Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Troy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Magnþrungin saga Tróju hefur lengi verið vinsælt umfjöllunarefni, Ílýonskviður Hómers er endalaus uppspretta vangaveltna og pælinga. Saga Tróju hefur nú verið færð í glæsilegan kvikmyndabúning af leikstjóranum Wolfgang Petersen sem á að baki meistaraverk á borð við Das Boot, In the Line of Fire og The Perfect Storm. Segir frá valdaátökum milli Grikkja og Trójumanna sem skapast er Paris, yngri sonur konungins af Tróju, hefur ástarsamband við Helenu hina fögru. Leiðir sambandið til þess að Grikkir vígbúast og ætla sér að taka yfir Tróju með góðu eða illu, en það er eini staðurinn sem þeir ráða ekki yfir í Eyjahafinu. Í fremstu víglínu Grikkja stendur hinn dularfulli Akkiles sem telst án vafa einn mesti bardagakappi fyrr og síðar. En það er ekkert sjálfgefið í átökum, eins og sannast hér. Gríðarlega sterk og vönduð mynd sem skartar glæsilegum bardagaatriðum sem ættu að heilla alla kvikmyndaunnendur. Leikurinn er góður: Brad Pitt er flottur sem hinn einbeitti Akkiles, Orlando Bloom er glæsilegur sem Paris, Eric Bana mjög traustur í hlutverki Hector og Diane Kruger á sterka innkomu sem Helena hin fagra, ekki má svo gleyma Brian Cox sem er magnaður í hlutverki Agamemnon konungs. Flest fer vel til að skapa hina ágætustu kvikmynd: leikur, tónlist, tæknibrellur, klipping og handritið renna vel saman. Galli myndarinnar er lengdin, myndin er alltof löng og verður óttaleg meðalmennska því miður vegna þess og fleiri þátta. Helsti aðall myndarinnar er þó traust leikstjórn meistarans Petersen, sem enn og aftur sannar hversu snjall leikstjóri hann er. Undir hans stjórn verður Troy mikilfengleg en því miður ekki sú snilld sem að var stefnt og hefði getað orðið ef allt hefði fallið í rétt form. Samt sem áður er myndin hin ágætasta skemmtun og flestir kvikmyndaunnendur ættu að hafa gaman að henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Butterfly Effect
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vönduð og vel leikin spennumynd með hörkugóðu handriti. Segir frá Evan er býr einn með mömmu sinni, en faðir hans er á geðveikrahæli. Í æsku lendir Evan ásamt vinum sínum, þeim Lenny, Keyleigh og Tommy, í erfiðri lífsreynslu sem hefur mikil áhrif á líf þeirra. Hann á mjög erfitt með að horfast í augu við ákveðna hluti og þjáist af minnisleysi. Evan kemst að því að hann býr yfir þeim eiginleika að geta farið aftur í tímann og getur með því haft áhrif á marga hluti í lífi sínu og vina sinna. Að því kemur þó að hann hafi ófyrirséð áhrif á þá hluti sem best væri að hrófla sem minnst við. Góð mynd sem skartar Ashton Kutcher í aðalhlutverki, hann birtist hér í óvenjulegu hlutverki. Hann hefur hingað til verið þekktastur fyrir gamansamar myndir og sýnir hér á sér nýjar hliðar sem leikari og stendur sig vel. Að auki eiga Jesse James, Eric Stoltz, Melora Walters og Amy Smart góðan leik í sínum hlutverkum. Handritið er gríðarvel unnið og skemmtilega útfært. Útkoman er góð spennumynd sem óhætt er að mæla með. Það lærist þó af þessari mynd að aldrei ætti að reyna að storka örlögunum um of. Hvet alla til að sjá The Butterfly Effect, mynd sem kemur á óvart og allir sannir kvikmyndaáhugamenn ættu að njóta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Day After Tomorrow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hver myndu örlög mannkyns verða ef verstu spár rættust varðandi gróðurhúsaáhrif og hlýrri loftvinda um allan heim? Þetta er umfjöllunarefni nýjustu kvikmyndar leikstjórans Rolands Emmerich sem gerði tæknibrellumeistaraverkið The Independence Day árið 1996. Sú mynd fjallaði um árás geimvera að jarðarbúum er ætluðu sér heimsyfirráð. Rétt eins og hún er The Day After Tomorrow sannkallað tæknibrellumeistaraverk og er mjög líklegt að myndin fái óskarinn að ári fyrir tæknibrellurnar, svo gríðarlega vel eru þær gerðar og fléttaðar inn í söguna að ekkert annað orð en stórfenglegt á við. Hörmungum jarðarbúa samhliða náttúruhamförum vegna loftslagsbreytinga sem vísindamenn spáðu árið 2000 að gætu gerst seinnipart 21. aldarinnar, er lýst með meistaralegum hætti. Gallarnir við þessa mynd eru hinsvegar nokkrir og áþreifanlegir, handritið er veikt og ennfremur leikurinn að miklu leyti. Það hefði mátt standa betur að vali á sumum leikurunum, en uppúr leikarahópnum standa þó þeir Jake Gyllenhaal og Dennis Quaid auk Ian Holm sem stelur senunni í litlu hlutverki. Tónlistin er áhrifamikil og passar vel inn í myndina þegar spennan eykst. Fyrir þá sem vilja sjá áhrifamikið tæknibrellumeistaraverk er The Day After Tomorrow rétta myndin, enginn vafi á því.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
JFK
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eitt áleitnasta hitamál bandarískrar stjórnmálasögu á 20. öld er óneitanlega morðið á John Fitzgerald Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas í Texas, föstudaginn 22. nóvember 1963. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Að margra mati er sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Um þetta mikla hitamál var fjallað í kvikmyndinni JFK árið 1991. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á Kennedy forseta. Hann ákvað því að gera mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli. Er fátt meira viðeigandi nú í miðri kosningabaráttunni um valdamesta embætti stjórnmálaheimsins, forsetaembættinu í Bandaríkjunum, en kynna sér þetta umdeilda sjónarhorn á morðið á einum kraftmesta stjórnmálamanni Bandaríkjanna á 20. öld, sem hvarf af sjónarsviðinu með vofeiflegum hætti fyrir rúmum fjórum áratugum. Skylduáhorf fyrir alla unnendur stjórnmálasögu og úrvalskvikmyndagerðar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Lawrence of Arabia
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein er sú kvikmynd sem almennt er talin skyldueign fyrir hvern kvikmyndaáhugamann og er því eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Í Lawrence of Arabia er rakin saga hins goðsagnakennda landkönnuðar T.E. Lawrence, sem lést árið 1935. Hann hélt út í eyðimörkina í fyrri heimsstyrjöldinni sem breskur hermaður og náði að sameina Araba í stríðinu gegn Tyrkjum. Þetta stórglæsilega kvikmyndaverk David Lean er ævintýralegt í jafnt umgjörð sem innihaldi, frábærlega kvikmynduð, klippt, skrifuð og leikin og nýtur sín hvergi betur en á breiðtjaldi. Sögulegur stórmyndastíll leikstjórans er varla tilþrifameiri en í þessu verki, það er mjög listilega spunnið við hið smáa mannlega. Leikaraliðið er ekki af verri endanum með Peter O'Toole í sínu frægasta og langbesta hlutverki, en hann fer á kostum í hlutverki Lawrence og vann sinn stærsta leiksigur í þessu hlutverki. Meðal annarra stórleikara eru Sir Alec Guinness, Omar Sharif, Anthony Quinn, Claude Rains og José Ferrer. Var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna en hlaut sjö, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Lean, magnaða tónlist Maurice Jarré og kvikmyndatöku Freddie Young, sem enn er jafn stórfengleg nú og árið 1962. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá. Ráðlegg ég að horft sé á lengstu útgáfu sem mögulegt er að sjá, því lengri sem myndin er, því betra og heilsteyptara meistaraverk sérðu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Ladykillers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Coen bræður, Ethan og Joel, eru án nokkurs vafa snillingar í kvikmyndagerð og hafa sannað þá snilli í meistaraverkum á borð við t.d. Fargo, Raising Arizona, The Man Who Wasn't There, O Brother, Where Art Thou?, The Big Lebowski og Barton Fink. Óneitanlega er mikið verkefni að ætla sér að endurgera klassíska gamanmynd á borð við The Ladykillers, sem var gerð árið 1955, og skartaði í aðalhlutverkum, Sir Alec Guinness, Peter Sellers og Cecil Parker. Í flestum tilfellum sannast hin gullna regla að annaðhvort heppnast slík djörfung algjörlega eða mistekst hrapallega. Í endurgerðinni er sagt frá prófessornum G.H. Dorr sem leigir herbergi hjá Mörvu Munson, aldraðri konu í smábæ. Henni líst vel á hann, enda er hann nokkuð heillandi við fyrstu sýn. En það er ekki allt sem sýnist, enda er prófessorinn ásamt félögum sínum að undirbúa rán með því að grafa göng yfir í nálægt spilavíti sem þeir ætla að ræna. En brátt kemur þó í ljós að þeir mæta ofjarli sínum í leigusalanum, hinni öldnu Mörvu. Tom Hanks fer eins og venjulega á kostum í aðalhlutverkinu og ekki er Irma P. Hall síðri sem fröken Munson. Coen-bræður hafa markað sér þann stíl að í myndum þeirra er sagt frá skrautlegum karakterum og þar koma fyrir hin skondnustu atvik. Þeir hafa jafnan náð að laða fram hið besta frá leikurum sínum. Tónlistin er hér sem venjulega í myndum þeirra alveg fullkomin. Sem aðdáandi Sellers og Guinness og þ.a.f.l. gömlu myndarinnar verð ég að viðurkenna að ég var ekki sáttur við handrit myndarinnar og hluta úrvinnslu myndarinnar. Engu að síður er The Ladykillers hin ágætasta skemmtun fyrir bíóáhugafólk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Eternal Sunshine of the Spotless Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg kvikmynd sem hittir beint í mark. Segir frá Joel og Clementine sem hafa átt í stormasömu ástarsambandi sem endar með því að þau fara til læknis til að láta þurrka hvort annað út úr minni sínu. Að því kemur að þau hugleiða hvort þau hafi tekið rétta ákvörðun, enda þróast atburðarás í allt aðra átt en stefnt var að. Aðalhandritshöfundur myndarinnar er hinn einstaki Charlie Kaufmann, sem gerði handritin að meistaraverkunum Being John Malkovich og Adaptation. Hann fer hér á kostum við að segja sögu sem okkur er mjög kær, athygli áhorfandans er nú sem fyrr algjörlega á atburðarásinni, hann nær að fanga athygli fólks með kraftmiklum stíl sínum. Jim Carrey og Kate Winslet fara á kostum í aðalhlutverkunum. Winslet er glæsileg leikkona sem hefur sannað snilli sína margoft og enginn efast um að Carrey er einn öflugasti leikari samtímans. Þau túlka vel aðalpersónurnar. Elijah Wood, Mark Ruffalo, Kirsten Dunst og Tom Wilkinson eiga einnig góðan leik í myndinni. Valdís Óskarsdóttir klippti myndina og gerir það meistaralega vel. Þessi mynd er nálægt því að vera fullkomin, flestallt gengur upp: handrit, leikur, tónlist og úrvinnsla öll á heildarmyndinni er til mikillar fyrirmyndar. Eternal Sunshine of the Spotless Mind er skylduáhorf fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur, enginn vafi á því.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Prisoner of Azkaban
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Töframaðurinn ungi, Harry Potter er mættur þriðja sinni á hvíta tjaldið. Í upphafi myndarinnar býr hann enn hjá skyldmennum sínum, hinni mjög svo pirrandi Dursley-fjölskyldu. Brátt heldur hann þó á nýjan leik í Hogwart skóla. Bestu vinir hans Ron Weasly og Hermione eru þar sem fyrr. Lenda þau í miklum ævintýrum er spyrst út að Sirius Black hafi sloppið úr Azkaban fangelsinu og vilji Harry illt. Kemst Harry að því von bráðar að þar er um að kenna foreldrum sínum og Voldemort, hinum forna fjanda fjölskyldu sinnar. Stórfengleg og vel gerð ævintýramynd. Handrit Steven Kloves eftir þriðju bók J.K. Rowling er meistaralega gerð og heldur athygli áhorfandans allan tímann. Myndin er gríðarlega vel leikin: Daniel Radcliffe er að festa sig í sessi í hlutverki Harrys og Rupert Grint fer á kostum sem fyrr í hlutverki hins skemmtilega Rons. Emma Watson, Julie Walters, David Thewlis, Alan Rickman, Dame Maggie Smith, Robbie Coltrane og Emma Thompson eiga stórleik ennfremur í myndinni. Senuþjófurinn er þó hiklaust Gary Oldman í hlutverki Sirius, hann er magnaður leikari og tekst alltaf að stela senunni í hverri mynd og á flotta innkomu í þessu hlutverki. Michael Gambon er tekinn við hlutverki Dumbledore af Richard Harris, sem lést árið 2002. Glæddi Harris persónuna sínu lífi og er eftirsjá af honum, en þrátt fyrir að Gambon standi sig með ágætum fellur hann í skuggann af Harris. Hafa aðalpersónurnar þroskast mjög og vart hægt að tala um Potter myndirnar sem barnamyndir lengur, nú þegar söguhetjurnar eldast hefst mikið þroskaferli hjá þeim.Tónlist snillingsins John Williams á vel við eins og ávallt og sérstaklega fannst mér kóralagið sem hljómar í byrjunni áhrifamikið. Mexíkaninn Alfonso Cuarón stendur sig vel í leikstjórastólnum og gerir mun betur en Chris Columbus sem leikstýrði fyrri myndunum tveimur. Er um að ræða langbestu myndina í seríunni. Óhætt er að mæla með Harry Potter and the Prisoner of Azkaban við alla sanna kvikmyndaáhugamenn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spider-Man 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Köngulóarmaðurinn er mættur aftur á hvíta tjaldið, í öllu sínu veldi. Tvö ár eru liðin frá því hann bjargaði New York frá grænum púka, nú þarf hann að takast á hendur það verkefni að glíma við illan vísindamann sem hefur breytt sér í vélrænt illmenni. Í dagsins önn er Köngulóarmaðurinn hinn ósköp venjulegi Peter Parker, sem er algjör andstæða hetjunnar, feiminn og óttalega klaufalegur. Meðan Köngulóarmaðurinn nær árangri í að takast á hendur hvern glæponinn á fætur öðrum á Peter í mesta brasi með einkalíf sitt, einkum ástamálin. Hann er ástfanginn uppfyrir haus í Mary Jane, sem hann hefur þekkt til fjölda ára. Hann reynir allt til að vinna hjarta hennar. Að því kemur að hann þurfi að gera upp við sig hvort hann vilji vera Köngulóarmaðurinn eða Peter Parker, er Mary Jane er í þann mund að giftast öðrum manni. Stórfengleg ævintýramynd sem ætti að heilla hvern áhugamann um glæsilegar sögur með mögnuðum tæknibrellum, upp úr skónum. Sam Raimi stendur sig gríðarlega vel í að tryggja að hver hluti heildarmyndarinnar glansi. Allar tæknibrellur eru meistaralega vel úr garði gerðar, handritið er gott og tónlistin klikkar svo sannarlega ekki. Tobey Maguire fer á kostum í hlutverki ferils síns, að mínu mati og Kirsten Dunst er heillandi í hlutverki Mary Jane. Ástarsaga Peters og Mary Jane nær miklum hæðum vegna sterks samleiks þeirra. Ég hafði alveg virkilega gaman af þessari mynd, skemmti mér konunglega og hvet alla kvikmyndaunnendur til að skella sér í bíó og sjá þessa glæsilegu ævintýramynd. Það er svo sannarlega þess virði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shrek 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Græna tröllið Shrek snýr nú aftur á hvíta tjaldið, hress og glaður að vanda. Hann kætti alla kvikmyndaunnendur árið 2001 í drepfyndinni tölvuteiknimynd, sem sló hressilega í gegn. Framhaldsmyndin er stórfengleg að öllu leyti og gefur þeirri fyrri ekkert eftir. Í upphafi er Fiona prinsessa staðráðin í því að fara nú heim til foreldra sinna eftir að hafa verið bjargað úr prísundinni af Shrek og vinum hans í fyrri myndinni. Shrek er ekki alltof hrifinn af því að fara og hitta tengdaforeldra sína en lætur það eftir ástinni sinni. Faðir Fionu vill ekki sjá Shrek sem tengdason og sættir sig enn síður við að fallega dóttirin sé orðin að skessu. Ekki bætir það svo úr skák að Álfadísin hefur mikið tak á konunginum og hafði gert samkomulag við hann um að Fiona giftist Draumaprinsinum, syni sínum. Kóngurinn bregður því á það ráð að fá leigumorðingja, Stígvélaða köttinn, til þess að koma Shrek fyrir kattarnef. Málin þróast þó í óvæntar áttir og ekki fer allt eins og stefnt er að. Mike Myers fer sem fyrr á kostum í hlutverki Shrek, Eddie Murphy er kostulegur sem asninn og Cameron Diaz heillandi sem Fiona. En það er ekki á neinn hallað þó ég fullyrði að Antonio Banderas steli senunni í hlutverki Stígavélakattarins. Julie Andrews og John Cleese eru stórfengleg í hlutverkum konungshjónanna. Þetta er einstaklega góð mynd, viðeigandi fyrir alla fjölskylduna og þá sem unna góðum húmor og vandaðri kvikmyndagerð. Brandararnir ættu að hitta á réttar nótur hjá kvikmyndaáhorfendum, enda alveg einstaklega vel heppnaðir. Þeirra sem sjá Shrek 2 bíður heillandi og skemmtileg kvöldskemmtun. Ég mæli með henni við alla þá sem hafa góðan húmor og vilja skemmta sér vel á góðu kvöldi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Return of the King
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Lord of the Rings: The Return of the King er án nokkurs vafa besta myndin í trílógíu Peters Jackson um Hringadróttinssögu. Með þessari mynd er sögu J.R.R. Tolkien um föruneyti hringsins lokið. Sagan heldur áfram þar sem frá var horfið í The Two Towers. Upphafsatriði myndarinnar er bæði áhrifamikið og vel gert. Er síðast var skilið við Frodo (Elijah Wood) og Sam (Sean Astin) voru þeir á leið til Mordor undir leiðsögn Gollum (Andy Serkis). Fátt girnist Gollum meir en hringinn og reynir að koma af stað úlfúð á milli félaganna til að komast að hringnum. Beitir hann öllum brögðum til þess. Verður Sam þess áskynja að ekki er allt með felldu við Gollum og óttast að hann muni drepa þá, en spurning er hvort honum tekst að stöðva Gollum sem virðist hafa náð trausti Frodo og eyðilagt trúnaðarsamband hans og Sam. Hreint magnað er að fylgjast með sálarflækjum Gollums og undirferli hans á sér engin takmörk. Gott er til þess að vita að frásögnin af ferð þeirra til Mordor er mjög trú frásögn bóka Tolkiens. Á meðan þessu stendur fylgjumst við með orrustunni um borg Gondor, Mínas Tírith. Gandalf (Sir Ian McKellen), Gimli (John Rhys Davies), Legolas (Orlando Bloom) og Aragorn (Viggo Mortensen) hitta þá Merry (Dominic Monaghan) og Pippin (Billy Boyd) í upphafi myndarinnar. Sigrinum við Hjálmsvirki er fagnað í Edóras. Forvitni Pippins verður þess valdandi að hann fer með Gandalfi til Mínas Tírith. Þar er stórorrusta framundan. Á örlagastundu bognar Denothor, faðir Faramírs og Borómírs, sem þar ríkir, og missir vitið. Það kemur í verkahring Gandalfs að taka við stjórninni og verja Mínas Tírith og sækja að óvinunum sem ætla sér að taka þar völdin. Framundan er lokabaráttan í Hringadróttinssögu, þar sem allt er lagt í sölurnar. Þessi mynd hefur allt sem prýða má magnaða stórmynd. Leikurinn er alveg frábær. Elijah Wood er magnaður í hlutverki Frodo og túlkar vel örvæntingu hans nú þegar styttist í að hann nái áfangastað. Sean Astin vinnur leiksigur í hlutverki Sam og sannar í eitt skipti fyrir öll að hann er frábær leikari. Sir Ian McKellen tekst í þriðja skiptið að stela senunni í hlutverki hins trausta Gandalfs. John Noble túlkar vitfirringu Denothors af stakri snilld. Billy Boyd og Dominic Monaghan skila góðum frammistöðum í hlutverkum Merry og Pippin. Orlando Bloom er traustur sem Legolas. Andy Serkis túlkar sálarflækjur Gollums meistaralega. Síðast en ekki síst fer Viggo Mortensen á kostum í hlutverki Aragorns. Allir leikarar myndarinnar standa sig vel og tryggja að áhorfandinn verður hugfanginn. Tónlist Howard Shore er alveg frábær og kvikmyndataka Andrew Lesnie gerir það að verkum að þeir sem sjá myndina lifa sig inn í hana. Hvert smáatriði er úthugsað, hér er um að ræða meistaraverk í kvikmyndagerð. Meistarinn og sá sem stjórnar þessu vel unna verki er Peter Jackson. Hann hefur skapað eftirminnilegustu trílógíu kvikmyndasögunnar. The Return of the King er besta mynd trílógíunnar, betri en hinar tvær fyrri til samans. Hérna birtast eftirminnilegustu bardagasenur í kvikmynd, baráttan við Mínas Tírith er svo undursamlega kvikmynduð að leitun er að betri bardagsenu í kvikmynd til þessa. Hér eru allir lausir endar fyrri myndanna bundnir saman. Útkoman er mynd sem stendur uppúr í kvikmyndagerð seinustu áratuga. Besta kvikmynd ársins 2003 - en jafnframt svo miklu meira en það. The Lord of the Rings: The Return of the King er besta kvikmynd sem ég hef séð í kvikmyndahúsi. Hún á ef eitthvað réttlæti er til í þessum heimi að hljóta óskarsverðlaun sem besta kvikmynd ársins. ROTK er ein besta kvikmynd sögu kvikmyndanna. Meistaraverk í úrvalsflokki. Þeir sem ekki sjá þessa í bíói munu sjá eftir því alla sína ævi. Meistarasmíð í kvikmyndagerð eins og þær gerast allra bestar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Pianist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Meistaraverk frá leikstjóranum Roman Polanski, persónulegasta mynd hans á ferlinum og sú besta hingað til. Áður á hann að baki úrvalsmyndir á borð við Rosemary´s Baby og Chinatown. Tilnefnd til sjö óskarsverðlauna þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Hlaut þrjá óskara, fyrir leikstjórn, leikara í aðalhlutverki og handrit byggt á áður útgefnu efni. Hér fetar Roman Polanski aðra slóð en áður á ferli sínum. Efni myndarinnar eru hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Sjálfur upplifði hann þessar hörmungar og litlu mátti reyndar muna að hann léti lífum í þeim hildarleik öllum. Hér segir frá ótrúlegu lífshlaupi pólska píanóleikarans Wladyslaw Szpilman (Adrien Brody) og hvernig honum, með dyggri aðstoð pólsku andspyrnuhreyfingarinnar og ennfremur tilviljun og hreinni heppni tókst að leynast fyrir nasistunum meginhluta stríðsins 1939-1945. Myndin fjallar um hernám Póllands 1939 og hvernig nasistar fóru með Pólverja í stríðinu, niðurlægðu þá og sviptu þá öllum mannréttindum, fluttu í útrýmingarbúðirnar þar sem þeim var þrælað eins og skepnum og að lokum murkað úr þeim líftórunni. Átakanlegt er að horfa á mikilfengleika þessa verks og hversu vel þetta er fært í kvikmyndabúning. Betri mynd um hörmungar stríðsins hefur ekki verið gerð frá því Steven Spielberg gerði óskarsverðlaunamyndina Schindler´s List árið 1993, svo einfalt er það. Reyndar hefur engin mynd haft jafnmikil áhrif á mig og þessi síðan Saving Private Ryan var gerð 1998, annað meistaraverk Spielbergs. Roman Polanski hefur eins og fyrr segir aldrei farið troðnar slóðir í kvikmyndagerð á sínum ferli og þótt mistækur, átt bæði ógleymanleg meistaraverk og miðlungsmyndir. Hér er hann hinsvegar kominn með mynd ferils síns, hefur augljóslega lagt allt sitt í verkið og uppsker ríkulega eftir því. Hann hlaut leikstjóraóskarinn fyrir sitt magnaða verk. Ánægjulegt var að hann fékk að njóta verka sinna þegar leikstjóraóskarinn 2002 var veittur, enda hafði áður heyrst að hann myndi vegna vissra mála ekki fá verðlaunin. Ánægjulegt var að vita að menn eru að verðlauna verkið sem viðkomandi hefur lagt allt sitt í en eru ekki að dæma fortíð tilnefndra. Öll umgjörð myndarinnar er stórfengleg; tónlist, handrit, framleiðsla og klipping - allt í fyrsta flokks klassa. Og langt er síðan nokkur leikari hefur unnið jafn eftirminnilegan leiksigur og sést í þessari mynd. Adrien Brody fékk óskarsverðlaunin fyrir magnaða túlkun sína í hlutverki Wladyslaw Szpilman. Þessi þrítugi New York-búi sem á að baki smáhlutverk í nokkrum myndum er orðin stórstjarna á einni nóttu. Hann er myndin The Pianist, hann skapar meistaraverkið og tryggir hversu vel útkoman heppnast. Lágstemmdur leikur hans er afrek útaf fyrir sig og meistarataktar sem sjást. Hann á framtíðina fyrir sér. Það er óhætt að mæla með þessari einstöku kvikmynd, að mínu mati besta kvikmynd ársins 2002. Mynd sem enginn sannur kvikmyndáhugamaður má missa af. Einstök upplifun fyrir alla þá sem unna kvikmyndagerð í úrvalsklassa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Two Towers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einstök kvikmynd sem tilnefnd var til 6 óskarsverðlauna 2002, en hlaut tvenn; fyrir besta hljóð og tæknibrellurnar. Tilnefnd sem besta kvikmynd ársins. Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien er sennilega einhver rómaðasta skáldsaga allra tíma og hún er snilldarlega færð í glæsilegan kvikmyndabúning af Peter Jackson og útkoman jafnast á við það allra besta í kvikmyndagerð samtímans. Annar partur sögunnar hefst þar sem þeim fyrsta lauk, manni er skellt beint inn í söguþráðinn, því er ómögulegt að horfa á þennan annan hluta trílógíunnar nema hafa áður lesið bækurnar eða séð fyrstu myndina. Í byrjun er staðan á þá leið að föruneytið hefur klofnað. Frodo (Elijah Wood) og Sam (Sean Astin) hafa haldið einir síns liðs til Mordor. Legolas (Orlando Bloom), Gimli (John Rhys-Davies) og Aragorn (Viggo Mortensen) elta Uruk-hai hópinn sína leið. Framundan er skemmtileg atburðarás sem ómögulegt er að lýsa að öllu leyti hér, enda er sjón sögu ríkari. Einkum þegar í hlut á þessi einstaka kvikmynd. Þó er hægt að fullyrða að við taki margar hættur og sífelldar áskoranir fyrir föruneyti hringsins. LOTR:TTT stendur að mínu mati ekki langt að baki fyrstu myndinni. Vissulega er alltaf erfitt að koma með framhaldsmynd sem skákar fyrstu myndinni, það tekst ekki hér. Hér er þó um að ræða sannkallað kvikmyndastórvirki sem allir sannir kvikmyndaunnendur ættu að hafa mjög gaman af. Hápunktur myndarinnar er án nokkurs vafa hið stórfenglega lokaatriði þegar Orkaherinn gerir árásina á Hjálmsvirkið. Það er óhætt að segja að betri bardagasena hefur vart sést í sögu kvikmyndanna. Meistaraverk sem hiklaust má telja til bestu kvikmynda ársins 2002 og þótt víðar væri leitað. Leikstjórn og öll umgjörð er í hæsta gæðaflokki og leikurinn er magnaður. Sir Ian McKellen fer sem fyrr algjörlega á kostum í hlutverki Gandalfs. Elijah Wood er virkilega góður sem Frodo og sama má hiklaust segja um Christopher Lee, Viggo Mortensen, John Rhys-Davies, Orlando Bloom og Cate Blanchett. Lord of the Rings: The Two Towers er eins og flestir vita annar hluti af þrem í Hringadróttinssögu og athyglisvert verður að sjá seinustu myndina. Ef hún verður jafn kraftmikil og öflugt meistaraverk eins og tvær hinar fyrri er ljóst að einhver besta trílógía kvikmyndasögunnar mun líta dagsins ljós með þessu heildarverki Peter Jackson. Ég hvet alla til að sjá LOTR:TTT og njóta þessarar mögnuðu sögu og sannkallaðra meistaratakta í kvikmyndagerð. Þessi mynd er svo sannarlega í úrvalsflokki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórskemmtileg ævintýramynd fyrir alla fjölskylduna, í anda hinna gömlu góðu úrvalsmynda. Ég átti von á góðri mynd þegar ég settist niður með mitt popp og kók en verð að viðurkenna að þessi afbragsgóða mynd var enn betri en ég hafði áður búist við þegar sýningu lauk. Pirates of the Caribbean er litríkt ævintýri sem gerist á 17. öld þegar sjóræningjarnir skunduðu um Karíbahafið. Hér segir frá sjóræningjanum Jack Sparrow (Johnny Depp) sem tekur höndum saman við Will Turner (Orlando Bloom) til að bjarga unnustu Wills, Elizabeth Swann (Keira Knightley) dóttur ríkisstjórans Weatherby Swann (Jonathan Pryce) og fjársjóði. Ætlun þeirra er að stöðva illar áætlanir óvinveittra sjóræningja undir forystu Barbossa (Geoffrey Rush). Mun þeim takast ætlunarverk sitt? Johnny Depp hefur sjaldan verið betri en í þessu hlutverki hins drykkfellda sjóræningja og á stórleik, smellpassar í þennan karakter. Sama má segja um óskarsverðlaunaleikarann Geoffrey Rush (Shine) sem er eftirminnilegur í hlutverki Barbossa (skemmtilega illkvittnislegur) og fer sem ávallt fyrr á kostum, frábær leikari. Orlando Bloom, Keira Knightley og Jonathan Pryce fara einnig vel með sitt. En Depp á einfaldlega þessa mynd og leiðir leikarahópinn af krafti í gegnum ævintýrin sem fyrir augu ber. Myndin er virkilega skemmtileg, handritið kemur áhorfandanum oft mjög á óvart með því að fara í óvæntar áttir. Góður hasar og magnaðar tæknibrellur eru einnig aðall myndarinnar. Vissulega er myndin löng, en hún er einfaldlega svo skemmtileg að maður finnur ekki fyrir því, allavega var það ekki svo í mínu tilfelli. Þetta er pjúra skemmtun frá upphafi til enda og ætti að vera sannkallað augnakonfekt fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur. Vönduð sjóræningjamynd sem ég mæli svo sannarlega með. Alls ekki missa af þessari, ein af bestu myndum sumarsins 2003.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hollywood Ending
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Woody Allen er hiklaust einn af þekktustu kvikmyndaleikstjórum Bandaríkjanna. Engum hefur sennilega tekist öðrum fremur að fanga athygli kvikmyndaunnenda, annaðhvort með því að heilla þá eða valda hneykslan þeirra og ná ennfremur fram því allra besta frá leikurum sínum. Í þessari nýjustu mynd sinni fer meistarinn eins og áður á kostum og fetar af stakri snilld rétta leið milli gamans og alvöru. Hér segir af Val Waxman (Allen) sem var stórlax í kvikmyndaheiminum á sjöunda og áratug 20. aldarinnar, en má muna sinn fífil fegurri og er farinn að leikstýra sjónvarpsauglýsingum þegar hér er komið sögu. Loksins, eftir langa eyðimerkurgöngu býðst honum tækifærið, að leikstýra á ný stórmynd. Hann þiggur það að sjálfsögðu með þökkum - hann virðist vera á réttri leið loksins. En þá missir Val sjónina og veit vart sitt rjúkandi ráð. Hvernig á hann að ná að gera myndina blindur? Með aðstoð vina reynir hann að gera myndina án þess að kvikmyndamógúlarnir í stúdíóinu komist að því hvernig komið er. Sem fyrr eru meistarataktarnir greinilegir. Húmorinn er óaðfinnanlegur sem fyrr og hann nær alltaf að hitta á rétta taktinn. Seinustu myndir leikstjórans hafa að mínu mati lukkast vel og ég var t.d. mjög ánægður með Curse of the Jade Scorpion, Small Time Crooks og Sweet and Lowdown. Handrit leikstjórans er eins og ávallt áður stútfullt af góðum hugmyndum og fínum húmor. Allen er sem fyrr í aðalhlutverki og er fínn í hlutverki leikstjórans blinda. Sem fyrr hefur hann fengið til liðs við sig fjölda stórstjarna, meðal þeirra sem eru í leikarahópnum hér eru George Hamilton, Treat Williams, Mark Rydell, Debra Messing og Téa Leoni. Niðurstaðan er því sú að meistari Allen kann enn þá list að gera góðar myndir og hittir á skemmtilega tóna hér. Ég er mikill aðdáandi leikstjórans og er kannski of mikill Allen-spekúlant til að hallmæla nokkurn tímann verkum hans og tala illa um þau. Hafði virkilega gaman af þessari og mæli hiklaust með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bruce Almighty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyndin gamanmynd með hinum einstaka húmorista Jim Carrey í aðalhlutverki. Hér segir frá sjónvarpsfréttamanninum Bruce Nolan (Carrey) og lífi hans. Fátt virðist ganga honum í haginn og kennir hann guði (Morgan Freeman) sjálfum um ófarir sínar. Það fer því þannig að Guð felur Bruce almættið sjálft og bendir honum á að gera betur. Kostuleg atburðarás tekur við. Carrey hefur oft verið fyndnari, er lágstemmdari núna en oft áður, en fer samt sem áður vel með sitt. Morgan Freeman er sem ávallt fyrr í toppformi og er flottur sem Guð sjálfur, sama er þó ekki hægt að segja um Jennifer Aniston sem hefur oft betri frammistöðu og er bæði ekki nýtt nógu vel í hlutverkinu og er óvenju litlaus. Væntingar mínar til þessarar myndar voru talsverðar. Mér fannst Liar Liar mjög góð mynd og átti allt eins von á svipaðri mynd að gæðum. Svo er ekki. Hún hefði getað orðið mun betri en útkoman sýnir. Með þessu er ég ekki að segja að Bruce Almighty sé léleg mynd, langt frá því. Þetta er prýðisgóð afþreying, fyndin og skemmtileg. Tek undir með þeim sem hér skrifa að það var pirrandi að allir bestu brandararnir í myndinni voru í trailernum. Ekki nógu gott, finnst mér. Myndin var fyndin og skemmtileg lengst af, en lokakafli myndarinnar er óvenju væminn og þreytandi til lengdar sú helgislepja sem þar kemur fram. Niðurstaðan er því sú að Bruce Almighty er góð afþreying, en hefði hinsvegar getað orðið mun betri og skemmtilegri ef meira hefði verið lagt í heildarmyndina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Terminator 3: Rise of the Machines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir 12 ára bið er komið að því. Arnold Schwarzenegger er mættur í þriðja skiptið sem Tortímandinn, áður lék hann þetta hlutverk sem gerði hann frægan 1984 og 1991. Það var ekki laust við að maður hefði búið sig undir álíka meistaraverk og hinar fyrri, en ég verð að viðurkenna sem aðdáandi fyrri myndanna að ég varð fyrir smávonbrigðum. Það er þó alveg ljóst að erfitt er að fylgja hinum tveim eftir og því ekki hægt að búast við álíka meistaraverki, en myndin er engu að síður mjög góð, en eins og fyrr segir erfitt að slá út forverana. Áður en ég kem að kostum og göllum þessarar myndar er ágætt að fara yfir söguþráðinn. TX (Kristanna Loken), fullkomið vélmenni í kvenlíki, hefur verið sent til ársins 2003 til þess að tortíma allri andspyrnuhreyfingunni og tryggja þannig að vélmennin geti útrýmt mannkyninu og hertekið Jörðina. Eina von mannkynsins er að John Connor (Nick Stahl), leiðtogi andspyrnuhreyfingarinnar og vinkona hans (Claire Danes) nái að eyðileggja Skynet áður en að Skynet hefur náð yfirhöndinni á öllum tölvum í veröldinni og þannig yfirbugað allt mannkynið. En til að forðast árásir TX og annarra stórhættulegra vélmenna þurfa þau hjálp sjálfs Tortímandans (Arnold Schwarzenegger). Stærsti kostur myndarinnar eru augljóslega magnaðar tæknibrellur sem maður situr dolfallinn yfir. Handritið er að mínu mati veiki punktur myndarinnar en hasarinn bætir það að mestu upp. Áður hefur sagan verið í forgrunni en hasarinn fylgt eftir. Nú er þessu öfugt farið, vissulega veikir það myndina, en heildarútkoman er vel ásættanleg. Arnold Schwarzenegger hefur ekkert gefið eftir í töffaraskapnum á seinustu 12 árum og þessi 55 ára gamli töffari er í hörkuformi. Kristanna Loken stendur sig prýðilega í hlutverki TX, en Nick Stahl sem var eftirminnilegur úr In the Bedroom er ekki eins sterkur og maður hefði kannski búist við áður. Þegar heildarmyndin er tekin saman skal fullyrt að T3: Rise of the Machines sé flott spennumynd og nokk verðugur þriðji kafli

í syrpunni. Tortímandinn er kominn aftur - og það í fullu fjöri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Phone Booth
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skemmtileg og velheppnuð mynd sem hittir beint í mark. Hér segir frá sjálfselskum og allt að því sjálfumglöðum manni að nafni Stu Shepard (Colin Farrell), sem er kynningarfulltrúi á Broadway. Hann lendir í þeirri einkar óskemmtilegu lífsreynslu að vera haldið í gíslingu í símaklefa af óþekktri leyniskyttu. Hann verður að gera hreint fyrir sínum dyrum ef ekki á illa að fara og hann drepinn af leyniskyttunni sem er með hann í sigtinu. Honum er bannað að segja frá leyniskyttunni, þannig að þegar hann drepur melludólg sem áður angraði Stu er hann undir grun. En hvernig fer hann að því að láta lögregluna vita um hið sanna án þess að byssumaðurinn komist að því og hvernig fer hann að því að höndla ástandið þegar eiginkonan (Radha Mitchell) og hjákona hans (Katie Holmes) mæta báðar á svæðið. Spurningarnar eru tvær, hvað gerir Stu til að þóknast leyniskyttunni og á hann sér einhverja undankomu auðið með góðum hætti. Mögnuð spenna - klukkan tifar. Colin Farrell er að mínu mati sífellt að vaxa sem leikari og á framtíðina fyrir sér eftir margar góðar leikframmistöður á seinustu árum. Þessi mynd er ein af hans bestu, hann og hans karakter eru burðarásar myndarinnar. Það er reyndar líka leyniskyttan dularfulla sem aldrei sést, er huldumaður hinn mesti. Ekki ósvipað vörubílstjóranum í Duel, mynd Spielbergs sem aldrei sást í myndinni. Semsagt; Phone Booth er mögnuð kvikmynd og reyndar einhver mest spennandi mynd sem ég hef lengi séð. Kostur við hana er líka að hún er ekki of löng og heldur manni í spennu allan tímann. Ekta afþreying fyrir spennufíkla. Í sannleika sagt er Phone Booth er spennandi og vel leikin kvikmynd sem ég mæli hiklaust með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Basic
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis spennumynd frá leikstjóranum John McTiernan sem skartar þeim John Travolta og Samuel L. Jackson í aðalhlutverkum. Hardy (Travolta) er fyrrverandi sérsveitarmaður og núverandi starfsmaður í eiturlyfjalögreglunni. Hann er fenginn af félaga sínum (Tim Daly) til að rannsaka hvarf liðþjálfans West (Samuel L. Jackson) sem er talinn af ásamt nokkrum úr sveit sem hann var að þjálfa. Tveir eru eftir og sögum þeirra af atburðum í þjálfunarleiðangri ber ekki saman. Hardy fær það verkefni að yfirheyra þá félaga í óþökk herlögreglu á svæðinu (Connie Nielsen). Ágætis handrit bjargar miklu vegna heildarútkomunnar og sama má segja um leikinn. Leikaraliðið er alveg ágætt. Þeir félagar Travolta og Jackson standa sig vel í hlutverkum sínum, en þeir fóru eins og flestir ættu að vita á kostum saman í Pulp Fiction árið 1994. McTiernan hefur oft gert betur en hann á að baki myndir á borð við Die Hard, Medicine Man, The Hunt for Red October og Rollerball. Semsagt, ágætis spennumynd, hefði þó getað verið mun betri en heildarmyndin segir til um, leikstjórinn hefur oft gert betur og leikararnir spara sig óþarflega mikið. Þó er þetta ágætis afþreying, þó ekkert meira en það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Charlie's Angels: Full Throttle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hörkugóð hasarmynd sem ekta spennufíklar ættu að hafa gaman af. Skutlurnar Drew Barrymore, Lucy Liu og Cameron Diaz snúa aftur sem hasargellurnar Dylan, Alex og Natalie í framhaldi myndarinnar Charlie´s Angels. Að þessu sinni fást gellurnar við fyrrverandi engil að nafni Madison Lee (Demi Moore) sem komist hefur yfir lista með nöfnum fanga og ætlar að nota hann til að selja glæpaklíkum. Hasarbomba sem er hægt að hafa gott gaman af, þó oft á tíðum verði handritið ansi þunnt og slappt. Kemur þó ekki að sök, því með góðum hasaratriðum er hægt að hylja helstu gallana lengst af. Um að gera að setjast bara niður og njóta hasarins í ystu æsar. Gellurnar þrjár fara sem fyrr á kostum og bjarga því sem bjargað verður með góðum leik. Demi Moore snýr aftur á hvíta tjaldið eftir nokkurra ára fjarveru. Eitt sinn var Demi leikkona nr. 1 í Hollywood og lék í fjölda áhugaverðra mynda. Svo hvarf hún af sjónarsviðinu um miðjan tíunda áratuginn eftir tvær misheppnaðar myndir. Með nýjan kærasta og flotta ímynd snýr hún aftur á sjónarsviðið. Hún stelur senunni frá gellunum með nærveru sinni og hefur reyndar í kynningarferli myndarinnar erlendis náð að fanga alla athygli tengda myndinni, við litla ánægju aðalleikkvennanna. En semsagt, ef þú vilt spennu og gott stuð þá skellirðu þér á þessa. Pottþétt skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hulk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Besta hasarmynd sumarsins er poppkornsmynd af gömlu gerðinni og tekur viðfangsefni sitt nokkuð alvarlega, með góðum árangri. Skemmtilega óhefðbundin hasarmynd sem hittir beint í mark. The Hulk er nýjasta mynd taívanska leikstjórans Ang Lee (Crouching Tiger, Hidden Dragon) og fjallar um vísindamanninn Bruce Banner (Eric Bana) sem í bræðisköstum sínum breytist í hinn græna og tröllvaxna Hulk. Sagan er byggð á verkum Stan Lee sem bjó til teiknimyndapersónuna. Bruce er sonur vísindamanns Davids (Nick Nolte) sem gerir tilraunir á sjálfum sér. Þegar hann svo eignast son er nokkuð ljóst frá upphafi að hann er ekki alveg venjulegur. Hann elst upp hjá fósturforeldrum sínum og verður vísindamaður líkt og faðirinn. Einn dag verður Bruce fyrir geislun í vinnunni og lifir það þó af. Kemur brátt í ljós að margt breytist í kjölfar þessa og að Bruce breytist í hvert skipti sem hann reiðist í Hulk. Um er að ræða ofurhetju sem býr yfir kröftum sem eru ekki blessun heldur bölvun í raun, þegar kraftarnir koma til skjalanna þá er enginn óhultur. Spurningin er, hvernig getur hann lifað með þessu og er það mögulegt til lengdar? Vel leikin og skemmtileg mynd sem er virkilega gaman af. Eric Bana (Black Hawk Down) er virkilega góður í hlutverki Bruce og sama má segja um Nick Nolte (Affliction), óskarsverðlaunaleikkonuna Jennifer Connally (A Beautiful Mind), Sam Elliott (The Contender) og Josh Lucas (Sweet Home Alabama) sem standa sig vel í sínum hlutverkum. Handritið er vel úr garði gert, sagan er virkilega vel unnin. Leikstjórinn Ang Lee skilar af sér hér vandaðri og góðri kvikmynd. Hann hefur sýnt og sannað áður hvers hann er megnugur sem kvikmyndaleikstjóri. Hefur leikstýrt ólíkum myndum á borð við Crouching Tiger - Hidden Dragon, The Ice Storm og Sense and Sensibility. Hæfileikar hans sem leikstjóra eru miklir, í þessu verki sameinast í eitt höfuðkostir hans sem leikstjóra. Útkoman er sumarmynd ársins 2003, eftirminnilegasta mynd ársins það sem af er. Áferð myndarinnar er skemmtileg og græni liturinn notaður á mjög áhugaverðan hátt. Klippingar og öll framsetning The Hulk er í alla staði lík teiknimyndasögum. Tjaldinu er skipt í ramma og fær áhorfandinn samtímis nokkur sjónarhorn á sama atburðinn og sömu persónurnar, ekki ólíkt því sem sést hefur með góðum árangri í sjónvarpsþáttunum 24, þar sem hægt er að fylgjast með nokkrum atburðum í einu og atburðarás á nokkrum stöðum. Í heildina er ekki annað hægt en að mæla með The Hulk, stórfengleg hasarmynd sem öllum sönnum kvikmyndaunnendum ætti að líka. Að sumra mati (hasaráhugamanna) gæti myndin talist of hæg, mér fannst það þó ekki og hafði virkilega gaman af. Að mínu mati er þetta pottþétt blanda. Mynd sumarsins 2003, án nokkurs vafa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Confidence
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vönduð glæpamynd með góðri fléttu. Hér segir frá nokkrum félögum sem stunda svikastarfsemi sér til framfærslu. Einn daginn svíkja þeir fé af röngum manni, glæpaforingja sem kallaður er Kóngurinn. Félagarnir kæra sig kollótta um að endurgreiða féð, en til þess að sleppa við misþyrmingar af hálfu Kóngsins ákveður Jake Vig (Ed Burns), sem er leiðtogi svikahrappanna, að semja við hann um að narra stærsta keppinaut hans og hafa af honum fimm milljónir dollara. Í kjölfarið hefst heilmikil og spennandi atburðarrás. Hefðbundin en góð spennumynd með góðu handriti og mjög vel leikin. Full af góðum og spennandi hugmyndum sem gaman er að sjá. Uppúr stendur góð leikframmistaða óskarsverðlaunaleikarans Dustin Hoffman (Kramer vs. Kramer, Rain Man) sem er traustur í hlutverki Kóngsins. Hann á að baki góðan leikferil en sýnir nú á sér nýja hlið og ber frammistaðan því vitni að hann er mjög fjölhæfur leikari. Leikur kaldhæðinn kvennabósa og forhertan glæpaforingja sem flestir eru hræddir við, gaman að sjá Hoffman í þessu hlutverki. Einnig eru Ed Burns og Rachel Weisz í burðarhlutverkum. Ef þú vilt sjá góða glæpamynd og vel leikna þá er þetta myndin fyrir þig. Mæli hiklaust með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Old School
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar ég ákvað að fara að sjá Old School átti ég í rauninni von á léttri og allt að því nettheimskulegri mynd sem snerist eins og flestar myndir sinnar gerðar um fyllerísdjamm, kynlífssvall og fleira slíku tengt, eins og mikið hefur verið fjallað um í ýmsum myndum seinustu ára. Vissulega er það rétt mat en það skemmtilega við þessa er að hún er mjög skemmtileg og einkar gaman af henni. Í stuttu máli sagt er hér sögð saga þriggja vina (Vince Vaughn, Luke Wilson og Will Ferrell) sem ákveða að stofna bræðrafélag í háskólanum sínum. Stefnan er nokkuð einbeitt í vissa átt. Gert er út á djamm, fyllerí og að skemmta sér svona líka ansi vel. Kostulegar uppákomur og skemmtileg atriði koma við sögu og framundan létt og þrælskemmtileg mynd. Kostulegur húmor einkennir myndina og þeir félagar eiga góðan leik, sérstaklega Vince Vaughn sem er náttúrulega frábær leikari. Hafði semsagt mjög gaman af myndinni og mæli með henni ef fólk vill horfa á villta og skemmtilega mynd með góðum húmor. Þá er þetta eitthvað fyrir ykkur!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bringing Down the House
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Létt og skemmtileg gamanmynd sem ætti að koma öllum í gott skap. Allavega ekta skemmtun. Hér segir frá lögfræðingnum Peter Sanderson (Steve Martin) sem ennþá er yfir sig ástfanginn af fyrrum konunni sinni Kate (Jean Smart), og skilur reyndar bara ekkert í afhverju hún fór frá sér. Hann er ósköp einmana eftir skilnaðinn og ákveður til að reyna að koma lífi sínu á réttan kjöl að kynnast öðrum konum. Hann fer að spjalla við Charlene (Queen Latifah) á spjallrás á Netinu og hefur hug á að kynnast henni betur. Þegar á reynir er hinsvegar ljóst að Charlene hefur ekki alveg gefið upp réttar upplýsingar um sig og uppruna sinn og fortíð. Fyrr en varir hefur hún snúið lífi Peters alveg við. Stefnt í voða viðskiptasamningi hans við Frú Arness (Joan Plowright), gert samband hans við konuna fyrrverandi og börnin (Kimberly J. Brown og Angus T. Jones) illu verra. Steve Martin er sem ávallt fyrr traustur í aðalhlutverkinu, leikur hér sem oft áður hinn elskulega einfeldning sem lendir í aðstæðum sem erfitt er að leysa almennilega úr. Senuþjófurinn er hinsvegar hin magnaða Queen Latifah (Chicago, The Bone Collector) sem fer á kostum í hlutverki hinnar skapmiklu og stjórnsömu Charlene. Hún er vön því að fá sínu fram og aumingja Peter á erfitt með að ráða við hana. Steve Martin og Queen Latifah eiga hér góðan samleik og halda myndinni uppi bókstaflega. Einnig er Joan Plowright (ekkja Sir Laurence Olivier) góð að vanda og fer vel með hlutverk frú Arness. Í heildina er því Bringing down the House góð skemmtun. Framundan er góð kvöldstund hjá þeim sem horfa á hana. Mæli hiklaust með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Anger Management
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Létt og nett gamanmynd sem ætti að vera góður yndisauki í sumarblíðunni. Segir frá skrifstofublókinni Dave Buznik (Adam Sandler) en hann er óöruggur og einkar feiminn einstaklingur sem býr yfir mikilli reiði sem oft er erfitt að hafa stjórn á. Fyrir röð algjörra tilviljana er honum gert að fara í meðferð við bræði sinni hjá sálfræðingnum Buddy Rydell (Jack Nicholson). Meðferðin á eftir að reyna nokkuð á líf Dave, einkum einkalíf hans og starfið. Lukkast meðferðin ekkert alltof vel, enda reynist sálfræðingurinn ekki vera mjög heill á geðinu sjálfur. Fer svo að sálfræðingurinn sest að heima hjá Dave og hyggst dvelja með honum í mánuð til að leita leiða til að lækna bræðina. Framundan er skemmtileg atburðarás í meðferðinni og margar óvæntur uppákomur eiga sér stað. Hafði ég mjög gaman af þessari mynd. Hef alltaf þótt Adam Sandler vera góður gamanleikari. Hafði gaman af Happy Gilmore, Billy Madison og Waterboy. Þessi mynd er nokkuð í ætt við þær en mun betri en t.d. Little Nicky og Deeds, sem mér þótti ekkert sérstakar. Það sem gerir gæfumuninn fyrir þessa mynd er hinsvegar mögnuð leikframmistaða óskarsverðlaunaleikarans og eilífðartöffarans Jack Nicholson (One Flew Over the Cuckoo´s Nest, As Good as it Gets). Hann á mjög góðan leik í hlutverki Buddy, er sannkallaður senuþjófur eins og venjulega. Einnig er Marisa Tomei traust í hlutverki Lindu, kærustu Dave, en athygli vekur hversu lítið hún er þó notuð í myndinni. Meðal þeirra sem birtast þarna að auki eru t.d. leikarar á borð við John C. Reilly (ekki öfundsverður af sinni rullu), Woody Harrelson, John Turturro, Luis Guzman, Kevin Nealon og Lynne Thigpen sem er kostuleg í hlutverki dómarans (hennar síðasta hlutverk). Rudolph Giuliani fv. borgarstjóri New York, birtist svo þarna sem gestaleikari ásamt eiginkonu sinni Judith Nathan, undir lok myndarinnar. Að mínu mati var þetta létt og góð kvöldstund í bíóinu, hafði ég mjög gaman af þessu og þeir sem ég fór með skemmtu sér líka. Þetta er ekkert meistaraverk en nett kómedía sem flestir ættu að geta haft sannkallað gaman af. Fyndin og létt kvöldstund.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Narc
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Toppþriller, hiklaust einn sá besti í nokkurn tíma. Narc er allt í senn myrk, dökk, gróf og drungaleg spennumynd. Nokkuð harðsoðin meira að segja. Segir frá tveimur lögreglumönnum í fíkniefnadeild lögreglunnar í Chicago. Annar þeirra, Henry R. Oak (Ray Liotta) er fyrir skömmu búinn að missa félaga sinn sem starfaði sem útsendari í undirheimunum. Er það hans forgangsmál að finna morðingjana og til þess að hjálpa honum í því er fenginn annar lögreglumaður (Jason Patric) en hann hefur starfað sem útsendari. Fylgjumst við með rannsókn þeirra og upp koma ýmis mál á yfirborðið sem koma talsvert á óvart. Eins og fyrr segir er Narc ekki mjúk eða björt mynd, þetta er kraftmikil og allt að því blóðug spennumynd sem virkar mjög vel. Lögreglumennirnir eru vel skapaðar og einkar áhugaverðar persónur, samband þeirra er mjög athyglisvert. Með góðri útfærslu, afbragðsleik og einkar vandaðri leikstjórn Joe Carnahan (sem mun brátt leikstýra Mission: Impossible 3) verður þetta að klassaskemmtun. Það verða allir að sjá þessa, ekki spurning!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Matrix Reloaded
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það þarf talsverðan kjark og magnaða hæfileika til að fylgja eftir hinni mögnuðu Matrix. Tímamótamynd sem setti sterkan svip á kvikmyndaheiminn og var brautryðjandi í tæknibrellugerð seinni tíma og hlaut fern óskarsverðlaun 1999. Bræðurnir Andy og Larry Wachowski eru kvikmyndagerðarmenn framtíðarinnar, það ættu allir þeir sem sáu t.d. Matrix og Bound að vera sammála um. Þeim tekst vel upp í að fylgja eftir meistaraverki sínu. Verð að viðurkenna að ég hafði miklar væntingar til Matrix Reloaded, myndin stendur undir þeim væntingum og reyndar gott betur en það. Ekki er auðvelt að fylgja eftir meistaraverki og hefur mörgum reynst það ofraun að standa undir því að koma með framhald sem stenst forveranum snúning. En þetta tekst Wachowski-bræðrunum. Hér heldur saga Neo (Keanu Reeves) áfram. Framundan er tveggja tíma mögnuð þeysireið full af hasar og mögnuðum tæknibrellum. Kynntar eru til leiks margar nýjar persónur og einnig eru hér persónur sem við könnumst vel við úr fyrstu myndinni. Eins og margir gagnrýnendur hafa bent á býr Matrix Reloaded yfir mun minni heimspekilegri dýpt en Matrix. Samt sem áður eru fáir gallar á myndinni, engir sem orð er á gerandi að mínu mati. Eins og mátti búast við er myndin ekki eins áhrifarík eins og fyrsta myndin, enda erfitt að fylgja eftir stórmynd eins og fyrr segir. Til að skemma ekki fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina verður frekari framvinda myndarinnar ekki tíunduð hér. En sjón er hinsvegar sögu ríkari - í þessu tilfelli ríkari en orð fá lýst! Ómætstæðilegt tæknibrellumeistaraverk - litlu síðra en forverinn. Það verða allir að sjá þessa. Ég er þegar farinn að telja niður í Matrix Revolutions. Framundan er löng bið sem vonandi verður þess virði!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Spennutryllir sem kemur verulega á óvart. Bæði traustur og grípandi þriller í senn. Edward (John Cusack) verður fyrir því óhappi að keyra á óvarinn vegfaranda á fáförnum vegi og vegna slæmrar færðar komast þau ekki á sjúkrahús. Eitt óhappið rekur annað, sem leiðir til þess að ferðalöngunum er nauðugur sá kostur að gista á ódýru vegahóteli, þar sem þau hitta aðra seinheppna ferðalanga, sem sitja þar fastir af ýmsum ástæðum. Í kjölfarið fer fjöldamorðingi á kreik og algerlega ómögulegt virðist vera að hafa hendur í hári hans. Hafin er gríðarlega spennandi atburðarás sem brátt snýst um líf eða dauða. Enginn er óhultur. Kvikmynd sem fangar athygli áhorfandans allt frá fyrstu mínútu og heldur henni óskiptri allt þar til yfir lýkur. Segja má að fyrri hlutinn einkennist af svörtum húmor, eftir það tekur spennan yfirhöndina. Endalokin eru algjörlega ófyrirsjáanleg, og erfitt um að spá hver fléttan er fyrr en í blálokin. Margar persónur og ólíkar eru í myndinni. Með stærstu hlutverkin fara John Cusack (Being John Malkovich), Ray Liotta (Goodfellas) og Amanda Peet (The Whole Nine Yards). Þau standa sig öll mjög vel og er leikur þeirra og hinn óvænti endir það minnisstæðasta við myndina. Leikstjórinn James Mangold (Copland) heldur vel utan um myndina og afraksturinn er einkar vel heppnaður. Ég hvet alla til að skella sér í bíó og horfa á Identity. Það verður enginn svikinn af þessum magnaða þriller.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Iris
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hugljúf og heillandi kvikmynd. Hér segir frá ævi rithöfundarins Dame Iris Murdoch sem var án vafa ein af fremstu skáldkonum 20. aldarinnar. Myndin er byggð á bók eiginmanns hennar, John Bayley, Iris: A Memoir and Elegy for Iris, þar sem sagði frá ævi hennar. Iris og John voru um margt ólík, hún frjálslynd og óhrædd við að feta eigin leiðir en hann óframfærinn og lifði nokkurnveginn í eigin heimi. En einhvernveginn smullu þau saman og varði hjónaband þeirra í rúm fjörutíu ár. Iris Murdoch fæddist í Dublin 15. júlí 1919. Hún var einkabarn foreldra sinna og var alin upp í London. Hún fór í Froebel skólann og síðar Somerville háskólann í Oxford. Hún kenndi heimspeki við skóla í Oxford. Hún gaf út fyrstu bók sína (kynningu á heimspeki Sartre) árið 1953 og fyrstu skáldsaga hennar var gefin út 1954, Under the Net. Hún sló í gegn og á eftir fylgdu The Flight from The Enchanter, The Sandcastle and The Bell og The Sacred and Profane Love Machine, sem vann Whitbread-verðlaunin árið 1974. 1978 hlaut hún Booker-verðlaunin fyrir 19. skáldsögu sína, The Sea. Síðasta skáldsaga hennar, Jackson's Dilemma, kom út árið 1995. Árið 1956 giftist hún John Bayley, enskukennara við New College í Oxford, og síðar Warton prófessor í enskum bókmenntum við sama skóla. Hún hlaut CBE-verðlaunin 1976 og var öðluð (Dame) árið 1987. Í upphafi er sagan rakin frá því að Iris (Kate Winslet) kynnist John (Hugh Bonneville) á sjötta áratugnum allt til þess tíma er hún er orðin gömul kona (Dame Judi Dench) illa haldin af Alzheimer sjúkdómnum og John (Jim Broadbent) verður að hugsa um hana og studdi hana í gegnum sjúkdóminn og þverrandi heilsu seinustu árin. Iris lést 8. febrúar 1999. Aðall myndarinnar er stórleikur allra aðalleikaranna. Óskarsverðlaunaleikkonan Judi Dench (Shakespeare in Love) á stjörnuleik í hlutverki Iris á efri árum og verður hreinlega hún með undraverðum hætti, maður fær það á tilfinnuna að hún sé Iris en sé ekki að leika hana, svo mögnuð er hún. Þetta er eitt af hennar bestu hlutverkum, ekki nokkur spurning. Kate Winslet (Titanic) túlkar hana unga og fer ekki síður á kostum og saman ná þessar tvær leikkonur að smella saman í túlkun sinni á skáldkonunni. Einnig er Hugh Bonneville góður í hlutverki John Bayley á yngri árum. Senuþjófurinn er þó hiklaust Jim Broadbent sem er stórfenglegur í hlutverki John Bayley á efri árum og á stórleik í erfiðu og einkar krefjandi hlutverki. Hann hlaut verðskuldað óskarsverðlaunin 2001 sem besti leikarinn í aukahluverki fyrir magnaða túlkun sína. Í heildina finnst mér myndin vera nokkuð þurr enda vantar að mínum mati stóran hluta í ævi skáldkonunnar og fyllingu í frásögnina. Leikurinn bætir það þó upp og ég mæli hiklaust með þessari mynd ef menn vilja sjá fágaða og vandaða kvikmynd um magnað lífshlaup merkrar konu sem markaði stór spor í bókmenntasögu síðustu aldar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Chicago
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mögnuð kvikmynd sem hittir beint í mark. Skemmtilegur söngleikur sem sannar að gullaldartími söngleikjanna er kominn á ný eftir nokkuð mörg mögur ár. Í fyrra var Moulin Rouge einn af smellum ársins og nú fylgir Chicago í kjölfarið. Tilnefnd til alls 13 óskarsverðlauna 2002; þ.á.m. sem kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn, leik í aðalhlutverki (Renée Zellweger) og aukahlutverkum (Queen Latifah, John C. Reilly og Catharine Zeta-Jones). Hér segir af Roxie Hart (Renée Zellweger), óttalega fáfróðri Chicago-mær sem á þann draum heitastan að verða dans- og söngstjarna. Í kjölfar þess að hún skýtur til bana ástmann sinn sem hafði svikið loforð um að tryggja henni frægð og frama, endar hún í fangelsi. Þar er fyrir átrúnaðargoð hennar, Velma Kelly (Catherine Zeta-Jones) en hún var dæmd til lífláts fyrir að drepa manninn sinn og systur sína er hún kom að þeim í rúminu. Til þess að sleppa við dauðadóminn leitar Roxie á náðir Billy Flynn (Richard Gere) sem er einn besti lögmaðurinn í Chicago, eftir ábendingar Mama Morton (Queen Latifah). Eiginmaður Roxie, Amos Hart (John C. Reilly), reynir að safna nægu fé til að ráða Flynn og á meðan plotta þær stöllur um það hvernig þær geta eiginlega sloppið út úr fangelsinu. Framundan er spennandi atburðarás sem enginn ætti að missa af. Það ætti enginn að verða svikin af frábærum söng- og dansatriðum og í heildina er myndin vel úr garði gerð og bráðskemmtileg. Þetta er (ótrúlegt en satt) fyrsta kvikmyndin sem Rob Marshall gerir en hann leikstýrir af miklum krafti og spinnur saman glæsilegt heildarverk úr góðri tónlist, veikburða handrit og frábærum leik. Leikararnir eiga allir stjörnuleik. Renée Zellweger hefur aldrei gert betur og er frábær í hlutverki Roxie og hlaut Golden Globe fyrir leik sinn og á góða möguleika á að hljóta Óskarinn í marsmánuði. Catharine Zeta-Jones er stórfengleg sem skassið Velma og hlaut fyrir leik sinn t.d. BAFTA-verðlaunin, kom mér mjög á óvart hversu góður dansari hún er. John C. Reilly er óborgarnlegur í hlutverki Amos og Queen Latifah blómstrar í hlutverki Mama Morton. Richard Gere hefur aldrei leikið betur á sínum ferli og fer á kostum í hlutverki lögfræðingsins Billy Flynn, kom mjög á óvart að hann skyldi ekki hljóta óskarsverðlaunatilnefningu fyrir magnaðan leik sinn. Semsagt; enginn má missa af þessari mögnuðu mynd, hiklaust ein af bestu kvikmyndum ársins 2002. Sannkölluð eðalmynd sem ætti að koma öllum í gott skap.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Die Another Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

James Bond - 007 - njósnari hennar hátignar, snýr aftur í þessari tuttugustu kvikmynd um hið eina sanna kvennagull. Hraðskreiðir bílar, stórhættuleg og seiðandi glæpakvendi, banvænir bardagasnillingar og forríkir glæpamenn eru auðvitað stór þáttur í hverri Bond-mynd og þessi mynd er ungin undantekning frá þeirri höfuðreglu. James Bond, þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni. Í fjóra áratugi hefur þessi lífseigi kvennabósi skemmt bíógestum um allan heim með hnyttnum tilsvörum og fáguðu skopskyni. Sagan hefst á hernumda svæðinu milli Norður- og Suður-Kóreu með miklum eltingarleik á svifnökkvum. Leikurinn berst í gegnum Hong Kong til Kúbu og loks til London. Þar hittir James Bond (Pierce Brosnan) tvær konur sem koma til með að gegna mikilvægum, en ólíkum hlutverkum í verkefni hans, sem byggist á því að fletta hulunni af svikara og koma í veg fyrir stríð. Bond eltir illmennin m.a. til Íslands, þar sem hann kynnist óþægilega vel nýju gereyðingavopni, en uppgjörið við höfuðóvininn þarf hann að sækja allt til Kóreu, þar sem sagan byrjaði upphaflega. Pierce Brosnan er hér í fjórða sinni í hlutverki njósnarans. Hefur leikið hann í sjö ár í GoldenEye, Tomorrow Never Dies og The World is Not Enough. Hann fer á kostum og er um að ræða bestu Bondmynd hans til þessa að mínu mati. Enn stendur hann þó í skugga Sean Connery sem fyrstur lék njósnarann og er ljóst að enginn mun komast með tærnar þar sem hann hafði hælana í túlkun sinni. Brosnan stendur þó næst honum. Óskarsverðlaunaleikkonan Halle Berry (Monster´s Ball) er senuþjófur myndarinnar og fer algjörlega á kostum í hlutverki hinnar mögnuðu Jinx, sem er sennilega ein best gerða kvenpersónan í kvikmyndabálknum. Er rætt um að gerðar verði sérstakar myndir um þessa persónu, en það yrði í fyrsta sinn sem persóna úr Bond-mynd yrði aðalpersóna í annarri mynd. Sem fyrr leikur óskarsverðlaunaleikkonan Judi Dench (Shakespeare in Love) hina harðsvíruðu M, yfirmann leyniþjónustunnar MI6 og háðfuglinn John Cleese úr Monty Python, er óborganlegur í hlutverki Q. Hann kemur hér í stað Desmond Llewelyn sem lék hlutverk Q í tæpa fjóra áratugi í 17 Bond-myndum. Leikstjórnin er í höndum Ný-Sjálendingsins Lee Tamahori, sem á að baki myndirnar Once Were Warriors, Mulholland Falls, The Edge og Along Came a Spider. Titillag myndarinnar er jafnan hápunktur hverrar Bond-myndar. Að þessu sinni er það Madonna sem flytur aðallag myndarinnar. I Guess I´ll Die Another Day syngur Madonna í málmkenndu og ódæmigerðu lagi sem vinnur á við hverja hlustun, ekta popplag frá hinni óútreiknanlegu söngkonu. Semsagt, James Bond er hér í essinu sínu og hefur sjaldan verið í betra formi en í þessari afmælismynd þar sem haldið er upp á stórafmæli kvikmyndabálksins með mögnuðum tæknibrelluatriðum á glæsilegum tökustöðum. Ég hvet alla spennufíkla til að líta á njósnarann ódauðlega í þessari mögnuðu spennumynd sem ætti að vera áhugasöm fyrir alla þá sem vilja pottþéttan hasar og mögnuð brelluatriði. Þessi stórfenglega blanda af léttu gamni og harðri spennu klikkar aldrei. James Bond er skotheldur í öllu tilliti og er ómótstæðilegur fyrir mannkynið og verður það vonandi á hinu nýja árþúsundi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Road to Perdition
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mögnuð glæpamynd í úrvalsflokki. The Road to Perdition er byggð á skáldsögu Max Allan Collins og Richard Piers Rayner. Sögusviðið er Chicago á hinu herrans ári 1930. Hér er sögð saga bófans Michael Sullivan (Tom Hanks). Hann er hamingjusamlega giftur og á tvo syni, en fjölskyldan hefur í raun enga hugmynd um hvað hann vinnur við. Hann er í reynd leigumorðingi mafíunnar og vinnur fyrir John Rooney (Paul Newman). Hann ræður lögum og lofum í Chicago og kemur næst á eftir sjálfum Al Capone í virðingarstiganum, en hann hefur gengið Michael í föðurstað. Þegar yngri sonur Michaels verður vitni að morði þarf Rooney að ganga frá honum svo lítið beri á. Þegar eiginkonan og hinn sonurinn falla í valinn óvart í staðinn þarf Michael að hefna fyrir fjölskyldu sína og snýst gegn Rooney og mafíunni. Mafían ræður leigumorðingjann Harlen McGuire (Jude Law) til að drepa Michael. Í kjölfar þess hefst mikill eltingarleikur og spennan magnast milli Michaels og mafíunnar og allt getur gerst. Mögnuð mynd sem ég hafði mjög gaman af, enda alltaf verið unnandi mafíumynda. Allt hjálpast að til að skapa ógleymanlegt meistaraverk. Leikstjórn óskarsverðlaunaleikstjórans Sam Mendes (American Beauty) er mögnuð. Tónlist og allt útlit myndarinnar er eins og best verður á kosið. Aðall myndarinnar er þó leikur þriggja leikara. Óskarsverðlaunaleikarinn Tom Hanks (Philadelphia, Forrest Gump) sýnir á sér nýja hlið og fer á kostum í hlutverki leigumorðingjans sem stendur á krossgötum og snýst gegn ægivaldi mafíunnar. Óskarsverðlaunaleikarinn Paul Newman (The Hustler, Hud, Verdict) er magnaður í hlutverki John Rooney og hefur ekki verið betri í fjölda ára. Gamli snillingurinn sannar enn og aftur að hann er einn af bestu leikurum seinustu aldar og er í hæsta klassa. Ég verð illa svikinn ef hann verður ekki tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn í þessari mynd svo góður er hann. Jude Law (The Talented Mr. Ripley) er einnig góður í hlutverki Harlen McGuire og sannar að hann á framtíðina fyrir sér í bransanum. Semsagt; sannkallað meistaraverk sem allir verða að sjá, allavega þeir sem hafa áhuga á mafíumyndum. Úrvalsmynd í hæsta gæðaflokki
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Red Dragon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Spennumyndin Red Dragon er gerð eftir fyrstu bók rithöfundarins Thomas Harris um geðsjúklinginn og mannætuna dr. Hannibal Lecter. Hér er því um að ræða fyrsta kafla sögunnar um Lecter og atburðir hennar undanfari óskarsverðlaunamyndarinnar The Silence of the Lambs og Hannibal. Hér segir frá FBI-manninum Will Graham (Edward Norton) sem er sestur í helgan stein eftir að hafa eytt þrem árum í að fanga dr. Hannibal Lecter (Sir Anthony Hopkins) og koma honum á bak við lás og slá. Friðurinn er hinsvegar snarlega úti þegar hann er beðinn um aðstoða félaga sína hjá lögreglunni við að finna óhugnanlegan morðingja, Tannálfinn (Ralph Fiennes). Morðin eiga það öll sameiginlegt að hafa öll verið framin þegar tungl er fullt og því hafa þeir einungis þrjár vikur til að finna morðingjann áður en hann lætur til skarar skríða á ný. Will ákveður að leita til Hannibals í þeirri von að fá hjá honum aðstoð við að hafa upp á morðingjanum. Framundan er spennandi og athyglisverð leit lögreglumannsins að fjöldamorðingjanum. Þar getur allt gerst. Stórfengleg spennumynd sem hittir beint í mark og fangar athygli allra sannkallaðra spennufíkla. Þrátt fyrir góða takta stenst Red Dragon meistaraverkinu TSOTL með Hopkins og Jodie Foster ekki snúninginn, er þó miklu betri en Hannibal. Aðall myndarinnar er magnað handrit Ted Tally og frábær leikur sannkallaðra leiksnillinga. Sir Anthony Hopkins fer enn og aftur á kostum í hlutverki mannætunnar og geðlæknisins sem þrátt fyrir sturlun sína er fágaður fagurkeri. Hopkins hlaut óskarinn fyrir leik sinn í TSOTL og hefur mótað á magnaðan hátt einhverja eftirminnilegustu persónu spennumyndanna, hann fer eins og fyrr segir á kostum í þessu hlutverki. Edward Norton á einnig stórleik í hlutverki Will Graham og sannar enn og aftur að hann er einn af bestu leikurum nútímans. Ennfremur eru Emily Watson, Harvey Keitel og Philip Seymour Hoffman frábær í hlutverkum sínum. Ég hvet alla til að sjá Red Dragon, hún er skylduáhorf fyrir alla unnendur góðra spennumynda. Ómótstæðilegur spennutryllir í úrvalsflokki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hafið
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Íslenskt meistaraverk byggt á þekktu leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu við miklar vinsældir leikárið 1992-1993, þar sem margir af þekktustu leikurum þjóðarinnar fóru eftirminnilega á kostum. Áratug síðar er þetta eftirminnilega leikrit fært í kvikmyndabúning eftir handriti Ólafs og Baltasar Kormáks sem jafnframt leikstýrir myndinni, er um að ræða breytta útgáfu og hefur persónum og atburðum verið breytt til að sagan komi betur út á hvíta tjaldinu. Hér er sagt frá útgerðarmanninum Þórði Ágústssyni (Gunnar Eyjólfsson) sem hefur í gegnum árin ríkt yfir bæ sínum, hann er guðfaðir kaupstaðarins og rekur langstærsta fyrirtækið í bænum. Er myndin hefst er komið að kaflaskiptum í lífi hans, hann er orðinn gamall maður og heilsa hans farin að bila. Hann vill því hitta fjölskyldu sína og gera hreint fyrir sínum dyrum. Elsti sonurinn Haraldur (Sigurður Skúlason) rekur útgerðarfyrirtækið og á í miklum erfiðleikum á heimavelli, dóttirin Ragnheiður (Guðrún Gísladóttir) er misheppnaður kvikmyndaframleiðandi sem á ýmislegt óútkljáð við föður sinn, og eftirlæti gamla mannsins Ágúst (Hilmir Snær Guðnason) er í námi erlendis en þorir ekki að segja gamla manninum frá því að hann er í tónlistarnámi en nemur ekki lengur viðskiptafræði, en Þórður vill að hann taki við rekstri fyrirtækisins af eldri bróðurnum. Inn í söguna blandast hin tannhvassa Kata (Herdís Þorvaldsdóttir) hin aldna móðir Þórðar, Kristín (Kristbjörg Kjeld) sambýliskona Þórðar og móðursystir systkinanna, Áslaug (Elva Ósk Ólafsdóttir) hin bitra eiginkona Haraldar og María (Nína Dögg Filippusdóttir) dóttir Kristínar. Framundan er eftirminnilegt uppgjör fjölskyldunnar í smábænum á norðurhjara - þar sem allt getur gerst. Hafið er án nokkurs vafa ein áhrifamesta og besta kvikmynd Íslendinga frá kvikmyndavorinu á áttunda áratugnum. Meistaralega gerð á allan hátt; Baltasar Kormákur sannar í eitt skipti fyrir öll getu sína sem leikstjóri og tónlistin, kvikmyndatakan og öll umgjörð myndarinnar er með því besta sem gerist í kvikmyndagerð samtímans. Aðall myndarinnar er þó stórleikur alls leikhópsins. Gunnar Eyjólfsson fer eftirminnilega á kostum í hlutverki hins aldna útgerðarhöfðingja sem stendur á krossgötum, Kristbjörg Kjeld er ennfremur stórfengleg í hlutverki Kristínar - það er hreinn unaður að sjá þessa leiksnillinga á ný saman í aðalhlutverkum í kvikmynd, en þau fóru eftirminnilega á kostum í kvikmyndinni 79 á stöðinni árið 1962 og hlutu í fyrra heiðursverðlaun Íslensku kvikmyndaakademíunnar fyrir ævistarf sitt. Ennfremur fara Nína Dögg Filuppusdóttir, Sigurður Skúlason, Guðrún Gísladóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir og Hilmir Snær Guðnason á kostum í hlutverkum sínum. Senuþjófur myndarinnar er þó Herdís Þorvaldsdóttir sem vinnur sannkallaðan leiksigur í hlutverki Kötu, þetta er hennar fyrsta stórhlutverk í kvikmynd og er algjörlega óhætt að segja að frammistaða hennar sé hápunktur myndarinnar. Hún túlkar hina öldnu kjarnakonu á stórfenglegan hátt. Útkoman er því einfaldlega ógleymanleg og alveg ljóst að enginn kvikmyndaunnandi má missa af Hafinu. Með þessari kvikmynd sannast endanlega að íslensk kvikmyndagerð stígur fyrstu skrefin í átt að fullorðinsárunum og segir skilið við viðburðarík unglingsár og uppvaxtarárin sem mörkuðust í senn af sætum sigrum og sárum vonbrigðum. Þessi kvikmynd sannar að íslensk kvikmyndagerð er á réttri leið og fetar í áttina að farsælli framtíð. Úrvalsmynd eins og þær gerast bestar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einstök kvikmynd sem tilnefnd var til 13 óskarsverðlauna 2001, en hlaut fern; fyrir besta hljóð, bestu tæknibrellurnar, bestu kvikmyndatökuna og bestu förðunina. Tilnefnd sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn, leikara í aukahlutverki (Sir Ian McKellen), kvikmyndalag, listræna leikstjórn, hljóð, kvikmyndahandrit, klippingu og búningahönnun. Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien er sennilega einhver rómaðasta skáldsaga allra tíma og hún er snilldarlega færð í glæsilegan kvikmyndabúning af Peter Jackson og útkoman jafnast á við það allra besta í kvikmyndagerð samtímans. Hringadróttinssaga gerist í Miðgarði þar sem allt úir og grúir af skrítnum verum sem margar hverjar búa yfir sínum eigin sérstæðu hæfileikum. Frodo Baggins (Elijah Wood) er ungur hobbiti sem fær það verk að granda galdrahring, en það er einungis hægt með því að kasta honum í eldgíg þann sem hann kom upprunalega úr. Frodo neyðist því til að halda ásamt föruneyti sínu yfir fjöll, dali og óvinasvæði, stöðugt eltur af illum verum sem eru útsendarar myrkrahöfðingjans Sauron, en hann vill ná hringnum og með því efla mátt sinn og megin. Ferðalag Frodo og félaga hans verður viðburðaríkt og framundan eru margar hættur og sífelldar áskoranir. Kvikmyndastórvirki sem hiklaust má telja til allra bestu kvikmynda ársins 2001 og þótt víðar væri leitað. Leikstjórn og öll umgjörð er í hæsta gæðaflokki og leikurinn er magnaður. Sir Ian McKellen fer algjörlega á kostum í hlutverki Gandalfs og hefði átt að hljóta óskarinn fyrir stórleik sinn, engin spurning. Elijah Wood er virkilega góður sem Frodo og sama má hiklaust segja um Christopher Lee, Viggo Mortensen, Hugo Weaving, Ian Holm og Sean Bean. Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring, er eins og flestir vita einungis fyrsti hluti Hringadróttinssögu og athyglisvert verður að sjá framhaldsmyndirnar tvær. Ef þær verða jafn kraftmiklar og öflug meistaraverk er ljóst að einhver besta trílógía kvikmyndasögunnar mun líta dagsins ljós með þessu heildarverki Peter Jackson. Ég hvet alla til að sjá Hringadróttinssögu og njóta þessarar mögnuðu sögu og sannkallaðra meistaratakta í kvikmyndagerð. Þessi mynd er svo sannarlega í úrvalsflokki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Beautiful Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg og vel leikin kvikmynd um ævi stærðfræðisnillingsins John Forbes Nash. Tilnefnd til 8 Óskarsverðlauna 2001 en hlaut fern; sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Ron Howard, leikkonu í aukahlutverki (Jennifer Connelly) og handrit byggt á áður útgefnu efni. Einnig tilnefnd fyrir leikara í aðalhlutverki (Russell Crowe), kvikmyndatónlist, förðun og kvikmyndaklippingu. Hér er rakin saga nóbelsverðlaunahafans og stærðfræðisnillingsins Nash (Crowe) sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1994, eftir einstakan feril. Sagan hefst árið 1947 þar sem hann er við nám í Princeton. Strax er ljóst að hann er ekki eins og venjulegt fólk á að sér að vera, er bæði sérvitur og einkar ómannblendinn. Í náminu kynnist hann Charles Herman (Paul Bettany) og er vinátta að því er virðist einstök og ósvikin. Eftir námið fær Nash prófessorsstöðu við virtan háskóla og svo virðist sem hann muni feta hinn beina og greiða veg, þegar hann kynnist nemanda sínum Aliciu (Connelly) og verður hrifin af henni. Það breytist þó allt þegar í ljós kemur að stærðfræðisnillingurinn er geðklofi. Mögnuð úrvalsmynd á allan hátt. Ron Howard hlaut verðskuldaðan óskar fyrir leikstjórn sína, einnig er tónlist James Horner stórfengleg, handrit Akiva Goldsman er vandað og kvikmyndatakan stórgóð. Leikur aðalleikaranna er þó aðall myndarinnar. Óskarsverðlaunaleikarinn Russell Crowe (Gladiator) fer hreinlega á kostum í hlutverki stærðfræðisnillingsins og túlkar persónu hans og andlega erfiðleika óaðfinnanlega og vinnur sannkallaðan leiksigur í mögnuðu hlutverki, hann hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir leik sinn í þessari mögnuðu mynd, og hefði átt að hljóta Óskarinn einnig fyrir túlkun sína, en tapaði þeim slag fyrir Denzel Washington. Þetta er besta leikframmistaða hans að mínu mati. Jennifer Connelly er stórfengleg í hlutverki Aliciu Nash og vinnur leiksigur með sannfærandi leik sínum og átti Óskarinn svo sannarlega skilið. Einnig eru Ed Harris, Paul Bettany, Adam Goldberg og Christopher Plummer góðir í sínum hlutverkum. Þetta er kvikmynd sem enginn sannur kvikmyndaunnandi má láta fram hjá sér fara. Eðalmynd eins og þær gerast bestar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
In the Bedroom
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vönduð og snilldarvel leikin úrvalsmynd Todd Field. Tilnefnd til fimm óskarsverðlauna 2001; sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikkonu í aðalhlutverki (Sissy Spacek), leikara í aðalhlutverki (Tom Wilkinson), leikkonu í aukahlutverki (Marisa Tomei) og handrit byggt á áður útgefnu efni. Hjónin Dr. Matt Fowler (Wilkinson) og eiginkona hans Ruth (Spacek) búa í smábæ í Maine ásamt syni sínum Frank (Nick Stahl), en hann hyggur á háskólanám. Líf þeirra er í senn venjulegt og áhyggjulaust. Það breytist allt þegar Frank verður ástfanginn af Natalie Strout (Tomei). Hún er eldri en Frank og er fráskilin tveggja barna móðir. Ástarsamband þeirra verður til þess að fyrrum eiginmaður hennar verður æfur. Það sem fylgir í kjölfarið verður til þess að líf fjölskyldunnar og parsins verður aldrei samt aftur. Þessi mynd er frábær í alla staði og hittir beint í mark. Frábær kvikmynd sem skartar mögnuðum leikframmistöðum sannkallaðra leiksnillinga. Óskarsverðlaunaleikkonan Sissy Spacek fer algjörlega á kostum í hlutverki Ruth Fowler og hefði átt að hljóta Óskarinn fyrir leik sinn, mun frekar en Halle Berry. Hún hlaut Óskarsverðlaunin 1980 fyrir túlkun sína á söngkonunni Lorettu Lynn í The Coal Miner´s Daughter. Einnig er Tom Wilkinson frábær í hlutverki fjölskylduföðurins og verðskuldaði tilnefninguna svo sannarlega fyrir magnaða túlkun á manni í andlegri krísu. Marisa Tomei hlaut Óskarinn 1992 fyrir leik sinn í My Cousin Vinny og er góð í hlutverki Natalie. Einnig er Nick Stahl eftirminnilegur í hlutverki Frank Fowler. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þessa mögnuðu mynd. Þeir sem vilja sjá alvöru drama með trúverðugu ívafi mega ekki missa af henni. Skylduáhorf fyrir þá sem vilja sjá sannkallaðar úrvalsmyndir
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gosford Park
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg kvikmynd snillingsins Roberts Altman sem skartar sönnum úrvalsleikurum í hverju einasta hlutverki. Tilnefnd til sex óskarsverðlauna 2001; sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn, bestu leikkonur í aukahlutverki (Maggie Smith og Helen Mirren), bestu listrænu leikstjórn og bestu búningahönnun. Hlaut óskarinn fyrir besta frumsamda kvikmyndahandritið. Sögusviðið er breskt hefðarsetur á hinu herrans ári 1932, þar sem McCordle-fjölskyldan bíður vinum og ættingjum til helgardvalar og skotveiða. Sagan snýst að mestu um húsbóndann á hefðarsetrinu, William McCordle. Í gegnum árin hefur William orðið fjárhagslegur bakhjarl margra skyldmenna sinna og vina. Eftir því sem helgin líður eru leyndarmál afhjúpuð og svo virðist sem allir gestirnir eigi eftir að gera upp sakir við William. Spurningin er bara hversu langt munu gestirnir ganga. Stórfengleg mynd á allan hátt. Leikstjórn Altmans er góð og öll umgjörð myndarinnar er stórglæsileg. Aðall hennar er þó leikur þeirra leiksnillinga sem hér fara á kostum. Senuþjófur myndarinnar er Óskarsverðlaunaleikkonan Dame Maggie Smith, hún fer á kostum í hverju einasta atriði. Hún hefur tvívegis hreppt Óskarinn; 1969 fyrir leik sinn í The Prime of Miss Jean Brodie og árið 1978 fyrir California Suite. Einnig fer Helen Mirren vel með hlutverk ráðskonunnar Frú Wilson og túlkar hana á magnaðan hátt. Mirren og Smith hlutu báðar verðskuldaðar tilnefningar til Óskarsverðlaunanna og Golden Globe fyrir leik sinn. Einnig fara hér á kostum; Michael Gambon, Kristin Scott Thomas, Emily Watson, Alan Bates, Stephen Fry og Derek Jacobi. Góð og vönduð mynd sem allir sannir kvikmyndaáhugamenn hafa gaman af. Skylduáhorf fyrir aðdáendur breskra úrvalsmynda
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Catch Me If You Can
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frábær kvikmynd meistara Steven Spielberg. Hér er sögð ótrúleg saga eins snjallasta svikahrapps sögunnar, Frank Abagnale Jr. (Leonardo DiCaprio). Hann ólst upp við gott uppeldi foreldra sinna, Paulu (Nathalie Baye) og Franks (Christopher Walken). Við skilnað foreldra sinna tók hann að blekkja alla í kringum sig. Hann strauk að heiman og tókst með eintómum blekkingum að verða t.d. læknir og flugmaður, þrátt fyrir að hafa aldrei farið í nokkurt nám. Hann giftist meira að segja Brendu (Amy Adams), dóttur saksókarans (Martin Sheen), en Frank varð t.d. aðstoðarmaður hans. Í gegnum þetta allt er hann hundeltur um landið af alríkislögreglumanninum Carl Hanratty (Tom Hanks). Framundan er spennandi eltingaleikur lögreglumannsins á eftir hinum útsmogna Abagnale. Létt og skemmtileg kvikmynd frá Spielberg sem gerir hér mynd sem er gjörólík því sem hann hefur verið að fást við seinustu árin. Úr verður áhugaverð mynd sem allir ættu að hafa gaman af. Leonardo DiCaprio fer á kostum í hlutverki Franks Jr og greinilegt að hann er í essinu sínu í þessari mynd, hans besta hlutverk í mörg ár. Tom Hanks er einnig góður í hlutverki Hanratty, en hann hefur oft gert betur, engu að síður skilar hann góðri frammistöðu. Senuþjófurinn er þó óskarsverðlaunaleikarinn Christopher Walken (The Deer Hunter) sem á sannkallaðan stórleik í hlutverki Franks eldri og hlaut verðskuldaða óskarsverðlaunatilnefningu sem besti aukaleikarinn fyrir vikið. Hvet alla til að sjá þessa léttu og skemmtilegu mynd. Það verður enginn svikinn af þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
About Schmidt
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kolsvört kómedía frá leikstjóranum Alexander Payne, sem gerði hina mögnuðu Election fyrir nokkrum árum. Í þessari kvikmynd sem byggð er á skáldsögu Louis Begley segir frá Warren R. Schmidt (Jack Nicholson), ósköp hversdagslegum manni sem lendir á skömmum tíma í miklu mótlæti. Hann er að ljúka störfum sem tryggingasérfræðingur eftir margra ára starf, og satt best að segja ekkert hvað hann á að taka sér fyrir hendur. Helen (June Squibb), eiginkona hans til fjögurra áratuga fellur í kjölfarið skyndilega frá, og einkadóttirin Jeannie (Hope Davis) er að fara að gifta sig náunga að nafni Randall (Dermot Mulroney) sem Warren líkar hreint ekki við. Orðinn einstæðingur án eiginkonu, starfs og fjölskyldu, heldur Schmidt í örvæntingarfulla leit að fyllingu í sviplaust líf sitt, enda sjálfstraust hans í molum. Hann ákveður að leggja af stað í leit að sjálfum sér á æskuslóðum sínum í Nebraska á húsbíl sem hann hafði keypt í þeim tilgangi á ferðast á um landið ásamt konunni sinni. Hann ákveður loks að halda til Denver og koma í veg fyrir að dóttir hans giftist Randall. Framundan er spennandi atburðarás sem enginn verður svikinn af. Hér er á ferðinni alveg frábær kvikmynd sem skartar óskarsverðlaunahafanum Jack Nicholson í frábæru hlutverki. Hann birtist hér áhorfendum í nýju gervi; glottið er hvergi sjáanlegt og sjálfstraustið er víðsfjarri, hann leikur karakter sem er í rusli tilfinningalega séð. 65 ára gamall á hann að baki ógleymanlegar leikframmistöður. Fáir leikarar eiga að baki eins glæsilegan feril. Hver man ekki eftir honum úr One Flew Over The Cuckoo´s Nest, Terms of Endearment, As Good As It Gets, Chinatown, Five Easy Pieces, The Shining, Prizzi´s Honour, Easy Rider og Heartburn svo aðeins séu nefndar örfáar af hans bestu myndum. Hann hlaut fyrir leik sinn í þessari mynd sína tólftu óskarsverðlaunatilnefningu og Golden Globe verðlaunin, og Óskarinn fyrir þrjár fyrstnefndu myndirnar. Enginn karlleikari hefur oftar verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. Hann er einn af bestu leikurum samtímans. Hann fer á kostum í einu af bestu hlutverkum ferils síns í þessari mynd og það kæmi ekki á óvart ef hann hampaði Óskari í marsmánuði. Ennfremur er Kathy Bates (Misery) alveg frábær í hlutverki Robertu. Hvet alla til að sjá þessa frábæru mynd. Það verður enginn svikinn af að sjá Jack brillera í mögnuðu hlutverki. Sannkölluð eðalmynd sem vekur mann til umhugsunar og skilur þónokkuð eftir í undirmeðvitundinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spy Game
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hörkugóð spennumynd sem er nákvæm lýsing á njósnum og gefur glögga mynd af leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA. Leikstjórinn Tony Scott er algjör sérfræðingur í bæði njósna- og hasarmyndum og er sérstaklega flinkur þegar kemur að tæknihliðinni og má ævinlega stóla á að hann komi með betri tæknibrellur en síðast. Árið er 1991. Hér segir af ofurnjósnaranum Nathan Muir (Robert Redford) sem er í þann veginn að láta af störfum eftir farsælan feril hjá leyniþjónustunni. Hann mætir í vinnuna á síðasta vinnudeginum sínum og kemst að vinur hans og lærlingur Tom Bishop (Brad Pitt) hafi verið fangelsaður í Kína og að það eigi að taka hann af lífi. Hann veit að það verður ekki erfitt að hjálpa honum, en hann er staðráðinn í að gera sitt besta. Myndin er að mestum parti sögð í upprifjun allt frá fyrstu kynnum þeirra í stríðinu í Víetnam, og einnig af samstarfi þeirra í Beirút og Berlín. Óskarsverðlaunaleikstjórinn Robert Redford er án nokkurs vafa einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar og á að baki magnaðan feril og leik í úrvalsmyndunum Butch Cassidy and Sundance Kid, The Sting, All the President's Men, Out of Africa, The Electric Horseman, The Way We Were, The Horse Whisperer, The Natural, Three Days of the Condor, The Candidate, Jeremiah Johnson, Up Close & Personal, Indecent Proposal, Sneakers, Havana, og mörgum fleirum úrvalsmyndum. Hann hlaut hinsvegar leikstjóraóskarinn 1980 fyrir kvikmynd sína Ordinary People sem var frumraun hans sem leikstjóra. Hann hlýtur heiðursóskarinn fyrir magnaðan feril sinn á Óskarsverðlaunahátíðinni í mars. Hér mætir hann Brad Pitt og eiga þeir báðir góðan leik í þessari mynd. Þetta er hinsvegar myndin hans Redford og hann fer á kostum í hlutverki njósnarans sem augljóslega er ýmsu vanur, rúnum rist andlit hans er augljóslega vitnisburður um að hann hefur upplifað margt. Ég hafði mikið gaman af þessari mynd og mæli eindregið með henni. Hún er fyrsta flokks afþreying fyrir spennufíkla
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Others
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg (gothic horror) draugamynd af gamla skólanum, með klassískum og fáguðum bakgrunni og meistaralega leikin. Árið er 1945 og seinni heimsstyrjöldinni er nýlokið. Sögusviðið er Jersey, ein Ermarsundseyja Bretlands. Þar býr Grace (Nicole Kidman) á afskekktum herragarði frá tímum Viktoríu Englandsdrottningar, ásamt börnum sínum, Anne (Alakina Mann) og Nicholas (James Bentley). Fjölskyldufaðirinn lét lífið í stríðinu, en Grace hefur enn ekki sagt börnum sínum frá því. Dag nokkurn knýja þrjár, dularfullar manneskjur að dyrum, Frú Mills (Fionulla Flanagan), Hr. Tuttle (Eric Sykes) og Lydia (Elaine Cassidy) mállaus stúlka. Þau segjast vera vinnuhjú sem störfuðu í húsinu á árum áður og vilja gjarnan fá vinnu þar aftur. Þjónustufólkið sem var áður hjá Grace hvarf sporlaust einn góðan veðurdag og henni vantar þjónustufólk í snatri. Grace ákveður án mikillar umhugsunar að ráða fólkið. Ýmislegt er öðruvísi í heimilishaldinu en venjulegt getur talist. Börnin eru haldin sérkennilegu ofnæmi fyrir sólarljósi og því má aldrei vera dagsbirta þar sem þau eru. Enga hurð má opna öðruvísi en aðrar séu læstar og ekki má draga gluggatjöldin frá. En þá gerist hið óvænta&8230; Það líður ekki langur tími frá komu þjónustufólksins þar til að Grace og krakkarnir taka að finna fyrir óeðlilegum umgangi í húsinu og finna fyrir því að þau séu kannski ekki þau einu sem hafa búsetu í húsinu... Nú má ekki segja meira, efnið er ákaflega óvenjulegt, dulúðin umlykur persónurnar allt til enda og þið megið eiga von á óvæntum sögulokum. Spænski leikstjórinn Alejandro Amenabar skapar hér stórfenglega og hörkuspennandi úrvalsmynd sem minnir að mörgu leyti á meistaraverk M. Night Shyamalan, The Sixth Sense, og fetar hún nokkuð svipaða slóð. Það kemur þó ekki að sök því þessi kvikmynd nær að byggja upp spennuna á sínum forsendum og fylgir ekki eftir of mikið formúlunni þó efnið sé vissulega keimlíkt. Spennan byggst upp skref fyrir skref og engum órar fyrir sögulokunum sem koma svo sannarlega á óvart, það fattar enginn plottið í þessari mynd fyrirfram, enda er meistaralega staðið að hverju smáatriði. Amenabar forðast gamalkunnugt blóðbað og ódýrar brellur og lætur ímyndunaraflið leika lausum hala. Aðall þessarar myndar er semsagt leikstjórnin og tónlist leikstjórans (sem er alveg frábær og byggir upp spennuna) og síðast en ekki síst leikurinn í henni. Leikaraliðið fer nefnilega alveg á kostum; Alakina Mann og James Bentley eru frábær í hlutverki krakkanna og Fionulla Flanagan er sérstaklega eftirminnileg í hlutverki ráðskonunnar Frú Mills og maður er í raun í vafa allt til sögulokanna hvar hún raunverulega stendur. En stjarna myndarinnar er án nokkurs vafa ástralska leikkonan Nicole Kidman sem fer algerlega á kostum í hlutverki hinnar strangtrúuðu Grace, hlutverk sem er gjörólíkt öllum þeim sem hún hefur áður túlkað. Hún er lítið máluð, í hversdagsfötum og laus við allt glys og pjátur. Nicole hefur í raun aldrei verið betri í persónusköpun og skilar bestu leikframmistöðu síns ferils, án nokkurs vafa og enginn vafi leikur á því að hún mun hljóta tilnefningu til Óskarsverðlaunanna 2002 fyrir stórleik sinn í þessari mynd og mun hún fara nálægt sigri, hiklaust. Árið 2001 er án nokkurs vafa árið hennar Nicole Kidman. Í ársbyrjun lauk tíu ára hjónabandi hennar og Tom Cruise og síðan hefur hún birst í tveim stórkostlegum kvikmyndum og unnið leiksigra í þeim báðum. Hún var stórkostleg í hlutverki tálkvendisins Satire í Moulin Rouge og er enn betri í þessari kvikmynd, hún stendur á hápunkti ferils síns og blómstrar með hverri nýrri rullu. Semsagt: The Others er gamaldags og kyngimögnuð spennumynd með fagmannlegu yfirbragði. Ég hvet alla kvikmyndaáhugmenn til að sjá þessa. Þið sjáið ekki eftir því. Hún kemur ykkur skemmtilega á óvart!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Crimson Tide
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Spennumyndin "Crimson Tide" fékk óhemju aðsókn í kvikmyndahúsum um allan heim á sínum tíma, enda er það mál margra að hér sé á ferð ein magnaðasta og besta spennumynd sem gerð var á tíunda áratugnum. Leikstjóri hennar er Tony Scott sem er þekktur fyrir góðar og vandaðar myndir, og í aðalhlutverkum eru óskarsverðlaunaleikararnir Gene Hackman og Denzel Washington. Hackman leikur kafbátaforingjann Frank Ramsey sem er yfirstjórnandi eins fullkomnasta kjarnorkukafbáts veraldar. Aðstoðarmaður hans og næstráðandi um borð er nýliðinn Ron Hunter "Washington" sem kallaður var til skyldustarfa rétt áður en kafbáturinn lagði úr höfn. Ferð hans liggur út á opið haf, en rússneskir róttæklingar og uppreisnarmenn sem náð hafa óljósum völdum í heimalandi sínu, hótað Bandaríkjunum öllu illu og þar á meðal að skjóta kjarnorkusprengjum á bandarískar borgir. Herinn vill vera við öllu búinn og setur í viðbragðsstöðu. Eftir nokkurra daga siglingu lenda þeir í átökum við rússneskan kafbát og afleiðingarnar eru bilun í fjarskiptabúnaði. Rétt í þann mund móttekur Ramsey óljóst skeyti frá hermálaráðuneytinu og túlkar það sem skipun um að skjóta kjarnorkusprengju á Rússland. Hunter er hins vegar ekki tilbúinn að túlka skeytið sem skipun um að skjóta og í kjölfarið upphefjast átök á milli þessara manna sem leiða til uppreisnar um borð. Spurningin er: Hvort er alvarlegra, að skjóta ekki ef kjarnorkustyrjöld hefur brotist út, eða skjóta ef kjarnorkustyrjöld hefur ekki skollið á! Mjög góð þriggja og hálfrar stjarna mynd!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Primal Fear
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi fantagóði spennu- og sálfræðitryllir skartar leikaranum Richard Gere í aðalhlutverkinu og það er óhætt að segja að hann hefur aldrei verið betri. Enn fremur eru allir gagnrýnendur á því að Edward Norton, sem hér er að stíga sín fyrstu skref í öðru aðalhlutverki myndarinnar, vinni stórkostlegan leiksigur með túlkun sinni á hinum umkomulausa meinta morðingja. Sögusviðið er Chicago-borg og dómsalir hennar. Lögfræðingurinn og refurinn Martin Veil "Gere" hefur komið sér vel áfram og þykir með snjöllustu verjendum borgarinnar. En Veil er ekki einungis snjall í sínu starfi, hann er einnig snillingur í að baða sig í ljósi fjölmiðlanna og vekja á sér athygli. Í raun er hann svo sólgin í að auglýsa sjálfan sig að kjarni allra sakamála, sekt eða sakleysi hins ákærða, skiptir hann minnstu máli. Aðalatriðið í hans augum er að koma nafni sínu á forsíður blaðanna og andliti sínu á skjáinn. Þá er fullnaðarsigur í höfn að hans mati. Dag einn er ungur altarisdrengur handtekinn á flótta eftir hrottalegt morð á biskupi borgarinnar. Málið vekur gífurlega athygli og Veil sér þarna frábært tækifæri til að komast í sviðsljósið. Hann sækist því eftir því að gerast verjandi hins meinta morðingja og tekst það. En ekki líður á löngu uns á Veil fara að renna tvær grímur. Hinn ákærði neitar því að vera viðriðinn morðið, en getur samt ekki útskýrt það hvers vegna hann var á flótta, útataður í blóði biskupsins. Eitthvað í fari þessa umkomulausa unglings segir Veil að hér séu einhverjir maðkar í mysunni sem ekki þola dagsljósið. Hann hefur að rannsaka málið út frá þessum grunsemdum sínum og kemst fljótt að því að hann hefur rétt fyrir sér. Hér býr svo sannarlega meira að baki en sýnist í fyrstu! Hörkugóð og einstaklega vel gerð toppmynd með svo sannarlega góðri og afar óvæntri og frábærri fléttu. Einnig fara hér á kostum óskarsverðlaunaleikkonan Frances McDormand, Laura Linney, John Mahoney "Frasier" og Alfre Woodard. Góð mynd sem ég mæli eindregið með og gef ég henni þrjár og hálfa stjörnu. Hún er stórfengleg á allan hátt!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The American President
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru stórleikarar á borð við Michael Douglas, Annette Benning, Michael J. Fox, Richard Dreyfuss og Martin Sheen sem sjá um að halda uppi fjörinu í þessari vel gerðu og skemmtilegu mynd eftir leikstjórann Rob Reiner sem m.a. á að baki eina af vinsælustu gamanmyndum seinni ára, "When Harry Met Sally". Forseti Bandaríkjanna, Andrew Shepherd "Douglas", er röggsamur í meira lagi, kænn og fylgin sér eins og forsetar eiga að vera. Hann sinnir sínum veigamiklu störfum af kostgæfni og nýtur mikilla vinsælda fólksins í landinu. Kosningar eru í nánd og því reynir enn meira á kænsku hans en venjulega því andstæðingar hans bíða ávalt tækifærisins að höggva nærri persónu hans og stjórnvisku. En forsetinn er ekkill og þegar hann hittir hina heillandi Sydney Wade "Bening" verður hann ástfanginn af henni upp fyrir haus. Sydney Ellen Wade er umhverfisverndarsinni sem reynir að koma góðum málefnum sínum áleiðis í bandarískum stjórnmálum og samband hennar við forsetann á eftir að verða vatn á myllu andstæðinga hans sem saka hann um að láta einkamál sín ganga fyrir skyldustörfum og hygla þeim sem næstir honum standa. Ofan á þetta bætast erfiðar og umdeildar ákvarðanir hans varðandi önnur brýn mál. Í kjölfarið taka skoðanakannanir að sýna minnkandi fylgi hans á meðal fólks. En forsetinn hefur í kringum sig úrvals starfsfólk sem kann til verka og er ákveðið í að viðhalda vinsældum forsetans. Samt sem áður kemur að því að lokum að það er forsetans sjálfs að taka af skarið ... Hugljúf og heillandi kvikmynd sem ég gef þrjár stjörnur, sérstaklega fyrir vandaðan leik Douglas og Bening og ekki síst Richard Dreyfuss sem kemur fram í litlu en góðu hlutverki pólitísks andstæðings forsetans
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mirror Has Two Faces
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

"The Mirror Has Two Faces" er ein af bestu myndum hinnar misjöfnu leikkonu og leikstjóra Börbru Streisand, hún hlaut afar góða dóma gagnrýnenda og er tvímælalaust ein af hennar bestu myndum. Hér blandar hún saman alvöru, gamni og rómantík í sérlega skemmtilegri sögu og hefur fengið til liðs við sig hóp úrvalsleikara, s.s. Jeff Bridges, Lauren Bacall "er fékk óskarsverðlaunin fyrir hreint frábæran leik sinn í hlutverki móður Rose", Mimi Rogers, Pierce Brosnan, George Segal, Brendu Vaccaro og fyrirsætuna Elle MacPherson. Rose Morgan "Streisand" er bókmenntakennari við Columbia-háskólann. Allt er í besta lagi hjá henni nema ástarmálin því einhvern veginn hefur hún algjörlega farið á mis við við það sem hún þráir mest: Eiginmann og tilheyrandi rómantík. Gregory Larkin "Bridges" er stærðfræðikennari sem hefur gengið í gegnum nokkur misheppnuð ástarsambönd og þráir nú mest að hitta konu sem er jafningi hans að gáfum, en getur látið rómantík og líkamlega ást liggja alveg á milli hluta. Svo fer að þau Rose og Gregory hittast á stefnumóti sem systir Rose kemur í kring. Þau hrífast strax hvort af öðru, hann mest af víðsýni hennar og gáfum og hún mest af útliti hans og framkomu. Og ekki líður á löngu uns Gregory hefur gert upp hug sinn og ákveður að bera upp bónorð enda telur hann að Rose sé kona sem muni ekki binda hann af þeim hlutum sem hann vill ekki vera bundin af, t.d. kynlífi. Og þrátt fyrir að Rose viti ekki hvernig hún eigi að fara að því að uppfylla þetta einkennilega skilyrði fyrir hjónabandinu segir hún já... Stórskemmtileg mynd í alla staði og vönduð og vel leikin af sannkölluðum toppleikurum. Ég gef henni þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Courage Under Fire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi áhrifamikla og vel gerða mynd skartar úrvalsleikurunum Denzel Washington, Meg Ryan og Matt Damon í aðalhlutverkunum og á erindi til allra sem vilja sjá verulega góðar kvikmyndir. Washington leikur undirofurstan Nathan Serling sem stjórnar skriðdreka í Persflóastríðinu. Um miðja nótt er gerð árás á skriðdreka hans og hann gefur fyrirskipun um að skjóta á óvininn. Sér til skelfingar uppgötvar hann að hann hefur fyrir mistök sprengt í loft upp bandarískan skriðdreka og drepið stjórnanda hans, Tom Boyer, sem þar að auki var besti vinur hans. Sterling er kallaður heim í kjölfar þessa atviks og herinn ákveður að þagga málið niður. Sterling er falið að annast pappírsvinnu í kringum heiðursverðlaunaafhendingar og eitt fyrsta verkefni hans er að skila af sér pappírum vegna dauða flugmanns, konu að nafni Karen Walden "Ryan", sem farist hafði við björgunarstörf í stríðinu. Herinn áætlar að veita Karen æðsta heiðursmerki hersins fyrir framgöngu sína og gera hana þar með að fyrstu konunni sem þann heiður hlýtur. Þegar Sterling tekur til við verkið rekst hann á ýmsar missagnir og verður ljóst að í þessu máli eru ekki örl kurl komin til grafar. Með rannsóknarblaðamanninn Tony Gartner "Glenn" á hælunum sem hefur grunsemdir um að ekki sé allt með felldu varðandi feril Sterlings sjálfs, hefur Sterling að yfirheyra samstarfsmenn Karenar og vitni að dauða hennar og kemst að því að frásögnum þeirra ber ekki saman. Eins og í tilfelli hans sjálfs er engu líkara en verið sé að þagga niður sannleikann í málinu. En hver er hinn raunverulegi sannleikur og hvers vegna er verið að reyna að breiða yfir hann? Þegar yfirmenn Sterling krefjast þess að hann ljúki verkefni sínu neitar hann að skila og skrifa undir skýrsluna sem heimilar verðlaunaveitinguna. Yfirmaður hans hótar honum þá því að hann verði rekinn úr hernum með skömm skili hann ekki pappírunum. En Sterling verður að komast að sannleikanum því aðeins þannig getur hann horfst í augu við sín eigin mistök. Stórkostleg og vönduð stríðsmynd sem ég mæli með og gef þrjár og hálfa stjörnu
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Terms of Endearment
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Klassísk og stórkostleg sexföld óskarsverðlaunakvikmynd sem kemur beint frá hjartanu og er í senn yndisleg blanda af einkar vönduðum léttum húmor og sönnum sorgum. Byggð á nánu sambandi mæðgna frá Houston í Texas í þrjá stormasama áratugi. Er á allan hátt ófyrirsjáanleg og kemur okkur sífellt innilega á óvart. Mæðgurnar Aurora Greenway og Emma Horton hafa alltaf verið nánar og því er móðir hennar ekki ánægð með að hún giftist erkiflóninu Flap Horton, og er þaðan af síður glöð með að þau flytjist til Seattle, hinum megin á landinu. Þær halda sambandi símleiðis og á meðan líða árin. Emma og Flap eignast svo í fyllingu tímans þrjú börn, tvo stráka og dóttur. Og gengur að sýnist bara allvel. En Aurora verður á meðan hugfangin af Garrett Breedlove, kostulegum geimfara á eftirlaunum. Hann er vægt til orða tekið skrýtin skrúfa og er skemmtileg andstæða hennar. En þá berast Auroru vondar fréttir, Emma kemst að því að Flap hefur haldið fram hjá henni og hún fer til móður sinnar og eyðir tíma hjá henni. En þá gerist svolítið er kemur öllum ógnvænlega á óvart og bindur enda á allar framtíðarætlanir mæðgnanna, Emma greinist með illkynja krabbamein. Shirley MacLaine og Debra Winger fara á kostum sem hinar ólíku en einkar samrýmdu mæðgur sem standa saman gegnum þykkt og þunnt. Og ekki má gleyma hinum eina sanna eilífðartöffara Jack Nicholson sem á sannkallaðan stórleik í hlutverki geimfarans Garrett Breedlove og nær að túlka kosti hans og galla á hreint einstaklega góðan hátt. Myndin fékk eins og fyrr segir sex óskarsverðlaun, þ.á.m. fyrir myndina sjálfa, handrit og leikstjórn snillingsins James L. Brooks en þetta er ein hans allra besta mynd ásamt einni af nýjustu klassamyndum hans "As Good As It Gets" sem Jack Nicholson fékk óskarinn fyrir. Ekki má að lokum gleyma Shirley MacLaine og Jack Nicholson sem fengu bæði óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan stórleik sinn í þessu hjartnæma og einkar yndislega mannbætandi meistaraverki James L. Brooks, sem fær mann alltaf til að gráta og hlæja í bland. EINSTÖK í sinni röð og hiklaust fjögurra stjarna virði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
To Kill a Mockingbird
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn í dag hrífur leikarinn Gregory Peck áhorfendur í óskarsverðlaunahlutverki sínu sem lögmaðurinn Atticus Finch í þessu meistaraverki. Þetta er glæsilega sögð saga um hugrekki, hugsjón og persónulega sannfæringu lögmanns sem tekur að sér málsvörn blökkumanns sem ákærður er fyrir að hafa misþyrmt hvítri konu í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Í myndinni, sem byggð er á verðlaunaskáldsögu Harpers Lee frá árinu 1960, leikur Brock Peters, verkamanninn Tom Robinson, hinn meinta glæpamann. Í fyrstu lítur út fyrir að málsvörn hans sé með öllu vonlaus enda eru fordómar samfélagsins réttlætinu yfirsterkara. En Atticus trúir statt og stöðugt á sakleysi skjólstæðings síns og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að sanna mál sitt um leið og hann þarf að vernda fjölskyldu sína fyrir andstæðingum sínum. Mary Badham var tilnefnd til óskarsverðlaunanna fyrir stórleik sinn í hlutverki Scout, dóttur Atticusar Finch og Horton Foote fékk Óskarinn fyrir handritið sem er hreint út sagt meistarastykki og er eitt af bestu kvikmyndahandritum síns tíma, það er mjög vel uppbyggt og virkilega vel yfirfært. Óskarsverðlaunaleikarinn Robert Duvall kemur hér fram í sinni fyrstu kvikmynd sem hinn dularfulli, en jafnframt eftirminnilegi Boo Radley, sem er ein allra áhugaverðasta persóna sögunnar. Háklassískt og einstaklega gott meistaraverk sem er ávallt viðeigandi og er hiklaust fjögurra stjarna virði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Il postino
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hrífandi og stórskostlega vel leikin mynd sem farið hefur sannkallaða sigurför um allan heim á undanförnum árum og hlotið frábærar viðtökur áhorfenda jafnt og gagnrýnenda sem flestir hverjir hika ekki við að nefna hana sem eina af bestu myndum ársins 1995. The Postman, eða "Il Postino" eins og myndin nefnist á frummálinu, var sýnd hvarvetna í heiminum við fádæma aðsókn. Myndin gerist á afskektri Miðjarðarhafseyju. Mario Ruoppolo "Massimo Troisi" er fremur einfaldur og feiminn fiskimannssonur sem ráðinn var til að koma til skila póstinum til "ástarskáldsins" Pablo Neruda "Philippe Noiret" sem lifir í nokkurs konar útlegð á eyjunni. Á milli þessara ólíku manna upphefst sérstök vinátta sem leiðir til þess að Mario fær Pablo til að hjálpa sér að vinna ástir konunnar sem hann elskar. Sú hjálp á síðan eftir að vekja upp skáldið í Mario sjálfum og smám saman nær hann tökum á orðum og samsetningu þeirra sem fleyta honum á braut rómantíkur og sjálfsuppgötvunar, braut sem á eftir að breyta öllu lífi þessa einfalda og feimna manns. IL Postino er ein af þessum góðu myndum sem líða þeim sem hana sjá aldrei úr huga. Troisi og Noiret fara á kostum. Troisi lést viku eftir lok gerðar myndarinnar. Sannkallað kvikmyndakonfekt sem er alltaf jafn heillandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Nixon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er á ferðinni úrvalsmynd Olivers Stone, Nixon, með óskarsverðlaunahafanum Anthony Hopkins í aðalhlutverki. Hún var tilnefnd til fernra óskarsverðlauna 1995: þ.á.m. fyrir leik Hopkins og leik Joan Allen í hlutverki Pat Nixon. Jafnvel þótt Richard M. Nixon hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður þessarar aldar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Með þessari hispurslausu mynd reynir óskarsverðlaunaleikstjórinn Oliver Stone að varpa ljósi á þennan einstaka mann sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér. Sjónarhorn Stones er hreinskilið og persónulegt en snýst að sjálfsögðu að miklu leyti um aðdragandann að falli Nixons úr valdastóli, hið dularfulla innbrot í Watergate-bygginguna árið 1972, til þess tíma er hann neyddist til að segja af sér 1974, fyrstur bandarískra forseta. En Stone skyggnist einnig dýpra inn í líf hans. Nixon var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum. Við fylgjumst með honum vaxa úr grasi og sjáum hvernig hann fór að láta til sín taka á sviði stjórnmálanna, varð þingmannsefni 33 ára, öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972. Hann stjórnaði landinu í gegnum mikla og erfiða pólitíska tíma og vann sér sess með því. Fjöldi stórleikara fer með hlutverk í myndinni og má þar nefna James Woods, Ed Harris, Bob Hoskins, J.T. Walsh, Mary Steenburgen, Paul Sorvino og Tony Goldwyn. Ég gef myndinni þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Apollo 13
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg og vönduð kvikmynd sem vann hug og hjörtu fólks árið 1995. Sögusvið myndarinnar er að í aprílmánuði árið 1970, átta mánuðum eftir að Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið, var geimfarinu Apollo 13 skotið á loft. Förinni var á ný heitið til tunglsins og innanborðs voru þrír geimfarar. Áhugi almennings á geimferðum hafði minnkað mikið þegar hér er komið við sögu. Það var eins og spenningurinn að verða vitni að jafn stórfenglegum atburði og að senda menn til tunglsins væri einungis bundinn við það fólk sem starfaði við geimskotið og fjölskyldur þeirra. Í augum hins almenna borgara var þetta tækniafrek bandarísku geimferðastofnunarinnar orðið að hversdagslegum viðburði. Þetta áhugaleysi endurspeglaðist í lítilli umfjöllun fjölmiðla um málið og því var það svo að þegar Apollo 13 fór í loftið, vissi hálf þjóðin ekki einu sinni af því, en það átti þó eftir að breytast!!!! Sprenging var í súrefnistanki geimfarsins og skemmdirnar sem því fylgdu voru það alvarlegar að útilokað var að lenda geimfarinu á tunglinu. Á nokkrum klukkustundum kom síðan í ljós að óvíst var hvort geimfararnir myndu eiga afturkvæmt til jarðar. Súrefnið sem eftir vaar í flauginni, átti einungis að duga tveimur mönnum í tvo sólarhringa, en þeir voru nú þrír og áttu a.m.k. fjögurra daga ferð fyrir höndum aftur til jarðar! Þessi frábæra mynd var tilnefnd til fjölda óskarsverðlauna árið 1995, þ.á.m. sem besta mynd ársins og fyrir leik Ed Harris. Það eitt ætti að segja áhugafólki um góðar kvikmyndir allt um gæði þessarar einstöku myndar, en auk þess er hún hreint kvikmyndalegt tækniafrek, því hver einasta sena hennar er framleidd af kvikmyndagerðarmönnum í stað þess að notast sé við fréttamyndir af atburðinum. Hér fara á kostum stórleikararnir Tom Hanks, Bill Paxton og Kevin Bacon í hlutverkum geimfaranna og þau Ed Harris, Gary Sinise og Kathleen Quinlan fara ekki síður á kostum, og vinna þau öll mikla leiksigra, sérstaklega Tom Hanks og Ed Harris. Það gætu margir haldið að geimskotið í myndinni sé gömul fréttamynd af upprunalega geimskotinu, en svo er nú aldeilis ekki því þetta var nú allt útbúið sérstaklega fyrir þessa mynd!!!! Frábær mynd í algjörum sérflokki fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur sem ég gef þrjár og hálfa stjörnu!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Twister
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Leikstjórinn Jan De Bont sem sló heldur betur í gegn með mynd sinni Speed 1994, er hér mættur til leiks á ný með meiriháttar skemmtilega stórspennumynd þar sem tæknilið undir handleiðslu Stevens Spielberg fer á kostum og sýnir svo um munar hvað hægt er að gera þegar kvikmyndabrellur eru annars vegar. Myndin segir frá hópi vísindamanna sem lifa hreinlega fyrir það eitt að komast að leyndardómum skýstrókanna sem myndast stundum við ákveðin skilyrði og geta verið svo öflugir að þeir rífa upp heilan smábæ rétt eins og um pappírsnifsi væri að ræða. Veðurfræðingarnir Bill og Jo "Bill Paxton og Helen Hunt" hafa um árabil eltst við það veðurfyrirbrigði sem nefnist skýstrókur eða Twister og eru allra manna fróðust um þá ásamt aðstoðarfólki sínu. Samt sem áður er lítið annað vitað um þessa stróka annað en að þeir þeim má skipta í fimm kraftstig og að þeir eru jafn óútreiknanlegir og þeir eru óvæntir. Eina færa leiðin til að komast að því í raun hvaðan strókarnir fá kraft sinn er að standa inni í miðju þeirra og gera mælingar. Það er hins vegar ekki framkvæmanlegt þar sem enginn leið er fyrir nokkurn mann að komast lifandi inn í miðju strókanna og því síður út úr þeim aftur. Þau Bill og Jo hafa því smíðað vél sem ætlað er að gera þessar mælingar. Vandamálið er að eina leiðin til að vélin geti unnið eins og til er ætlast er að koma henni inn í einhvern strókinn. Hún þarf því að verða á vegi hans. Það er hins vegar hægara sagt en gert því strókarnir eru sífellt að breyta um stefnu og enginn getur vitað fyrirfram hvar þeir fara yfir. Eina færa leiðin er því að komast eins nálægt strókunum eins og kostur er án þess að þeir grípi mann og hreinlega kasta vélinni inn í þá. Þetta er sko brjálæðisleg hugmynd, en gengur hún upp? Eltingarleikurinn mikli er hafinn!!! Góð og vönduð mynd sem ég gef þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með. Góðar tæknibrellur, góður leikur og vönduð leikstjórn er hennar aðall.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Babe
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fáar bíómyndir hafa komið jafn rækilega á óvart og þessi ástralska mynd um litla grísinn Badda sem langaði svo mikið að vera alvöru fjárhundur. Hún var fyrsta teiknimyndin sem var tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta myndin. Allt frá frumsýningu hennar hefur hún notið fádæma vinsælda um allan heim hjá fólki á öllum aldri, enda afbragðsvel gerð og skemmtileg. Ekki skemmir fyrir að myndin er talsett á íslensku sem gerir hana enn eftirsóknarverðari, ekki síst fyrir yngstu kynslóðina. Myndin hefst þegar mamma Badda litla og öll systkyni hans eru flutt á brott til "svínaparadísarinnar" þar sem "lífið er svo gott að ekkert svín hefur nokkru sinni snúið til heimaslóðanna á ný". Auðvitað veit Baddi ekki hinn kalda sannleika málsins frekar en önnur svín. Sjálfur lendir hann í því að vera valinn til að vera verðlaun á þorpshátíðinni. Svo heppilega vill til að það er Hogget bóndi sem vinnur Badda, en hann er góðhjartaður og fer vel með dýrin sín. Á milli hans og Badda myndast strax gott samband því Hogget sér að Baddi er enginn venjulegur grís. Smám saman kynnist Baddi svo hinum dýrunum á bænum, sem mörg hver eru vægast sagt kostuleg, og svo fer að tíkin Fluga tekur sérstöku ástfóstri við hann. Baddi fær í framhaldi af því mikinn áhuga á að gerast fjárhundur og þegar Hogget uppgötvar hæfileika hans ákveður hann að skrá hann í hina árlegu fjárhundakeppni í sveitinni. Þar með tekur hann þá miklu áhættu að verða aðhlátursefni fólks sem hefur litla trú á að grís geti verið fjárhundur! En annað á eftir að koma í ljós... James Cromwell var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir meistaraleik sinn í hlutverki bóndans Hoggett. Einstök mynd sem er afar góð fyrir alla fjölskylduna, og sem ég gef þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með fyrir alla!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Full Monty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eitt vita allir. Þegar Bretum tekst vel upp í gerð gamanmyndar þá slær enginn þeim við. Þessi dásamlega fyndna mynd og er umtöluð sem ein allra besta breska gamanmynd allra tíma og segir hún frá nokkrum atvinnulausum kunningjum í stálborginni Sheffield í Englandi sem hafa fátt við að vera í öllu atvinnuleysinu nema velta fyrir lífinu og tilverunni. Dag einn kemur Chippendale-dansflokkurinn til borgarinnar og skemmtir fyrir troðfullu húsi fagnandi kvenna. Í framhaldi af því fær einn kunningjanna, Gaz, þá flugu í höfuðið að fyrst fólk sé tilbúið að greiða væna fúlgu fyrir að horfa á þessa sýningu, hvers vegna ætti það ekki að vera tilbúið að greiða fyrir sýningu þar sem 6 atvinnulausir stálverkamenn tína af sér spjarirnar í villtum dansi. Hugmyndin er í sjálfu sér fáránleg. Enginn þeirra kumpána kann að dansa svo vel sé, einn þeirra er að nálgast fimmtugt, annar er allt of feitur og með sjálfsálitið í lágmarki, sá þriðji er þunglyndur og svo framvegis. Og enginn þeirra hefur stundað neina líkamsrækt að ráði. Hver kæmi til að horfa á ÞESSA menn fara úr öllum fötunum? En allt atvinnuleysið og peningaskorturinn vega þungt og þrátt fyrir ýmsan mótbyr ákveða kunningjarnir að láta slag standa. Og brátt fer leikurinn að snúast um það hversu langt þeir eru tilbúnir að ganga í sýningunni sjálfri. Fá nærbuxurnar að fjúka líka? Það er spurningin. Með fullri reisn eða The Full Monty, hefur fengið afburða dóma allra gagnrýnenda og var m.a. tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta mynd ársins 1997. Það má því hiklaust fullyrða með vissu að skemmtilegri mynd geta kvikmyndaunnendur varla valið sér til upplyftingar. Ég gef "Full Monty" þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni. Hún er ÓBORGANLEG!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Untouchables
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftirminnileg kvikmynd sem var ein besta mynd níunda áratugarins. Í henni er rakin saga Eliot Ness sem barðist hetjulegri baráttu við Al Capone í Chicago á bannárunum. Myndin er á mjög meðvitaðan hátt mótuð af langri hefð gangstermyndanna, frumleiki hennar liggur í klisju hefðarinnar og þar liggur sko lykillinn að frábærlega vel heppnaðri mynd. Það er allt ekta við hana á skemmtilega óekta máta. Með tækni sinni og texta eru Brian DePalma og handritshöfundurinn David Mamet alltaf að segja okkur: Þetta er bara bíómynd. Hún er eitt af mestu meistaraverkum síns tíma og segir sögu af tíma sem var í senn ógnvænlegur og sjarmerandi. Hún er líka ein íburðarmesta og vandaðasta skemmtun sem hægt er að hugsa sér. Þeir Kevin Costner og Sean Connery fara hreinlega á kostum í hlutverkum félaganna Eliot Ness og Jim Malone. Connery fékk óskarinn fyrir hreint einstaka túlkun sína á jaxlinum Malone. Hann hefur ekki leikið betur síðan hann lék Bond á árum áður. Og ekki má gleyma Robert De Niro sem er hreint einstaklega góður í hlutverki bófans Al Capone. Semsagt hreint einstök og einstæð mynd í sinni röð sem ég mæli eindregið og gef fjórar stjörnur, hiklaust. ALLS EKKI MISSA AF ÞESSARI!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dead Man Walking
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Dead Man Walking byggir á sannsögulegri frásögn systur Helen Prejean. Dag einn berst henni í hendur bréf frá dauðadæmdum manni, Matthew Poncelet, sem biður trúboð hennar um hjálp. Helen getur ekki annað en haldið til fundar við hinn örvæntingafulla mann sem dæmdur hefur verið fyrir hroðalegan glæp og á í augum flestra samborgara sinna ekkert betra skilið en að deyja. Matthew hefur aldrei fengist til að viðurkenna glæp sinn, hræðist mjög dauðann og biður Helen að reyna að koma í veg fyrir að dauðarefsingunni verði fullnægt. Helen á þó óhægt um vik því dómurinn er fallinn og sönnunargögn benda til sektar Matthews í málinu, auk þess sem félagi hans hefur viðurkennt verknaðinn og bent á Matthew sem samverkamann. Hún reynir því að fremsta megni að einbeita sér að því að draga fram allan sannleikann í málinu, fá Matthew til að standa ábyrgan frammi fyrir gjörðum sínum og bjarga sálu hans frá eilífri glötun. Susan Sarandon vinnur hér sinn stærsta leiksigur í hlutverki nunnunnar Helen Prejean og hlaut fyrir það óskarsverðlaunin sem besta leikkona í aðalhl. 1995, hún fer einfaldlega á kostum og hefur aldrei leikið betur. Hið sama má segja um Sean Penn, en hann er mjög góður í hlutverki hins dauðadæmda fjöldamorðingja. Eiginmaður Susan Sarandon, leikarinn Tim Robbins, leikstýrir þessari einstöku stórmynd og sýnir og sannar að hann er ekki síðri leikstjóri en leikari. Þessi mynd er sönnun þess!. Þess ber einnig að geta að titillag Dead Man Walking sem er eftir rokkgoðið Bruce Springsteen, var tilnefnt til Óskarsverðlauna. Ég gef myndinni þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með því að þú látir þessa mynd ekki fram hjá þér fara. STÓRFENGLEG í alla staði!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Breakfast at Tiffany's
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Klassísk og ógleymanleg kvikmynd þar sem rakin er saga lífsnautnakonunnar Holly Golightly sem lifir lífinu svo sannarlega lifandi hátt í borg borganna, New York. Þegar rithöfundurinn Paul Varjak flyst í sama íbúðarhúsið og Holly laðast hún að honum og verður bálskotin í honum. En þegar George tekur að kynnast hinni svokölluðu gleðidrottningu kemst hann að því að saga hennar er sko engin sæla heldur hefur hún átt við mikla erfiðleika að stríða í lífinu og á sér talsverða fortíð. Myndin hlaut þrenn óskarsverðlaun, þ.á.m. hlaut Audrey Hepburn óskarinn fyrir hreint frábæra túlkun sína á gleðidrottningunni Holly Golightly (Holly heitir í reynd Lulamae Barnes). Ekki má heldur gleyma George Peppard sem er góður í hlutverki Pauls, Buddy Ebsen sem er afar eftirminnilegur í hlutverki eiginmanns Hollyar og síðast en ekki síst er Mickey Rooney mjög góður í hlutverki japansks manns sem býr í fjölbýlishúsinu. Og ekki má gleyma óskarsverðlaunalaginu sígilda "Moon River" eftir Henry Mancini sem sló í gegn á sínum tíma. Ég gef "Breakfast ar Tiffany´s" fjórar stjörnur og mæli eindregið með henni við alla kvikmyndaáhugamenn. Þessi kvikmynd er sígilt meistaraverk og er alltaf sannur gleðigjafi
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sting
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Klassísk og einstaklega vel gerð óskarsverðlaunamynd sem hlaut sjö óskarsverðlaun árið 1973, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir besta handritið, fyrir hina góðu og einkar eftirminnilegu ragtime-tónlist Scott Joplin, en hún setur mjög sterkan heildarsvip á alla myndina og síðast en ekki síst fyrir hina eftirminnilegu leikstjórn meistarans George Roy Hill. Hér er sögð saga tveggja blekkingarmeistara sem setja upp veðmálagildru fyrir stórlax eftir að hann drap náinn félaga þeirra. Þessi kvikmynd hefur elst með stakri prýði enda með allra bestu kvikmyndum áttunda áratugarins og gervallrar kvikmyndasögunnar. Óskarsverðlaunaleikararnir Paul Newman og Robert Redford, eru alveg hreint frábærir í hlutverkum Henry Gondorff og Johnny Hooker og vinna einn af mestu leiksigrum á ferli sínum, þeir fara hreinlega á kostum. Ekki er Robert Shaw mikið síðri í hlutverki stórlaxsins undirförula, Doyle Lonnegan. Ennfremur má að síðustu nefna Eileen Brennan, Charles Durning, Ray Walston og Harold Gould. Þessi sjöfalda óskarsverðlaunakvikmynd er ótvírætt ein af allra bestu og eftirminnilegustu myndum áttunda áratugarins og setti mjög mikið mark á hann. Hún er einfaldlega hreint og beint snilldarverk sem ég gef fjórar stjörnur og ég mæli eindregið með að allir kvikmyndaaðdáendur horfi á njóti þess til fulls.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Deer Hunter
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Klassísk kvikmynd sem hlaut sjö óskarsverðlaun árið 1978, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Hún hefst á löngum kafla í stáliðnaðarborg í Pennsylvaníu þar sem vinir eru að ljúka vinnu og er stefnan tekin á Víetnam, þeir hafa verið kvaddir í herinn og eru að fara á vígvöllinn í hinu mannskæða stríði sem geisaði á sjöunda og áttunda áratugnum. Einn þeirra giftir sig fyrir förina og er því brúðkaupsveisla hans síðasta hamingjustund þeirra saman og jafnframt kveðjustund þeirra. Táknræn veiðiferð þeirra til fjalla er einnig feikna eftirminnileg. Síðan er áhorfandanum, sem persónunum, grýtt inn í blóðbaðið í Víetnam, og því lýst hvernig vinirnir fjórir bregðast við hörmungunum. Síðasti hluti myndarinnar fjallar svo um það sem eftir stendur, hvernig stríðið lék þá og vináttu þeirra. Myndin er minna um stríðið en heiðarlegar og góðar manneskjur sem að reyna að sætta sig við kringumstæður sem þær hreinlega skilja ekki. Epískt og stórbrotið meistaraverk sem fjallar um mannraunir og djöfulskap, en ofar öllu öðru um vináttu, traust og umhyggju fyrir mannlegu hliðinni. Hér fara á kostum margir af bestu leikurum ungra leikara á áttunda áratugnum og nægir þar að nefna Robert De Niro, Meryl Streep, John Cazale, John Savage og Christopher Walken sem fékk óskarinn sem besti leikari í aukahlutverki fyrir vandaðan leik sinn. Hlaut einnig óskara fyrir leikstjórn Michael Cimino, handritið og bestu tónlistina. Ein af allra sterkustu stríðsádeilum kvikmyndasögunnar og er ávallt einstök lýsingum af þeim atburðum sem hún lýsir og er sannkallað snilldarverk með sterkri og mjög breiðri persónusköpun. Ég gef Hjartarbananum eða "The Deer Hunter" hiklaust fjórar stjörnur og mæli eindregið með þessu klassastykki við alla þá sem unna góðum og vönduðum stríðsmyndum
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Englar alheimsins
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hreint einstök kvikmynd þar sem allt gengur upp. Handritið er vandað og vel gert, byggt á verðlaunabók skáldsnillingsins Einars Más Guðmundssonar sem er ennfremur byggð á reynslusögu bróður hans, tónlistin er undurfögur með stórfenglegu lokalagi Sigurrósar sem er frábær að vanda, stórbrotinni kvikmyndatöku sem er með því besta í íslenskum kvikmyndum og ekki má að lokum gleyma stórleik þeirra leiksnillinga sem hér fara á kostum, sérstaklega Ingvar E. Sigurðsson sem hefur aldrei leikið betur en hér, Björn Jörundur er mjög góður, einnig eru þeir Hilmir Snær og Baltasar Kormákur góðir að vanda. Einnig má nefna þau Halldóru Geirharðsdóttur, Margréti Helgu Jóhannsdóttur og Pétur Einarsson sem eru mjög góð. Hér er semsagt á ferðinni stórkostleg kvikmynd sem tekur á skynsamlegan og vandaðan hátt á geðveilu og hvernig hún leikur fólk og aðstandendur þeirra. Myndin er ekki síðri en bókin, er reyndar á mörgum sviðum margfalt betri. Ég mæli eindregið með þessari kvikmynd og tel hana vera eitt af allra mestu meistaraverkum íslenskrar kvikmyndagerðar og vera í raun best gerðu mannlýsinguna í ríflega tuttugu ára sögu íslenskrar kvikmyndaflóru. Ég gef Englum Alheimsins fjórar stjörnur og mæli eindregið með henni sem stórbrotnu, mannlegu og ógleymanlegu meistaraverki sem kemur Friðriki Þór aftur á stallinn yfir mestu meistara íslenskrar kvikmyndagerðar. Hreint út sagt einstök og hreint ómissandi öllum þeim sem unna snilldarverkum að íslenskum hætti.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Wag the Dog
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hvers vegna dillar hundur skottinu? Vegna þess að hundurinn er snjallari en skottið. Ef skottið væri snjallara mundi það dilla hundinum. Þetta er augljós sannleikur og speki sem á svo sannarlega við í þessari frumlegu, fyndnu og sérlega skemmtilegu mynd óskarsverðlaunaleikstjórans Barry Levinson. "Wag the Dog" er af mörgum óhikað talin til bestu mynda ársins 1997. Það eru þeir Dustin Hoffman og Robert De Niro sem leika aðalhlutverkin ásamt Anne Heche, Willie Nelson, Denis Leary, William H. Macy, Kirsten Dunst og Woody Harrelson, svo einhverjir séu nefndir af fjölmörgum þekktum leikurum sem koma fram í myndinni. Það eru aðeins 11 dagar í forsetakosningar og tíminn því ekki heppilegur fyrir alvarlegt hneyksli þar sem forsetinn sjálfur er aðal sökudólgurinn. Ásakanir þess efnis að hann hafi beitt eina starfsstúlku Hvíta hússins kynferðislegri áreitni eru komnar fram og málið er mjög líklegt til að hafa afgerandi áhrif á siðvanda kjósendur. Til að bjarga málunum er ákveðið að kalla í Conrad Brean "De Niro", en hann er svokallaður "spunalæknir", þ.e. sérfræðingur í að hafa áhrif á almenning í gegnum fjölmiðla og fréttatilkynningar. Conrad gerir sér þegar grein fyrir alvöru málsins og til að dempa umræður um hneykslið finnur hann upp enn alvarlegri fréttir sem hafa með kjarnorkusprengju og stríð í Albaníu að gera. Til að gera "fréttirnar" trúverðugastar flýgur hann til fundar við Hollywood-leikstjórann Stanley Motts "Hoffman" og fær hann í lið með sér. Hlutverk hans er að framleiða í einum grænum trúverðugar fréttamyndir frá "átakasvæðinu" og koma þeim á framfæri. Þeir Stanley og Conrad eru skottið sem dillar hundinum. Og hundurinn er öll heimsbyggðin. Stórkostleg og vönduð úrvalsmynd sem ég mæli eindregið með og gef þrjár og hálfa stjörnu, einkum vegna stórleiks gömlu jaxlanna, De Niro og Hoffmans, en sá síðarnefndi var einmitt tilnefndur til óskarsverðlaunanna árið 1997 fyrir leik sinn, fyrir leikstjórnina og hið magnaða og einkar beitta handrit.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Born on the Fourth of July
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sérlega áhrifamikil og hreint ævintýralega vel leikin kvikmynd um ævi hermannsins Ron Kovics sem fór fullur af föðurlandsást og hetjudýrkun í Víetnamsstríðið en kom þaðan lamaður fyrir neðan mitti, bundinn við hjólastól. Brátt tóku hugmyndir hans um tilgang stríðsins að breytast, honum fannst hann hafa verið blekktur til þess að taka upp rangan málstað og fer að berjast með mótmælendum stríðsins en í bakgrunni eru þjóðfélagsbreytingar hippatímans. Eftirminnileg og kraftmikil ádeila og uppgjör Ron Kovics við Víetnamtímabilið og kannski ekki síst virðingarvottur við það fólk sem slapp lifandi úr stríðinu. Oliver Stone fékk óskarsverðlaunin fyrir magnaða og einkar djarfa leikstjórn sína, enda óvæginn og hispurslaus sem fyrr í túlkun sinni á Víetnamsstríðinu, enda var hann þar og horfði upp á nána vini sína deyja hvern af öðrum. Tom Cruise fékk óskarsverðlaunin fyrir leik sinn á Ron Kovic, hermanninum sem berst gegn hinu eilífa óréttlæti stríðsmennskunnar, hann hefur aldrei leikið betur en í þessari kvikmynd, hann er alveg hreint frábær í persónusköpun sinni. Ekki má heldur gleyma Kyru Sedgwick, Willem Dafoe og Tom Berenger. Hreint út sagt ógleymanleg og stórfengleg kvikmynd um mannraunir á ófriðartímum sem ég mæli eindregið og gef fjórar stjörnur, sérstaklega vegna leikstjórnar Stone, stórleiks Cruise og handritsins sem Ron Kovic samdi ásamt Oliver Stone.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The World Is Not Enough
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

James Bond "007" njósnari hennar hátignar snýr aftur í þessari nítjándu kvikmynd Broccoli-fjölskyldunnar um hið eina sanna kvennagull. Pierce Brosnan er hér í þriðja sinni í hlutverki njósnarans og fer á kostum og sannar það endanlega að hann er besti Bondleikarinn á tuttugustu öld, hann kórónar það með snilldarleik sínum og réttum tilbrigðum á réttum stöðum, t.d. er hann lagar bindið áður en hann fer í kaf í upphafsatriðinu, þetta er hans langbesta Bondmynd. Söguþráðurinn er vel uppbyggður og skartar sannfærandi Brosnan, hinni stórglæsilegu Sophie Marceau í hlutverki klækjakvendisins Elektru King, Óskarsverðlaunaleikkonunni Dame Judi Dench sem er stórfengleg að vanda í hlutverki hinnar voldugu M, yfirmanns MI6, og Robert Carlyle sem er mjög góður illingi sem hinn tilfinningalausi Renard. Eini mínusinn er hinsvegar stór og er það Denise Richards sem er einstaklega slök sem kjarneðlisfræðingurinn Christmas Jones og sýnir það og sannar að hún er mjög léleg leikkona. Desmond Llewelyn fer að vanda á kostum í hlutverki hins úrræðagóða Q, en hann er hér væntanlega að ljúka ferli sínum í hlutverki þessa snillings. Eftirmaðurinn R, leikinn af breska Monty-Python gamanleikaranum John Cleese er mjög fínn og lofar góðu í hlutverkinu á komandi öld. Ég get ekki annað en að minnast að lokum á hið stórfenglega upphafsatriði sem er að mínu mati með betri af þeirri gerðinni í sögu þessa langlífa kvikmyndabálks. Semsagt, James Bond er hér í essinu sínu og hefur sjaldan verið betri en í þessari nýjustu afurð sem er leikstýrð af gæðaleikstjóranum Michael Apted sem hefur m.a. leikstýrt gæðamyndinni "Coal Miner´s Daughter". Ég gef "The World is not Enough" þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með þessari stórfenglegu blöndu af léttu gamni og harðri spennu. Þetta er nú einu sinni Bond, James Bond. Hann er skotheldur í öllu tilliti og er ómótstæðilegur fyrir mannkynið og verður það vonandi á hinu nýja árþúsundi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ungfrúin góða og húsið
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg og vönduð kvikmynd sem hlaut fimm Edduverðlaun 1999, þ.á.m sem besta kvikmynd ársins og fyrir leikstjórn og stórleik Tinnu Gunnlaugsdóttur. Er tvímælalaust í flokki allra bestu kvikmynda Íslensku þjóðarinnar á 20. öld. Hér er sögð saga af prestsfjölskyldu vestur á landi sem ræður lögum og lofum á staðnum og stjórnar í senn bæði andlegu og veraldlegu valdi þar. Dætur prestsins eru einkar ólíkar; Þuríður, eldri dóttirin stjórnar öllu sem fram fer á staðnum með hyggju og ráðsmennsku, ómerkilegu sem merkilegu en hin yngri er hlédræg og miklu mannlegri. Er foreldrunum finnst hún vera lítt kunnug um lífið og tilveruna senda þau hana til Danmerkur, þar sem hún dvelst á heimili ömmu frægs leikara sem hafði áður verið í tygjum við Þuríði. Hann er giftur maður, en fer þó að lokum á fjörurnar við yngri systurina og barnar hana. Upphefst þá mikið sjónarspil hjá aðstandendum hennar heima á Íslandi til að bjarga því sem bjarga verður, heiðri hússins og ekki síst heiðri fjölskyldunnar vestur á fjörðum. Og ekki liggur prestsdóttirin Þuríður á sínu þegar til gripið klækjabragðanna er gripið. Stórkostleg mynd sem er allt í senn stórbrotið meistaraverk, vel leikið, mynduglega leikstýrt og einkar vel tekið. Tónlistin eftir Hilmar Örn Hilmarsson er vönduð og falleg og verðskuldaði sín verðlaun og Ragna Fossberg sín verðlaun fyrir förðunina. Stjarna myndarinnar er þó óumdeilanlega leikkonan Tinna Gunnlaugsdóttir sem hlaut Edduverðlaunin fyrir stórleik sinn í hlutverki Þuríðar, prestsdótturinnar sem svífst einskis til að bjarga heiðri hússins og fjölskyldunnar, hún fer hreinlega á kostum og hefur sjaldan leikið betur í kvikmynd en hefur unnið margan leiksigurinn á fjölum Þjóðleikhússins, enda mikilhæf og einkar reynd leikkona. Guðný Halldórsdóttir stjórnar öllu bak við tjöldin og slær ekki feilnótu í bæði góðu og fallegu handriti byggðu á smásögu föður hennar, nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, og ekki síst sem leikstjóri þessa stórvirkis íslensku kvikmyndasögunnar. Af öðrum leikurum má nefna Ragnhildi Gísladóttur, Rúrik Haraldsson, Reine Brynjolfsson, Helga Björnsson og Egil Ólafsson sem fer á kostum í hlutverki Björns, hins trygga og trúa eiginmanns Þuríðar. Hjónin Tinna og Egill eiga góðan samleik saman. Ég gef kvikmyndinni fjórar stjörnur og mæli eindregið með henni við alla þá sem ekki hafa séð hana, hún er einstaklega vandað og stórbrotið meistaraverk að íslenskum hætti.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gone with the Wind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

BESTA kvikmynd tuttugustu aldarinnar ásamt Casablanca. Einstök og fágæt gullaldarklassík sem er mesta meistarastykki kvikmyndasögunnar og skartar þeim Vivien Leigh og Clark Gable í hlutverkum elskandanna Scarlett O´Hara og Rhett Butler. Vivien Leigh fékk óskarsverðlaunin fyrir einstaka túlkun sína á kjarnakonunni Scarlett, sem er ein af bestu ímyndum nútímakonunnar. Gable fer ekki síður á kostum og eru þau hér sínum allra frægustu kvikmyndahlutverkum. Kvikmynd sem verður alltaf meistarastykki, og þar hjálpar allt til; einstök leikstjórn, mjög gott handrit, góð tónlist, einstök myndataka og stórleikur allra aðalleikaranna. Aðrir aðalleikarar myndarinnar eru ekki af verri endanum og nægir þar að nefna þau Oliviu De Havilland, Leslie Howard, Hattie McDaniel og Thomas Mitchell, en þau fara öll á kostum í hlutverkum sínum. Hattie McDaniel hlaut óskarinn fyrir einstaka túlkun sína á vinnukonunni Mammy. Hér er rakinn á meistaralegan hátt glæsileiki Suðurríkjanna, fall þeirra og niðurlæging. Allt er baðað rómantík og sögulegum mikilleika. Sagan sem kvikmyndin er byggð á er byggð á skáldsögu bandarísku skáldkonunnar Margaret Mitchell, og er hún mest selda og ein allra besta skáldsaga aldarinnar og gerði hún hana heimsfræga á einni nóttu. Sögusvið myndarinnar er Suðurríki Bandaríkjanna, fyrir og eftir hina örlagaríku og blóðugu borgarastyrjöld sem breytti sögu Bandaríkjanna svo um munaði. Aðalsöguhetjan er Scarlett O´Hara, sem glímir við stríðið og átökin á eftirminnilegan hátt. Hér er á ferðinni ódauðleg og einstök kvikmynd sem er hreint eitt af mestu stórvirkjum í sögu kvikmyndanna. Hún hreppti alls tíu óskara árið 1939, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir meistaralega leikstjórn Victor Fleming, fyrir leik Leigh og McDaniel, fyrir tónlistina undurfögru og síðast en ekki síst fyrir hið einstaka kvikmyndahandrit byggt á sögu Margaret Mitchell. Ég gef "GONE WITH THE WIND" fjórar stjörnur og mæli eindregið með henni. HÚN ER LANGBESTA KVIKMYND TUTTUGUSTU ALDARINNAR!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Silence of the Lambs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Klassísk og hreint frábær óskarverðlaunamynd sem segir alveg hreint einstaka sögu mannætunnar Hannibals Lecter. Clarice fulltrúaefni hjá FBI er fengin til að rannsaka Lecter og komast að því hvernig hann gat framið glæpi sína. Lecter er lokaður inni í rammgerðu búri og í kringum hann er urmull af vörðum sem gæta hans. En spurningin er bara sú kemst hann í gegnum eftirlitið og mun hann reyna að strjúka. Clarice hefur allan varann á við rannsóknina á voðaverkum Lecter og kemst brátt að því að kauði er meira en lítið ruglaður. Þessi frábæra kvikmynd er byggð á metsölubók Thomas Harris. Þau Anthony Hopkins og Jodie Foster fara svo sannarlega á kostum í hlutverkum Lecters og Clarice, þau fengu bæði verðskuldaða óskara fyrir meistaralegan leik sinn. Myndin hlaut sex óskarsverðlaun árið 1991, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og fyrir leikstjórn og kyngimagnað handrit. Ég gef myndinni fjórar stjörnur og mæli eindregið, hún er einkar spennandi og er ótvírætt ein af fimm bestu kvikmyndum áratugarins og hún heldur áhorfandanum alveg við efnið út í gegn. EINSTÖK OG FANTAGÓÐ!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Quiz Show
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg og meistaralega gerð mynd eftir SÖNNUM atburðum. Árið 1958 voru alls konar spurningaleikir langvinsælasta efnið í bandarísku sjónvarpi. Þar kepptu menn um verulegar fjárhæðir og hylli almennings, enda urðu sigurvegararnir að þjóðhetjum í augum flestra áhorfenda. Einn vinsælasti leikurinn nefndist þar Tuttugu og einn og um nokkurra vikna skeið bar maður að nafni Charles Van Doren höfuð og herðar yfir aðra keppendur, því hann virtist vita svarið við nánast öllum spurningum, sama hversu erfiðar þær virtust vera. Fyrir vikið varð hann þjóðhetja í augum samlanda sinna, enda talinn til greindustu manna í Bandaríkjunum. Myndir af honum birtust á forsíðum blaða og tímarita um gervallt landið og í kjölfar þess efnaðist hann verulega á öllum vinsældunum. En einn góðan veðurdag tók spilaborgin að hrynja þegar tapsár keppandi sakaði van Doren og framleiðendur þáttarins um að svindla í leiknum og hélt hann því fram að van Doren fengi öll svörin fyrirfram. Málið var þaggað niður, enda engin sönnunargögn fyrirliggjandi. En ákæran vakti mjög mikla og óskipta athygli opinbers rannsóknarmanns, Dick Goodwin og ákvað hann að skoða málið aðeins betur. Brátt sannfærðist hann um að ákæran ætti við rök að styðjast, en átti í allra stökustu vandræðum með að sanna það fyrir dómstólum. En einn góðan veðurdag rann sannleiksstundin mikla upp..... Stórkostleg og einkar vönduð mynd, leikstýrð af óskarsverðlaunaleikstjóranum Robert Redford. Með helstu hlutverk fara leikararnir Ralph Fiennes, Rob Morrow, John Turturro, David Paymer og óskarsverðlaunaleikarinn Paul Scofield. Þeir fara allir á kostum, þó má segja að Ralph Fiennes hafi aldrei leikið eins vel. Ógleymanleg mynd sem lýsir sönnum og glæpsamlegum atburðum og er þriggja og hálfrar stjarna virði. Ekki missa af henni!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jerry Maguire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gamansöm og ekki síst stórfengleg stórmynd frá leikstjóranum Camerons Crowe. Ein af vinsælustu kvikmyndum ársins 1997, var tilnefnd til 5 óskarsverðlauna, hlaut þau fyrir meistaralegan leik Cuba Gooding, Jr. í hlutverki íþróttakappans Rod Tidwell. Það er stórleikarinn Tom Cruise sem fer með hlutverk Jerrys Maguire, en hann starfar hjá stóru umboðsfyrirtæki og er sérfræðingur í öllu sem lýtur að því að búa til stjörnur úr efnilegum íþróttamönnum. Á nokkrum árum hefur hann náð miklum og góðum árangri í starfi sínu, enda hefur hann notað öll þau brögð sem menn þurfa að kunna ef þeir vilja ná langt í bransanum - þar á meðal þau sem geta vart kallast annað en óheiðarleg. Dag einn gerist eitthvað í kollinum á Jerry Maguire. Skyndilega fær hann svo heiftarlegt samviskubit yfir sýndarmennskunni og peningagræðginni sem einkennir starf hans að hann finnur sig tilneyddann til að skrifa skýrslu um málið þar sem hann leggur m.a. til að fyrirtæki hans skipti um stefnu í þessum málum. Skýrslan vekur óneitanlega mikla athygli hjá stjórnendum fyrirtækisins og öðrum starfsmönnum, en því miður ekki til góðs fyrir Jerry. Hann er rekinn, sumum samstarfsmönnum hans og keppinautum innan fyrirtækisins til nokkurrar ánægju þar sem þeir fá þá í sinn hlut umboð fyrir alla íþróttakappanna sem hann hafði á sínum snærum. Alla nema einn! Sá heitir Rod Tidwell og er hann annars flokks ruðningskappi sem hefur tröllatrú á að hann eigi skilið að verða stjarna á stjörnulaunum, en er að renna út á tíma. Nú hefst nýtt tímabil í lífi Jerrys Maguire sem einsetur sér að vinna fyrir Rod samkvæmt hinum nýju dyggðum og sanna þar með fyrir sjálfum sér og öðrum að hann hafi haft rétt fyrir sér. Vönduð og vel gerð kvikmynd sem ég mæli með og gef þrjár og hálfa stjörnu, sérstaklega fyrir handritið, fyrir leik Cruise og Gooding og ekki síst nýstirnisins Renée Zellweger sem er að gera það gott í Hollywood "þetta er hennar fyrsta mynd" og síðast en ekki síst fyrir leikstjórn Crowe. Góð og eftirminnileg kvikmynd í alla staði
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sound of Music
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Söngvaseiður eða "The Sound of Music" er einhver elskaðasta kvikmynd allra tíma, byggð á samnefndum söngleik Rodgers og Hammerstein, sem margoft hefur verið tekinn til sýninga hér á landi. Julie Andrews fékk óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á nunnunni Maríu, sem er ung kona í námi í klaustri í Austurríki skömmu fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Hún er utanveltu í nunnuhópnum og því grunar abbadísina að hæfileikar hennar og metnaður liggi annarsstaðar en í meinlæti nunnunnar og útvegar henni því starf sem barnfóstra sex barna ekkilsins og barónsins Von Trapp. María tekur strax til sinna ráða inni á heimilinu og kemur með gleði, ánægju og hlýju sem voru áður óþekk fyrirbæri á heimili barónsins sem misst hafði eiginkonu sína fjórum árum áður. Og fyrr en varir hefur María unnið hug og hjörtu barnanna sex og ekki síst barónsins sjálf. Auk Julie Andrews fer Christopher Plummer á kostum í hlutverki barónsins. Ennfremur má minnast á Eleanor Parker, sem tilnefnd var til óskarsverðlauna fyrir leik sinn á greifynjunni. Og krakkaskarinn fer hreint í hlutverkum barna barónsins. Tónlistin eftir þá félaga Rodgers og Hammerstein er fyrir löngu orðin sígild og ekki síður er kvikmyndin meistaraverk. Hún hlaut átta óskarsverðlaun árið 1964, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leik Julie Andrews, fyrir leikstjórn meistarans Robert Wise, fyrir tónlistina, myndatöku og fleira. Söngvaseiður er ein af bestu kvikmyndum sjöunda áratugarins, og er ennfremur ein besta dans- og söngvamynd allra tíma. Hún eldist með eindæmum vel og er ávallt jafn heillandi sem fyrr. Ég gef Söngvaseið fjórar stjörnur og mæli eindregið með henni alla unnendur gamalla, sígildra og ógleymanlegra óskarsverðlaunkvikmynda sem lifa um aldur og ævi. "The Sound of Music" er tvímælalaust í þeirra hópi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Heat
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frábær mynd og örugglega ein besta spennumynd síðari ára þar sem óskarsverðlaunaleikararnir Al Pacino og Robert De Niro sýna magnaðan snilldarleik. Ef einhver mynd verðskuldar lýsingarorðið frábær, þá er það þessi mynd. Enginn sem sér hana og hefur aldur til að meta hana getur gefið henni lakari umsögn en það. Hér leiða saman hesta sína í fyrsta sinn tveir af bestu leikurum samtíðarinnar, Al Pacino og Robert De Niro undir stjórn leikstjórans Michaels Mann sem einnig er höfundur handrits, en með önnur stór hlutverk fer stór og valinkunnur hópur úrvalsleikara t.d. Val Kilmer, Tom Sizemore, Jon Voight, Ted Levine, Mykelti Williamson og Wes Studi svo einhverjir séu nefndir. Neil McCauley "De Niro" er eitursnjall atvinnuglæpamaður. Hann hefur ásamt mönnum sínum, Chris "Kilmer", Michael "Sizemore" og Nate "Voight" lagt á ráðin með nokkur afar kunnáttusamleg og hátæknileg rán víðsvegar um borgina. Snilli þessara rána felst ekki síst í því að McCauley og menn hans skilja ekki eftir sig nein spor sem geta komið upp um þá og því síður sannað eitt né neitt. Vincent Hanna "Pacino" er rannsóknarlögreglumaður í rán- og morðdeild. Einkalíf hans er rjúkandi rúst enda kemst ekkert annað að í huga hans en starfið. En hann er ekki síður snjall en McCauley og með hjálp sinna manna og uppljóstrara í borginni tekst honum smám saman að þrengja netið í kringum glæpamennina. Áður en langt um líður verður ljóst að leiðir þessara ólíku manna eiga eftir að liggja saman. Til uppgjörs hlýtur að koma, uppgjörs sem fáir munu lifa af. Stórkostleg og meistaralega gerð stórmynd sem ég gef þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með við alla sanna kvikmyndaaðdáendur. Frábær í alla staði
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Analyze This
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er hinn frábæri leikari, leikstjóri og handritshöfundur Harold Ramis "Ghostbusters, Groundhog Day, Multiplicity" sem er höfundur þessarar sprenghlægilegu myndar þar sem tveir af bestu leikurum Bandaríkjanna, þeir Robert De Niro og Billy Crystal fara á algjörum kostum í hlutverkum sínum. De Niro leikur hér mafíósann Paul Vitti, tilvonandi guðföður einnar valdamestu mafíufjölskyldu New York-borgar. Hann hefur alist upp í faðmi fjölskyldunnar, lært öll þau handbrögð sem þarf til að stjórna starfseminni og er tilbúinn til að axla ábyrgðina á forystuhlutverki sínu þegar hann fer skyndilega og óvænt að finna til svimandi óttaeinkenna. Hann gerir sér grein fyrir því að hann á við einhvers konar geðrænt vandamál að stríða sem hann verður að losna við áður en hann tekur við krúnunni. Hann er jú maður sem á að vekja ótta, ekki upplifa hann sjálfur. Bob Sobel "Crystal" er fráskilinn sálfræðingur sem hefur ekki hugsað sér að klífa til metorða heldur reyna að búa sér eins kyrrlátt líf og hann getur, jafnvel þótt það kosti að hann geti ekki valið sér viðskiptavini og verði að sætta sig við það sem er að hafa hverju sinni. Af einskærri tilviljun haga atvikin því svo að Paul Vitti leitar til Sobel með þá einföldu kröfu að hann lækni hann af ofsóknarbrjálæðinu áður en allar mafíufjölskyldur landsins komast að því hvers kyns er. Í fyrsta sinn á ævinni stendur Vitti nefnilega frammi fyrir vandamáli sem verður hvorki leyst með byssu né sementi. Nema auðvitað ef Sobel mistekst að lækna hann! Ógleymanleg mynd sem er þriggja og hálfrar stjörnu virði. Alls EKKI missa af þessari mynd!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Caine Mutiny
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Klassískt og sígilt réttardrama byggt á handriti margfrægrar Pulitzer-verðlaunaskáldsögu Hermans Wouk. Segir frá því þegar tveir sjóliðsforingjar gera uppreisn gegn skipherra sínum, kapteini Quegg, og segja hann andlega vanheilan til að stjórna skipinu. Sérlega vönduð og áhugaverð sviðsetning og stórkostlegur leikur aðalleikaranna er aðall þessarar klassamyndar sem er ein af bestu kvikmyndum sjötta áratugarins. Humphrey Bogart fer á kostum í hlutverki skipherrans og er þetta eitt af hans bestu og eftirminnilegustu hlutverkum. Túlkun hans nær hámarki er Quegg er leiddur til vitnis í réttarsalnum, þar sýnir Bogart á ógleymanlegan hátt hið snúna og margbrotna sálarástand skipherrans. Þetta hlutverk er í raun síðasta stórhlutverk Bogarts, en hann lést tæpum þrem árum eftir gerð myndarinnar. Ekki má heldur gleyma öðrum leikurum, en þeir Van Johnson, Robert Francis, Fred MacMurray, José Ferrer og Lee Marvin fara einnig á kostum í hlutverkum sínum. Ég gef "The Caine Mutiny" fjórar stjörnur og mæli hreint eindregið með henni, jafnt við Bogart-aðdáendur og ekki síst við alla kvikmyndaaðdáendur. Þessi kvikmynd er allt í senn einstök, stórbrotin og ógleymanlegt meistaraverk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sígild og klassísk kvikmynd sem tímans tönn hefur ekki unnið á, enda er Dr. Strangelove ein magnaðasta satíra um bombuna sem gerð hefur verið. Bandarískur hershöfðingi sendir upp á sitt eigið fordæmi flugdeild búna kjarnorkuvopnum í árásarferð, Sovétríkin eru í sigtinu. Flugdeildin er sambandslaus og Sovét búið hinu eina, sanna varnarkerfi; ef landið verður fyrir kjarnorkuvopnaárás springur Móðir Jörð í loft upp. Gálgahúmorinn leikur á alls oddi, hvert atriðið öðru gráglettnara rekur annað. Peter Sellers er hreint ógleymanlegur í þremur hlutverkum - sem breskur yfirmaður í NATO, forseti Bandaríkjanna og síðast en ekki síst gamli nasistinn, sprengjusmiðurinn. Slim Pickens fer einnig á kostum í hlutverki ævi sinnar sem Suðurríkjahermaðurinn sem fer gandreið á bombunni. Ekki má heldur gleyma stórleik þeirra George C. Scott, Sterling Hayden, Keenan Wynn og James Earl Jones. Dr. Strangelove er kvikmynd sem er svo sannarlega fjögurra stjarna virði, enda er hún ein af þeim tuttugu kvikmyndum sem mestan svip hafa sett á kvikmyndasögu seinni hluta aldarinnar. Tvímælalaust eitt af mestu meistaraverkum kvikmyndasnillingsins Stanley Kubricks sem lést fyrir tæpu ári. Ég mæli eindregið með henni, sleppið henni alls ekki ef þið eigið þess kost að sjá hana. Dr. Strangelove er ein af þessum sérstöku myndum sem verða ávallt tilkomumiklar og óumdeildar táknmyndir tuttugustu aldarinnar. EINSTÖK KVIKMYNDAUPPLIFUN.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Close Encounters of the Third Kind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Heillandi mynd sem sannar svo ekki verður um villst að Steven Spielberg er einn af mestu kvikmyndasnillingum tuttugustu aldarinnar. Jarðarbúar komast í þriðju gráðu snertingu við geimverur og þó sérstaklega einn, sem leikinn er af Richard Dreyfuss, sem haldinn verður þráhyggju út af dularfullri gátu sem sækir á hann og honum tekst á endanum að leysa. Einkar vel gerð lýsing á mögulegri snertingu við önnur lífsform utan úr geimnum, gerð af mikilli skynsemi og hyggindum, en Spielberg skrifaði sjálfur handritið. Heillandi og einkar spennandi með allflestum þeim töfrum sem einkennt hafa meistaraverk Stevens Spielberg. Richard Dreyfuss er fantagóður sem maðurinn sem verður gagntekinn yfir komu geimveranna, hann hefur sjaldan leikið eins vel og einmitt hér í þessari mynd. Það er sterkur leikur að hafa hann í þessu hlutverki og ekki síst er leikstjórinn Francois Truffaut vel valinn í hlutverk vísindamannsins. Áhugamenn um fljúgandi furðuhluti geta ekki látið þessa stórmynd fram hjá sér fara en hún höfðar í reynd til allra þeirra sem hafa áhuga á ævintýramennsku af öllu tagi. Þessi mynd sannar að Spielberg eru allir vegir færir í túlkun sinni, jafnt á hinu mögulega í heiminum, jafnt sem hinu ómögulega Fjögurra stjarna virði og tvímælalaust ein af bestu myndum óskarsverðlaunaleikstjórans. Ég fæ aldrei leið á þessari mynd og mæli eindregið með henni við alla þá sem trúa að þarna úti sé líf, í einhverjum mæli. Pottþétt skemmtun fyrir alla ofurhuga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Casino
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese hefur fyrir margt löngu öðlast sess sem einn besti og vandvirkasti kvikmyndagerðarmaður sem kvikmyndasagan þekkir vel, enda hafa myndir hans á borð við Taxi Driver, King of Comedy, Goodfellas, Cape Fear, Raging Bull og Mean Streets allar notið mikilla vinsælda og hlotið fjölda Óskarsverðlauna. Casino er nýjasta mynd meistarans og eins og ætíð hefur hann fengið nokkra af bestu leikurum samtímans í aðalhlutverkin, Robert De Niro og Joe Pesci sem fara hér hreint á kostum eins og fyrri daginn "þeir léku einnig aðalhlutverkin í Goodfellas". Sharon Stone, hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir meistaralega túlkun sína á Ginger, og var ennfremur tilnefnd til óskarsverðlaunanna fyrir túlkun sína. Það er óþarfi að endurtaka hér öll þau lofsyrði sem fallið hafa á myndina, leikstjórnina og leikinn, en fullyrða má að hún sé ein af bestu myndum ársins 1995 og ein besta mynd Scorsese fyrr og síðar. Velkomin til Las Vegas árið 1973. Sam "Ace" Rothstein "De Niro" lifir þar lífinu sem leppur fyrir milljarða dala rekstur mafíunnar í spilavítum borgarinnar og hefur gott upp úr krafsinu sér til handa. Samt sem áður eru stjórarnir í mafíunni ekki fyllilega öruggir um fjárfestingar sínar. Það virðist því vera snjall leikur að senda æskuvin Sams, Nicky Santoro "Pesci" til liðs við hann því þeir Sam og Nicky vega hvorn annan upp: Hugvit Sams og valdbeiting Nickys er öflug blanda sem fátt getur staðist. Fátt, segjum við, því þegar kynbomban Ginger McKenna kemur til skjalanna, fer heldur betur að hitna í kolunum ... Þessi grípandi sannsögulega mynd inniheldur enn fremur frábæra tónlist og svimandi innsýn í yfirborðskenndan dýrðarljómann í lífi þeirra manna og kvenna sem leggja hreinlega allt sitt undir - peninga og líf - í einu teningakasti! Þetta er stórkostlegt meistarastykki sem hreint allir verða að sjá. Ég gef "CASINO" þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni. Hún er einstaklega góð afþreying á góðri stund þótt löng sé. Alls ekki missa af henni
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mission: Impossible
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir fáum myndum hefur verið beðið með jafn mikilli eftirvæntingu og þessum frábæra trylli leikstjórans Brians De Palma sem hefur ekki gert betri mynd síðan The Untouchables árið 1987. Mission: Impossible jafnast á við hina svakalegustu rússíbanaferð, enda er aldrei slegið af í hraða og spennu, auk þess sem frábærar tæknibrellurnar kóróna verkið. Áhorfendum er eindregið ráðlagt að láta setja öryggisbelti á sófann þegar þessari mynd er smellt í tækið. Tom Cruice leikur hátækninjósnarann Ethan Hunt og fyrirliða leynilegrar sveitar á vegum CIA sem takast á við nærri því ómöguleg verkefni. Um nokkurt skeið hefur CIA haft rökstuddan grun um að einhver háttsettur innan leyniþjónustunnar sé að selja hátæknileyndarmál til óþekkts aðila. Ethan Hunt og hans fólk hefur rannsakað málið og þau eru nú að undirbúa sig undir að afhjúpa bæði svikarann og kaupandann í húsi sem vitað er að er mótstaður þeirra. Allt gengur samkvæmt áætlun til að byrja með en rétt áður en aðgerðinni lýkur kemur í ljós að hér eru heldur betur svik í tafli. Allir meðlimir sveitarinnar, að Ethan undanskildum, falla fyrir hendi óþekkts morðingja sem virðist vita allt um ráðagerðina. Og til að bæta gráu ofan á svart þá áttar Ethan sig fljótlega á að hann sjálfur er skyndilega orðinn hinn grunaði í málinu, enda er hann einn eftir af þeim sem vissu um aðgerðina. Hann á því allt í einu fótum fjör að launa undan útsendurum CIA og verður að finna lausnina í málinu og ennfremur að afhjúpa hinn raunverulega svikara sjálfur áður en það er orðið of seint. Hér fara á kostum óskarsverðlaunaleikararnir Tom Cruise, Jon Voight, Vanessa Redgrave og leikkonurnar Emmanuelle Béart og Kristin Scott Thomas. Hér er á ferðinni einn af bestu spennutryllum allra tíma sem ég mæli með og gef þrjár og hálfa stjörnu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cabaret
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Víðfræg og einstök dans- og söngvamynd, byggð á þekktum Broadwaysöngleik, sem hlaut 8 óskarsverðlaun árið 1972, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Bakgrunnurinn er hispurslaus næturklúbbur í hinni opnu Berlín fyrirstríðsáranna, þar sem ekkert var heilagt. Leikstýrð af kunnáttu og innsæi eins hugmyndaríkasta kvikmyndaleikstjóra aldarinnar, Bob Fosse, en hann hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína á myndinni. Myndin er borin uppi af stórleik tveggja leikara sem aldrei hafa leikið betur á ferli sínum, þeirra Lizu Minnelli og Joel Gray. Liza Minnelli hlaut óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn og Joel Gray hlaut óskar sem besti leikari í aukahlutverki, þau fara hreint á kostum og eru stórfengleg í hlutverkum sínum. Aftur á móti eru þeir Michael York og Christopher Isherwood frekar slakir í sínum hlutverkum. Ég gef Cabaret þrjár og hálfa stjörnu, einkum vegna stórfenglegrar myndatöku, stórleiks Minnelli og Gray, vel skrifaðs handrits og góðrar leikstjórnar Bob Fossé. Ég mæli með myndinni, einkum vegna þess að hún er heillandi og er einkar vel gerð. Og stendur það uppúr í mínum huga, tvímælalaust. Ein af bestu dans- og söngvamyndum kvikmyndasögunnar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Annie Hall
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Besta kvikmynd snillingsins Woody Allen, en hún hlaut óskarsverðlaunin sem besta kvikmynd ársins 1977. Sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og jafnframt sambandsleysi hans við leikkonuna Diane Keaton sem var ástkona hans í tæpan áratug. Hér er urmull hinna einstöku Allens-brandara og pælinga um ástina, en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og skilningi og ekki síst léttum húmor. Mörg einstaklega góð atriði, stór og smá, en Allen hreppti bæði óskarinn fyrir leikstjórn sína og handritið ásamt Joseph Marshall. Annie Hall fjallar um stormasamt samband grínista við söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Allens. Diane Keaton hlaut óskarsverðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Annie Hall. Hún fer á kostum í hlutverkinu og vinnur þar stærsta leiksigur ferils síns. Það eru hinsvegar fáir sem vita að raunverulegt nafn leikkonunnar er Diane Hall, þaðan kemur eftirnafn aðalsöguhetju myndarinnar. Ég mæli eindregið með þessari stórkostlegu kvikmynd við allt kvikmyndaáhugafólk. Klassísk kvikmynd í kvikmyndasögunni sem verðskuldar ekkert minna en fjórar stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Manhattan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein af allra bestu kvikmyndum snillingsins Woody Allen er tvítug á þessu ári og er enn jafngóð sem fyrr. Hér er sögð saga af grínhöfundinum Isaac Davis í New York sem á í sambandi við þrjár konur í einu. Tracy, hina ungu, Mary, sem passar honum betur og Jill sem er gallhörð eiginkona. Manhattan sameinar alla aðalkosti Woody Allens sem kvikmyndagerðarmanns í elskulega kómískri úttekt á kvennamálum söguhetjunnar. Hún er glæsilega tekin í svart-hvítu af Gordon Willis og rétta andrúmsloftið kórónað eins og svo oft áður með tónlist snillingsins George Gershwin. Að Annie Hall frátaldri er Manhattan besta kvikmynd Allens. Svo einfalt er það. Allen fer á kostum í hlutverki Davis og þær stöllur Diane Keaton, Meryl Streep og Mariel Hemingway fara stórkostlega vel með hlutverk ástkvenna hans. Ómótstæðileg og yndisleg kvikmynd sem fær fjórar stjörnur, hvorki meira né minna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Silkwood
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Áhrifamikil og ógleymanleg kvikmynd frá leikstjóranum Mike Nichols. Ung verkakona í plútóníumverksmiðju í Oklahoma kemst illilega að göllum í öryggiskerfi hennar en lætur lífið þegar hún reynir að koma upplýsingum áleiðis til fjölmiðla. Áhrifarík og jafnframt sannsöguleg mynd um líf og starf Karenar Silkwood, sem kemur inná athyglisvert efni og fæst við það á jarðbundinn og raunsæjan hátt með fyrsta flokks leik óskarsverðlaunaleikkonunnar Meryl Streep. Hún fer á kostum í hlutverki hennar og vinnur þar einn af mestu leiksigrum ferils síns. Að auki fara Kurt Russell og Cher vel með sín hlutverk, en þau leika félaga hennar. Semsagt ómissandi mynd sem fær þrjár og hálfa stjörnu, mest þá fyrir leik Meryl Streep, gott handrit og fantagóða leikstjórn Nichols. Ómótstæðileg kvikmynd, ég mæli eindregið með henni, við allt kvikmyndaáhugafólk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Foul Play
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sígild blanda af góðu gamni og harðri spennu í ljúfum og ómótstæðilegum kokkteil með Goldie Hawn og Chevy Chase. Kona að nafni Gloria Mundy í San Francisco tekur upp puttaling og flækist þar með inní glæpasamsæri sem enginn trúir nema lögreglumaðurinn Tony Carlson. En Gloria er komin á hálan ís og það er ekki hægt að snúa til baka, heldur að berjast fimlega á móti. Dásamlegt spennugrín sem aðeins hin geðþekka Gloria getur lent í. Ekki bragðmikið handrit en skemmtilegar persónur í fyndnum kringumstæðum halda manni vel við efnið. Óskarsverðlaunaleikkonan Goldie Hawn fer á kostum í aðalhlutverkinu og ekki er Chevy Chase mikið síðri. Dudley Moore er óborganlegur í hlutverki kynlífsfíkilsins í hinni óborganlegu svefnherbergissenu, og tekst þar fullkonmlega að stela senunni. Ekki má gleyma Burgess Meredith sem er góður í hlutverki leigusala Gloriu. Semsagt ógleymanleg kvikmynd frá 1978 sem hefur staðist tímans tönn og er enn mjög góð. Ég gef Samsæri eða Foul Play þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni. Hún er ómótstæðilega góð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Working Girl
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftirminnileg kvikmynd úr safni leikstjórans Mike Nichols. Metnaðargjarn einkaritari hjá stórfyrirtæki tekur framfyrir hendurnar á yfirboðara sínum og fær í lið með sér yfirmann á æðri stöðum til að framkvæma hina snjöllu hugmynd sína en í leiðinni fella þau hugi saman, en hann er unnusti yfirmanns hennar. Einstaklega vel heppnuð, rómantísk og gamaldags gamanmynd sem er á heillandi og sjarmerandi nótum. Mjög gott handrit og kómískt innsæi leikstjórans tryggja góða skemmtun frá upphafi til enda. Þríeykið sem leikur aðalhlutverkin fer hreint á kostum Harrison Ford, Sigourney Weaver og Melanie Griffith sem er stjarna myndarinnar, hún hlaut tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Weaver er ógleymanleg í hlutverki yfirboðarans og er stórkostlegt uppaskass, Ford fer vel með sína rullu. Ég gef Working Girl þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni, hún er gífurlega góð og ekki síst stórvel leikin.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Witness
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftirminnileg og ljúf kvikmynd frá ástralska leikstjóranum Peter Weir. Lítill Amishdrengur á ferðalagi með móður sinni í stórborginni verður vitni að morði á lestarstöð en þegar lögreglumaðurinn sem rannsakar morðið kemst að því að félagar hans úr lögreglunni standa að baki því flýr hann með mæðgininum til fólksins þeirra í sveitinni. Dúndurgóður þriller í bland við ástarsögu á milli Harrison Ford og Kelly McGillis í forvitnilegu umhverfi Amishanna. Peter Weir tekst að fjalla bráðvel og jafnvel fallega um siði þeirra og hefðir og stilla friðsælu lífi þeirra gegn annarri og dekkri siðmenningu borgarinnar án þess að missa niður spennuna. Leikararnir fara á kostum, sérstaklega Ford sem á stórleik í hlutverki löggunnar og ekki er McGillis verri. Hlöðudans þeirra í myndinni undir ljúfum tónum Sam Cookes er með sígildustu og eftirminnilegustu atriðum myndarinnar, það hefur mikið verið stælt síðan. Ég gef Vitninu eða The Witness þrjár og hálfa stjörnu og mæli ég eindregið með henni, hún er hreint frábær.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
American Graffiti
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórkostlegur óður til sjöunda áratugarins, tryllitækja, túberaðra gella, rokktónlistarinnar sígildu, rúntsins og ástarbragða í aftursætum. Höfðar til unglinga á öllum aldri. Stemmningin er stórkostleg og hópur, þá lítt kunnra leikara, stendur sig með eindæmum vel. Hér stíga sín fyrstu spor ekki ómerkari garpar hvíta tjaldsins en Richard Dreyfuss, Harrison Ford og hinn knái og smái Charles Martin Smith. Sígild kvikmynd byggð á ljúfsárum minningum, þess tíma sem áhyggjulaus æskuárin eru að kveðja en alvara lífsins með öllum sínum áætlunum og ákvörðunum að taka við. Ég gef American Graffiti þrjár og hálfa stjörnu og mæli með þessari síungu og klassísku kvikmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Butch Cassidy and the Sundance Kid
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frábærlega skemmtilegur, gamandramatískur vestri um flótta tveggja útlaga undan verulega þrjóskum laganna verði. Varð klassísk um leið og hún var frumsýnd enda dásamleg á mörgum sviðum, hún er ein af þeim myndum sem gott er að sjá a.m.k. einu sinni á ári. Það kemur ekki síst til af glettilega góðum samleik þeirra Paul Newman og Robert Redford og góðri leikstjórn George Roy Hill, en það má heldur ekki vanmeta fyndið og dramatískt handrit William Goldmans sem er með hans bestu verkum, enda hlaut hann óskarinn fyrir það. Myndin hreppi einnig óskarinn fyrir kvikmyndatöku og tónlist og lagið "Raindrops Keep Falling on My Head". Ég gef Butch Cassidy and the Sundance Kid tvímælalaust fjórar stjörnur og mæli hreint eindregið með þessu meistaraverki sem hefur staðist tímans tönn aðdáunarlega vel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Big
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Heillandi og vel gerð kvikmynd sem fjallar um þrettán ára strák sem fær ósk sína uppfyllta, og verður fullorðinn í einu vetfangi en aðeins líkamlega. Vönduð og vel unnin kómedía með alvarlegum undirtón þrettán ára lífssýnar í hörðum heimi fertugsaldursins. Leikstjórinn, Penny Marshall, er einkar flink í að setja upp þessar andstæður og láta þær skella saman í gamni og alvöru en hér er hinsvegar ekki gert út á kómedíu fíflaskaparans heldur er kímnin fundin í hinu smáa. Tom Hanks fer hreint alveg á kostum í hlutverkinu. Ekki má heldur gleyma þeim Elizabeth Perkins, John Heard og Robert Loggia. Ég gef kvikmyndinni BIG þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni við alla þá sem vilja eiga notalega og umfram allt skemmtilega kvöldstund. Hún er nefnilega pottþétt skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Frenzy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sakleysingi er hundeltur af lögreglunni á meðan raunverulegi kvennamorðinginn, hrottalegur kyrkjari, heldur uppteknum hætti í London. Verulega góð kvikmynd úr safni Alfred Hitchcock sem sýnir að meistarinn var ekkert farinn að dala undir lok ferils síns, en Frenzy var næstsíðasta kvikmyndin sem hann gerði. Góður, svartur húmor, en heimilislíf aðal rannsóknarlögreglumannsins er t.a.m. hinn hreinasti unaður, í bland við öll illvirkin og einkar góða spennu. Myndataka og klippingar eru fyrsta flokks og leikurinn er ekki síðri, hér fara þau Jon Finch, Barry Foster, Barbara Leigh-Hunt, Anna Massey og Alec McCowen alveg hreint á kostum. Það sem eyðileggur eilítið fyrir því að myndin eldist ekki eins vel og ella hefur orðið er tíska tímabilsins. Að öllu öðru leyti er myndin stórfengleg og verðskuldar hvorki meira né minna en þrjár og hálfa stjörnu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Casablanca
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Klassísk og hreint ódauðleg óskarsverðlaunamynd sem hlotið hefur sæmdartitilinn besta kvikmynd tuttugustu aldarinnar, og skal ekki nokkurn undra. Hér er sögð sagan af kaffihúsaeigandanum Rick í Casablanca í Marokkó í seinni heimsstyrjöldinni og ævintýrum hans. Af öllum búllum í öllum heiminum verður gamla kærastan hans endilega að stíga fæti sínum inn á staðinn hans með ástvini sínum, foringja í frönsku andspyrnuhreyfingunni sem er á flótta undan nasistum, og þá hefst óvænt og stórskemmtileg atburðarás. Humphrey Bogart er hér í sínu frægasta hlutverki fyrr og síðar sem Rick og Ingrid Bergman fer ekki síður á kostum í hlutverki Ilsu, ekki má heldur gleyma stórleik þeirra Claude Rains í hlutverki lögreglustjórans og Paul Henreid sem ástvini Ilsu. Sannkölluð gullaldarklassík gerð eftir hreint einstöku handriti og ekki síst einstaklega vel leikstýrð af Michael Curtiz. Casablanca er án nokkurs vafa ein af fimm bestu kvikmyndum sögunnar og er persónulega sú kvikmynd sem ég met mest. Hún verður alltaf meira heillandi eftir því sem árin líða og verða atriðin í henni þess þá meira heillandi, nefni ég þá sem dæmi atriðið þar sem Rick og píanóleikarinn Sam sitja við flygilinn og Sam leikur lagið undurfagra "As Time Goes By" og lokaatriði myndarinnar sem gerist á flugvellinum þar sem framtíð sambands Ricks og Ilsu ræðst endanlega. Það atriði er alveg klassík út af fyrir sig. Ég gef Casablanca fjórar gylltar stjörnur og gef henni þau allra bestu meðmæli sem meistaraverk verðskuldar að fá. Ég hvet alla sem ekki hafa séð hana að drífa í því hið snarasta. Allir verða nefnilega að sjá þetta meistarastykki kvikmyndasögunnar a.m.k. einu sinni. Það gæti orðið "upphafið að fallegri og einstakri vináttu". Það var það svo sannarlega í mínu tilfelli.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Notorious
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfengleg og umfram allt einstök kvikmynd úr safni meistara Hitchcock. Tvímælalaust ein af bestu kvikmyndum hans. Gerist skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Ingrid Bergman leikur hér dóttur stríðsglæpamanns og er notfærð af leyniþjónustunni með Cary Grant í fararbroddi, til að koma upp um starfsemi nasista í Rio de Janeiro í Brasilíu. Til þess að það megi lánast verður hún að giftast höfuðpaurnum sem leikinn er af Claude Rains, en á meðan kviknar ástin á milli Bergman og Grant. Allt í senn, spennandi, gamansöm, dökk og rómantísk. Ástarsamband stórstjarnanna er eitt það innilegasta sem hafði sést fram að þeim tíma, enda lék leikstjórinn eftirminnilega á lagabókstafinn í afar langri kossasenu. Myndin er gerð af áhrifaríkum einfaldleik meistarans. Tvímælalaust fjögurra stjarna virði og ber hún vitni öllum bestu eiginleikum mynda Alfreds Hitchcock. Einstök og rómantísk spennumynd sem stenst tímans tönn og er einstök í sinni röð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lady Vanishes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einstök kvikmynd meistara Alfreds Hitchcock. Ung stúlka um borð í lest á ferð um Evrópu kynnist vingjarnlegri gamalli konu, en þegar hún hverfur skyndilega vill enginn trúa stúlkunni og kannast við að gamla konan hafi nokkru sinni verið um borð í lestinni. Afbragsgóður, kíminn og einkar spennandi þriller Hitchcocks er ennþá töfrandi og umfram einstök skemmtun með afar góðum leikurum og einkar skemmtilegri fléttu. Leikararnir fara hreint á kostum og nægir þar að nefna Margaret Lockwood, Micheal Redgrave, Paul Lukas, Dame May Whitty og Cecil Parker. Ég gef The Lady Vanishes tvímælalaust fjórar stjörnur og mæli eindregið með henni við alla unnendur stórmynda meistarans. Hún er alveg stórfengleg að öllu leyti.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Braveheart
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í þessari vönduðu kvikmynd sem hlaut óskarinn árið 1995 fyrir bestu kvikmynd ársins, er sögð saga skosku þjóðhetjunnar William Wallace sem uppi var seint á 14. öld. Þegar hann snýr aftur til ættjarðar sinnar, eftir áralanga fjarveru, er konungur Skota nýlátinn án þess að láta eftir sig son til að taka við krúnunni. Bretar ákveða í framhaldi af því að leggja Skotland undir sig og kemur það í hlut Wallace að safna liði til að berjast á móti Bretunum, en hann á einnig persónulegra harma að hefna gegn þeim, því þeir eru ábyrgir fyrir því að fjölskylda hans var myrt. Wallace reyndist einn mesti leiðtogi sem Skotar hafa átt og þótt að við ofurefli væri að etja, tókst honum með fádæma hugrekki og herkænsku að þjappa liði sínu saman og vinna ótrúlega sigra á innrásarliðinu. Með þessari vönduðu og eftirminnilegu mynd sannaði Mel Gibson að hann er ekki síður liðtækur leikstjóri en leikari. Myndin var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna árið 1995, og hlaut fimm, þar á meðal sem besta kvikmynd ársins, eins og fyrr sagði, og ennfremur fyrir handritið og vandaða leikstjórn Mel Gibsons. Ég gef "Braveheart" þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni. Hún er hreint út sagt stórfenglegt meistaraverk!!!!!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Notting Hill
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Lauflétt og bráðskemmtileg gamanmynd þar sem tvær af stærstu kvikmyndastjörnum dagsins í dag, Julia Roberts og Hugh Grant, fara á algjörum kostum í hlutverkum sínum. Framleiðendur og handritshöfundur eru þeir sömu og gerðu hina stórgóðu mynd "Four Weddings and a Funeral" og það er óhætt að segja að Notting Hill gefi henni ekkert eftir, enda hefur hún fengið frábæra dóma allra gagnrýnenda og hlaut mikla bíóaðsókn bæði hér á Íslandi og erlendis sumarið 1999. William Thacker "Grant" er bóksali í Notting Hill-hverfinu í London, ófrægur með öllu og sérhæfir sig í sölu ferðabóka. Anna Scott "Roberts" er hins vegar heimsfræg kvikmyndastjarna sem getur sig nánast hvergi hrært án þess að almenningur, blaðamenn og ljósmyndarar séu á hælum hennar við hvert fótmál. Hún er nú við tökur í London á nýrri mynd og dag einn gefst henni sjaldgæft tækifæri til að fara ein út að versla. Það er einmitt þá sem fundum þeirra Önnu og Williams ber saman í fyrsta skipti. Af einskærri tilviljun ratar hún inn í verslun hans í leit að ákveðinni bók um fjarlæga staði. Í framhaldi af því takast með þeim kynni sem bæði vita í raun að eru aðeins tímabundin. Heimar þeirra eru svo ólíkir að það er nánast óhugsandi að þau eigi eftir að kynnast nánar. En annað kemur á daginn því fyrir gráglettni örlaganna hittast þau á ný skömmu síðar og verður báðum ljóst að kynni þeirra eiga eftir að draga dilk á eftir sér, dilk sem jafnvel gæti kallast ást! Ógleymanleg kvikmynd sem vinnur hug og hjarta þeirra sem hana sjá. Ég gef "Notting Hill" þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið. Hún er einfaldlega dásamleg í alla staði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Firm
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er óskarsverðlaunaleikstjórinn Sydney Pollack sem leikstýrir Tom Cruise og öðrum úrvalsleikurum í þessari stórgóðu spennumynd. Tom Cruise leikur hér Mitch McDeere, nýútskrifaðan lögfræðing með bestu einkunn frá Harvard-háskólanum. Þegar honum býðst staða við lítið en öflugt lögfræðifyrirtæki í Memphis getur hann ekki hafnað boðinu enda er í boði ótrúlega há laun og enn ótrúlegri fríðindi, s.s. nýr bíll og útborgun í glæsilegu húsi búnu fyrsta flokks húsmunum. En þegar FBI-maður setur sig í samband við Mitch með sannanir fyrir því að fyrirtækið stundi peningaþvott fyrir mafíuna, er hann skyndilega á milli tveggja elda. Annað hvort neyðist hann til að starfa með FBI að öflun frekari gagna um hina ólöglegu starfsemi eða hann verður ákærður fyrir samsekt í málinu. En Mitch fékk ekki bestu einkunn frá Harvard fyrir ekki neitt! Tom Cruise fer hér á kostum og það gerir óskarsverðlaunaleikarinn Gene Hackman ennfremur í hlutverki vinnufélaga hans. Þá eru þau Jeanne Tripplehorn, Ed Harris og óskarsverðlaunaleikkonan Holly Hunter svakagóð í hlutverkum sínum. Og ekki má gleyma handritinu góða og einstakri leikstjórn Pollacks. Ég gef "The Firm" þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni, enda er hún afar góð spennumynd og á köflum dramatísk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Client
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vönduð og einkar vel gerð spennumynd eftir hinni víðfrægu skáldsögu The Client, hún er allra besta myndin af þeim kvikmyndum sem gerðar hafa verið eftir sögum metsöluhöfundarins John Grisham. Hinar eru The Pelican Brief, The Firm og The Rainmaker. Með aðalhlutverkin í myndinni fer Susan Sarandon, sem af gamalkunnum krafti túlkar lögfræðinginn Reggie Love, á kostum og var það afar ósanngjarnt að hún skyldi ekki fá óskarinn fyrir þann stórleik sinn. Ekki má gleyma Tommy Lee Jones sem fer á kostum í hlutverki saksóknarans Roy Foltrigg. Ekki má gleyma aðalsöguhetjunni, hinum ellefu ára gamla Mark Sway, sem ungstirnið Brad Renfro leikur af stakri prýði. Mark Sway er að leika sér úti í skógi þegar hann sér bíl á veginum sem eitthvað grunsamlegt er við. Hann ákveður að athuga málið, en sú ákvörðun hans á eftir að verða afdrifarík. Í bílnum er lögfræðingur að gera tilraun til sjálfsmorðs. Hann segir Mark dálítið sem Mark á eftir að sjá eftir að hafa heyrt. Vitneskja hans rekur hann nefnilega á mikinn flótta, ekki aðeins undan mafíunni sem hefur engan áhuga á því að vitneskja hans fari lengra, heldur og einnig undan saksóknararnum Roy Foltrigg, sem er ákveðinn í að draga allt út úr Mark sem hann veit. Mark ákveður því að ráða sér lögfræðing til að sinna sínum málum og fyrir valinu verður snjöll og eiturhörð kona, Reggie Love, sem gerir allt sem í hennar valdi stendur til að gæta rétta hans. Stórkostleg og verulega góð mynd sem ég gef þrjár og hálfa stjörnu!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Entrapment
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er um að ræða þrumuskemmtilega og æsispennandi mynd sem inniheldur fléttu sem kemur á óvart! Með aðalhlutverkin fara Sean Connery og Catherine Zeta-Jones, sem er óðum að verða ein eftirsóttasta leikkona heims, en leikstjóri er Jon Amiel sem gert hefur margar fínar myndir. Robert "Mac" MacDouglas "Connery" er þekktur meistaraþjófur, þótt enginn hafi enn getað staðið hann að verki og því síður komið honum á bak við lás og slá. Þegar ómetanlegu Rembrandt-málverki er stolið á snilldarlegan hátt í New York beinist grunur alríkislögreglunnar umsvifalaust að Mac. Forráðamenn tryggingafélagsins sem greiða þarf út tryggingu vegna málverksins eru einnig á því að Mac hafi hér verið að verki og ein af rannsóknarkonum þeirra í málum sem þessum, Virginia "Gin" Baker, tekst að sannfæra þá um að hún sé sú rétta til að fletta ofan á Mac og sanna á hann stuldinn. Það sem hún hyggst gera er að leggja útsmogna gildru fyrir Mac. Það kemur hins vegar í ljós að Mac er snjallari en Gin gerði ráð fyrir og ekki nóg með það heldur myndast fljótt á milli þeirra samband sem snýst upp í að þau ákveða að vinna saman að snjallri áætlun um að svíkja út milljónir dollara! Þar með er hafin hreint æsispennandi og stórskemmtileg atburðarás þar sem enginn veit hvaða hættur bíða handan hornsins og hver dagur gæti orðið sá síðasti sem þau Gin og Mac lifa. Vönduð og vel leikin mynd sem ég mæli eindregið með og gef ég henni þrjár og hálfa stjörnu, hiklaust
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ransom
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ransom er algjör toppmynd og spennutryllir eins og þeir gerast bestir auk þess sem hún skartar einum vinsælasta leikara samtímans, Mel Gibson, í aðalhlutverki, en auk Gibsons leika þau Rene Russo, Gary Sinise og Brawley Nolte "syni leikarans Nick Nolte" einnig í myndinni undir leikstjórn Ron Howard. Auðkýfingurinn Tom Mullen og eiginkona hans lenda í verstu martröð lífs síns þegar ungum syni þeirra er rænt. Mullen fær senda í pósti mynd af syninum bundnum og kefluðum ásamt kröfum um margar milljónir dollara í lausnargjald. Mullen er nauðugur einn kostur að verða við þessum kröfum enda er ljóst að mannræningjarnir eru til alls vísir. En þegar afhenda á lausnarféð fer eitthvað úrskeiðis og skotbardagi brýst út. Í framhaldinu ákveður Mullen að taka þá mestu áhættu sem hann hefur nokkurn tíma í lífi sínu tekið. Hann kemur fram í sjónvarpi og í stað þess að fallast á kröfur ræningjanna leggur hann allt féð til höfuðs þeim. Með þessu er hann án nokkurs vafa að tefla lífi sonar síns í tvísýnu, enda mætir þessi ákvörðun mikilli andstöðu bæði eiginkonu hans og lögreglunnar. En Mullen er vanur að standa fast við ákvarðanir sínar og treystir á spil sín þrátt fyrir að þau geti engan vegin talist góð. Þar með hefst hreint æsispennandi framvinda sem rígheldur áhorfendum við efnið allt til endalokanna. Mjög vönduð og einkar vel leikin úrvalsmynd sem ég gef þrjár og hálfa stjörnu og mæli ég ennfremur eindregið með henni við alla kvikmyndaunnendur
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
North by Northwest
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórkostlegt meistaraverk sem stendur fyrir sínu enn í dag. Cary Grant fer á kostum í hlutverki Rogers Thornhill sem er hundeltur um gjörvöll Bandaríkin án þess að vita gjörla hvaðan á sig stendur veðrið. Hann er enn einn Hitchcock-sakleysinginn er lendir í kringumstæðum sem hann hefur engin tök á sjálfur en leggur á einhvern skemmtilegasta flótta kvikmyndasögunnar með mörgum frægum senum eins og þeirri þegar flugvélin ræðst á Grant úti á sléttunni og hápunktinum í blálokin innan um forsetahausana á Rushmore-fjalli. Cary Grant er alveg í essinu sínu og það er meistarinn sjálfur, Alfred Hitchcock einnig. Leikstjórn hans er einstök. Eva Marie Saint fer á kostum í hlutverki sínu og ekki má gleyma stórleik James Mason á vonda kallinum. Hér er spennu og óviðjafnanlegu gríni blandað í unaðslegan kokkteil. Ég gef North by Northwest fjórar gylltar stjörnur og mæli eindregið með henni við alla sanna áhugamenn um stórvirki kvikmyndasögunnar. Þessi mynd er unaðslega góð og er hreint engu lík, einstök í sinni röð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Psycho
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þetta stórkostlega meistaraverk er sú mynd sem einna helst er tengd við meistara kvikmyndasögunnar, Alfred Hitchcock. Lítil og ódýr í framleiðslu, en hreint meistaralega uppsett í spennu og hryllingi byggð á samnefndri bók Robert Bloch. Hér er sögð saga ungrar konu sem stelur peningafúlgu frá vinnuveitanda sínum og leggur á flótta með þá. En hún mætir skapara sínum þegar hún tekur þá örlagaríku ákvörðun að eyða nóttinni á hinu sögufræga Bates-móteli. Hún er drepin í einu af allra frægasta morðatriði kvikmyndasögunnar - sturtuatriðinu - þar sem varla sést blóðdropi en leikstjórinn beitir klippingum og áhrifstónlist til að ná fram hryllingnum. Fleiri atriði má telja upp, sem öll ná fram hámarksáhrifum með lágmarks blóðsúthellingum. Alfred Hitchcock kallaði sjálfur myndina sína lítinn og nettan brandara en fáum hefur takist að útskýra þá lýsingu sómasamlega. Kvikmyndin stendur enn í dag fyrir sínu og meira en það. Leikurinn er einstakur í sinni röð, og fremstur þar stendur Anthony Perkins sem er hreint út sagt stórfenglegur í hlutverki litla mömmudrengsins sem er jafn brenglaður og hann lítur sakleysislega út. Og ekki má gleyma stórgóðum leik Janet Leigh, en hún er einungis í myndinni í tæpan hálftíma og vinnur leiksigur í eftirminnilegu hlutverki. Semsagt einstök og ógleymanleg kvikmynd sem er fjögurra stjarna virði og er eitt af allra mestu meistaraverkum kvikmyndasögunnar og einn mesti minnisvarðinn um snilli og stórfenglega leikstjórn meistara Alfreds Hitchcock. Ég hvet eindregið alla sem hafa áhuga á bestu spennumyndum sögunnar að láta PSYCHO ekki fram sér fara og taka hana frekar en eftiröpunina frá 1998. Gamla góða útgáfan er einfaldlega þúsund sinnum betri og vandaðri bæði hvað varðar gerð hennar og leikinn í henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bonnie and Clyde
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frægasta glæpahyski kreppuáranna var parið sem titillinn vísar til, geðtrufluð suðurríkjaungmenni með gáfnavísitölu nærri stofuhitamörkum. Bæði brengluð kynferðislega og sjálfsagt stutt í kvalalostann. Slíkt er að sjálfsögðu heflað mikið til af í myndinni. Um hríð komust þau Bonnie og Clyde upp með að ræna hvern bankann á eftir öðrum, líkin hrúguðust upp, afraksturinn heldur fáfengilegur. En almúginn hreifst af þessu bíræfna morðhyski, enda rændi það gjarnan þá banka sem voru búnir að koma honum útá Guð og gaddinn. Leikstjórinn Arthur Penn er hér í sínu besta formi og er myndin skemmtilega hröð og grimm. Þó er hún merkilega fyndin í öllum óhugnaðinum. En hún er óvægin, aldrei höfðu afbrotamenn fengið aðra eins útreið og söguhetjurnar fengu í sögulok. Frábær leikur þeirra Warren Beatty og Faye Dunaway í hlutverkum skötuhjúanna stendur sem fyrr uppúr öllu öðru, leikstjórnin góð, kvikmyndatakan einnig og allt annað. Hreint sígild mynd sem verðskuldar einungis það besta, ég mæli eindregið með henni við þá sem ekki hafa séð hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei