Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Sucker Punch
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ævintýri með dökkum undirtón
Myndin segir frá ungri konu sem sett er á geðsjúkrahús af stjúpföður sínum, sem hefur vægast sagt farið illa með fjölskyldu hennar. Í stað þess að vera geðsjúka stjúpdóttirin þá sér hún heiminn þannig að hún er munaðarlaus dansari í vændishúsi. Strax frá komu leggur hún á ráðin um flótta og fær í lið með sér nokkrar aðrar stúlkur á hælinu. Atburði myndarinnar sjáum við í gegnum framsetningu hugarheims hennar og áhorfandanum látið eftir að túlka hvað er að gerast í raunveruleikanum.

Sjónræn framsetning er ein af sterku hliðum Zack Snyder og mér fannst mjög áhugavert að sjá hann takast á við að búa til mynd sem er því sem næst ekkert nema myndlíkingar. Ég var mjög sáttur við útkomuna og því meira sem ég hugsa um þessa mynd eftirá því betri finnst mér hún. Og auðvitað klikkar Zack ekki á að hafa hasar atriðin ofur-svöl. Þetta er mynd sem hægt er að ræða lengi um og meira að segja titill hennar, Suckerpunch, sem í fyrstu hjómar bara til að trekkja að í hasarinn, hefur dýpri merkingu og tengingu inn í atburði hennar en maður áttar sig á í fyrstu. Frásagnarstíllinn og byrjun myndarinnar gaf tilfinningu fyrir því að um væri að ræða ævintýri, og eins og öll góð ævintýri þá hefur myndin undirliggjandi boðskap.

Fólk virðist hafa mjög skiptar skoðanir á þessarri mynd. En satt best að segja þá held ég að margir hafi hreinlega ekki skilið hvað þeir voru í raun að horfa á miðað við hvernig þeir rakka niður innihald hennar. Þá er ég aðallega að tala um þær gagnrýnisraddir sem heimta að myndin útskýri allt svart á hvítu í stað þess að tala undir rós og að þetta sé misheppnuð Inception eða Matrix eftirherma. Ég er ánægður með að hægt sé að koma mynd í gegn hjá Hollywood sem matar ekki allt ofan í áhorfandann og treystir honum til skilja vísbendingarnar sem hjálpa við að fylla inn í eyðurnar. Leti í fólki við slíkt er m.a. ástæðan fyrir því að hinir frábæru þættir Arrested Development voru teknir af dagskrá í USA. Hvað varðar líkingu við Inception og Matrix þá er myndin í fyrsta lagi ekki að búa til vídd inn í vídd, þetta eru mismunandi ímyndaðir heimar, einn er ekki inni í öðrum. Hér eru heimarnir ekki hluti af raun-sögusviðinu þar sem persónur get haft áhrif, heldur flóttaleið frá raunveruleikanum og það sem áhorfandinn sér er aðeins túlkun á hvað er í raun að gerast. Mér var frekar í huga myndir eins og Pan's Labyrinth og Brazil þegar ég var búinn að horfa á þessa mynd. Einnig segja sumir að vegna yfirkeyrðra hasar atriðana þá sé ekki hægt að flokka þetta sem alvarlega mynd, en við því ég segi bara: Afhverju ekki? Þetta gerir myndina bara góða á fleiri en einn hátt og myndin fær ákveðið nýnæmi við að blanda þessu saman.

Fyrir mér var þetta mjög vel heppnuð mynd sem virkilega sat í mér lengi eftir að ég kom út af henni, þar sem maður var stöðugt að átta sig á nýju hlutum í myndmálinu. Fyrir utan að það er sérstaklega áhugavert að kryfja hvernig hún endar. Ég gef þessarri mynd 9 af 10.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Salton Sea
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd má eiga það að það eru nokkrar góðar myndatökur í henni og Vincent D'Onofrio er frábær. Þar með held ég að það sé upptalið. Á einhvern hátt hefur hér tekist að búa til afskaplega leiðinlega mynd dulbúna sem eitthvað sem á að vera meistarastykki. Það er erfitt að benda á eitthvað sérstakt sem er leiðinlegt við hana, hún er það bara. Hún flýtur rólega áfram með eintölum hjá Kilmer inná milli sem missa algjörlega marks í að vera eitthvað skáldlegt og svalt. Allt andrúmsloft myndarinnar verður þess valdandi að þú er farinn að stara út í loftið og spá í hvort þú hafir nokkuð gleymt að hengja upp þvottinn og annað slíkt. Þessa einu stjörnu sem ég gef myndinni fær Vincent D'Onofrio.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
RoboCop
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einhverra hluta vegna hefur þessi mynd alltaf verið ein af mínum uppáhalds myndum. Ég verð aldrei þreyttur á henni. Það er bara eitthvað svo sérstakt við hana sem Paul Verhoeven hefur tekist að skapa. Eflaust spilar sú sérstaka sýn sem hann virðist hafa á framtíðina hvað varðar þróun samfélagsins og kemur ætíð fram í framtíðarmyndum hans eitthvað þar inní. Þessi mynd er yfirleitt flokkuð sem spennumynd og eru eiga jafnvel sum atriðin í henni (sérstaklega í director´s cut útgáfunni) frekar heima í splatter mynd. Hins vegar þá er reyndar áhugaverð og áleitin saga þarna á bakvið um hvort við séum eitthvað meira en bara líffæri sem hægt er að skipta um með vélbúnaði. Samkvæmt leikstjóranum sjálfum þá var það einmitt sá hluti sögunnar sem fékk hann til að gera þessa mynd, því áður en konan hans náði að pína hann til að lesa handritið þá var hann búinn að dæma myndina sem heimska vísindaskáldsögu og ætlaði ekki að taka tilboðinu um að leikstýra henni. Myndin er full af litlum vísbendingum um þessar hugleiðingar. Í ofanálag er myndin líka hörku spennumynd og er alveg hægt að horfa á hana sem slíka án þess að velta sér of mikið upp úr henni. Tæknibrellurnar hafa elst ótrúlega vel, það eru kannski óhljóðin sem ED-209 vélmennið gefur frá sér á köflum sem eru hálf asnaleg í dag. En ED-209 er fyrir löngu orðinn mýta hjá kvikmyndaáhugamönnum og því fyrirgefst honum allt. Í stuttu máli sagt frábær mynd sem er löngu orðin klassísk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Nikita
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Án efa ein besta mynd Luc Besson. Anne Parillaud leikur eiturlyfjafíkil sem er komið út úr eiturlyfjunum neydd til að verða leigumorðingi leyniþjónustunnar. Myndin er mjög spennandi og gífurlega dramantísk í köflum og er það einmitt dramantíkin sem leikstjórinn kemur svo rosalega vel til skila sem hefur mann í heljartökum allan tímann. Persónunar eru raunverulegar og ekki til snifsi af Hollwood í sköpun þeirra. Algjört skylduáhorf fyrir unnendur góðra kvikmynda. Alls ekki horfa á Bandarísku endurgerðina Assassin sem er skelfileg nauðgun að þessari snilldar mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cheers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Með frumlegri og úthugsaðri myndum sem ég hef séð lengi. Þetta er einstaklega vel heppnuð blanda af vísindaskáldsögu og draugasögu sem fær mann til að pæla í hverju einasta smáatriði sem ber fyrir augu og þá sérstaklega endinum. Jack Gyllenhaal er vægast sagt frábær í hlutverki Donnie Darko og stelur senunni frá öllum öðrum sem koma fram í myndinni. Það er ekkert nema gott hægt að segja um þessa mynd. Tónlistin hæfir myndinni fullkomlega og kvikmyndataka og leikstjórn eru til fyrirmyndar. Það mátti ekki miklu muna að ég skellti fjórum stjörnum á hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Big Trouble
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart með því að vera mun betri en ég bjóst við. Þetta er skemmtilegur farsi sem nær því að halda halda flugi alla myndina. Leikararnir skila sínu vel og gefur myndatakan myndinni áhugaverðan blæ. Ef verið er að sækjast eftir góðri afþreyingu þá er hiklaust hægt að mæla með þessari mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Escape from L.A.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyrir áhugamenn um B-myndir sem sáu undanfarann, Escape from New York, er þessi skylduáhorf. Karakter Kurt Russell, Snake Plissken, var svalur í Escape from New York og að sjá hann endurvakinn eftir að straumar og stefnur í kvikmyndagerð hafa breyst er algjör snilld. John Carpenter og Russell virðast gera í því að láta hann vera eins og í gamla daga sem gerir hann svo ægilega hallærislegan að maður getur ekki annað en skemmt sér yfir myndinni. Það liggur við að hann komist hringinn í hallærinu og manni finnist Snake vera orðinn svalur aftur í enda myndarinnar. Söguþráðurinn er hæfilega þunnur og er John Carpenter með puttana í tónlist myndarinnar eins og í öllum sönnum Carpenter myndum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei