Breski leikarinn Robert Pattinson hefur greinst með COVID-19 sjúkdóminn og hefur verið gert hlé á tökum kvikmyndarinnar The Batman.
Kvikmyndaverið Warner Bros. gaf út tilkynningu í dag um stöðvun framleiðslunnar eftir að kom í ljós að einn meðlimur tökuliðsins hefði greinst með veiruna. Í tilkynningunni er einstaklingurinn ekki nafngreindur og segir að flestir við gerð myndarinnar hafi rakleiðis verið sendir í einangrun. Tímaritið Variety greindi fyrst frá því að Pattinson væri hinn umræddi einstaklingur en reiknað er með að um þrír mánuðir séu eftir af tökuplaninu.
Kórónuveiran hefur áður valdið töfum á framleiðslunni og stóð upphaflega til að frumsýna myndina næsta sumar. Að öllu óbreyttu er nú gert ráð fyrir frumsýningu í október á næsta ári en þykir ekki ólíklegt að það gæti breyst í ljósi mála.
Eins og flestir vita fer Pattinson með aðalhlutverkið í þessari endurræsingu Leðurblökumannsins, þar sem leikstjórinn Matt Reeves (Cloverfield, War for the Planet of the Apes) situr við stjórnvölinn.
Með önnur hlutverk í The Batman fara Zoë Kravitz, Andy Serkis, Paul Dano, Colin Farrell, Jeffrey Wright, John Turturro og Peter Sarsgaard, en fyrsta stiklan var gefin út á dögunum við stórgóðar viðtökur.