Gagnrýni eftir:
The Last Samurai0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Last Samurai er einstaklega vel gerð kvikmynd, kvikmyndatakan er mjög flott og umhverfið fallegt en það er ekki hægt að neita því að myndin er klisja út í gegn, og ekki bætir það að söguþráðurinn er hálfpartinn nákvæm eftirlýking af Dances With Wolves með Kevin Costner. Myndin fjallar um hermanninn Nathan Algren ( Tom Cruise ) sem er sendur til Japans til þess að þjálfa her Keisarans gegn uppreisnargjörnum samúræjum. Eftir bardaga er Krúsarinn tekinn fastur af samúræjunum og farið er með hann langt upp í fjöll þar sem leiðtogi þeirra, Katsumoto ( Ken Watanabe ) vill kynnast óvini sínum. Algren hrífst svo af lífstíl samúræjanna að á endanum gerist hann sjálfur samúræji og berst með þeim á vígvelli. Leikurinn í myndinni er að mestu leyti góður en þar er Ken Watanabe langbestur og minnir margt á Toshiro Mifune úr óteljandi samúræja myndum Kurosawa. Krúsarinn er alveg fínn en það reynir svo sem ekkert mjög mikið á hann í myndinni. Flestir aðrir eru svona stereótýpur, annaðhvort rosa góðir eða illir. Keisarinn sjálfur var þó frekar hlægilegur, þ.e. nánast allur salurinn veltist um af hlátri þegar hann opnaði munninn ( sérstaklega í lokaatriðinu ). Fyrir utan Ninju atriðið voru bardagaatriðin í myndinni líka hálfgerð vonbrigði, minna alltof mikið á bardagaatriði úr Ran, Braveheart og tugum annara mynda. Endirinn á myndinni var líka algjörlega út í hött, að hafa hvíta hollywood stjörnu segja japönum að þeir eigi ekki að gleyma sinni eigin sögu og menningu er nú bara frekar móðgandi. En myndin er þó alls ekki alslæm, fyrsti klukkutíminn var frekar góður og eins og ég hef áður sagt er myndin mjög flott og vel gerð. Þannig að ekki búast við einhverju stórvirki, bara ágætis kvöldskemmtun.
Braveheart0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef aldrei skilið þetta endalausa blaður um að Braveheart sé ein af bestu myndum allra tíma eða eitthvað. Ekki miskilja, hún er nokkuð góð en alls ekkert meistaraverk. Myndin fellur oft í ofnotaðar klisjur og er nokkuð tilgerðarleg á köflum. Sérstaklega vill ég kvarta yfir sorglega lélegri og tilgerðarlegri ræðu Mel Gibson´s fyrir eitt stærsta bardagaatriði myndarinnar ( Freeeeeeedom ræðan ). Handrit myndarinnar er einnig frekar veikt ( enda skrifaði hinn réttdræpi Randall Wallace það, maðurinn sem skrifaði handritið af hryllingnum Pearl Harbor og leikstýrði jafnframt verstu mynd ársins hingað til, We Were Soldiers ). En Braveheart er þó ekki alslæm, bardagaatriðin eru stórkostleg ( og skemmtilega ofbeldisfull ), leikurinn er almennt góður og myndin er sjálf nokkuð grípandi og áhrifarík en því miður er það ekki nóg til að lyfta henni upp á hærri stall svo að uppistendur aðeins ágætis skemmtun en ekki mikið meira en það.
Road to Perdition0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Því miður get ég ekki sagt að ég hafi skemmt mér vel yfir Road to Perdition. Myndin hafði alla möguleika á því að verða meistaraverk en á einhvern óskiljanlegan hátt tókst Sam Mendes og félögum að klúðra myndinni. Það er ekki það að frammistöður leikaranna hafi verið neitt slæmar né leikstjórn Sam Mendes heldur liggur aðalgalli Road to Perdition í handritinu. Flest allir höfðu ósköp lítið að segja og allir helstu karakterar voru bara einfaldlega óspennandi og hreint útsagt leiðinlegir! Við fáum aldrei almennilega að kynnast leigumorðingjanum Mike Sullivan og skapar það allnokkur vandamál þegar nær dregur að lokum. Hann segir ósköp lítið og í rauninni gerir hann ekkert í myndinni fyrir utan það að drepa mann og annan. Ekki er sonur hans mikið meira spennandi og þó hann fái óumdeilanlega meira að gera nær hann engu fáanlegu sambandi við áhorfendur. Aðrir leikarar gerðu ósköp lítið fyrir utan það að reykja sígarettur á ósköp stílískan hátt og elta uppi Tom Hanks. Það er kannski Paul Newman sem er skárstur en jafnvel hann fær úr litlu að moða. Myndin grípur mann aldrei eins og hún lofaði í trailernum ( og það er mikið sagt þegar trailerinn er í raun áhrifaríkari heldur en myndin sjálf ), og skýtur þar sig sjálfa í fótinn enda er það í raun hálf vandræðalegt að horfa dramatískt lokaatriði myndarinnar þegar manni er í raun drullusama um alla í myndinni. Það er þó ekki hægt að neita því að Road to Perdition er ótrúlega flott og í raun ein af flottari myndum sem ég hef séð. Allt andrúmsloft er rafmagnað og kvikmyndatakan ótrúleg ( og í raun á myndin skilið óskar fyrir kvikmyndatöku ). En því miður er það ekki nóg og Road to Perdition stendur því uppi sem aðeins meðalmynd.
Star Wars: The Phantom Menace0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

RUSL af verstu gerð. Það er hreint útsagt ótrúlegt að George Lucas hafi tekist að klúðra Stjörnustríðsbálknum svona rosalega með þessu kjaftæði. Í fyrsta lagi er handritið HRÆÐILEGT í orðsins fyllstu merkingu. Það mætti halda að hann Lucas hafi byrjað á handritinu á meðan tökum á myndinni stóð! Það má með réttu segja að Star Wars: Episode 1 - The Phantom Menace sé skólabókardæmi um lélega kvikmyndagerð. Hér finnur þú allt sem prýðir beint á spólu myndir: Illa skrifaðir og óþolandi karakterar sem fara með sorglega hlægilegar línur, söguþráður af versta plani ( og jájájá ekki reyna að troða upp í mig þessu þetta er aðeins byrjunin á sögunni bulli ), hörmulegir leikarar sem gefa orðinu hörmung nýja merkingu og síðast og síst Jar Jar Binks! Varist þessa!

