Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



The SpongeBob SquarePants Movie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er eitthvað við Spongebob. Að því ég best veit hafa sjónvarpsþættirnir ekki verið sýndir á Íslandi og landinn því ekki kunnugur húmornum í kringum þennan skrautlega svamp. Það kom mér satt að segja á óvart að myndin er skemmtileg, enda átti ég ekki von á góðu frá Nickelodeon (sem mér þykir yfirleitt framleiða heldur óttalega miðjumoðslegt krakkaefni). Kvikmyndin er fyndin, og jafnvel þess eðlis að maður hefur gaman af að horfa á hana í annað og jafnvel þriðja skiptið, því að húmorinn er annsi hreint sýrður á köflum og þónokkuð um allskyns smáatriði og skot sem maður kemur ekki endilega auga á í fyrstu atrennu. Svo er enn skemmtilegra að horfa á myndina út frá kynjafræðilegu sjónarhorni, enda úir og grúir af dónalegum og samkynhneigðum-tilvísunum í myndinni. Má þar nefna veitingastaðinn Chum bucket (þar sem bókstafnum h er ofaukið) og bleikan krossfisk sem svífur í fallhlíf yfir skara fólks með fána á priki milli rasskinnanna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Team America: World Police
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágæt mynd, en ekkert meistaraverk. Nokkuð frumleg fyrir það hvernig unnið er með strengjabrúður. Gert grín að utanríkisstefnu Bandaríkjanna og klysjum í hasarkvikmyndum. Grínið er stundum gott, en stundum þreytt. Má samt alveg hafa gaman af þessari part úr kvöldi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Elephant Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ógleymanleg kvikmynd sem allir verða að sjá. Boðskapur þessarar myndar á ekki síst erindi við þá sem hafa gleymt hvað yfirborðið skiptir litlu máli, og hvað við erum fljót að dæma eftir útlitinu. Umgjörð myndarinnar er sömuleiðis afskaplega vönduð og andrúmsloft Viktoríönsku Lundúna skilar sér vel. Ef eitthvað má finna að myndinni, þá eru á nokkrum stöðum drauma-myndskeið sem mér þykja einhverveginn úr takti, og sömuleiðis þykir mér leiksýningin í seinni hluta myndarinnar asnaleg. Það slær þó ekki skugga svo nokkru nemi á þetta meistaraverk. Hjartnæm, fögur og þroskandi saga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Chronicles of Riddick
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þess mynd er svolítið eins og langur Star-Trek þáttur með gothic-ívafi. Hann Vin Dísel er þónokkuð grunnur í túlkun sinni, en það er kannski best við hæfi í svona mynd að leikararnir séu ekkert að vanda sig of mikið.


Annars nokkuð áhugaverður ævintýraheimur sem skapaður er í myndinni, þó að söguþráðurinn fylgi formúlunni af töluverði tryggð.


Þetta er svona pabbamynd, sem hægt er að hafa ágætt gaman af eina kvöldstund með nammi og snakki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Last Samurai
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis amerísk-samúræja mynd, nokkuð klysjukennd. Þó hún sé á heildina litið ágæt þá nær hún hvergi að skara fram úr í neinum af þeim flokkum sem myndir af þessu tagi getað skarað fram úr: bardagaatriðin eru ágæt; myndataka, landslag og japans-stemmning ágæt; persónusköpun ágæt, söguþráður ágætur -en ekkert af fyrrnefndu er meira en það.


Þetta er ágætis afþreyingarmynd með góðum köllum og vondum, en skortir annars meiri dýpt eða speki til að geta kallast meira en góð afþreying. Það er samt fjarri því vitleysa að sjá hana þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Incredibles
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ákaflega skemmtileg mynd sem enginn verður svikinn af. Þetta er besta Pixar myndin til þessa. Hún inniheldur ALLT, spennu, grín, hasar, -og höfðar til ALLRA. Það sem situr eftir, og aðgreinir The Incredibles frá venjulegum sprell-myndum, er handritið, sem tvinnar saman annars vegar þessa klassísku togstreitu sem finna má innan allra fjölskylda, og hins vegar að fjölskyldan hefur ofurkrafta. Afraksturinn er eina stundina hlægileg spaugmynd af þessu daglega lífi sem við þekkjum öll, og aðra stundina angurvær, sér í lagi þegar ofurkraftar persónanna verka til að opna okkur í raun skýrari mynd á persónuleika þeirra, innri veikleika og styrki, sem áhorfandinn getur síðan speglað sjálfan sig í.


Þó að hetjurnar hafi allar ofurkrafta sem hver um sig eru ekki frumlegir í þrengsta skilningi orðsins (ofurstyrkur, teygjanleiki, ósýnileiki og ofurhraði), þá verður framvindan á söguþræðinum aldrei ófrumleg. Það, hvernig þau nota kraftana, hvert um sig eða í sameiningu, kemur alltaf skemmtilega á óvart.


Hetju-söguheimurinn sem skapaður er í myndinni er bæði heilsteyptur og rökrænn, -og eins og Pixar er lagið, uppfullur af litlum spéspeglum á þann heim sem við lifum í.


Ef eitthvað má setja út á (þó það sé óttaleg sparðatínsla), þá er það helst sjónrænt, að borgar-umhverfi í myndinni þykir mér á köflum nokkuð tómlegt, eins og vanti einhverja fyllingu, smáatriði, og línurnar áberandi beinar, alltént fyrri hluta myndarinnar. Í seinni hlutanum úir hins vegar og grúir af afbragðsgóðum smáatriðum í frumskógi. Öll teiknivinna kringum persónur, byggingar, náttúru og fleira er annars einstaklega góð. Aukaþættir, eins og bleyta, eldur oþh er með afbrigðum vel unnið.


Þetta er úrvalsmynd sem kemur öllum í gott skap, og ætti að skilja eitthvað örlítið eftir í sálartetrinu líka.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dodgeball: A True Underdog Story
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ben Stiller er orðinn leiðinlegur. Hann er farinn að framleiða myndir á færibandi; myndir sem eru afþreying í allraómerkilegustu merkingu orðsins. Færi nær að kalla þær afþreyingu í viðlögum, því að ekki skyldi fara á Ben Stiller mynd nema í bráðri neyð. Á þessu ári einu hefur hann leikið í 6 myndum. Þrjár þeirra hef ég borið ógæfu til að sjá: Along came Polly, Starsky og Hutch, og nú síðast Dodgeball. Af þessum þremur er Polly bærilegust, þar sem hún inniheldur þó eitthvað sem nálgast að vera vitrænn söguþráður, en myndirnar eru annars ofboðslega óáhugaverðar. Þær tilheyra þeim hópi kvikmynda sem er hvað skelfilegastur: þær eru ófyndnar gamanmyndir. Ben hefur ekki gert neitt merkilegt síðan There's Somtething About Mary. Nú er hann fastur í þessu sama fari, að fjöldaframleiða myndir fyrir hinn heilalausa markað, og fær til liðs við sig nokkra aðra sem eiga að vera fyndnir -en eru það ekki lengur (og voru það kannski aldrei til að byrja með). (Ég lái honum svosem ekki. Hann rakar örugglega inn peningunum með þessu. Hann veit eflaust sem er, að helmingur mannkyns er undir meðalgreind, svo hann hefur nokkuð stóran markað að höfða til.) Dodgeball er illa leikin, ófrumleg, heiladauð (en þó ekki heiladauð á þann máta að megi hafa gaman af henni). Hún er samansafn atriða sem eiga að vera fyndin, -en eru í besta falli móðgandi við vitsmundi áhorfandans. Handritið er lélegt, persónusköpun ómerkileg osfrv. Látið vera að sjá þessa mynd og aðrar myndir með Ben Stiller. Vonandi að hann taki þó við sér á næstunni og fari að leggja meiri áherslu á gæði en magn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Collateral
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Leigubílstjóri flækist inn í verkefni leigumorðingja. Cruise virðist fara batnandi með aldrinum og er sérlega spennandi í hlutverki gáfaðs, miskunnarlauss og hæfileikaríks launmorðingja.


Söguþræðinum vindur fram á frumlegan máta án þess þó að áhorfandanum þyki aðstæður hæpnar, -þó svo atburðarás sem verður að teljast í hæsta lagi tilviljanakennd ráði nokkru um hvernig söguþráðurinn verður þykkari og áhugaverðari. Þannig hefði myndin ekki verið neitt síðri þótt mjög svo tilvilljanakenndu samband leigubílstjórans (Jamie Foxx) við síðasta fórnarlambið hefði verið klippt aftan af myndinni.


Þetta hlutverk er líklega það safaríkasta sem Foxx hefur leikið til þessa. Hann bæði skilar hann sínu prýðilega og fellur engan veginn í skuggan af Cruise.


Áhugaverð glæpamynd með vitsmunalegri og frumlegri framvindu.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Bourne Supremacy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er á ferð ágætis hasarmynd sem þjónar hlutverki sínu sem slík, -en ekki mikið meira en það. Eitthvað veldur að framvindan virðist einhvernveginn laus í sér og söguþráðurinn meira eða minna fyrirsjáanlegur. Sú atburðarás sem verður í upphafi myndarinnar og heldur uppi söguþráðinum út myndina er nokkuð ótrúverðugur, en óhætt er að ljóstra því upp að myndin fjallar um hvernig krimmar klína sökinni fyrir tvöfalt morð á Bourne og um leið hvernig hann reynir að elta uppi þá skúrka sem myrtu unnustu hans í misgripum fyrir hann sjálfan. Það hvers vegna sökinni er klínt á Bourne, og hví endilega skyldi vera nauðsynlegt að reyna að myrða Bourne er hvergi útskýrt á trúverðugan máta. Hasaratriðin skortir fagurfræði og svo mikil hreyfing á skjánum oft á tíðum að erfitt er að gera sér grein fyrir framvindu mála.


En það má samt alveg hafa gaman af þessari mynd. Fínasta karlamynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei