Tökum er nýlokið á Ártún, 20.mín leikinni íslensk/danskri mynd, en leikstjóri myndarinnar er Guðmundur Arnar Guðmundsson sem hefur búið síðustu ár í Danmörku og hlotið nokkur alþjóðleg verðlaun fyrir stuttmyndir sínar. Það sem er hvað sérstakast við stuttmyndina er að hún fjallar um sjálfsímynd krakka og áhugann á hinu kyninu, en það viðfangsefni hefur ekki verið tæklað í mörgum íslenskum stuttmyndum til þessa.
Meðal fyrri verka Guðmundar er danska stuttmyndin ”Malou” sem skartar dönsku stjörnunni Søren Malling sem íslendingar þekkja úr þáttaröðunum Glæpurinn (d.Forbrydelsen) og Höllin (d.Borgen).
Ártún er þroskasaga þriggja tólf ára stráka sem búa í litlum smábæ á Reykjanesi. Strákana langar að eignast kærustur en stelpurnar í bænum þeirra hafa ekki áhuga. Strákarnir ákveða því að fara yfir til Reykjavíkur og láta reyna á lukku sína þar. Aðalhlutverk Ártúns eru í höndum 11-14 ára unglinga.
Anton Máni Svansson er aðalframleiðandi myndarinnar en meðframleiðendur hennar eru Sagafilm, Darin Mailand-Mercado og Rúnar Rúnarsson. Aðalstyrktaraðilar verksins eru Kvikmyndamiðstöð Íslands, Evrópu Unga Fólksins og Danski Kvikmyndasjóðurinn.
Eftirvinnsla myndarinnar er nú að hefjast og er frumsýning áætluð í október í Bíó Paradís. Mögulegt er að fylgjast með myndinni á www.facebook.com/ARTUNFILM