Oft þegar fólk talar um heitustu stórmyndir sumarsins, þá á það til að gleyma The Amazing Spider-Man. Það er pínu skrítið, þar sem Kóngulóarmaðurinn er varla óþekktari ofurhetja heldur en sjálfur Batman t.d. En augljóslega segir þetta bara að enn er svolítil skítalykt af þessu vörumerki, þökk sé Spider-Man 3, sem kom út árið 2007.
Við vitum nú samt að það munu flest allir kíkja á þessa mynd (í óhjákvæmanlegri þrívídd) burtséð frá því hvort hún lofar góðu eða ekki. Forvitnin er einfaldlega alltof mikil, en menn geta að minnsta kosti dæmt núna betur, því það er komin glæný stikla sem gefur upp aðeins betri – og myrkari – heildarmynd af því sem koma skal.
Andrew Garfield (The Social Network, Never Let Me Go) leikur Kóngurlóamanninn eins og margir vita, og Mark Webb (maður með skringilega viðeigandi nafn) sér um leikstjórnina. Þetta er önnur myndin hans í fullri lengd, á eftir (500) Days of Summer sem kom út árið 2009. Sú mynd heillaði augljóslega fleiri en bara gagnrýnendur og áhorfendur fyrst að framleiðendur treystu honum fyrir þessari rándýru sumarsprengju. Vonum það besta.
En hvernig er hljóðið í ykkur? Lítur þetta nokkuð ennþá út eins og upprunalega myndin hans Sam Raimi frá 2002?
Myndin verður heimsfrumsýnd 3. júlí.