Myndin um Wolverine úr X-Men flokknum færist nær, en enn bíðum við þolinmóð eftir því að sjá stiklu úr myndinni. Nú þegar hefur birst hreyfiplakat, þar sem Wolverine kraup í hellidembu í Japan með samúræja sverð í hönd, en nú er komin ljósmynd úr myndinni, en hún var birt á Twitter síðu myndarinnar í gær.
Það er Hugh Jackman sem fer með hlutverk Wolverine í myndinni.
„Fortíðin er alltaf liðin, en minningarnar lifa,“ segir í tístinu sem fylgir myndinni.
Leikstjóri myndarinnar James Mangold sagði í samtali við Empire kvikmyndatímaritið í síðasta mánuði að í myndinni kæmu áhorfendur að Logan, þ.e. Wolverine, einangruðum, fullum af andstyggð á sjálfum sér; „Ung asísk kona kemur til hans af ástæðum sem hann skilur ekki alveg, og biður hann um að elta sig til Japans þar sem hann á að hitta einhvern úr fortíð sinni,“ sagði Mangold.
„Og það sem kemur upp úr dúrnum er að þessi manneskja var með honum í fangelsi í Nagasaki. Logan bjargaði þessum manni, sem liggur núna banaleguna, og vill gefa honum gjöf, til að þakka honum fyrir lífgjöfina. Gjöfin hinsvegar verður til þess að Logan dregst inn í flókna og óvænta veröld í Japan nútímans, og að vissu leyti einnig til Japan lénstímans.“
Wolverine verður frumsýnd 26. júlí í Bandaríkjunum.