Mission: Impossible – Ghost Protocol er væntanleg eftir tvo mánuði, og lokastikla myndarinnar var að detta á netið. Þetta er fjórða myndin í seríunni, og eins og allir vita snýr Tom Cruise aftur í hlutverk Ethan Hunt. Ving Rhames og Simon Pegg snúa einnig aftur, og við bætast Jeremy Renner, Tom Wilkinson, Paula Patton og Josh Holloway úr LOST. Michael Nyquist (Karlar sem hata konur) og Anil Kapoor (Viltu vinna milljarð?) leika svo skúrkana. Brad Bird (The Inredibles) leikstýrir, en þetta er fyrsta leikna mynd hans. Miðað við hinar myndirnar þurfum við vonandi ekki að hafa áhyggjur. J. J. Abrams, leikstjóri þriðju myndarinnar, er einnig í stuðningshlutverki sem framleiðandi.
Þetta ævintýri hefst á því að Tom Cruise er í fríi í Moskvu og sprengir óvart Kremlin, aðsetur forseta Rússlands, í loft upp. Rússarnir taka þessu víst eitthvað illa, og til að reyna að bæta samskiptin þarf Bandaríkjastjórn að segja öllum upp í Mission: Impossible deildinni, og láta eins og hún hafi aldrei verið til. Þá eru góð ráð dýr, en við efumst ekki um að Mission: Impossible menn geri sitt besta til að ná hinum raunverulega sökudólgi.
Svona í fullri alvöru þá hef ég aldrei verið sérstaklega hrifin af Mission: Impossible myndabálkinum, en þessi lítur alls ekkert illa út. Brad Bird er spennandi valkostur fyrir myndina og nýju leikararnir skemmtileg viðbót. Veggjaklifurssenan og fleiri voru teknar með Imax myndavélum (a la The Dark Knight) þannig að hasarinn í myndinni ætti að líta vel út. Það hefur verið staðfest að 6 mínútna inngangur að The Dark Knight Rises verði sýndur á undan myndinni í Bandaríkjunum – en aðeins í alvöru I-Max bíóum þar sem hann fær að njóta sín. Þannig að það er ekki líklegt að við fáum að njóta hans hér… nema að Egilshöllin teljist með?
Hér er svo smá „making of“ myndband frá því atriði, sem sýnir Tom Cruise hangandi út um gluggan á hæsta húsi heims. Reyndar hefur heyrst að búið sé að eyða eitthvað af vírunum sem héldu kallinum út af myndinni – en hann hékk allavega utan á húsinu.