Fyrstu myndirnar af danska leikaranum Mads Mikkelsen í gervi mannætunnar geðþekku Hannibal Lecter hafa verið opinberaðar.
Um er að ræða nýja sjónvarpsþáttaröð, Hannibal, um þessa frægu persónu úr skáldsögum Thomas Harris; Red Dragon og The Silence of the Lambs, sem Anthony Hopkins túlkaði með glæsibrag í kvikmyndum með sama nafni.
Þættirnir snúast um samvinnu FBI greinandans Will Graham og „ráðgjafans“ Hannibals Lecter, við að leysa morðmál, en sú árátta Hannibals að borða mannakjöt, er vandlega falið leyndarmál. Hugh Dancy leikur Graham, sem Edward Norton lék í Red Dragon, og Laurence Fishburne leikur Agent Jack Crawford, sem var leikinn af Scott Glenn í The Silence of the Lambs.