Nýjar myndir úr Dawn of the Planet of the Apes skutu upp kollinum í dag. Myndin er framhald myndarinnar Rise of the Planet of the Apes frá 2011.
Kvikmyndaverið 20th Century Fox leggur nú mikla áherslu á þessa seríu eftir að fyrsta myndin sló óvænt í gegn árið 2011, og þénaði 482 milljónir Bandaríkjadala um allan heim í bíó, auk þess sem myndin fékk góðar viðtökur hjá gagnrýnendum.
Dawn of the Planet of the Apes segir frá því þegar sífellt stækkandi hópur af erfðabreyttum öpum undir stjórn Caesar, mætir nú andspyrnu frá hópi manna sem lifði af hinn stórhættulega vírus sem slapp út áratug fyrr. Þeir semja um vopnahlé, sem reynist verða skammlíft, þar sem báðir aðilar búa sig undir stríð sem mun ákvarða hvaða tegund muni verða ráðandi á Jörðinni í framtíðinni.
Leikstjóri myndarinnar er Matt Reeves. Frumsýning verður 7. júlí, 2014.