Örn og Margrét tekin sem gíslar utan þjónustusvæðis

Fyrsta stikla úr íslensku spennumyndinni Víkinni er komin út og má sjá hana hér að neðan, en bíógestir hafa fengið að berja stikluna augum síðustu vikur á undan myndum í bíó.

Einnig er komið splunkunýtt plakat með grjóthörðu „tagline“: Í næði. Í bústað. Utan þjónustusvæðis.

Myndin, sem er eftir Braga Þór Hinriksson, verður frumsýnd 30. október í Sambíóunum.

Með helstu hlutverk fara Örn Árnason, Margrét Ákadóttir og Leifur Sigurðsson en kvikmyndin er tekin upp í Fljótavík á Hornströndum sem er einn afskekktasti staður Íslands.

Víkin fjallar um óhamingjusöm hjón sem þola varla að vera í návist hvors annars en fara þó reglulega saman í frí á Hornströndum þar sem þau fá frið frá skarkala heimsins.

Sumarfríinu er snúið á hvolf þegar bandarískur ferðamaður bankar upp á og tekur þau í gíslingu í annarlegum tilgangi sem skekur hjónaband þeirra og tilveru. Í kjölfarið hefst barátta upp á líf og dauða og gömul leyndarmál á milli hjónanna, sem ekki þola dagsljósið, koma upp á yfirborðið.

()

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi

...