sense náði almennri hylli, hlýtur því að hafa verið undir miklum þrýstingi þegar hann hófst handa við næstu kvikmynd sína og Unbreakable ber þess skýr merki. Það er ekki við hæfi að eyða miklu púðri í söguþráð myndarinnar, það myndi skemma fyrir væntanlegum áhorfendum, en í stuttu máli fjallar hún um mann sem kemst einn lífs (og ómeiddur) af úr lestarslysi þar sem 113 manns farast. Við taka spurningar um tilveruna, s.s. hvert hlutverk okkar á jörðinni sé o.s.fr.v. án þess að skilja að hún kafi of djúpt ofan í einhverjar heimspekilegar vangaveltur. Myndin leggur áherslu á einstaklinginn sem vegna sérstakra hæfileika sker sig út úr heildarmyndinni, ekki ósvipað og í The Sixth Sense. Í stað drengsins með skyggnihæfileikanna er kominn miðaldra öryggisvörður sem uppgötvar að hann er sterkari en gengur og gerist og þarf í framhaldi af því að gera upp við sig hvernig hann vill nota kraftanna. Hins vegar er þetta enginn hetjumynd eins og t.d. Superman eða Batman seríurnar, heldur leggur hún áherslu á mannlega þáttinn. Shyamalan notar ekki ýkja mikið af tæknibrellum sem er ánægjulegt á tímum þar sem allskyns brellur eru notaðar á kostnað annarra þátta t.d. söguþráðs og leiks. Hann leggur áherslu á persónur myndarinnar sem er ánægjulegt en er um leið helsti galli hennar, þar sem þær eru hver annarri litlausari hvort sem það er Samuel L. Jackson sem er ósannfærandi eða Robin Wright-Penn sem virðist óþörf persóna. Bruce Willis er að mörgu leyti að endurtaka hlutverk sitt úr The Sixth Sense sem hinn þungt hugsi maður sem veit ekki hvert líf hans stefnir. Styrkur myndarinnar liggur því helst í þeim spurningum sem hún skilur eftir hjá áhorfendum, en kannski stafa þær einungis af of hraðri úrvinnslu og þ.a.l. óteljandi lausum endum sem hefði þurft að hnýta til að myndi næði sömu hæð og The Sixth Sense.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
What Lies Beneath
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Aðdáendur hryllingsmynda takið eftir: Biðin er á enda, loksins er komin kvikmynd sem fær hárin vikrilega til að rísa. What Lies Benieth er ein best heppnaða hrollvekja sem hefur rekið á fjörur okkar Íslendinga síðan Sixth Sense tryllti áhorfendur víðsvegar um heim. Kvikmyndin er nokkuð í anda eldri Hitchcock-mynda, s.s. Psycho og Rear Window, sem skemmir ekki fyrir því tilvísanir eru alls staðar, allt frá skemmtilegri speglanotkun til tónlistarinnar. Því miður virðast margir gagnrýnendur ekki hafa áttað sig á því að eitt helsta skemmtanagildi myndarinnar felst í þessum tilvísunum, enda er það megineinkenni hrollvekjunnar sem listforms að hún vísar alltaf í eldri hryllingskvikmyndir. Þau okkar sem vitum betur, höfum gaman af því að sjá Michelle Pfeieffer berjast um í baðkarinu líkt og Janet Leigh í Psycho eða Harrison Ford arka um eins og Norman Bates í vígahug (persónan hans heitir sama nafni, by the way). Við vitum að handritið, gagnstætt skoðun fáfróðra áhorfenda og gagnrýnenda, sækir einmitt styrk sinn í því að stela og stæla eldri myndir, ekki ósvipað og Scream sem lék sér með form dæmigerðra unglingahrollvekja (slasher) hér um árið og sló í gegn. Scream hleypti nýju blóði í hrollvekjuna sem hafði slappast nokkuð niður á undangegnum árum, ef frá eru talin meistaraverk á borð við Bram Stoker´s Dracula og Event Horizon. Þótt What Lies Beneath komi í kjölfar mynda eins og Sixth Sense og Stir of Echos heldur hún fána draugamynda svo sannarlega á lofti og Robert Zemicks ber sýnilega virðingu fyrir viðfangserfninu. Það er hvergi til sparað við góðar tæknibrellur (sem er stillt í hóf ólíkt og t.d. í hinni misheppnuðu tæknibrellumynd The Haunting með Catherine Zeta-Jones), snilldarlega töku og þar að auki eru tvær af skærustu stjörnum Hollywood saman í einum pakka undir styrkri leikstjórn margverðlaunaðs leikstjóra. Það veður að segjast eins og er að Claire er besta hlutverk Pfeiffer síðan hún lék í tveimur gæðamyndum árið 1992: Batman Returns og Age of Innocence. Sem Claire fær Pfeiffer tækifæri til að sýna hvað í henni býr, allt frá því að vera móðursjúkt fórnarlamb í það að vera andsetið tálkvendi. Vonandi er þetta vísbending um að Pfeiffer hafi lagt mömmuhlutverkin á hilluna, sbr. Deep End of the Ocean, One Fine Day og Story of Us, og snúi sér að krassandi hlutverkum á borð við þetta. What Lies Beneath er engu síður hvalsreki fyrir Ford en Pfeiffer, því hann hefur mun mátt muna fífil sinn fegurri. Myndir á borð við Six Days and Seven Nights og Air Force One hafa dregið feril hans nokkuð niður, en í What Lies Beneath hlýtur hann hreinlega uppreisnar æru sem eiginmaðurinn með eitthvað óhreint í pokahorninu. Svo virðist sem Zemicks hafi náð að laða það besta fram úr þessum stjörnum, sem bera myndina uppi með öguðum leik sínum ásamt söguþræði sem gefur sig ekki út fyrir að vera sérstaklega frumlegur en er í hæsta máta skemmtilegur og á köflum mjög dularfullur og villandi. Að minnsta kosti tókst Zemicks að rugla mig í ríminu þótt ég hafi séð veggspjaldið áður en ég horfði á myndina. En framleiðendur hefðu átt að hugsa sig betur um áður en textinn var settur á veggspjaldið, hann gefur of mikla vísbendingu um söguþráð myndarinnar og eyðileggur þ.a.l. nokkuð fyrri hluta hennar. Að lokum: Ef þið eigið eftir að sjá myndina, 1) varist veggspjaldið og 2) ekki fara einsömul í bíó, það gæti orðið vandræðalegt að grípa í einhvern ókunnugan þegar spennan er að gera út af við ykkur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei