Danska gamanmyndin Klovn Forever verður frumsýnd á föstudaginn næsta þann 9. október í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.
„Þeir Frank og Casper slógu í gegn í Klovn-þáttunum sem sýndir voru fyrir fáeinum árum. Þeir gengu ennþá lengra í kvikmyndunum, eða öllu heldur: hafi þeir dansað á línunni í sjónvarpsþáttunum má segja að þeir fleygi sér yfir hana af fullum krafti í kvikmyndunum,“ segir í tilkynningu frá Senu.
Þess má til gamans geta að aðalleikararnir, þeir Frank og Casper, koma hingað til lands og verða viðstaddir sérstaka hátíðarfrumsýningu á myndinni á morgun, fimmtudag.
Í myndinni reynir á vináttu Franks og Caspers þegar sá síðarnefndi ákveður að flytja frá Danmörku til Los Angeles til að eltast við frekari frægð og frama. Frank er ákveðinn í að vinna vináttu Caspers á ný og eltir hann til LA, en það getur ekki endað nema með ósköpum.
Aðsókn á myndina á frumsýningarhelginni í Danmörku var sú þriðja mesta frá upphafi en tæplega tvö hundruð þúsund manns sáu myndina í bíó þá helgi. Gagnrýnendur hafa jafnframt keppst við að ausa myndina lofi, eins og segir í tilkynningu Senu.
Áhugaverðir punktar til gamans:
– Leikstjóri myndarinnar er sá sami og síðast, Mikkel Nørgaard, sem skrifaði handritið ásamt þeim Casper og Frank, en Mikkel leikstýrði líka 42 af þeim 60 sjónvarpsþáttum sem gerðir voru um þá félaga á árunum 2005 til 2009.
– Samkvæmt kreditlista Klovn Forever leika þeir Game of Thrones leikarinn Nikolaj Coster-Waldau og bandaríski tónlistarmaðurinn Adam Levine í myndinni, sennilega sjálfa sig.
– Klovn Forever gerist fimm árum eftir atburðina í síðustu mynd. Frank er nú orðinn faðir sem stundar heimilisstörf í meira mæli en áður og sinnir þess á milli bleiuskiptum, en Casper er skilinn við Iben og nýtur lífsins einhleypur.
– Myndin er tekin upp í Kaupmannahöfn og Los Angeles og kostaði gerð hennar um 27 milljónir danskra króna, eða um 520 milljónir íslenskra króna.