Föstudagskvöldið 1. október mun Ómar Ragnarsson kvikmyndagerðarmaður með meiru, sýna þrjár kvikmyndir á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, en myndirnar verða sýndar um borð í hvalaskoðunarskipinu Eldingu og hefst sýning kl. 20:30.
Fyrsta myndin er One Of The Wonders Of The World, þá mun hann sýna stuttmynd sína Reykjavíkurljóð, sem er 7 mínútna löng mynd um Reykjavík, sögu hennar og mannlíf, menningu og umverfi, og að lokum sýnir Ómar myndskreytt lag af plötunni Ómar lands og þjóðar – kóróna landsins.
Í fréttatilkynningu frá RIFF segir nánar frá þessu: „Ómar Ragnarsson er fyrir löngu orðinn lifandi goðsögn á Íslandi,enda komið víðar við en flestir. Barátta hans fyrir umhverfismálum
hefur vakið mikla athygli, enda þekkja fáir Ísland betur en Ómar.
Föstudagskvöldið 1. október mun Ómar sýna þrjár kvikmyndir á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, en myndirnar verða sýndar um borð í hvalaskoðunarskipinu Eldingu og hefst sýning kl. 20:30.
Þar mun Ómar sýna kvikmyndina One Of The Wonders Of The World, en hún hefur aldrei verið sýnd áður.
Myndin er um 25 mínútna löng og fjallar um stöðu mála hvað varðar virkjanir og stóriðju á Íslandi, þau umhverfisverðmæti sem um er að ræða og framtíðina í þessum málum. Handrit, texti, lestur og tónlist er í höndum Ómars sjálfs, en hann fékk Björk Guðmundsdóttur einnig til liðs við sig, og hljómar tónlist hennar líka í myndinni. Í kjölfar sýningar á myndinni mun Ómar sitja fyrir svörum, og ræða umhverfismál frá hinum ýmsu hliðum.
Þar að auki mun Ómar sýna stuttmynd sína Reykjavíkurljóð, sem er 7 mínútna löng mynd um Reykavík, sögu hennar og mannlíf, menningu og umverfi. Tónlist við myndina er eftir Gunnar Þórðarson, en samhliða sýningu myndarinnar mun Ómar segja skemmtilega sögu af tilurð hennar.
Loks verður sýnt myndskreytt lag af plötunni Ómar lands og þjóðar – kóróna landsins. Lagið, sem nefnist Maður og hvalur, fjallar um hvalveiðar og hvalaskoðun og segir sögu dauðvona ungs ensks drengs sem átti þá ósk heitasta að sjá hval í hvalaskoðunarferð áður en hann kveddi þennan heim. Hvað á betur við um borð í hvalaskoðunarskipi? Lag og texti er eftir Ómar, en það er sjálfur Bubbi Morthens sem syngur.“