
Lengi hefur staðið til að frumsýna stórmyndina The Tomorrow War í kvikmyndahúsum. Upphaflega átti að frumsýna myndina í fyrra, en hún var síðar færð til júlímánaðar 2021.
Þykir nú líklegt að myndin sleppi alfarið bíóútgáfu þar sem streymisrisinn Amazon Prime er í samningaviðræðum um að tryggja sér sýningarréttinn.
Samkvæmt vef Variety á eftir að ganga frá lausum endum en hermt er að Amazon bjóði allt að 200 milljónir Bandaríkjadollara fyrir vísindatryllinn þar sem leikarinn Chris Pratt spókar sig í íslensku landslagi.

Tökur á The Tomorrow War fóru meðal annars fram á Vatnajökli undir lok árs 2019. Myndin, sem áður bar vinnuheitið Ghost Draft, gerist í framtíðinni þar sem mannkynið á stríði við geimverur með litlar sem engar sigurlíkur. Til að eiga möguleika á að vinna stríðið finna vísindamenn leið til að sækja hermenn úr fortíðinni. Má þess geta að Pratt er einn af framleiðendum myndarinnar en leikstjóri er Chris McKay sem er þekktastur fyrir Robot Chicken ásamt The Lego Batman Movie.
Auk Pratt fara þau Yvonne Srahovski, J.K. Simmons, Sam Richardson, Mary Lynn Rajskub, Felisha Terrell og Betty Gilpin með hlutverk í myndinni.
