Í seinustu viku var tilkynnt að framleiðendur Paramount hefðu engan áhuga á Anchorman framhaldsmynd, þrátt fyrir að þeir höfðu gefið annað í skyn í gegnum tíðina. Leikstjóri fyrri myndarinnar, Adam Mckay, sagðist vera mjög vonsvikinn enda var leikhópurinn orðinn mjög spenntur að snúa aftur og var víst haugur af skemmtilegum hugmyndum í boði fyrir nýju myndina.
Núna lítur út fyrir að Ben Stiller sé álíka svekktur yfir að geta ekki farið af stað með framleiðslu Zoolander 2 (hann nýlega greindi frá þessu á Twitter-síðunni sinni). Ástæðan er einfaldlega sú að Paramount hefur engan áhuga á því að fjármagna myndina og virðist ekki hafa mikla trú á henni (fjárhagslega séð, að sjálfsögðu), frekar en annarri Ron Burgundy-mynd.
Justin Theroux (Tropic Thunder, Iron Man 2) var byrjaður að vinna í handritinu á Zoolander ásamt Stiller og m.a.s. var nokkurn veginn búið að staðfesta að Jonah Hill myndi leika illmenni myndarinnar. Framhaldið átti að gerast áratugi eftir viðburði Zoolander, en sú mynd kom út fyrir heilum 9 árum síðan.
Spurning hvort Stiller og McKay leiti ekki bara eitthvert annað? Eins og Guillermo del Toro gerði þegar Sony sagðist ekki vilja gera Hellboy II (Universal tók við henni í staðinn).