Maður fær alltaf lítinn sting í hjartað þegar að fregnir berast um að stór samsteypa í Bandaríkjunum tekur upp á því að endurgera gersemar úr asíska kvikmyndaheiminum. Það þarf þó ekki alltaf að vera slæmt merki, enda skara stundum beinar endurgerðir fram úr upprunalegu myndinni (sjá The Departed, The Ring), en á hinn bóginn endar það oftast ekki vel (sjá The Uninvited, Dark Water).
Í augnablikinu vofir Oldboy endurgerðin yfir sjóndeildarhringnum með skeptískar horfur, en nýlega eignaðist hún bólfélaga með tilkynningunni um ameríska útgáfu af A Bittersweet Life (Dalkomhan insaeng). Hughes-bróðirinn Allen (From Hell, The Book of Eli) leikstýrir, í eitt af fáu skiptunum án bróður síns, handriti eftir Anthony Peckham (Invictus, Sherlock Holmes). Upprunalega myndin var hins vegar bæði skrifuð og leikstýrð af Kim Jee-woon.
Hún fjallar um hótelstjórann vandvirka Kim Sun-woo, sem er á sama tíma háttvirtur meðlimur Kóresku mafíunnar og góðvinur höfuðpaursins Kang. Eftir eitt örlagaríkt kvöld þar sem hann framfylgir ekki vilja Kangs, þarf Kim ekki aðeins að standa frammi fyrir óhefðbundni samúð sinni, heldur einnig reiði mafíunnar.
Á þessu stigi er auðvitað ekki vitað hverjir munu fylla í skó upprunalegu leikaranna, eða hversu lengi við þurfum að bíða til að sjá afraksturinn. Þangað til mæli ég sterklega með að sem flestir sjái þessa snilldarlegu mynd og það í hvelli, enda meðal bestu nútíma kvikmyndum sem Asía hefur upp á að bjóða.
Að lokum, þótt ótrúlegt sé, þá er þetta ekki í fyrsta skiptið sem að A Bittersweet Life hefur verið endurgerð; þar sem hún fékk Bollywood-útgáfu í formi myndarinnar Awarapan árið 2007.