Leikstjórinn Baz Luhrmann, sem meðal annars er þekktur fyrir söngvamyndina ævintýralegu Moulin Rouge, ætlar að gera þrívíddarútgáfu af sögu F.Scott Fitzgerald, The Great Gatsby, með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverkinu. Myndin verður tekin í Sydney í Ástralíu.
Luhrmann, sem er ástralskur sjálfur, hafði einnig íhugað að taka myndina upp í New York, á sögustað skáldsögunnar, en forsætisráðherra Nýju Suður Wales, Kristina Keneally, sagði að Sydney hefði á endanum orðið hlutskörpust sem tökustaður fyrir þennan væntanlega stórsmell frá Warner Bros.
„Þau gerast varla betri meðmælin með aðstöðunni til kvikmyndagerðar hjá okkur en þessi – við sigruðum New York í keppni um sögufræga sögu sem gerist í New York,“ sagði Keneally hróðug í samtali við AFP fréttstofuna.
Kvikmyndin The Great Gatsby, eða Hinn mikli Gatsby eins og bók F. Scott Fitzgerald heitir í íslenskri þýðingu Atla Magnússonar, er sannkallaður hvalreki fyrir kvikmyndaiðnaðinn í Nýju Suður Wales, sérstaklega þar sem Baz Luhrmann hefur skuldbundið sig til að nota sem allra mest af leikurum á staðnum, sem og tökulið og sérfræðinga í tæknibrellum.
Undirbúningur að framleiðslu myndarinnar hefst nú í mars. Verkefnið á eftir að færa um 122 milljónir Bandaríkjadala, eða um 14,2 milljarða íslenskra króna, inn í hagkerfið á staðnum, og skapa hundruð starfa.
„Þetta er að gerast á góðum tíma fyrir kvikmyndaiðnaðinn,“ segir Keneally. „Ástralía var talin vera að tapa á sviði alþjóðlegrar kvikmyndagerðar, vegna þess hve ástralski dalurinn er sterkur. Þetta er stór sigur fyrir okkur.“
Þessi sígilda saga eftir Fitzgerald frá þriðja áratug síðustu aldar, hefur verið kvikmynduð nokkrum sinnum, en frægasta kvikmyndagerð bókarinnar kom út árið 1974 og var með Robert Redford og Mia Farrow í aðalhlutverkum.
Söguþráður myndarinnar er eitthvað á þessa leið: Nick Carraway, ungur maður frá miðvesturríkjum Bandaríkjanna, sem býr núna í Long Island í New York, verður heillaður af dulafullri fortíð og íburðarmiklum lífstíl nágranna síns, hinum nýríka Jay Gatsby. Hann dregst inn í líf Gatsbys og verður vitni að þráhyggju og harmleik.