Gagnrýni eftir:
Hafið0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
HAFIÐ.
Kvikmynd Baltasars Kormáks, byggð á leikriti Ólafs H. Símonarsonar.
Hafið, nýjasta myndin úr smiðju kvikmyndaleikstjórans Baltasar Kormáks var nýlega tekin til sýninga í öllum helstu kvikmyndahúsum landsins við góðar undirtektir viðstaddra enda hafa tölurnar þegar sýnt metaðsókn í bíóhúsin.
Undirrituð hafði beðið þess að sjá verkið með mikilli eftirvæntingu, því fyrri mynd Baltasars, 101 Reykjavík, hafði markað stórt spor fram á við í íslenskri kvikmyndagerð.
Það kom á óvart hversu margt ólíkt er með myndunum þó svo að báðar eigi það sameiginlegt að taka á rammíslenskum veruleika með grátbroslegum hætti. Í Hafinu eru tengsl ólíkra einstaklinga í brennidepli og fjallað er um fjöldsylduátök í litlu og jafnframt einangruðu íslensku sjávarplássi. Þegar höfuð fjölskyldunar, Þórður (Gunnar Eyjólfsson), boðar börnin sín heim í þorpið hefur hann ákveðið að tími hans til uppgjörs sé nú upp runninn. Börnin eiga ekki síður margt óuppgert við föður sinn og ýmis gömul, óútkljáð mál fá loksins að líta dagsins ljós. Atburðarásinni má líkja við suðupott sem byrjaður er að krauma og endar vitanlega með því að loks síður upp úr með miklum látum.
Það sem markar einna helst verkið er litrík persónusköpunin, tilfinningaskalinn sem allur er tekinn fyrir og ekki síst ímyndin sem leikstjórinn nær að skapa af litlu samfélagi sem þessu. Hér er valinn maður í hverju rúmi og persónusköpunin svo skýr að það verður hlægilegt á köflum. Guðrún S. Gísladóttir sýndi góða takta og var biturleikinn uppmálaður í hlutverki sínu sem dóttirin, Ragnhildur, og normaðurinn Sven Nordin var bráðfyndinn sem maðurinn hennar. Vert er einnig að nefna Þór Gunnar Jónsson sem var í öllu veigaminna hlutverki sem sonur þeirra. Hann sagði fátt en náði að túlka persónu sína frábærlega sem sem áhugalaus spilltur unglingur. Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld voru afar sannfærandi í sínum leik en Herdís Þorvaldsdóttir bar af sem Kata, amman á heimilinu, og var stórkostleg í hlutverki sínu.
Í Hafinu líkt og 101 Reykjavík er handritið byggt á samnefndum íslenskum bókmenntaverkum eftir þjóðþekkta höfunda og hefur þeim Ólafi H. Símonarsyni og Baltasar Kormáki tekist með glæsibrag að færa leikritið yfir í kvikmyndahandrit.
Söguþráðurinn er heilsteiptur og jafnframt flókinn á köflum, en þó aldrei svo að áhorfandinn tapi þræðinum.
Stílbrigðin og stemmingin í kvikmyndatöku eru einnig afar ólík fyrri mynd höfundar. Grófleiki einkennir mörg atriði og oftast er notast við einhverskonar gráma sem gefur sjávarplássinu enn eimdarlegri blæ.
Baltasar er greinilega óhræddur að fara nýjar leiðir í kvikmyndagerð og sýnir hér að hann er ekkert að staðna þrátt fyrir velgengni fyrri myndar sinnar.
Spennandi verður að sjá hvort að Hafið muni hljóta sömu lof og 101 Reykjavík annars staðar í heiminum og hvort að hún nái að ferðast eins víða og sú síðarnefnda.
Vera Sölvadóttir

